Skagablaðið


Skagablaðið - 30.01.1992, Blaðsíða 6

Skagablaðið - 30.01.1992, Blaðsíða 6
6 Skaaablaðið Athyglisverð ræða Jóns HáHdanarsonar, formanns skóianefndar Fjöfcrautaskóla Vesturlands á Akranesi: Iðnmenntun skjpi hæni virðingarsess Menntamálaráðherra, góðir samkomugestir! I dag fögnum við tveimur áföngum, undirritaður verður nýr samn- ingur milli sveitarfélaga á Vesturlandi og menntamálaráðuneytisins um rekstur og uppbyggingu Fjölbrautaskóla Vesturlands og um leið er þessi salur og öll neðri hæðin í þessari nýju þjónustubyggingu tekin í notkun. pjölbrautaskóli hóf starfsemi ■ sína á Akranesi haustið 1977. Til hans var stofnað að frum- kvæði heimamanna og um rekst- ur hans var gerður samningur milli Akranesbæjar og Mennta- málaráðuneytisins. Framhalds- deildin, sem var við gagnfræða- skólann, og iðnskólinn á Akra- nesi voru felld undir hinn nýja skóla og sett var á fót nám til stúdentsprófs. Hinn nýi skóli bauð upp á margar námsbrautir í einni stofnun og hægt var að velja bæði bóklegt og verklegt nám. Áður þurftu unglingar af Akranesi að sækja framhalds- nám að stórum hluta til annarra landshluta. Það þarf ekki að tí- unda hve mikil lyftistöng Fjöl- brautaskólinn á Ákranesi hefur verið fyrir bæjarfélagið. FYA stofnaður Árið 1987 komu önnur sveitar- félög hér á Vesturlandi til þessa samstarfs og Fjölbrautaskóli Vesturlands var stofnaður á grundvelli gamla skólans um leið og framhaldsdeildir annars stað- ar á Vesturlandi voru formlega lagðar til skólans. Þessi samning- ur var undirritaður í janúar 1987 og var tímamótaverk í íslenskum skólamálum. Þá tóku sveitarfé- lög af fúsum vilja á sig fjárhags- skuldbindingar sem þau höfðu áður verið laus við og tóku sam- an höndum um áframhaldandi uppbyggingu náms á framhalds- skólastigi. í þrjú ár var skólinn rekinn með því fyrirkomulagi sem í samningnum er lýst. En í kjölfar nýrra laga um verkaskipt- ingu ríkis og sveitarfélaga í árs- byrjun 1990 og nýrra laga um framhaldsskóla færðíst rekstur skólans alfarið yfir á ríkið. Allar fjárfestingar eru hins vegar á- fram samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Vegna þessa þurfti að breyta samstarfssamningnum og nú liggur hann fyrir tilbúinn til undirskriftar. Á ofangreindum fimmtán árum hefur nemendafjöldinn í skólanum þrefaldast. Því hefur þurft að taka til hendinni í bygg- ingamálum. Við stofnun yfirtók fjölbrautaskólinn húsnæði gagn- fræðaskólans og þess vegna voru efstu bekkir grunnskólans hér fyrstu árin. Eftir því sem hús- næði grunnskólanna á Akranesi stækkaði fluttust grunnskóla- bekkirnir þangað, síðast gamli níundi bekkurinn 1986. Verk- námshúsið hér fyrir utan var tek- ið í notkun haustið 1982 og síðan var hafist handa við byggingu heimavistar og hún tekin í notk- un á árunum 1984 - 85. Loks hófst vinna við þjónustubygging- una sumarið 1989 og í dag er fyrsti áfangi hennar tekinn í notkun, þó er enn eftir að vinna verk á efri hæðinni og síðar við innréttingu á því húsnæði sem losað verður í gamla skólanum við flutning hingað. Til að ljúka þessu verkefni þarf lokahnykk á fjárlögum ríkisins á næsta ári. Eftir þeim velvilja að dæma sem skólinn hefur notið við uppbygg- ingu sína efast ég ekki um að hann komi. Öllum þeim sem nær fjárveitingum hafa komið vil ég þakka þeirra hlut. Þessi bygging boðar þáttaskil í aðstöðu nem- enda og kennara svo hún verður með því allra besta sem gerist í framhaldsskólum á íslandi. Góð verkkunnátta Hér í skólanum eru reknar verknámsbrautir; trésmíði, vél- smíði, rafiðnaðargreinar, nám í listum og fatasaumi. Góð iðn- menntun er hverri þjóð ákaflega mikilvæg. Velmegun í Þýska- landi og Japan, svo dæmi sé tekið af þjóðum sem vegnar vel í versl- unarstríðinu mikla um markaði heimsins, byggist ekki síst á góðri verkkunnáttu. Við vitum að ekki fellur það öllum vel að læra til bókar, þótt þeir hafi góða hæfileika til handverks og lista. Því þarf að efla uppbyggingu verkbrauta í framhaldsskólum en slíkt nám er dýrt. Þar þýðir varla að miða við námskostnað í Verslunarskólanum í Reykjavík. Verði slíkt gert, föst upphæð á- kveðin á nemanda, munu fram- haldsskólarnir aðeins bjóða