Fréttablaðið - 25.07.2019, Blaðsíða 8

Fréttablaðið - 25.07.2019, Blaðsíða 8
Svanhvít Jóhanna fæddi andvana dreng Erfitt að hringja og segja frá Svanhvít Jóhanna Jóhannsdóttir fæddi drenginn sinn andvana á 22. viku meðgöngunnar fyrr á þessu ári. Spurð hvort hana hafi grun- að að eitthvað væri að segir Svanhvít að hana hafi „ekki beint“ grunað það, en segir að hennar fyrri meðganga hafi verið mjög erfið og því hafi hún haft einhverjar áhyggjur. Í 20 vikna sónar kom svo í ljós að engin nýrnastarfsemi var hjá fóstrinu og því ekkert legvatn. Fram að 15. til 16. viku framleiðir móðirin legvatnið fyrir fóstrið, en eftir það taka nýru fóstursins við og eiga sjálf að fram- leiða legvatnið. „Ljósmóðirin sagði við okkur að þetta væri mjög alvarlegt og að ég þyrfti að hitta sérfræðing,“ segir Svanhvít. Hún segir að þau hafi svo leitað sér upplýsinga um fósturgallann og að alls staðar hafi þau lesið það sama. Að lífslíkur væru engar. Þau ákváðu þá að enda meðgönguna. Svanhvít fékk lyf sem stöðva fram- leiðslu þungunarhormóna og svo tveimur dögum síðar fór hún upp á spítala þar sem hún þurfti að fæða barnið. Hún segir að hún hafi verið mjög hrædd við fæðinguna. Eftir fæðinguna var drengurinn hjá þeim í nokkra klukkutíma. Þeim hafi þó staðið til boða að fá afnot af kæli- vöggu á Landspítalanum sem er þar sérstaklega fyrir konur sem fæða börn sín andvana. Hún segir að konur í þessari aðstöðu fæði ekki á fæðingardeild- inni, heldur á kvennadeildinni. Þar sé sérstök stofa fyrir þessar aðstæður. Svanhvít segir að þótt hún hafi aldrei beint kennt sjálfri sér um fósturmiss- inn þá hafi hún spurt eftir krufningu hvort hún hefði getað gert eitthvað öðruvísi. „Ég kenndi mér aldrei um, en spurði alveg hvort þetta hefði verið af því að ég drakk stundum þrjá kaffibolla í staðinn fyrir einn. En sérfræði- læknir sagði okkur að ef það væri hætta á því myndu þær segja öllum að drekka ekk- ert kaffi,“ segir Svan- hvít. Svanhvít segir að þau hafi ekki verið búin að til- kynna þungunina formlega, en að þau hafi verið búin að segja sínum nánustu frá henni. „Það vissu þetta allir og það þurfti því að hringja í alla, ömmur og afa, og láta vita. Því lengri sem meðganga er gengin því f leirum er farið að þykja vænt um þessa hugmynd um barnið sem er að koma. Það var erfitt að hringja og segja frá,“ segir Svan- hvít. Hún segir að fólk hafi sýnt henni mikinn skilning en hafi kannski ekki vitað hvernig það átti að bregðast við. Hún segir að sér hafi aldrei þótt erfitt að tala um þetta við fólk og eigi góða að sem hún geti talað við. Manninn sinn, góðar vinkonur og fjöl- skyldumeðlimi. Hún segir að eflaust þyrfti hún að fara betur í gegnum það sem gerðist. Hún hafi grátið ofsalega mikið fyrstu dagana en það hafi smám saman minnkað. Hún segir að þegar hún ræði þetta þá fái hún oft að heyra um missi annarra kvenna, sem hún hafi ekki vitað af áður. Það hafi hjálpað mikið. „Þó að það sé ömurlegt að fólk gangi í gegnum þetta, þá er mikill styrkur í því að lesa reynslusögur fólks sem gengur í gegnum svona, til að vita að maður kemst í gegnum þetta. Þetta er ekki óyfirstíganlegt hvernig maður á að takast á við alla þessa sorg. En það er bara einn dagur í einu og maður þarf bara að leyfa sér að syrgja,“ segir Svanhvít. Lengra viðtal má nálgast á frettabladid.is „Það er oftast talað um að það séu um það bil fimmtán prósent af þungunum sem enda með fósturmissi, þá erum við að tala um þunganir sem staðfestar eru með þungunarprófi. Sem