Breiðholtsblaðið - apr. 2018, Side 10
10 Breiðholtsblaðið APRÍL 2018
Allir keppendurnir sem tóku þátt í Stóru upplestrarkeppninni
í Breiðholtskirkju. Eric Gerritsen úr Ölduselsskóla er lengst til
vinstri en hann var í öðru sæti keppninnar. Mynd af Daníel Blæ
og Ísabellu Ósk úr Hólabrekkuskóla er á forsíðu.
Stóra upplestrarkeppnin
í Breiðholti
Lokahátíðin í Breiðholti var haldin í Breiðholtskirkju
fimmtudaginn 22. mars. Tíu nemendur, tveir frá hverjum skóla
lásu upp ljóð og sögur en skáld keppninnar að þessu sinni voru
Sigrún Eldjárn og Ólafur Jóhann Sigurðarson.
Nemendurnir stóðu sig allir afskaplega vel og valdi dómnefnd
Daníel Blæ Þórisson úr Hólabrekkuskóla sem sigurvegara. Í
2. sæti var Eric Gerritsen úr Ölduselsskóla og í 3. sæti Ísabella Ósk
Kristínardóttir úr Hólabrekkuskóla. Nemendur í Breiðholti sungu,
dönsuðu og spiluðu á hljóðfæri á milli atriða. Allir skólar á landinu
taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni sem hefst á degi íslenskrar
tungu þann 16. nóvember og lýkur með lokahátíð í hverju hverfi
borgarinnar og í öllum sveitarfélögum. Allir nemendur í 7. bekk æfa
upplestur markvisst allan veturinn og keppnir eru haldnar í öllum
skólum þar sem nemendur eru valdir til að keppa á lokahátíðinni
fyrir hönd skólans síns.
Allir stóðu sig vel
Vel miðar byggingu tveggja
fjölbýlishúsa sem Félag eldri
borgara er að reisa við Árskóga
í Mjóddinni. Uppsteypa annars
þeirra er langt komin og hitt
húsið hækkar óðum. Gert er
ráð fyrir að alls verði 68 íbúðir
í húsunum og að þær verði
tilbúnar til afhendingar á fyrri
hluta næsta árs.
Í upphafi var gert ráð fyrir
fjögurra hæða húsum en eftir
að deiliskipulagi var breytt var
ákveðið að bæta einni hæð við
en hafa hana inndregna. Fyrir
áratug var samþykkt að byggja
100 íbúðir í Suður Mjódd fyrir
eldri borgara þar sem ljóst var
að mikil þörf væri fyrir húsnæði
fyrir þennan aldurshóp. Nú þegar
bygging 68 íbúða er að komast í
höfn er Félag eldri borgara að leita
eftir því hvort hægt verði að fjölga
íbúðum á þessu svæði eða í næsta
nágrenni og ná þannig 100 íbúða
markinu eins og gert hafi verið
ráð fyrir með skipulaginu frá 2008.
Hús eldri borgara þjóta upp
Eins og sjá má á þessari mynd er uppsteypa húsa Félags eldri borgara
við Árskóga langt komin.
Nemendur í 9. og 10.
bekk Ölduselsskóla tóku
þátt í Skólahreysti og gerðu
sér lítið fyrir og unnu sinn
riðil sem tryggir þeim sæti
í úrslitakeppninni.
Glæsilegir fulltrúar
Ölduselsskóla eru Ástþór
Árni, Altina Tinna, Magnea og
Björn Máni auk varamannanna
Margrétar Júlíu og Sveins Loga.
Úrslit í Skólahreysti fara fram
í Laugardagshöllinni þann
12. maí n.k.
Unnu sinn riðil í Skólahreysti
Þátttakendur Ölduselsskóla
í Skólahreysti.
Föstudaginn 6. apríl var Blái dagurinn
haldinn um allt land. Þá er fólk hvatt til
að klæðast bláu, til stuðnings börnum
með einhverfu.
Börnin á frístundaheimilinu Bakkaseli
létu sitt að sjálfsögðu ekki eftir liggja, enda
er lífið blátt á mismunandi hátt hjá okkur
í Breiðholtinu, rétt eins og annars staðar.
Þessar myndir voru teknar á bláa deginum
í Breiðholti.
Blár dagur í Breiðholtinu