Skessuhorn


Skessuhorn - 31.10.2006, Blaðsíða 12

Skessuhorn - 31.10.2006, Blaðsíða 12
12 MIÐVIKUDAGUR 31. OKTÓBER 2006 s „Eg vildi vera ung kona í dag“ segir Elísabet Guðmundsdóttir frá Skiphyl - og segir tækifærin ævintýralega mörgfyrir ungtfólk í dag Á björtum vordegi árið 1963 þurfti sá er þetta skráir, þá korn- ungur, að fara niður að Skiphyl í Hraunhreppi á Mýrum. Skiphylur er við Hítará, neðarlega í sveitinni. Farartækið var nýlegur Land Rover jeppi. Til að komast niður- eftir þurfti að setja keðjur á bílinn vegna aurbleytu. Þegar á bæinn var komið voru góðar móttökur hjá þeim systkinum Elísabetu Guð- mundsdóttur og bróðir hennar Jóni. Þetta var skrásetjara minnis- stæð heimsókn og ákvað því að endurnýja kynnin við Elísabetu eina dagsstund fyrir skömmu og biðja hana að rifja upp gamla tíma vestur á Mýrum. Nú árið 2006 er Jón bróðir fallinn frá fýrir nokkru en Elísabet nýtur efri áranna í Borgarnesi, grúskar meðal annars í tölvunni sem hún lærði fyrst á þeg- ar hún var komin á níræðisaldur. Fráfærur og reyktir stórgripaleggir Elísabet Guðmundsdóttir er fædd 10. janúar árið 1911. Hún man því tímana tvenna og minnið er glöggt. Þó segir hún að manna- nöfn og ártöl standi dálítið í sér, en ekki lengi. Hún er fýrst spurð hver sé hennar fyrsta minning? „Tvímælalaust eru ffáfærurnar mér minnisstæðar frá æskudögum. Eg var 10 ára þegar þeim var hætt. Þetta var yfirleitt um mánaðamót- in júní-júlí. Þá voru lömbin rekin á fjall en ánum haldið heima, ekki öllum, svona um 50 og þær mjólk- aðar tvisvar á dag. Oftast voru ein- hverjir strákar úr Reykjavík sem sátu yfir ánum á daginn og komu svo stundvíslega með ærnar til mjalta á kvöldin. Þá voru engar klukkur en alltaf komu þeir á rétt- um tíma. Ur ærmjólkinni var gert smjör til að greiða afgjald eftir jörðina sem afi minn átti og einnig skyr sem var talsvert grófara en það skyr sem við þekkjum í dag frá mjólkur- kúm. Skyrið var sýrt og geymt til vetrarins. Þá var það borðað, hrært saman við hafragraut. Þetta var borðað með kjötsúpu úr söltuðu ærkjöti. Nánast allt hrossakjöt var saltað en hluti þess reykt. Öll stór- gripabein voru reykt, þau voru kölluð hraun. Beinin voru síðan soðin og nöguð þar til allar tægjur á þeim voru uppurnar, hvort sem var um að ræða kjöttætlur eða sinar. Allt slátur sem til féll var nýtt og súrsað. Lappir, lundabaggi og svið; allt nýtt. Slátrið var súrsað og því komið fyrir í tunn- um. Brætt var flot og sett yfir í tunnunum áður en þeim var lokað. Þannig geymdist slátrið mun betur.“ Elísa- bet rifjar þetta allt upp, hægt og skýrt og engu líkara en þetta hafi verið í gær, svo ofarlega er þetta henni í minni. En hvað með önnur aðföng á þessum tímum, gaf ekki sjórinn og áin, sjávarfang, silung og lax á þessum árum? ,Jú, auðvitað, afi átti alltaf bát og veiddi lúðu í ósnum, silungur og lax veiddist í net. Það voru bát- ar tilheyrandi flestum bæjum, því verslunin var í Kóranesi í Straum- firði. Við fórum stundum krakk- arnir á móti bátnum hér niður með ánni og fengum far, því hægt var að sigla þegar stórstreymt var, al- veg inn undir bæinn. Annars var farið að leigja ána á unglingsárum mínum og ég man eftir Jóhannesi á Hótel Borg. Hann byggði veiðihús við Brúarfoss, þar sem vegurinn vestur á Nes fer yfir ána. Nú eiga bændurnir veiðihúsið,“ segir Elísa- bet. Frost, snjór og lýðveldisstofhunin „Svo vikið sé aftur að fyrstu minningunum, man ég óljóst eftir frostavetrinum 1918, þeim fimb- ulkulda en man vel eftir snjóavetr- inum mikla 1920. Það var haglaust má segja, frá hausti og fram á sum- ar. Þá voru engar fyrningar til á bæjunum og þurfti að gefa mikið mjöl. Á Skiphyl varð ekki fellir en það var víða hér um slóðir. Þó ég muni lítið eftir frostavetrinum mikla, man ég vel eftir vetrinum 1916-17. Félagar í ungmennafé- laginu Birni Hítdælakappi höfðu samið og settu upp leikritið „Bón- orðið.