Morgunblaðið - 08.11.2018, Blaðsíða 6
6 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 8. NÓVEMBER 2018
Um allan heim er þróunin sú sama: í
vaxandi mæli notar fólk internetið til
að kaupa í matinn. Ef fram heldur
sem horfir gætu netverslanir á borð
við Ali Baba, AmazonFresh og
Ocado orðið með mikilvægari sölu-
stöðum íslenskra sjávarafurða.
Valdimar Sigurðsson er prófessor
við HR og forstöðumaður Rann-
sóknaseturs í markaðsfræði og neyt-
endasálfræði (RMN). Hann minnir á
að netið kalli á önnur vinnubrögð en
sala á fiski eftir hefðbundnum leið-
um. Neytendur láti aðra þætti ráða
valinu þegar matarinnkaupin eru
gerð í netverslun frekar en í stór-
markaði og láti t.d. umsagnir ann-
arra viðskiptavina og gæði ljós-
mynda af vörunni stýra því hvaða
fiskur er keyptur og á hvaða verði.
Bendir hann einnig á að verslun
framtíðarinnar verði tæknidrifin þar
sem netið og önnur tækni renna
saman við hefðbundna verslun.
Valdimar verður á meðal fyrirles-
ara á Sjávarútvegsráðstefnunni
2018 sem haldin verður í Hörpu dag-
ana 15.-16. nóvember og ber erindi
hans yfirskriftina Markaðssetning
og sala á sjávarfangi á netinu: Í
hvaða viðskiptum erum við raun-
verulega?
Geta ekki grannskoðað fiskinn
Hann segir neytendur vera að
færa matarinnkaupinn hratt yfir á
netið enda mikil þægindi sem fylgja
því að spara sér ferð út í búð. „Árið
2016 seldu netverslanir 6,7% af allri
matvöru í Bretlandi en ári seinna
var hlutfallið komið upp í 7,3%. Þró-
unin á innanlandsmarkaði á Íslandi
er töluvert á eftir öðrum vestrænum
þjóðum en til að gefa dæmi um hve
langt netverslun með matvæli hefur
náð annars staðar þá kom í ljós í ný-
legri könnun að á þessu ári höfðu
49% bandarískra neytenda keypt
matvæli á netinu a.m.k. einu sinni á
því þriggja mánaða tímabili sem
könnunin náði til.“
Eins og lesendur geta ímyndað
sér er töluverður munur á að kaupa
fisk í netverslun og að leita uppi
bestu bitana í fisk- eða kæliborði
matvöruverslunar. Úti í búð geti fólk
virt fiskinn vandlega fyrir sér, hafi
betri tilfinningu fyrir skammta-
stærðum, geti metið áferð og gæði
fisksins, og séð hvort stutt er í síð-
asta söludag.
Bendir Valdimar á að af þessum
sökum gætu seljendur þurft að
leggja sig sérstaklega fram við að
ávinna sér traust kaupenda. Enginn
vill jú fá fisk heim að dyrum til þess
eins að uppgötva að fiskbitinn eða
-flakið stenst ekki væntingar. „Bæði
þarf að vera mikið samræmi í gæð-
um vörunnar svo að neytandinn fái
jafngóðan og jafnfallegan fiskbita í
hvert sinn, en svo er líka hægt að
beita ráðum eins og að bjóða endur-
greiðslu ef gæðin eru ekki í sam-
ræmi við gefin loforð. Jákvæð um-
mæli og einkunnagjöf annarra
neytenda eykur líka traust kaupand-
ans á vörunni.“
Þurfa að rannsaka neytendur
Hjá RMN hafa verið gerðar
áhugaverðar tilraunir til að greina
hvað hefur mest áhrif á val neytenda
þegar þeir kaupa fisk hjá netversl-
un. Valdimar segir æskilegt að ís-
lenskur sjávarútvegur rannsaki við-
horf og hegðun neytenda betur, því
árangur í sölu á fiski á netinu bygg-
ist á því að skilja þankagang og óskir
neytenda vel. Mikil vitundarvakning
sé innan geirans um þessi mál.