upp á ódýrt bóknám og reyna að koma sem flestum í gegnum stúdentspróf og þá eru það marg- ir sem verða lengi á leiðinni og sóa dýrmætum árum. Á há- skólastigi magnast svo vandinn þegar allt þetta fólk leitar þangað eins og forráðamenn Háskólans benda iðulega á. Þannig gæti vanhugsaður sparnaður orðið þjóðfélaginu ákaflega dýr. Ef lit- ið er til heildarinnar yrði þá miklu fé varið til menntamála en menntun þjóðarinnar hæfði illa þörfum framtíðarinnar. í stuttu máli held ég því fram að með því að efla dýrt iðnnám gætum við sparað stórfé. Um leið þarf iðnmenntun að skipa hærri virðingarsess í huga almennings svo nemendur sæki í þessar greinar. Hrinda þarf þeim gamla íslenska hugsunarhætti að enginn sé menntaður nema læknir, lögfræðingur eða prestur. Það þarf að sýna iðnmenntun virðingu og umgangast þá nem- endur sem hana stunda í sam- ræmi við það, því þeir eru ekkert undirmálsfólk. Sérstaklega þarf að hvetja stúlkur til að leita inn á iðnbrautir. Ef námsval helst eins kynjabundið og nú er, er hætt við að jafnréttisbaráttan verði áfram torsótt. Ekki allar breytingar til bóta Á undanförnum áratugum hafa verið gerðar ýmsar breyt- ingar í skólamálum og ekki er víst að þær hafi allar verið til bóta. Hér áður fyrr voru reknar verknámsdeildir við gagnfræða- skólana sem unglingar sóttu sem ekki höfðu áhuga á bóknámi. Hefði ekki mátt efla þessar deild- ir og gefa fleiri unglingum á grunnskólaaldri kost á að stunda nám í verklegum greinum, í stað þess að leggja þær niður? Skólinn hérna er rekinn eftir áfangakerfi, sem gefur nemend- um meira frjálsræði og sveigjan- leika til að haga námi sínu eftir eigin áhuga og þroska en áður tíðkaðist. Það má í raun segja að hér sé reynt að vinna eftir þeirri lögbundnu skólastefnu að veita hverjum nemanda kennslu eftir getu og hæfileikum. Það er trú mín að með því að innleiða nokkurs konar áfangakerfi í efstu bekkjum grunnskóla mætti gera námið markvissara. Slíkt gæti gerst í samstarfi við fjöl- brautaskólana. Gætu ekki grunn- skólanemendur nýtt sér velbúnar verknámsdeildir framhaldsskól- anna? Þannig mætti taka upp þráðinn aftur frá gamla verk- náminu. Væri ekki upplagt að gera tilraun með þetta fyrir- komulag hér á Akranesi, strax á næsta skólaári? Hér er auðfarin leið til að brydda upp á nýjung- um á erfiðum tímum. Eins og ég gat um áður var efsti bekkur grunnskólans lengi hér til húsa. Síðustu árin áður en hann flutti í grunnskólann var gerð merk tilraun í kennslumál- um. Hefðbundið grunnskólapróf var fellt niður en þeim nemend- um sem náðu tilskildum árangri fyrir jól var gefinn kostur á að hefja nám í áfangakerfi skólans á vorönn. Nemendur sem áður voru sinnulausir um námið tóku sig á til að komast sem fyrst inn í fjölbrautaskólann. Þetta sýnir að nemendur vilja spreyta sig sé þeim gefinn kostur. Það er nú einu sinni svo að á unga aldri er mannskepnan langhæfust til náms. Þessum árum megum við ekki spilla fyrir æsku landsins. Því miður varð ekki framhald á þessari tilraun þegar níundi bekkurinn flutti. Hér kem ég aft- ur að auknu samstarfi fjölbrauta- skólans og grunnskólans. Minni skólaleiði? Takist að halda áhuga nem- enda vakandi geta þeir lært meira á skemmri tíma, nýtt sér sinn tíma til þroska og náms mun betur en þeir gera nú. Skólaleið- inn margræddi mundi þá kannski minnka! Um leið og skólaviðver- an styttist, því menn útskrifast fyrr, minnkar þörf fyrir nýtt og stærra húsnæði og fjármagn spar- ast við rekstur og kennslu. Að þessu ættum við að vinna. Vinnutilhögun í fjölbrauta- skólanum markast af þjóðfélag- inu í kring. íslendingar eru skorpumenn. Þegar ég sótti skóla fyrir nokkrum áratugum var skóli stundaður sex daga vikunn- ar, þá vann allur almenningur líka sex daga vinnu. Hvort tveggja hefur breyst og ungling- arnir draga dám af fullorðna fólkinu. Fimm daga vikunnar er unninn langur dagur frá því snemma á morgnana til seint á kvöldin og jafnvel gengið á svefn. Um helgar er sólarhringn- um snúið við, vakað fram á rauðanótt og sofið fram á miðjan dag. Ætli meiri jöfnuður í þess- um efnum væri ekki hollari þótt varla verði aftur tekin upp vinna á laugardögum. Stundum