sagt næstum því ein af hverjum sex þungunum,“ segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans. „Svo fer þetta aðeins eftir aldri, þannig að hjá konum sem eru kannski orðnar fertugar er þetta algengara. Þá er þetta ein af hverjum þremur þungunum,“ segir Hulda. Hún segir að ástæður fósturláts geti verið af ýmsum toga en litningagalli hjá fóstri sé algengasta ástæðan. „Það hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir á fósturlátum sem benda til þess að stærsti hlutinn sé vegna einhvers konar litningagalla hjá fóstrinu sem er þá það alvarlegs eðlis að það myndi aldrei geta orðið eðlilegt fóstur.“ Hulda segir að þó að rannsóknir hafi verið gerðar á ástæðum fósturláts sé ekki vaninn að greina hvert til- felli fyrir sig. „Önnur algeng ástæða er einhvers konar byggingargalli hjá fóstrinu sem gerir það að verkum að það nær ekki að lifa lengur en fyrstu vikurnar. Svo er það því miður þannig að í hverju einstöku tilviki veit maður ekkert hver skýringin er,“ segir Hulda. Hulda segir að flest fósturlát verði fyrir tíundu viku og að með aukinni tækni sé auðveldara að fylgjast með fóstrum í móðurkviði. „Ef kona er skoðuð með lifandi fóstur við tíu vikur þá eru 99 prósent líkur á því að það muni ganga áfram,“ segir Hulda. „Miðað er við tólf vikur en ástæðan er sú að það fer ekki að blæða strax við fósturlát og í raun verða engin merki þess í tvær til þrjár vikur eftir að það gerist. Nú getum við þó sagt með betri vissu fyrr á meðgöngu hvort allt sé í lagi,“ bætir hún við. Hulda segir að þrátt fyrir að viðmiðið sé tólf vikur sé ekkert því til fyrirstöðu að konur greini frá því fyrr að þær séu þungaðar. „Ef þú missir fóstrið þá verður þú jú sorgmædd en fólkið í kringum þig skilur af hverju og þú þarft ekki að vera í einhverjum feluleik með það,“ segir Hulda og bætir við að mikil hjálp geti falist í því að segja frá. „Í mörgum tilfellum komast konur að því að það eru svo ótal margir í kringum þær sem hafa upplifað það sama og það getur oft verið heilmikill styrkur fólginn í því að fá hughreystingu og uppörvun frá fólkinu í kringum þig,“ segir Hulda. Ein af hverjum sex missir fóstur Fimmtán prósent kvenna missa fóstur eftir að hafa fengið stað- festingu á þungun með þungunar- prófi og talið er að þriðja hver kona missi fóstur einhvern tím- ann á lífsleiðinni. Í mörgum til- vikum er um að ræða fóstur sem konan veit ekki að hún ber undir belti en oftar en ekki getur mikil sorg fylgt í kjölfarið. Þrátt fyrir algengi fósturmissis er ekki mikið rætt opinberlega um efnið og koma tölurnar mörgum á óvart. Fósturlátum er skipt í snemm- komin og síðkomin fósturlát. Með snemm- komnum fósturlátum er átt við þau sem verða á fyrsta þriðjungi meðgöngu, það er fyrstu 12 vikum hennar, en með síðkomnum fósturlátum er átt við þau sem verða eftir 12. viku og til og með 22. viku meðgöngu. Silja Hlín missti fóstur í tvígang Þarf enn að syrgja hugmyndina um fleiri börn Silja Hlín Guðbjörnsdóttir hefur misst fóstur í tvígang. Fyrra skiptið var í ársbyrjun árið 2014. Hún og kona hennar, Ana, höfðu nýlega tilkynnt foreldrum sínum um þungunina en eina nóttina um miðjan janúar byrjaði skyndilega að blæða, með verkjum. Hún fór í leigubíl, með handklæði í klofinu, á kvennadeild Landspítalans þar sem hún var skoðuð. Þar var fóst- urlátið staðfest og hún send í aðgerð. Hún segir að sér hafi liðið hörmu- lega eftir fósturmissinn, bæði á lík- ama og sál. Hafi verið máttlaus og grátið mikið. Hún segir