Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 26.06.2018, Blaðsíða 7

Fréttir - Eyjafréttir - 26.06.2018, Blaðsíða 7
Eyjafréttir - 7Miðvikudagur 26. júní 2018 Fyrir rúmum tveimur árum síðan settist blaðamaður niður með Unnari Gísla Sigurmunds- syni, betur þekktur undir listamannsnafninu Júníus Meyvant, en tilefni þess samtals var þá nýútgefin plata hans Floating Harmonies. Umrædd plata sló eftirminni- lega í gegn og var hún t.a.m. valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í flokki popptónlistar árið eftir. Síðustu mánuði hefur Unnar Gísli endurnýjað kynnin við hljóðverið en verið er að leggja lokahönd á nýja plötu sem er væntanleg í haust. Í fyrra ákvað Unnar og kona hans Sigríður Unnur Lúðvíksdóttir að kaupa sér hús í Eyjum og setjast þar að eftir að hafa verið búsett í Reykjavík um árabil en saman eiga þau tvö börn, Sigurmund Gísla níu ára og Júlínu Von fjögurra ára. Í nýja húsinu tók Unnar á móti blaðamanni og ræddi við hann um nýju plötuna, ákvörðunina að koma aftur heim til Eyja og annað misgáfulegt. Í gegnum glugga í risi hússins, sem byggt var árið 1954, má sjá hvernig hraunið í gosinu 1973 hefur runnið yfir austurhluta bæjarins en storkn- aður hraunjaðarinn er nánast í bak- garði hússins. Í dag er svæðið þakið lúpínu og að því virðist nokkuð vinsæl gönguleið fyrir túrista sem eiga leið hjá. „Það er til ótrúlega flott ljósmynd af húsinu í gosinu sem Sigurgeir tók,“ segir Unnar og lýsir breytingunum sem hafa átt sér stað síðan í gosinu en bílskúrinn er líklega það eina sem hefur haldist í sinni upprunalegu mynd. Spurður út í aðdragandann að húskaupunum segir Unnar fjöl- skylduna hafa byrjað að líta í kringum sig síðasta sumar en fyrsta hugmynd Unnars var að leggja undir sig heila götu. „Mamma og pabbi búa í Suðurgerði 4 og við hliðina er náttúrulega Suðurgerði 2 og eru það einu húsin í götunni. Ég sagði því við konuna: „hversu flott væri að eiga heila götu?“. Vanalega stoppar hún mig af frekar harkalega en þarna sagði hún bara: „já, kíkjum á þetta.“ Við förum inn í húsið að skoða og okkur fannst það mjög flott en vorum bara ekki alveg að tengja þannig það náði ekki lengra. Síðan sér hún þetta hús og við ákveðum að skoða það líka. Við vorum bæði alltaf að reyna að finna eitthvað að en náðum því eiginlega ekki, okkur leið bara vel inni í húsinu og hér erum við í dag,“ segir Unnar en fyrir honum var rökréttast í stöðunni að eiga heimili í Vestmannaeyjum. „Vinna mín fer að mestu fram í útlöndum þannig það er gott að eiga stað á Íslandi þar sem ódýrt er að búa og nálægt fjölskyldunni. Svo jafnast ekkert á við náttúrufegurðina hér.“ Einnig spilar inn í barnvænlegt umhverfi. „Hér geta krakkarnir hlaupið um óbundin, það er mikill kostur. Ég man að ég var hér eins og villtur refur í æsku minni, hlaupandi um hraunið og niðri á höfn. Það eina sem mamma sagði var „ekki fara niður á höfn“ og það eina sem sat eftir hjá mér var „HÖFN“, það glumdi í hausnum á mér. Maður fór alltaf niður á höfn.“ Myndir þú segja að börnin væru líkt þér? „Simmi er bæði líkur mér og mömmu sinni, reyndar afa sínum og Guðmundi bróður mínum líka. Við höltrum t.d. allir án þess að vera meiddir í fætinum, göngum um eins og við höfum alist upp í Compton í Los Angeles. Þetta er svona Eyja-gangstera göngulag án þess að reyna að vera töff, við bara vöggum eins og mörgæsir,“ segir Unnar og heldur áfram. „Dóttir mín er mjög fyndin, þrjósk og skemmtileg. Hún er lík mér að því leyti að hún heyrir bara það sem hún vill heyra þannig það lendir alltaf allt á konunni.