Morgunblaðið - 12.09.2018, Síða 30
AF MYNDLIST
Einar Falur Ingólfsson
efi@mnl.is
Þegar gestir ganga þessa dagana inn
í þjóðarlistasafn Dana, Statens Mus-
eum for Kunst, tekur á móti þeim
grófgerður en þó notalegur setuskáli
úr tilhöggnum við að fornri kín-
verskri fyrirmynd, þar sem fólk get-
ur sest, blaðað í bókum og sýning-
arskrám og tekið það rólega. Og
víðar í safninu hefur ásýnd ganga og
tengirýma verið breytt; á nokkrum
stöðum hefur verið stillt fram hópum
hvítra klassískra gipsstytta sem yf-
irleitt rykfalla í geymslum, víða eru
kassar með kryddjurtum sem nýtast
í matargerð veitingahúss safnsins,
grófgerðir stólar fyrir fólk að tylla
sér á hafa stungið upp kollinum, í
nýju álmunni hafa marglitar sessur
birst í tröppunum við Sviðið svokall-
að, einnig til að hafa það notalegt, á
nokkrum stöðum hanga hvít pappa-
ljós í klösum niður út loftinu og í
veitingasalnum hafa klassísk dönsk
húsgögnin vikið fyrir öðrum hrárri
og grófgerðari. Það er athyglisvert
að upplifa þessar breytingar innan
veggja safnsins; þær eru á engan
hátt frekar en hvetja gesti til
breyttrar upplifunar á þessari virðu-
legu menningarstofnun. Breyting-
arnar eru allar verk danska stjörnu-
listamannsins Danhs Vo og fólks og
fyrirtækja sem hann hefur fengið til
samstarfs.
Og þessi viðamikli gjörningur,
sem teygir sig um allt safnið, leiðir
gestina í raun inn á yfirlitssýninguna
á verkum listamannsins sem er í
tveimur stórum sölum undir heitinu
Take My Breath Away.
Fjölskyldusaga listamanns
Sýning Danhs Vo var fyrst sett
upp í Guggenheim-safninu í New
York, reyndar í nokkuð breyttri
mynd, og þótti fara afar vel í hinum
fræga spíral Franks Lloyd Wright.
Og margir sem sáu sýninguna í New
York hafa haft á orði að þar hafi þeir
hrifist og byrjað að skilja hvað Vo er
að fara í listsköpun sinni; marg-
brotnar vísanirnar í fjölskyldusögu
hans sjálfs, í reynslu flóttamanna,
kaþólska trú og vestræna menningu.
Sjálfur náði ég engu sambandi við
innsetningu Vo í danska skálanum á
Feneyjatvíæringnum fyrir þremur
árum, þótti hann illskiljanlegur og í
raun tilgerðarlegur. En nú hitti ég í
Kaupmannahöfn reynda listferða-
langa sem höfðu sömu sögu að segja
frá Feneyjum en, rétt eins og ég,
hrifust hins vegar af sýningunni í
Statens Museum. Þar fengum við
lykla í hendur, í formi leiðsagnar eins
sýningarstjórans og vandaðra upp-
lýsinga um verkin og heim lista-
mannsins í bæklingi sem allir gestir
fá í hendur, en Vo mun vera illa við
hverskonar veggtexta eða upplýs-
ingar um verkin sem trufla hina
sjónrænu upplifun í sölunum.
Flóttamenn til Danmerkur
Sýning Dahns Vo var opnuð með
mikilli fjölmiðlaathygli á dögunum.
Einn þeirra fjölmörgu gesta sem
mættu í Statens Museum á opn-
unardaginn lýsti upplifuninni hæst-
ánægður fyrir mér og sagði Vo vera
skærustu og bestu ungu myndlistar-
stjörnu Dana, á eftir Ólafi Elíassyni.
Danh Vo fæddist í Víetnam árið
1975 en kom fjögurra ára gamall til
Danmerkur eftir að foreldrar hans
höfðu flúið ættjörðina á báti vegna
Víetnamstríðsins. Þau dreymdi um
að komast til Bandaríkjanna en voru
tekin upp í flutningaskip frá Mærsk-
félaginu og enduðu í Danmörku.
Vo nam myndlist við Konunglega
akademíið í Kaupmannahöfn og við
listaháskólann í Frankfurt. Ferill
hans komst fljótlega á flug eftir nám-
ið og hafa sýningar á verkum hans
verið settar upp í virtum söfnum víða
um lönd. Og sýningin í Statens Mus-
eum er sú langstærsta sem sett hefur
upp með verkum hans í Danmörku.
