Vesturbæjarblaðið - dec. 2017, Qupperneq 24
24 Vesturbæjarblaðið DESEMBER 2017
Sjúkraþjálfun Reykjavíkur flutti í
Ellingsenhúsið við Fiskislóð fyrir nokkru.
Vesturbjarblaðið spjallaði við Gauta
Grétarsson sjúkraþjálfara af því tilefni og
spurði hann fyrst um aðstöðuna sem hann
segir bæði betri og stærri. Húsnæðið við
Fiskislóð sé mun rýmra en fyrra húsnæði
sem var í Héðinshúsinu við Seljaveg og
gefi þannig meiri möguleika í þjálfun
bæði einstaklinga og hópa.
“Frá því að við hófum starfsemi fyrir
29 árum höfum við verið í fararbroddi
þess að vinna að forvörnum hvers konar
bæði fyrir íþróttahreyfinguna, fyrirtæki
og einnig fyrir almenning,” segir Gauti.
“Þegar litið er til þess að mikil aukning
hefur verið í álagseinkennum ýmis konar
á undanförnum árum er mikilvægt að geta
boðið upp á fjölbreytta viðgerðarmöguleika
á líkamanum. Gauti segir að á næstu árum
sé ljóst að öldruðum mun fjölga verulega.
“Mikil umræða hefur verið að undanförnu
um að fjölga elli – og hjúkrunarheimilum.
Ég tel að með samstilltu átaki sé hægt að
bæta líkamsástand þeirra sem eru 55 ára
og eldri þannig að líkur á að þeir þurfi að
fara á hjúkrunarheimili í framtíðinni verði
minni. Þekking okkar á öldrun og leiðum til
að hægja á henni er miklu meiri en hún var
fyrir 10 til 20 árum síðan. Með því að nota
þær aðferðir sem við þekkjum er hægt að
bæta jafnvægi, vöðvastyrk og úthald fólks
á öllum aldri og þannig auka lífsgæði þess,
ekki bara núna heldur einnig í framtíðinni.
Hér hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur bjóðum
við upp á bæði þjálfun í hópum en einnig
einstaklingsþjálfun sem miðar að því að
bæta hreyfigetu fólks og koma þannig í veg
fyrir sjúkdóma og ótímabæra hrörnun.”
Mun sykursýki 2 tilfellum fjölga
í framtíðinni
Gauti segir að samhliða aukinni offitu og
hreyfingarleysi muni þeim sem þróa með
sér sykursýki 2 fjölga verulega í framtíðinni.
“Með því að grípa inn í sjúkdómsferli
snemma er hægt að koma í veg fyrir og
hægja á þróun þessa skelfilega sjúkdóms
sem kostar mikla skerðingu á lífsgæðum,
hreyfigetu og orsakar marga sjúkdóma
sem dýrt er að vinna á. Einnig þarf að huga
mikla fjölgun stoðkerfiseinkenna.
Helstu stoðkerfisvandamál fólks má
rekja til lífsstíls og áverka sem fólk verður
fyrir á fyrri hluta æviskeiðs. Áverkar eins
og krossbandaslit í hné valda ekki bara
tímabundinni skerðingu heldur geta þessir
áverkar einnig haft áhrif á að meiri líkur
eru á sliti á hnéliðnum sem leiðir til þess að
viðkomandi þarf að fá gervilið í hné síðar
á lífsleiðinni.” Gauti segir að skipta megi
hreyfingu í tvennt. “Annars vegar tölum við
um frjálsan leik og hins vegar kerfisbundna
þjálfun. Kerfisbundin þjálfun er oftast mjög
einhæf og eftir því sem fólk stundar þessa
einhæfu þjálfun oftar eru afleiðingarnar
oft slæmar. Tökum sem dæmi krakka sem
stundar eina íþrótt 5 sinnum í viku. Vegna
þessa mikla æfingamagns telja foreldrar
að hreyfiþörf barnsins sé fullnægt. Þess
vegna finnst þeim í lagi að keyra krakkann í
skólann, á æfingar og allt sem krakkinn þarf
að fara og hvetur barnið síður til að fara út
að leika sér. Frjáls leikur okkar fullorðna
fólksins er að fara gangandi á milli staða,
taka lyftu upp á milli hæða, taka til og
ryksuga heima hjá sér og stunda fjölbreytta
hreyfingu eins og sund, fjallgöngur, slá
garðinn og fleira. Þess í stað telur fólk að
nóg sé að fara í jóga, fara í spinning tíma
eða lyfta lóðum sem er í rauninni mjög
einhæf þjálfun og svarar ekki öllum þeim
þörfum sem líkaminn þarfnast til að
viðhalda og bæta líkamlegt atgervi.”
Tölvu- og farsímanotkun
veldur skaða
Gauti segir að oft sé fólk ekki að velja
sér hreyfingu og að afleiðingar kyrrsetu og
tölvuumhverfis birtist víða. “Afleiðingar
kyrrsetu og slæmar setstöður, hafa áhrif
á bak, hálseinkenni og axlir. Mikil tölvu-
og farsímanotkun veldur mun meiri skaða
en fólk gerir sér grein fyrir. Þannig hefur
staðan á hálsinum þegar höfuðið er
hallandi fram áhrif á djúpöndun þannig
að þindin sem stjórnar önduninni fær ekki
nægilega örvun sem hefur afleiðingar á
súrefnisupptöku og þannig á marga hluti
tilverunnar.”
Þjálfun fyrir alla aldurshópa
En hvað er til ráða. “Hjá okkur bjóðum
við upp á þjálfun fyrir alla aldurshópa
og ekki eingöngu fyrir þá sem eru með
sjúkdóma eða kvilla heldur einnig fyrir
einstaklinga sem vilja bæta afköst sín
og lífsgæði. Við erum með hóptíma fyrir
hlaupara, kylfinga og unga íþróttamenn
og konur. Við erum búin að vera með
hóptíma fyrir karla og konur sem hafa
það að markmiði að bæta hvers konar
færni, jafnvægi og afreksgetu. Við höfum
verið í fararbroddi þess að gera mælingar
á afkastagetu bæði með kraftmælingum
og svo kölluðum mjólkursýrumælingum.
Við mælum virkni á vöðvum grindarbotns
sem eru mjög mikilvægir bæði fyrir konur
og karla. Á næstu misserum ætlum við að
auka enn frekar upp á fræðslu fyrir þjálfara,
heilbrigðisstarfsfólk og almenning í því
augnamiði að örva enn meira tækifæri sem
rétt þjálfun hefur á lífsgæði.”
Sjúkraþjálfun Reykjavíkur flutt á Fiskislóð
Myndirnar eru frá opnu húsi hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur sem fór fram nýlega í nýju húsakynnunum.
GASTROPUB
TAPASBARINN, Vesturgötu 3b, tapas.is
SUSHI SOCIAL, Þingholtsstræti 5, sushisocial.is
APOTEK, Austurstræti 16, apotek.is
SÆTA SVÍNIÐ, Hafnarstræti 1-3, saetasvinid.is
Bragðgóð jólag jöf
Gefðu g jafabréf sem gildir ekki bara á eitt, heldur fjögur af vinsælustu veitingahúsum
Reykjavíkur. Gjöf sem hittir í mark hjá sælkerum sem geta þá valið sinn uppáhaldsstað.
Gjafabréfin fást á stöðunum fjórum og eru að upphæð 10.000 og 20.000 kr.
Gjöf sem gælir við bragðlaukana!
Sjúkraþjálfun Reykjavíkur er flutt að Fiskislóð þar sem Ellingsen er til húsa.