“ „Ég var náttúrulega bara trúður“ Einhverra hluta vegna berst samtalið að æsku Unnars og skólagöngunni en samkvæmt Unnari átti hann oft og tíðum erfitt innan veggja skólans þar sem allir eiga helst að vera steyptir í sama mót og lítill sveigjanleiki fyrir þá sem skera sig úr. „Ég var nátt- úrulega bara trúður, alltaf að djóka eitthvað og þannig séð vinur allra. Ég var fljótur að fatta það að mér fannst skemmtilegast að láta fólk fara að hlægja en ég var ekki beint besti nemandinn í skólanum og tók lítið eftir. Ég ákvað eiginlega bara á fyrsta skóladegi, vegna þess ég mátti ekki gera hvað sem er og átti að sitja kyrr, að þetta yrði leiðinlegt, enda mjög þrjóskur. Það voru mikil mistök hjá mér,“ segir Unnar og heldur áfram. „Ég missti mikið úr fyrstu árin og það var erfitt að koma til baka því ég hafði ekki grunninn. Skólakerfið sem slíkt er náttúrulega ekki sniðið að hverjum sem er en kennararnir voru samt allir af vilja gerðir og allir reyndu sitt besta við að hjálpa mér.“ Unnar segir athyglisbrestinn hafa háð sér töluvert í skólanum og að athyglin hafi oft hvarflað að einhverju allt öðru en því sem hann átti að einbeita sér að. „Ég var alltaf að teikna og það róaði mig. Þar lá hugurinn og ég vissi alltaf að ég yrði einhvers konar listamaður. Maður er það sem að maður leggur hugann við og ég lagði ekki hugann við skólann. Um leið og ég fann það sem ég vildi leggja hugann við þá brilleraði ég. Mér finnst Einstein orða þetta svo vel: „Allir eru snillingar. En ef þú dæmir fisk út frá hæfileikum hans til að klifra upp tré þá mun hann svo lengi sem hann lifir halda að hann sé heimskur.” Þannig var þetta með mig, mér fannst ég bara vera vitlaus af því ég var ekki góður í skóla. Þetta var mjög streituvaldandi þegar ég var yngri, ég horfði á stærðfræðibók og bókstaflega svitnaði,“ segir Unnar sem þóttist stundum vera sofandi þegar mamma hans ætlaði að hjálpa honum með heimanámið. „Ég lagðist á gólfið og mamma reyndi að draga mig upp á stólinn. Ég gerði þetta örugglega annan hvern dag.“ Stoppaði stutt í framhaldsskóla Þrátt fyrir erfiða tíma í grunnskóla ákvað Unnar samt sem áður að reyna fyrir sér í framhaldsskólanum þegar að því kom. „Þar gerði ég ekki neitt. Ég fór bara í skólann af því vinir mínir fóru í skólann. Þegar tveir mánuðir voru liðnir komst ég að því að ég var í raun að rústa skólagöngunni líka fyrir vinum mínum því ég var alltaf að sannfæra þá um að kíkja heim þegar það var mögulegt. Svo þegar mamma kom inn í herbergi var kveikt á tölvunni og sjö strákar sofandi, einhverjir í rúminu og hinir á gólfinu. Allir að skrópa.“ Eftir stutt stopp í framhaldsskóla vissi Unnar að hann yrði að finna sér eitthvað annað gera í lífinu en að vera í skóla, það var fullreynt. Þrátt fyrir að koma úr mikilli tónlistarfjölskyldu fann Unnar hins vegar ekki ástríðu sína fyrr en 21 árs gamall þegar hann fór fyrst að glamra á gítar. „Ég viss alltaf að ég vildi gera tónlist en ég vissi ekki að ég hefði það í mér. Ég þurfti eiginlega að ná ákveðnum botni til þess að byrja. Maður þarf eiginlega að vera hugsjúkur til að ná árangri í einhverju, fara alla leið.“ Fannst lífið búið 21 árs gamall Fannst þér þú hafa náð botninum þegar þú varst 21 árs? „Já, mér fannst lífið bara búið, ég var búinn að missa af öllu. Sem unglingur, fullur af eldmóð og hormónum, kemur stundum yfir mann slæm blanda af hroka og óöruggi og í þeim sporum dvaldi ég um stund. Ég vissi allt, kunni allt en vissi ekkert hvað ég vildi. Mér fannst ég hafa misst af lestinni. En svo bara fann ég þetta og ég er heppinn því það eru ótrúlega margir þarna úti sem vita ekkert hvað þeir eiga að gera og eru hræddir við að fylgja eftir draumum sínum. Síðan eru líkurnar einn á móti