„Kannanir okkar hafa gefið okkur
gagnlega innsýn inn í hvað virkar
best á neytendur. Þannig höfum við
t.d. komist að því að mikill munur er
á því að geta sýnt viðskiptavinum
netverslana stóra og vandaða mynd,
þar sem má jafnvel skoða dæmi-
gerðan fiskbita í miklum smáat-
riðum frá ólíkum sjónarhornum,
frekar en að vera með smáa og lé-
lega mynd. Hjálpar líka, til dæmis,
ef að seljandinn veitir einhvers kon-
ar vottun eða tryggingu fyrir gæð-
um og ferskleika.“
Segir Valdimar að í netverslun
skipti líka miklu máli að hafa fiskinn
í fallegum umbúðum og jafnvel
reyna að hampa vörunni á grundvelli
hollustueiginleika, hreinleika eða
upprunalands. „Er gaman að minna
á að framtakssömum aðilum hefur
tekist að selja ferðamönnum íslensk-
an harðfisk og sælgæti á mun hærra
verði með því einfaldlega að setja í
nýjar umbúðir með myndum af ís-
lenskri náttúru. Pakkningarnar, út-
lit þeirra og þær upplýsingar sem
þær miðla hafa áhrif á mat neytenda
á vörunni og aðgreina íslenskan fisk
frá öðrum fiski.“
Frekari rannsókna sé þörf og
brýnir Valdimar fyrir seljendum
sjávarafurða að vakta neytendur
með kerfisbundnum hætti, og eiga í
nánara samstarfi við smásala. „Með
tiltölulega smávægilegum breyt-
ingum og lagfæringum væri mögu-
legt selja meira af fiski og selja hann
á enn betra verði.“
Önnur lögmál
gilda um sölu
fisks á netinu
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Íslenskur sjávarútvegur
þarf að búa sig undir að
sala á fiski færist úr stór-
mörkuðum yfir til netversl-
ana. Neytendur láta ekki
sömu hluti ráða valinu þeg-
ar þeir velja fisk af tölvuskjá
og þegar þeir standa fyrir
framan kæliborð fisk-
salans. Morgunblaðið/Árni Sæberg
Valdimar segir viðskiptavini netverslana láta umsagnir annarra, gæða- og ferskleikavottanir, og gæðaábyrgð selj-
anda hafa áhrif á hvaða fiskur verður fyrir valinu. Atriði á borð við stórar og góðar myndir geta ráðið úrslitum.
Eltak sérhæfir sig í sölu
og þjónustu á vogum
Bjóðum MESTA úrval
á Íslandi af smáum
og stórum vogum
Varahlutir í allar
Cummins vélar
Fljót og áreiðanleg þjónusta
Frá 1940
www.velasalan.is
Sími 520 0000, Dugguvogi 4 , 104 Reykjavík
Afurðaverð á markaði
7. nóv. 2018, meðalverð, kr./kg
Þorskur, óslægður 324,45
Þorskur, slægður 345,95
Ýsa, óslægð 334,02
Ýsa, slægð 310,61
Ufsi, óslægður 18,67
Ufsi, slægður 121,07
Djúpkarfi 192,00
Gullkarfi 253,24
Blálanga, slægð 232,34
Langa, óslægð 268,00
Langa, slægð 260,26
Keila, óslægð 121,55
Keila, slægð 168,63
Steinbítur, óslægður 213,00
Steinbítur, slægður 523,97
Skötuselur, slægður 615,04
Grálúða, slægð 293,22
Skarkoli, slægður 351,21
Þykkvalúra, slægð 451,92
Langlúra, óslægð 136,02
Langlúra, slægð 189,00
Bleikja, flök 1.587,33
Gellur 817,89
Grásleppa, óslægð 6,00
Gullkarfi, slægður 245,00
Hlýri, slægður 455,82
Lúða, slægð 486,20
Lýsa, slægð 122,00
Náskata, slægð 90,25
Stórkjafta, slægð 200,00
Tindaskata, óslægð 10,00
Undirmálsýsa, óslægð 157,42
Undirmálsþorskur, óslægður 175,09
Undirmálsþorskur, slægður 167,88