“ Það var æft á bæjunum í kring og einu sinni á heimili for- eldra minna. Svo kom sýningin á Lækjarbug í janúar 1917. Eg fékk að fara enda veður gott. Þegar sýn- ingunni var lokið var klappað. Þetta var stórkostleg tilfinning sem kom yfir mann að heyra og sjá allt fólkið klappa. Það situr svo í mér rétt eins og gerst hafi í gær. Svo sitja húslestrarnir á kvöldin í minningunni. Pabbi kom einu sinni með „1001 nótt,“ mér er sú bók afar minnisstæð. Það er mér líka í fersku minni, lýðveldisstofn- unin árið 1944. Það var svo skemmtilegt hve einhugurinn var mikill. Við fórum nokkur úr sveit- inni til Þingvalla. Ásmundur á Grund í Kolbeinsstaðahreppi átti mjólkurbíl með hálfkassa. Við tók- um hann á leigu í 3 daga og fórum á honum. Eg man að það var grenjandi rigning þegar við fórum austur. Eg man eftir fólkinu úr Hvítársíðunni. Það var á vörubíl. Fólkið stóð prúðbúið á pallinum í lemjandanum. Eg hygg að það hafi flest farartæki verið notuð til að komast á Þingvöll, þaðan sem þess var kostur. Þetta er ógleymanlegt, þessi mikla og hlýja samstaða. Það er ekki oft sem hún næst svo órof- in hér á Islandi," segir Elísabet og bætir við að úr þessari eftirminni- legu ferð á Þingvelli séu enn á lífi Bogi og Guðbjörg á Brúarfossi og Jó- hann á Kálfalæk. Þriðja flokks símstöðvar Hvernig þróuð- ust rafmagns og símamál á Mýrum og hvað með sam- göngur? „Elsta leiðin lá upp undir fjalli. Fyrst þegar ég man efrir mér var kom- inn vegur um Brú- arfoss hér fyrir ofan, ekki merki- legur svosem en þetta var notað. Niður að Skiphyl var ekki gerður al- mennilegur vegur fyrr en um 1970. Síminn til Ólafs- víkur var lagður vestur Mýrar 1922. Þá voru settar upp afgreiðsl- ur síma á Langárfossi, Arnarstapa og Brúarfossi. Þetta voru kallaðar þriðja flokks stöðvar. Þær voru opnar tvo tíma á dag, einn árdegis og einn síðdegis. Á þessar stöðvar þurftum við að fara til að hringja. Eg man ekki fýrir víst hvenær sím- inn kom í Skiphyl, man þó að þeg- ar íbúðarhús var byggt 1952-53 var síminn ekki kominn. Kvenfélagskonur fóru og hittu þingmennina Varðandi rafmagnið er talsverð saga að segja frá því. Kvenfólkið stóð fyrir Jdví að ýta á að rafmagn- ið kæmi. Eg og fleiri konur boðuð- um fund í kvenfélögunum milli Langár í suðri og Kaldár í norðri og ræddum rafmagnsmálin, þetta var á árunum fyrir 1970, því það ár kom rafmagnið. Víða voru búnar að vera nokkuð lengi dísilvélar sem voru orðnar úr sér gengnar. Það voru stofnaðar rafmagns- nefndir. Við fórum konurnar með körlunum á fund þing- manna suður í Alþingi árið 1969. Við hittum þar m.a. Halldór E. Sigurðsson, Jón Árnason, Friðjón Þórðarson og Ásgeir Bjarnason í Ásgarði í Dölum. Haustið eftir kom svo rafmagnið. Hrepparnir hjálpuðu hér með lánafyrir- greiðslu til að flýta fyrir. Vatnsmál hér voru líka í ólestri. Víðast hvar hálfgert hland. Við konurnar tókum virkan þátt í að ferskt, gott vatn var lagt um hreppanna, tekið ofan úr Grímsstaða- múla. Á þessum árum var ein kona í hreppsnefnd; Ingi- björg á Ökrum, ég fékk stundum nokkur atkvæði en náði ekki kjöri í hreppsnefnd. Það hafa orðið miklar breytingar á tíðar- anda frá því þá var og er nú. Nú í dag er gaman að vera ung kona, það eru svo miklir möguleikar fyr- ir unga fólki, alveg með ólíkindum. Eg gæti svo vel hugsað mér að vera ung í dag og nýta mér tækifærin sem í boði eru,“ segir Elísabet. Áfallá kyndilmessu 1975 En hvað með samskiptin við hitt kynið Elísabet? Nú giftust þið systkinin ekki að undanskilinni einni systurinni? „Ung var ég afar heimakær og feimin og við flest systkinin. Við systurnar vorum fjórar og svo Jón bróðir. Nám mitt varð aldrei meira en farskólinn. Aldrei fór ég neitt til náms. Reyndar hygg ég að hann afi minn hafi verið mér betri en eng- inn. Hann var stöðugt að fræða mig, áhugi minn var mikill og minnið gott, aðstæður voru frekar erfiðar þegar við vorum ung. Pabbi var sjúklingur árum saman, síðustu sex árin rúmliggjandi heima. Það var því ekki hugsað um annað en heimilið og búskapinn. Eg held að það hafi verið pipar í blóðinu okk- ar.