milljón að gera eitthvað í tónlist og ég er í raun enn þá að ströggla sem tónlistarmaður. En ég hætti ekkert að semja lög og var að klára nýja plötu núna í sumar,“ segir Unnar. Dagdraumarnir alltaf miklu stærri en veruleikinn Hvernig gengur að tvinna saman fjölskyldulífið og tónlistarferilinn þar sem fjarveran getur oft verið mikil. „Lengstu túrarnir eru svona upp í mánuð þannig þetta er í raun bara eins og sjómannslífið. En auðvitað er alltaf erfitt að fara frá fjölskyldunni,“ segir Unnar og bætir við að þetta líf henti honum þó ágætlega. „ Fyrir mig, mann sem er alltaf með heilan á fullu alls staðar, virkar þetta mjög vel, maður er bara að gera eitt á túr. Margir halda að þetta sé geggjað en það er ekki svoleiðis. Dagdraumarnir eru alltaf miklu stærri en veruleikinn. Þetta er bara vinna, maður er í rútu, vaknar á nýjum stað og það er alltaf sama rútínan í gangi. Við kíkjum á tónleikastaðinn, stillum upp, förum í hljóðprufu og bíður þangað til tónleikarnir byrja. Þegar búið er að spila þá pökkum við saman og förum aftur í rútuna. Þar fara menn í playstation, horfa á mynd og fara síðan að sofa. Ég fer reyndar alltaf fyrstur í háttinn, því ef ég fer að láta eins og strákarnir, garga og fá mér bjór þá er röddin mín bara farin. Eftir klukkan tíu hætti ég eiginlega alveg að tala því annars fer ég að hljóma eins og sjóræningi, það brakar í mér eins og í kaffivél.“ Plata á leiðinni Eins og fyrr segir er ný plata á leiðinni sem er væntanleg í haust en líklega mun þó einhver lög fá að hljóma í útvarpi strax í sumar. „Platan er þannig séð tilbúin en hún kemur í september eða október. Ég tók upp 14 lög en reikna með að platan verði 11 eða 12 lög. Upphaflega ætlaði ég að taka upp 17 lög en rann eiginlega út á tíma, þetta tekur allt sinn tíma í hljóðverinu. Ég ætla alltaf að hafa allt svo einfalt, ég einn með gítarinn og svona eða bara instrumen- tal lög en svo fer ég alltaf í ruglið og bæti við sönglínum og þess háttar. Svo breytist ferlið bara stundum þegar maður byrjar, eins og í öllu öðru.“ Úr 60´s í 70´s Verður tónlistin sjálf frábrugðin því sem finna má á Floating Harmon- ies? „Já, hún verður smá öðruvísi en það er alveg Júníus-bragur á henni. Ætli ég sé ekki kominn aðeins meira inn í 70´s úr 60´s. Ég reyni að fylgja gamla „sound-inu“ og vera trúr sjálfum mér. Eiginlega allt sem ég fíla er tekið upp á analog-tape vélarnar og smá skítugt,“ segir Unnar sem mun þurfa að breyta örlítið skipan hljóm- sveitarinnar en hingað til hafa bræður hans liðsinnt honum töluvert. „Óli bróðir er að fara í skóla þannig maður þarf að fá eitthvað nýtt blóð inn. Í hljóðverinu fékk ég alveg fullt af liði til að hjálpa mér, fullt af mjög góðum tónlistarmönnum því ég veit að ég er fyrst og fremst lagasmiður en ekki hljóðfæraleikari. Ég er svona „fake it til you make it“ týpa og hef minn stíl. En ég þekki mín mörk og fæ bara menn í að gera hluti sem tæki mig heilan dag í að mastera, eitthvað sem tekur þá eina mínútu.“ Það hefur vakið athygli að allir þrír bræður Unnars hafa starfað með honum á einhverjum tíma- punkti, annað hvort á sviði eða í hljóðveri. Einar, sem er elstur, spilar á gítar, Ólafur, sem er næst yngstur, spilar á hljómborð og svo Guð- mundur, sem er yngstur, en hann spilar sömuleiðis á hljómborð í hljómsveitinni. „Við Guðmundur er líkir að því leyti að við erum báðir lagasmiðir. Við erum líka óþolandi þar sem við getum báðir spilað sama hljóminn í sex klukkutíma. Fyrir okkur er það gaman en allir aðrir hugsa: „ætlar hann ekkert að hætta að spila akkúrat þetta á gítarinn?