Breiðholtsblaðið - jún. 2015, Blaðsíða 10

Breiðholtsblaðið - jún. 2015, Blaðsíða 10
10 Breiðholtsblaðið JÚNÍ 2015 Bernskuminningar úr Breiðholtinu Ég te l mig innfæddan Breiðhylting. Þegar ég fæddist voru foreldrar mínir ung og voru að leita sér að möguleikum til þess að stofna heimili. Efra Breiðholtið var þá í byggingu og fremur auðvelt að koma sér upp húsnæði. Þau stofnuðu heimili í Möðrufellinu. Þetta var svolítið öðruvísi en í gömlu Reykjavík. Umhverfið var enn hrátt og í talsverðri vegalengd frá miðbænum en fjölskyldan vandist fljótt við að búa þarna. Ég átti heima þarna efra allt þar til að ég fór að heiman þá komin yfir tvítugt. Þegar ég stofnaði mína fjölskyldu festum við kaup á íbúð í Grafarvoginum og höfðum engar sérstakar hugmyndir að fara þaðan. Íbúðin í Grafarvogi var bara tveggja herbergja að þegar fjölgaði í fjölskyldunni knúði það á um að leita að rýmra húsnæði. Við fórum að líta í kringum okkur en vorum samt ekki að horfa á Breiðholtið – allavega ekki sérstaklega. Við vorum búin að skoða nokkuð af húsnæði þegar við rákumst á íbúð í Fífuselinu í Breiðholti. Við slógum til og festum kaup á henni. Ég hef stundum sagt að það sé eins og okkur hafi verið stýrt þangað. Okkur hefur liðið mjög vel og börnin notið þeirra frábæru þjónustu sem er í boði – bæði í Jöklaborg og Seljaskóla. Þarna fer fram skólastarf sem að mínum dómi er með því besta sem gerist þótt ég hafi ef til vill ekki nægan samanburð til þess að dæma um það. Við erum með börn á báðum þessu stöðum. Sá yngsti er enn í Jöklaborg en byrjar í Seljaborg í júní. Við eigum annan strák sem er í sjöunda bekk og dóttir okkar lýkur 10. bekknum í vor og stefnir á nám við MS á komandi hausti. Sérstakt reykherbergi Ég var í Fellaskóla og á góðar minningar þaðan. Við tengdumst vel stelpurnar og ég á 14 vinkonur frá þeim tíma. Við hittumst enn einu sinni í mánuði og gerum einnig ýmislegt saman eins og að fara í útilegur. Þarna mynduðust tengsl. Þetta er skemmtilegur hópur og heldur vel saman. Það var mikill kraftur í Fellaskóla á þessum tíma og áhersla lögð á að halda uppi öflugu félagsstarfi. Mikið var um leiklistarstarf og Fellahellir var nýlunda í skóla- og ungmennalífinu. Þar starfaði frábært fólk sem hélt utan um krakkaskarann og ég man að þar var sérstakt reykherbergi þar sem krakkar, umsjónarmenn og Valný komu saman og reyktu. Nokkuð sem ekki yrði liðið í dag. Hugsunarhátturinn er breyttur. Það var mikið leiklistarlíf og við settum m.a. upp Eldfærin sem var mjög flott. Krakkarnir allir látnir gera leikmunina sjálfir og mikið lagt í þetta. En Litla stúlkan með eldspýturnar hafði verið sett upp áður þá var ég of ung til að taka þátt og það leikrit var tekið upp og sýnt í sjónvarpinu. Leiklistarstarfið var að miklu leyti Ágústi Péturssyni kennara að þakka og við græddum mikið á að hafa hann starfandi við skólann. Úr Fellaskóla í FB Ég fór ekker t langt . Úr Fellaskóla yfir í FB. Við fórum flest þangað og þau sem fóru eitthvað annað komu mörg til baka og luku framhaldsskólanum í FB. Ákveðin samkennd einkenndi svo marga krakka úr Breiðholtinu. Ég hygg að þetta hafi verið víðar – til dæmis í Árbænum en sá borgarhluti byggðist nokkuð hratt upp líkt og Breiðholtið. Annars er ekki rétt að tala um Breiðholtið sem eitt hverfi eða eina byggð. Það stendur saman af fjórum og jafnvel fimm mismunandi hlutum og mismunandi skipulagshugsun liggur að baki þeirra. Þau voru byggð með ólíkar þarfir fólks í huga með það fyrir augum að Breiðholtið sem heild biði upp á breytileika mannlífsins og þar væri verið að koma til móts við marga og ólíka einstaklinga og hópa. En því miður vilja sumir setja þessa rúmlega 20 þúsund manna byggð undir einn hatt. Okkur sem búum í Breiðholtinu finnst stundum erfitt að hlusta á þær raddir sem hverfið tala niður til þess vegna þess að við sem búum þar vitum betur. Já – miklu betur. Og þetta hefur áhrif út fyrir hverfið. Til dæmis á fasteignaverð sem oft hefur verið í lægri kantinum miðað við aðra borgarhluta. Fjölmenningarsamfélagið er að þróast og taka á sig skemmtilega mynd. Það hefur líka verið unnið með markvissum hætti að auðvelda fólki víðs vegar að úr heiminum að aðlagast íslenskum aðstæðum. Efla þekkingu þess á íslensku og þjóðfélagslegum venjum Íslendinga. Stjórnendur Fel laskóla hafa að öðrum ólöstuðum