“ Elísabet er hugsi og bætir við. „Það var þó okkar lán að eignast systurson, Guðmund sem giftist Lilju Jóhannsdóttur frá Kálfalæk. Þau tóku við búskapnum í Skiphyl. Þau áttu orðið tvö börn þegar við urðum fyrir þungu áfalli. Á kyndil- messu, í byrjun febrúar árið 1975 brann íbúðarhúsið. Það brann allt sem brunnið gat. Það kviknaði í út frá rafmagni að morgni til. Jón gat rétt náð að hringja á næsta bæ og láta vita af brunanum. Við stóðum allslaus á hlaðinu. Við fengum skúra hjá Vegagerð ríkisins sem við höfðum að láni þar til nýtt íbúðar- hús var teldð í notkun. Þetta var erfitt tímabil. Sem betur fer hefur allt blessast síðan,“ segir Elísabet. Eitt sumar í Fljótshverfi „Það verður þó að geta þess að ég hef þó farið í aðra landshluta sem ferðamaður," hér hlær Elísa- bet og bætir við: ,Já, einnig var ég í kaupavinnu eitt sumar á Kálfafelli í Fljótshverfi. Fór austur um vorið og heim aftur um veturnætur. Þetta var afar skemmtilegur tími. Selflutt austur, ekki voru þá brýrn- ar. Það var hinsvegar lítið í ám um haustið. Þannig komst ég með sama bílnum alla leið að austan og til Reykjavíkur.“ Fékk skæri í auga I spjallinu við viðmælanda hefur Elísabet vinstra augað lokað að mestu. Spurt er hvers vegna? „Eg var þriggja ára þegar ég rak skæri í vinstra augað og hef ekki séð með því síðan. Framan af ævi var skemmda augað opið þegar það átti við en hin síðari ár hefur augn- lokið sigið yfir. Eg komst þó í gegn um farskólann," hún hlær við. En nú færist talið til áhugamál- anna. Elísabet er sílesandi og skrif- andi. „Eg byrjaði snemma að setja sam- an texta sem mætti leika á sviði. Á Skiphyl var vinnukona þegar ég var lítil, Sigríður Gottskálksdóttir. Hún hafði mikin áhuga fyrir leiklistinni og ég drakk í mig allt sem hún sagði þegar verið var að æfa eitthvað heima. Síðan fór ég að smða að sviði texta úr sögum og leikritum. Nú þegar sjónin er ekki eins skörp, þyk- ir mér notalegt að fá texta á spólum og nýti mér það óspart." Elísabet fór snemma að leika sjálf á sviði, fyrst í heimahúsum en síðar í bragganum á Amarstapa og svo í Lyngbrekku. „Bjarni Ásgeirsson, al- þingismaður útvegaði hingað stóran bragga frá setuliðinu sem komið var fyrir hjá Arnarstapa. Þar lékum við hluta úr leikritum eða eitthvað sem við höfðum soðið saman úr ein- hverjum sögum. Jón bróðir minn hafði einnig mjög gaman af þesstun leikaraskap. Það voru haldnar mjög fjölmennar samkomur í bragganum. Það kom fólk úr hreppunum báðum, Álftaneshreppi og Hraunhreppi en einnig vestan að, úr Kolbeinsstaða- hreppi og jafnvel enn vestar. ..Og einnig í kvikmyndum Svo var það einhverntíman að Snjólaug á Brúarlandi kom gangandi frá Lækjarbug, sem er næsti bær fyr- ir ofan Skiphyl. Það var mikil ófærð og varla fært nema fuglinum fljúg- andi. Hún flutti þau tíðindi að það vantaði leikara í kvikmynd sem Hrafn Gunnlaugsson ætlaði að gera. Við fórum ellefu í prufutökur héðan af svæðinu. Jón ætlaði ekki að gefa sig í þetta en harm lét sig þó. Við vorum svo upp í Hvítársíðu, héldum til í félagsheimilinu Brúarási við Stóra Ás, þar var legið í flatsæng á meðan tökur stóðu yfir á Kolsstöð- um í Hvítársíðu. Þetta var kvik- myndin „Óðal feðranna." Aftur síð- ar leitaði Hrafn Gunnlaugsson til okkar. Eg fór suður og hélt til í Gróttu. Farið var nokkuð víða í upp- tökur. Til varð kvikmyndin „Hin Helgu vé“ sem fékk góða dóma. Loks leitaði Hrafn í þriðja sinn til mín og vildi að ég léki í „Hrafninn flýgur“. Eg treysti mér ekki til þess og hef ekki verið í kvikmyndaleik síðan.“

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.