Morgunblaðið - 05.12.2018, Qupperneq 15
FRÉTTIR 15Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. DESEMBER 2018
Einstök
minning
Stúdentamyndatökur
Ljósmyndir Rutar og Silju
Skipholti 31 | 105 Reykjavík | Sími 568 0150 | Opið alla virka daga kl. 10-17 | www.rut.is | Ljósmyndir Rutar og Silju
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Það skýrist líklega í næstu viku hve-
nær hægt verður að opna fyrir um-
ferð um Vaðlaheiðargöng, að sögn
Valgeirs Bergmann, framkvæmda-
stjóra Vaðlaheiðarganga hf.
„Við erum að ræða við verktakann
um hvenær hann skilar verkinu,“
sagði Valgeir. „Þegar það liggur fyrir
verður hægt að tilkynna opnun gang-
anna. Þetta er allt að koma. Þeir
klára væntanlega í þessari viku að
steypa vegaxlirnar. Þá verða ljósin,
tengingar blásara og önnur raf-
magnsvinna eftir. Svo þarf að tengja
ljósleiðara og prófa kerfin. Ef það
gengur mjög vel verða göngin opnuð
fyrr en síðar.“
Undanþága fyrir neyðarakstur
Bílar í forgangsakstri hafa fengið
að fara í gegn. Þannig hafa a.m.k.
tveir sjúkrabílar frá Húsavík og einn
frá Vopnafirði farið í gegn. Einnig
hafa nokkrir björgunarsveitarbílar í
útköllum farið um göngin. Þeir þurfa
þá að setja bláu ljósin á og aka var-
lega, því enn er mikið af vinnuvélum
og tækjum á báðum akbrautum og
menn víða að störfum. Hámarkshrað-
inn er nú 30 km/klst. í göngunum.
Valgeir sagði að starfsmenn hefðu
verið látnir vita af undanþágunni sem
neyðarbílarnir nytu.
Mikið fannfergi er í Eyjafirði og
þrýst á um að fá að fara um göngin.
„Það er greinilega mikill áhugi og full
þörf á þessum göngum,“ sagði Val-
geir. „Ég var búinn að fá um 30 símtöl
fyrir hádegið á laugardaginn var um
hvort það væri hægt að hleypa í gegn.
En eins og staðan er núna kappkost-
um við að reyna að klára svo að hægt
verði að opna fyrir jólin. Það er ekki
hægt að bjóða starfsmönnum upp á
að þurfa að vinna á veginum ef um-
ferð er um göngin. Það myndi aldrei
ganga upp.“
Ófærðin getur haft áhrif á þá vinnu
sem er eftir utan jarðganganna en
hefur engin áhrif á vinnuna inni í
göngunum, nema síður sé. Utan
ganganna er ýmsum verkefnum við
jarðvinnu ólokið. Valgeir nefndi að
Rafmenn, undirverktaki í rafmagn-
inu, hefðu fjölgað starfsmönnum í
göngunum því þeir gætu auðveldlega
unnið inni í 20°C hlýjum göngunum á
meðan ekki væri hægt að vinna í öðr-
um verkefnum útivið vegna fann-
fergis og kulda.
Afslættir tengdir fjölda ferða
Viðskiptavinir Vaðlaheiðarganga
munu geta skráð sig í viðskipti og
keypt ferðir með afslætti. Valgeir
sagði að ekki yrði opnað fyrir skrán-
ingu eða gjaldskrá kynnt fyrr en ljóst
væri hvenær göngin yrðu opnuð fyrir
umferð.
„Þegar tilkynnt verður hvenær
göngin verða opnuð munum við
kynna gjaldskrána og hvernig fólk
getur skráð sig í viðskipti. Það verða
engir veglyklar heldur sjálfs-
afgreiðsluþjónusta á netinu. Þú sækir
app eða ferð inn á heimasíðu og skrá-
ir þig þar, skráir greiðslumátann og
getur skráð allt að þrjá bíla sem þú
vilt borga fyrir. Það verður hægt að
kaupa ferðir fyrir fram, líkt og var
hægt í Hvalfjarðargöngum. Það verð-
ur boðið upp á 10, 40 og 100 ferðir í
pakka og afslátturinn fer eftir því
hvað þú kaupir margar ferðir,“ sagði
Valgeir. Myndavélar munu lesa sjálf-
krafa af bílnúmeraplötum í göngun-
um og rukka eftir þeim.
Unnið að lokafrágangi ganganna
Það skýrist fljótlega hvenær Vaðlaheiðargöng verða opnuð Bílar í neyðarakstri á undanþágu
Margir hringja og vilja fara í gegn Greiðslufyrirkomulag og gjaldskrá kynnt um leið og opnunin
Ljósmynd/Vaðlaheiðargöng
Fannfergi Snjónum hefur kyngt niður í Eyjafirði. Margir vilja fá að fara í gegnum göngin.
Ljósmynd/Vaðlaheiðargöng
Vaðlaheiðargöng Fjarskiptastrengur settur upp í göngunum.