Hún gefur gott yfirlit yfir verkin sem
hann hefur unnið að á undanförnum
fimmtán árum, hvert hann sækir
hugmyndirnar og hvernig hann vinn-
ur úr þeim.
Margbrotinn og marglaga
Þegar gestir ganga inn á sýningu
Vo tekur á móti þeim stór kopar-
skúlptúr sem reynist vera einn af
rúmlega 300 sem mynda verkið We
the People. Listamaðurinn vann það
með málmsmiðju í Kína á fimm ára
tímabili og ef hlutarnir, sem hefur
verið dreift á söfn og til safnara út
um löndin, væru allir settir saman
myndi nákvæm eftirmynd Frelsis-
styttunnar í New York-höfn rísa;
mótuð í samskonar þunnan kopar-
hjúp. Með verkinu vill listamaðurinn
vekja fólk til umhugsunar um þau
gildi lýðræðis og griðastaðar sem
styttunni var ætlað að tákna.
Í verkum Vo sem sýnd eru hefur
hann valið á afar persónulegan hátt
saman hluti úr hversdagslífinu, sem
hafa öðlast sértæka merkingu fyrir
honum, og sögulega gripi eins og
ljósmyndir, sendibréf og önnur skjöl
sem vísa ýmist til huglægra frásagna
eða stærri sögulegra viðburða. Þarna
er firnastór ljósakróna orðin skúlp-
túr en hún birtist á fréttamyndum
árið 1973 þegar hún hékk yfir mönn-
unum sem undirrituðu í París samn-
inga um frið í Víetnam. Í klefa sem
byggður hefur verið úr krossviði í
öðrum salnum má sjá röð sendibréfa
sem Henry Kissinger, utanrík-
isráðherra Bandaríkjanna á tíma Ví-
etnamstríðsins, skrifaði dans-
gagnrýnanda dagblaðs um listrænar
upplifanir í New York – á sama tíma
og stríðið geisaði með ómældum
hörmungum. Einn frægasti skúlptúr
Vo er Oma Totem, þvottavél, ísskáp
og sjónvarpi staflað upp og stór kross
með Kristsmynd á ísskápshurðinni;
þessir hlutir biðu ömmu listamanns-
ins í íbúð í Þýskalandi þegar hún kom
þangað sem flóttamaður og hún
kunni vart að nota þá – nema þá að
biðjast fyrir. Mörg verkanna byggj-
ast á brotum af miðaldastyttum af
Guðsmóður og Jesúbarninu; einn
skúlptúrinn hefur verið sagaður í sex
búta sem passa nákvæmlega í ferða-
töskur sem má taka um borð í flug-
vélar í dag. Og peningaskápurinn
sem faðir listamannsins keypti undir
ávöxt vinnu sinnar í nýju heimalandi,
og Rolex-úrið sem han verðlaunaði
sig með, eru hér sýningargripir.
Í verkum Vo birtist margbrotinn
og marglaga heimur, úthugsaður, og
endurspeglar samtímann sem og
söguna á býsna athyglisverðan hátt.
Óhætt er að mæla með heimsókn
Hafnarfara á Statens Museum for
Kunst; þar kunna heimar að opnast.
Friðartákn Skúlptúr úr flennistórri ljósakrónu vekur athygli. Hún hékk upphaflega yfir fund-
arborði í París þar sem mikilvægir samningar um lok Víetnamstríðsins voru undirritaðir.
Christmas, Rome Upplitaðir flauelsfánar sem hanga niður úr loftinu klæddu áður sýning-
arskápa í Vatíkaninu. Dekkri form sýna hvar krossar og önnur trúartákn og gripir voru.
Persónuleg verk með víða skírskotun
Viðamikil sýning á verkum Danhs
Vo í Statens Museum vekur athygli
Morgunblaðið/Einar Falur
Sögulegt Í einum salnum hefur Vo raðað verkum á stálhillur eins og í geymslu. Hér eru meðal annars hluti Ma-
donnustyttu frá 16. öld, fáni og minjagripir frá tíma sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna, frá 1777, og málverk frá
1518 úr safni SMS sem táknar góðverk – kassinn þar hjá er undan sætri niðursoðinni mjólk sem Vo naut ungur.
Oma Totem Einn þekktasti skúlptúr
Vo úr gripum frá ömmu hans.
We The People Á fimm ára tímabili lét Vo endurgera Frelsisstyttuna í New
York-höfn í raunstærð úr kopar en dreifði um 300 hlutunum til fjölda safna.
Könnun Í hinum ýmsu opnu rýmum safnsins hefur Vo látið koma fyrir gips-
styttum, kössum með kryddjurtum, tréstólum og kínverskum setuskálum.
30 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 12. SEPTEMBER 2018