“. Óli og Einar eru aftur á móti mikil séní á hljóðfæri, geta pikkað upp allt og mjög fljótir að því og almennt mjög góðir spilarar,“ segir Unnar. Eins og fyrr segir er 70´s einkenn- andi fyrir nýju plötuna en að öðru leyti er hún ekki innblásin af neinu sérstöku að sögn Unnars. „Tónlistin kemur oftast þegar ég er á hreyfingu og er að gera eitthvað.“ Ertu þá að semja á túrum? „Nei, maður semur lítið á túrum en það kemur alveg fyrir. Ég er í raun alltaf eitthvað að semja nema rétt eftir að ég klára plötu, þá fæ ég algjört ógeð. Ég þarf alveg smá tíma til að rétta mig við og það er fínt að HM sé í gangi til að dreifa huganum en maður nær ekki að slökkva mikið á sér þegar Íslands er að keppa, þá fær maður eiginlega bara hjartaáfall.“ Ekki farinn að huga að myndböndum Fyrir útgáfu Floating Harmonies gerði Unnar myndband við lagið Neon Experience þar sem náttúra og mannlíf Vestmannaeyja var í fyrirrúmi. Aðspurður hvort hann hygðist gera annað slíkt sagði Unnar ekkert ákveðið í þeim efnum að svo stöddu. „Ég veit í raun ekkert hvernig myndband ég mun gera. Ég byrja alltaf á að koma með einhverjar tíu hugmyndir sem mig langar að gera en mennirnir sem eru á bakvið myndavélina segja oftast: „þetta er rosa góð hugmynd, ef þú ættir tíu milljarða.“ En að öllu gríni slepptu þá hugsa ég bara um að koma tónlistinni út og ef tónlistin er ekki góð þá er ekkert myndband.“ Lífið of stutt fyrir stress En verður þú stressaður fyrir því hvernig viðtökur tónlistin þín fær? „Nei, lífið er of stutt til að vera stressaður. Auðvitað er einhver þarna úti sem finnst þetta ekki nógu gott. En þegar ég veit að ég gerði mitt besta og gat ekki gert meira, þá skil ég sáttur við lögin mín. Ef maður veit það í hjarta sínu að maður gerir sitt besta þá er maður bara sigurvegari,“ segir Unnar og kveðst vera ánægður með afrakstur- inn. „Það eru nokkur lög þarna sem eru mjög góðir kandídatar í að vekja athygli og ég er ánægður með. En maður gerir þetta líka bara fyrir ánægjuna.“ Stefna á túr í haust Í haust er stefnan sett út fyrir landsteinana þar sem Bandaríkin verða meðal áfangastaða. „Við byrjum í Evrópu og förum síðan til Bandaríkjanna en Bandaríkjamenn eru þeir sem hlusta mest á mig af öllum, maður sér það bara á sölu og öðru. En það er ofboðslega erfitt að fara þangað, maður þarf að eiga einhvern smá pening og helst góða vini sem þekkja vel til þar. Þetta er bara almennt séð dýr markaður,“ segir Unnar. Það liggja einnig möguleikar í því að túra með öðrum og segir Unnar það alls ekki ólíklegt í framtíðinni. „Maður gerir það eflaust á endanum en ég hef þegar sagt nei við nokkra. Á tímabili vorum við að gæla við það að túra með Charles Bradley en síðan veiktist hann af krabbameini og dó í fyrra. Við vorum virkilega spenntir fyrir því að túra með honum.“ Útgáfutónleikar í haust Fyrsta lag af nýju plötunni er væntanlegt í spilun í júlí en næstu tónleikar verða hins vegar ekki fyrr en í haust. „Ég ætla bara að æfa bandið vel áður en við förum að túra en áður mun ég halda útgáfu- tónleika hér í Eyjum með alvöru bandi og svo náttúrulega líka uppi á landi,“ segir Unnar að lokum. EiNAR KRiStiNN HELGASoN einarkrist inn@eyjafrett ir. is ” Ég vissi allt, kunni allt en vissi ekkert hvað ég vildi. Mér fannst ég hafa misst af lestinni. En svo bara fann ég þetta og ég er heppinn því það eru ótrúlega margir þarna úti sem vita ekkert hvað þeir eiga að gera og eru hræddir við að fylgja eftir draumum sínum. Unnar Gísli eða Júníus Meyvant sló upp myndlistarsýningu og miðnæturtónleikum í gamla Ísfélagshúsinu á síðust Goslokahátíð. Mætingin á tónleikana var vægast sagt góð og var fullt út dyrum og rúmlega það.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.