unnið mjög gott starf að þessu leyti. Tók iðjuþjálfunina í fjarnámi Ég hætti í skóla eftir FB. Var ekki alveg viss um hvað ég vildi læra og svo fórum við að koma okkur upp húsnæði og að eignast eldri börnin. En eftir að ég náði þrítugsaldrinum réttara sagt orðin 32 ára var ég orðin viss um hvað ég vildi gera. Ég ákvað að læra iðjuþjálfun. Iðjuþjálfun var ekki kennd í Reykjavík. Lengi ekki hér á landi og margir fóru til Svíþjóðar eða Danmerkur til þess að læra. Svo var farið að kenna hana við Háskólann á Akureyri og ég lærði allt í fjarnámi fyrir utan að þurfa að fara í vikulangar lotur tvisvar á önn. Ég ákvað síðan að fara að starfa í Skógabæ. Það er mikill kostur að starfa nálægt heimilinu og ég sé mig geta gert góða hluti í starfi mínu hér. Iðjuþjálfun er eitt það helsta sem tafið getur áhrif heilabilunar og nauðsynlegt að nýta hana til þess að tefja fyrir þjáningum fólks. Ég geng líka í vinnuna þegar verður leyfir en ég nýti oftast heimferðina til þess að sækja son minn í leikskólann og það ræður stundum fararmátanum. Ég myndi frekar ganga heim í vondu veðri ef ég væri ekki að sækja hann. Það er drjúgur spotti fyrir barn á leikskólaaldri sem er orðið þreytt eftir langan dag. Nei – ég fór ekki sjálf í leikskóla. Reyndar í þrjár vikur en var ekki sátt við hann og gafst þá upp. Móðir mín starfaði sem dagmamma á þeim tíma og bætti mér bara í hópinn. Ég var svona í heimaleikskóla. Gróðurinn og fjölmenningin mesta breytingin Þegar ég fer að hugsa um hvað hafi breyst í Breiðholti frá þeim tíma þegar ég var alast upp kemur ekkert eitt í hugann en hugsanlega er það gróðurinn og fjölmenningin sem ekki var til staðar þegar ég var að alast upp. Þá var allt í uppbyggingu og mikið af spýtum út um allt sem við krakkarnir nýttum okkur í leik og vorum dugleg að bjarga okkur með þær. Ég man að við þurftum alltaf að passa okkur á að stíga ekki á nagla sem fóru auðveldlega í gegnum strigaskónna en þær voru ekki ófáar naglaspíturnar í þá daga. Nú er þetta orðið vel gróið og það segir mér að ég sé kannski bara orðin svolítið gömul. Byggðin er orðin gróin. Það er tré í garðinum hjá okkur og konan sem seldi okkur húsið hafði gróðursett það. Hún sagði okkur að þegar hún hafi fest kaup á plöntunni og verið spurð hvar hún byggi hafi henni verið tjáð að ekki þýddi að fara með tré þangað upp eftir því þar yxi ekkert. Nú er tréð orðið stórt og fallegt. Fjölmenningarsamfélagið nær ekki eins inn í Seljahverfið og hina hluta Breiðholtsins en þó býr eitthvað af aðfluttu fólki þar. Ég man að þegar ég var að alast upp sá maður varla fólk frá öðrum löndum. Þegar ég var unglingur á leið til Spánar að starfa sem au pair um tíma þurfti ég að millilenda á Heathrow í London. Og hvað ég varð hissa að sjá allan þann fjölbreytileika sem einkenndi þennan stóra flugvöll. Hina fjölbreyttu flóru mannlífsins. Ef til vill er fjölmenningin mesta breytingin í Breiðholtinu. Hefur elst vel Það er ekki mikið rót á Breiðholtinu. Byggðin er komin í fastar skorður og mannlífið aðlagast frá einum tíma til annars. Þótt við höfum ekki ætlað okkur í Breiðholtið þegar við þurftum að flytja úr litlu íbúðinni í Grafarvoginum þá erum við mjög ánægð með hafa komið hingað. Við höfum stækkað við okkur aftur og þá kom ekkert annað til greina en að halda sig í hverfinu, okkur líður svo vel í Seljahverfi. Breiðholtið hefur elst vel og reynst okkur vel. Breiðholtið hefur elst vel Valný ásamt skólasystrum sínum og vinkonum sem halda hópinn enn þann dag í dag. Valný Óttarsdóttir iðjuþjálfi í Skógarbæ rifjar Breiðholtsæskuna upp að þessu sinni. Hún var þriggja vikna þegar hún fluttist í Breiðholtið með foreldrum sínum sem eins og margir aðrir fundu möguleika til þess að koma sér upp heimili í þessu nýja byggðarlagi. Valný flutti um tíma úr Breiðholtinu eftir að hún stofnaði sjálf heimili og segir það ekki hafa verið á stefnuskránni að fara þangað aftur. En þegar fjölskylda hennar stækkaði og finna þurfti hentugra húsnæði varð Seljahverfið fyrir valinu. „Það er eins og okkur hafi verið stýrt þangað,“ segir hún í samtali við Breiðholtsblaðið. Valný Óttarsdóttir iðjuþjálfi í Skógabæ.

x

Breiðholtsblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Breiðholtsblaðið
https://timarit.is/publication/1113

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.