Víkurfréttir


Víkurfréttir - 02.05.2019, Qupperneq 10

Víkurfréttir - 02.05.2019, Qupperneq 10
Þeir eru báðir hoknir af reynslu þegar þeir yfirgefa sviðið núna sem leiðtogar stéttarfélaga hér á Suðurnesjum. Guðbrandur Ein- arsson, fyrrum formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja og Kristján Gunnarsson, fyrrum formaður Verkalýðs- og sjómanna- félags Keflavíkur hættu nýlega eftir áratuga störf hjá sínum félögum. Víkurfréttir ræddu við kappana um verkalýðsbaráttuna og breytingar í henni, mál sem tengjast atvinnumálum á Suðurnesjum, brotthvarf Varnarliðsins og áhrif þess og loks af hverju þeir ákváðu báðir á þessum tímapunkti að hætta. Marta Eiríksdóttir, blaðamaður settist niður með þeim Kristjáni og Guðbrandi en þeir kynnust fyrir margt löngu þegar sá síðarnefndi gekk í Alþýðuflokkinn í Keflavík. - segja fyrrverandi leiðtogar tveggja stærstu stéttarfélaganna á Suðurnesjum, þeir Kristján Gunnarsson formaður VSFK og Guðbrandur Einarsson, formaður VS „Ég er búinn að vera pólítískur frá barnsaldri get ég sagt, var alltaf pólítískt meðvitaður sem unglingur og fór að rækta það mikið í skóla. Við höfðum róttækar skoðanir, ég og margir skólafélagar mínir á þjóðfélagsumræðunni og tókum þátt í henni en þar höfðum við nú ágætis kennara til að takast á við, hann Pétur Gaut. Þá vorum við svona svoldið á vinstri slagsíðu og hann hægra megin. Það var góð þjálfun í því. Sem ungur strákur tók ég til dæmis þátt í pólítískum leshring, stúderaði pólítík með slatta af fólki hér á Suðurnesjunum, þannig að ég var alltaf mikið að hugsa um pólítík. Svo gerist það árið 1996 þegar Ólafur Ragnar er fyrst kosinn forseti Íslands að ég tek að mér að gerast kosningastjóri fyrir hann hér á Suðurnesjum. Niðurstaðan úr því var sú að ég gekk til liðs við Alþýðu- flokkinn,“ segir Guðbrandur, oftast kallaður Bubbi. „Og ég tók við inntökubeiðninni en þá var ég formaður Alþýðuflokksfélags Keflavíkur. Það komu inn tvær um- sóknir í einu, manstu eftir þessu Bubbi?,“ spyr Kristján. „Já, já, við Logi Þormóðsson gengum þá saman í Alþýðu- flokkinn, kannski vegna þess að við vorum mjög ósáttir við það hverning félagsmenn í Alþýðubandalaginu höfðu hagað sér í kosningabaráttu Ólafs Ragnars á þeim tíma. Það var til þess að ég fór að vinna með Alþýðuflokknum og mæta þar á fundi og uppfrá því var ég tengdur inn í þetta, inn í bæjarmálafélag jafnaðarmanna, eins og þetta hét þá, J listinn. Fer síðan í prófkjör 2002 og kemst inn í bæjarstjórn,“ segir Guðbrandur. „Bubbi kemur inn þegar ég hætti í bæjarstjórn en þá var ég formaður Alþýðuflokksfélagsins, já já, ritari og gjaldkeri hjá þeim, fór allan hringinn. Ég var með í þremur bæjarstjórnum, fyrst í bæjarstjórn Keflavíkur, því næst í Keflavík, Njarðvíkur og Hafna og svo í fyrstu bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Þann- ig byrja ég í bæjarstjórnarpólítikinni. Við Bubbi vorum á svipuðum slóðum og það tókst með okkur góð vinátta sem hefur haldist síðan. Virðing og vinátta, þótt við séum ekki alltaf sammála en það er allt í lagi,“ segir Kristján og Guð- brandur tekur undir það. „Við erum búnir að vera vinir og samstarfsmenn alveg síðan. Ég kem inn í Verslunarmannafélagið 1998 og tek við af Jóhanni Geirdal. Þá hafði ég verið að nudda mér upp við pól- tíkina en hafði ekki árangur sem erfiði, ákvað samt að vinna með flokknum og tók sæti í Fjölskyldu- og félagsmálaráði Reykjanesbæjar. Í framhaldi af því var skorað á mig að gefa kost á mér sem formaður Verslunarmannafélagsins og ég tók þeirri áskorun og kem inn vorið 1998, fyrir tuttuguogeinu ári síðan,“ segir Guðbrandur. Þegar Kristján kemur inn og gefur kost á sér í Verkalýðs- félaginu hafði Karl Steinar Guðnason, þá einnig þingmaður, verið formaður Verkalýðsfélagsins nokkuð lengi, „Þetta byrjaði með miklum hvelli. Það kemur mótframboð sem Alþýðusambandið dæmir ólöglegt eða ekki gilt. Ég var því sjálfkjörinn og byrja sem formaður árin 1991-1992. Ég tek við af Karli Steinari sem hafði verið á þingi samhliða því að gegna formennsku hér