að þrátt fyrir missinn hafi hún og kona hennar verið staðráðnar í að reyna aftur. Þær reyndu aftur í bæði mars og apríl og þá varð Silja aftur ólétt. Hún segir að læknir hafi útskýrt fyrir henni að konur missi yfirleitt einungis einu sinni og að það væri ekki líklegt að það gerðist aftur. „Ég reyndi að minna mig á það. Síðan byrjaði að blæða, með verkjum. Það nákvæmlega sama gerðist aftur, blæddi í viku og svo staðfestur miss- ir,“ segir Silja. Hún segir að eftir hafa misst tvisvar hafi henni liðið mjög illa. Hafi grátið mikið, verið þunglynd og hafi þótt erfitt að hitta aðrar óléttar konur. Kona hennar og vinkonur hafi stutt vel við hana, og meðal annars safnað peningum sem þær gáfu þeim svo Silja gæti farið í aðra uppsetningu á fósturvísi. Hún segir að fólk hafi almennt vilj- að henni mjög vel en að hún hafi oft fengið óþægileg ráð og athugasemdir. Þær hafi oft verið spurðar af hverju þær ættleiði ekki. En Silja segir það dýrt ferli og að samkynja pör fái sjaldnast að ættleiða erlendis frá. „Ég fékk athugasemdir eins og „þessu var bara ekki ætlað að verða“, „heldurðu að þú gætir hafa gert eitthvað sem olli því að þú misstir“ og verst af öllu „já, leiðinlegt, en þetta var samt ekki barn, bara fóstur“. Þegar þú missir fóstur þá ertu ekki bara að missa fóstur, þú ert líka að missa drauminn um barn, stóra kúlu, barnavagn og allt þetta. Þann- ig að fyrir þér er þetta barn, en ekki bara einhver rækja með smá hjart- slátt,“ segir Silja. Hún segir að fólk hafi líka verið mjög duglegt að segja henni frá öðrum konum sem höfðu misst 10 sinnum og fætt andvana börn. Þær væru margar sem hefðu lent í miklu verra. „Mér fannst eins og ég hefði ekki leyfi til að vera svona leið,“ segir Silja. Silja segir að ekkert í lífinu hafi reynst henni erfiðara en barneignar- ferlið og að missa tvisvar. Hún og kona hennar ákváðu þó samt sem áður í fyrra að reyna við annað barn, en árið 2015 gekk þungun upp og eiga þær eina stelpu. Það gekk þó ekki og ákváðu Silja og kona hennar að lokum í sameiningu að eignast ekki f leiri börn. Hún segir ákvörðunina hafa verið mjög erfiða, en á sama tíma mjög frelsandi. „Það eru margir kostir við að eiga bara eitt barn. En ég þarf enn að syrgja hugmyndina um fleiri börn. Ég hefði aldrei ímyndað mér að þetta yrði svona erfitt, allt þetta ferli,“ segir Silja. Hún segir að sér hafi alltaf þótt gott að tjá sig um missinn og heyra um reynslu annarra. Sérstaklega hafi hjálpað að fara á fyrirlestra og kaffi- húsahittinga hjá Tilveru, samtökum um ófrjósemi. „Mér fannst ótrúlega magnað að tala opinskátt um fósturmissi við til dæmis eldri konur. Ég hef tvisvar lent í því að kona segi mér frá missi sem hún hefur aldrei sagt frá áður, því umræðuefnið sé svo óþægilegt,“ segir Silja. Lengra viðtal má nálgast á frettabladid.is Hjálp í því að tala um missinn Hulda Hjartardóttir. Birna Dröfn Jónasdóttir birnadrofn@frettabladid.is Lovísa Arnardóttir lovisaa@frettabladid.is TILVERAN 2 5 . J Ú L Í 2 0 1 9 F I M M T U D A G U R8 F R É T T I R ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð 2 5 -0 7 -2 0 1 9 0 4 :2 3 F B 0 4 0 s _ P 0 3 6 K .p 1 .p d f F B 0 4 0 s _ P 0 3 3 K .p 1 .p d f F B 0 4 0 s _ P 0 0 5 K .p 1 .p d f F B 0 4 0 s _ P 0 0 8 K .p 1 .p d f A u to m a ti o n P la te r e m a k e : 2 3 7 8 -D 7 F 8 2 3 7 8 -D 6 B C 2 3 7 8 -D 5 8 0 2 3 7 8 -D 4 4 4 2 7 5 X 4 0 0 .0 0 1 5 A F B 0 4 0 s _ 2 4 _ 7 _ 2 0 1 9 C M Y K

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.