hafa mér þótt annirnar í fjölbrauta- skólanum skipulagðar eins og vertíðir, stíf vinna og síðan löng frí. Ef til vill væri rétt að huga að breytingu á þessu. Sveitarfélög á Vesturlandi skrifa nú undir samning sem tryggir rekstur framhaldsdeilda út um hérað undir hæfri faglegri leiðsögn. Framhaldsdeildirnar eru byggðalögunum mjög mikil- vægar, þá dvelja unglingarnir lengur í heimabyggð og festa ef til vill þær taugar sem seinna draga þá heim. Eins efla framhalds- deildirnar menntun á hverjum stað og gefa kost á fullorðins- fræðslu sem á eftir að aukast í framtíðinni. Nú eru framhalds- deildir reknar í Borgarnesi, Stykkishólmi og saman í Ólafs- vík og á Hellissandi og stunda um 90 nemendur nám í þeim. Að loknu grunnnámi heima má bú- ast við að flestir þeirra sæki hingað. Ég ætla ekki að fjölyrða um það hvernig Fjölbrautaskóli Vesturlands getur eflt framhalds- menntun um allt Vesturland. Hér ríður eins og áður á framtaki og dugnaði kennara og stjórn- enda skólans og hugmyndum þeirra manna sem ganga til þessa samstarfs. En árangur ræðst einn ig af því fjármagni sem ætlað er til skólahalds. Til skólans gera Vestlendingar kröfur. Það er t.d. dýrt að bjóða upp á nám til meistararéttinda í fámennum iðngreinum, en það er þjóðfélag- inu líka dýrt þurfi menn að flytj- ast til Reykjavíkur til að ljúka slíku námi. Það er ekki sann- gjarnt að sækja viðmiðun um hagkvæmni til stærstu eininga í mesta þéttbýli landsins, sérstöðu fámennis verður að virða að vissu marki. Þetta glæsilega hús sem við stöndum í hefur Magnús H. Ólafsson, arkitekt, hannað. Fjöl- margir verktakar hafa lagt hönd á plóginn. Það sem við sjáum lof- ar verk þeirra manna sem hér hafa unnið og er þeim öllum þakkað. Allri umsýslu hefur framkvæmdanefnd stjórnað styrkri hendi, þeir Ingólfur Hrólfsson, Óli Jón Gunnarsson og Sigurður Guðni Sigurðsson. Þeim þakka ég óeigingjarnt og vel unnið starf í þágu okkar allra. í áfangakerfi vinna nemendur ekki saman í bekkjarheild eins og áður var heldur dreifast í marga breytilega vinnuhópa. Því er nauðsynlegt að efla um leið í skólunum þá starfsemi sem dreg- ur nemendur aftur saman. Þetta hús og þessi fallegi salur verður slík miðstöð. Harðnandi samkeppni Þó ísland sé eyja fjarri megin- löndum færist hún stöðugt nær hringiðu heimsins. Lífskjör á ís- landi ráðast af því hvernig okkur vegnar á útflutningsmörkuðum okkar. Þar ríkir samkeppni, sem stöðugt harðnar eftir því sem fleiri landamæri falla. Hversu mjög sem við vildum getum við ekki lokað okkur frá umheimin- um. Við verðum að taka þátt í leiknum þótt ekki sé hann alltaf viðkunnanlegur. Við getum ekki leyft okkur að vera eftirbátar annarra þjóða á neinu sviði. Þótt við heyjum þetta stríð út á við ættum við samt að efla með okk- ur samkennd inn á við. Ég hef í þessari tölu minni drepið á nokkur atriði sem gætu ef til vill horft til framfara. Ég tel ekki að við eyðum of miklu til fræðslu- og uppeldismála þótt við gætum nýtt fjármagnið betur. Framtíð landsins byggist á börn- um þess og það hafa aldrei þótt góð búhyggindi að éta útsæðið. En árangur næst ekki nema með áhuga og góðri samvinnu allra sem að þesum málum koma. Til að koma á hagræðingu þarf ann- að og meira að koma til en flatur niðurskurður. Við slíkum hug- myndum hlýt ég eindregið að vara. Leiðtogar þjóðarinnar ættu að hafa forystu um að menn legg- ist saman á árarnar og hætta að berja í brestina. Næstu ár verða okkur íslendingum örlagarík. Takist okkur ekki að skipa menntamálum okkar vel mun ríkja hér atvinnuleysi og örbirgð og skólarnir breytast í geymslu- stofnanir fyrir ungt fólk með skólaleiða. Og þessar geymslu- stofnanir verða landssjóði stöð- ugt þyngri baggar. En ef mennta- kerfi okkar er vel skipulagt mun hér lifa menningarþjóð sem stendur öðrum þjóðum á sporði í verkkunnáttu og listum. Þá mun dafna hér blómlegt atvinnulíf sem hefur þörf fyrir það vel menntaða unga fólk sem útskrif- ast úr skólum. í þeirri góðu trú þakka ég fyrir áheymina.

x

Skagablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skagablaðið
https://timarit.is/publication/1351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.