suðurfrá en það var algengt í þá daga að framámenn í stéttarfélögum gegndu einnig þing- mennsku, eins og Guðmundur Jaki, Magnús L. Sveinsson og fleiri,“ segir Kristján. „Það þótti eðlilegt að þeir sem tóku að sér að vera í for- ystu fyrir verkalýðhreyfinguna væru áberandi í pólítíkinni. Magnús L. Sveinsson var nú forseti borgarstjórnar lengi vel og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, auðvitað voru menn þarna til þess að gæta hagsmuna félagsmanna sinna á sem breiðustum grunni,“ segir Guðbrandur. Hefur verkalýðsbaráttan breyst í gegnum árin? Kristján: „Það hefur margt breyst. Við höfum alveg gengið til góðs, það hefur margt gerst sem hefur gagnast til góðs. Það er stundum sagt um fólkið í verkalýðshreyfingunni að það sjái ekki sigrana fyrr en mörgum árum seinna. Við Bubbi gerðum síðast kjarasamning saman árið 2015. Þá stóðum við að því sem við nefndum Hvítasunnubandalagið því það var yfir hvítasunnuna sem við náðum að landa samningi en þá gerðum við einhvern þann besta kjarasamning sem íslensk verkalýðshreyfing hefur gert í áratugi. Þarna var gerður samningur með krónutöluaðferðinni, þó að menn haldi núna að þeir séu að finna upp krónutöluaðferðina, þá hef ég lengst af á formannsferli mínum samið um krónutöluhækkanir í samningum, því það hefur gagnast þeim lægstlaunuðu best.“ Guðbrandur: „Eðli stéttarfélaga hefur líka breyst talsvert. Frá því að vera bara tæki til þess að vinna að bættum launa- kjörum, þá hafa stéttarfélög tekið að sér allskonar þjónustu og menn hafa samið um það í kjarasamningum að fá mót- framlög frá vinnuveitendum til stéttarfélaganna til þess að veita þjónustu. Menn stofnuðu nú orlofssjóði á sínum tíma og sjúkrasjóði. Síðan stofnuðum við starfsmenntasjóði og við höfum einnig stofnað endurhæfingarsjóð. Allir þessir sjóðir eru að styðja við bakið á félagsmönnum okkar á ýmsan hátt. Starfsmenntasjóðir hafa gert það að verkum að fólk á miklu auðveldara með að fara í nám, til þess að styrkja sig á vinnumarkaði og auka lífsgæði. Endurhæfingarsjóðirnir gerðu það að verkum að Virk varð til en það verður til af því að við búum til þennan sérstaka sjóð sem fjármagnar starfsemi Virk sem hjálpar fólki inn á vinnumarkað aftur. Fólk gleymir stundum þessum þætti í starfsemi stéttar- félaganna en þetta hefur allt gerst í gegnum kjarasamningana sem gerðir hafa verið á undanförnum áratugum. Við erum öfunduð af þessu á Norðurlöndunum, sem standa mjög framarlega í launa- og velferðarmálum. Staðan þar er mjög góð en stéttarfélögin þar hafa þetta ekki sem við höfum hér, að hafa fengið þessi launatengdu mótframlög til okkar til þess að styðja við bakið á félagsmönnum okkar, eins og við höfum verið að gera í áratugi.“ Kristján: „Starfsmenntasjóðir komu árið 2000 og við fundum hvað þetta virkaði rosalega vel einmitt í hruninu. Það var gríðarlega mikilvægt að hafa þessi tól og tæki til að bregðast við og til þess að hjálpa fólki. Sjúkrasjóðirnir komu fyrir okkar tíð.“ Guðbrandur: „Við höfum verið að fá aukið framlag inn í marga þessa sjóði í gegnum tíðina. Fólk er að hafa framlengdan veikindarétt í gegnum sjúkrasjóð stéttarfélaganna. Það er verið að borga ýmiskonar forvarnarstarfsemi, líkamsrækt og fleira sem stéttarfélögin eru að aðstoða fólk með. Þetta er allt eitthvað sem fólk man ekki alltaf eftir.“ Kristján: „Það er gríðarlega mikill stuðningur fyrir fólk sem ákveður að fara í nám og sækir um aðstoð hjá stéttarfélagi sínu, að geta fengið allt upp í 300.000 krónur til náms, hafi það ekki nýtt styrk sinn í meira en þrjú ár. Þá getur það fengið allt á einu bretti. Þetta er fólk að nota þegar það koma áföll, til dæmis atvinnuleysi. Það er hægt að fá um hundrað þúsund krónur í endurgreiðslu ef menn fara í meirapróf. Það er blæ- brigðamunur á þessu hjá félögunum en annars mjög líkt.“ Guðbrandur: „Til að bæta við þá sömdum við um stofnstyrki svokallaða, sem ætlaðir voru í byggingu íbúða fyrir tekju- lága félagsmenn stéttarfélaganna. Þetta var eitt af því sem kom í gegnum kjarasamninginn okkar 2015 og í framhaldi af því breytir ríkisstjórnin lögunum sem í dag heita lög um almennar íbúðir. Þetta gerði það að verkum að ASÍ stofnaði byggingarfélagið Bjarg á hundrað ára afmæli sínu sem nú hefur hafið byggingu á hundruðum íbúða fyrir tekjulága einstaklinga. Í þessum nýja kjarasamningi núna er meðal annars verið að fá aukna fjármuni inn í þetta félag. Þarna fengum við stofnstyrki fyrir 2.300 íbúðir.“ Hefur kjarabaráttan linast með tilkomu erlends vinnuafls? Kristján: „Í Verkalýðsfélaginu eru erlendir fé- lagsmenn orðnir 52% og það er stundum verið að núa þessu fólki um nasir um að þau séu ekki fús til verkfalla. Ég hef ekki þá reynslu því árið 2015 fórum við í verkfallsboðun og þá fengum við 93% samþykktir. Ef við skoðum þetta núna miðað við nýafstaðna verkfallsboðun hjá VR þá fengu þeir 52% til að samþykkja. Ég tek ekki undir það að útlendingar séu dragbítar inni í stéttabaráttunni hér á landi. Pólverjarnir sem eru í meirihluta þeirra sem starfa hér á landi og þeir eru ágætlega meðvitaðir um réttindi sín. Mér finnst við fá ferskan vind með þeim og upplifi þá alls ekki sem dragbíta.“ Guðbrandur: „Hér á Íslandi höfum við verið að semja um svokallað lágmarkslaunakerfi á al- mennum markaði en ekki raunlaunakerfi eins og hjá hinu opinbera. Það hefur þýtt það að margir Íslendingar hafa ekki verið á lágmarkslaunum heldur á umsömdum persónubundnum launum, markaðslaunum svokölluðum, verið yfirborg- aðir, en svo bara breytist heimurinn. Hér er alþjóðavæðingin á fullu. Við erum orðinn hluti af evrópska efnahagssvæðinu og maður hefur frelsi til að flytja á milli landa og vinna þar sem manni sýnist það er ef þú ert hluti af landi sem er inni á þessu svæði. Fyrir til dæmis Pólverja sem fær kannski fjörutíu til fimmtíu þúsund krónur útborgaðar í heimalandi sínu, þá er það stór og mikill bónus að vinna á lágmarkslaunum hér á Íslandi. Þetta getur auðvitað gert það að verkum að þeir sem hafa verið yfirborgaðir eru ekki eins eftirsóknarverðir starfskraftar í framhaldinu þegar þú getur fengið erlendan starfsmann á lægri launum. Þetta getur auðvitað skapað úlfúð og hvetur menn til þess að hækka taxtakaupið nær raunlaunum. Það er það sem menn hafa verið að horfa til núna í þessum nýju kjara- samningum. Þetta er held ég skýringin á því að það voru örfáir að vinna á þessum lágmarks- launum hér á landi en útlendingarnir koma hingað og eru tilbúnir að vinna á lágmarkstaxta. Það getur þýtt að það er minni eftirspurn eftir launþegum sem vilja hærri laun. Framboðið af vinnukrafti er meira en áður var hér á landi.“ Kristján: „Vinnumarkaðurinn breyttist mjög mikið hér suðurfrá þegar það var ekki hægt að manna flugþjónustuna og þá þurftu flugrek- endur að leita til Póllands, flytja inn hundruð starfsmanna þaðan beint til þess sinna þessum störfum. Auðvitað er verið að ráða allt þetta fólk inn á gildandi taxtakerfi. Í dag eru 75% starfs- manna eða meira af erlendu bergi brotið í hlað- þjónustunni í Leifsstöð.“ Guðbrandur: „Markmið Evrópusambandsins er að búa til svokallaða einsleitni, þannig að það verði eins að lifa í löndunum innan ESB, til þess að menn séu ekki að undirbjóða og nýta sér ódýrt vinnuafl annars staðar eins og menn hafa verið að gera. Kjarabaráttan er líka orðin alþjóðleg. Menn eru að reyna að bæta kjörin alls staðar þannig að það sé ekki verið að flytja fólk á milli landa til að láta það vinna á þrælakjörum eða fyrirtæki að flytja atvinnustarfsemi til annarra landa sem getur líka verið ógnun fyrir okkur ef menn eru að færa starfsemina úr landi.“ Verðum að vera víðsýn því allt er að breytast PÓLVERJAR EKKI DRAGBÍTAR Í STÉTTABARÁTTUNNI PÓLÍTÍKIN HEILLAÐI ÞÁ BÁÐA Kristján og Guðbrandur með sínu fólki þegar uppsagnir voru tilkynntar hjá flugþjónustufyrirtækinu Airport Associates seint á síðasta ári. Guðbrandur í ræðustól í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Kristján Gunnarsson hefur verið lengi í verkalýðsbaráttunni. 10 MANNLÍF Á SUÐURNESJUM

x

Víkurfréttir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.