Morgunblaðið - 25.09.2019, Side 12

Morgunblaðið - 25.09.2019, Side 12
12 FRÉTTIRErlent MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 25. SEPTEMBER 2019 Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Hæstiréttur Bretlands úrskurðaði einróma í gær að Boris Johnson for- sætisráðherra hefði brotið lög með því að ráðleggja drottningunni að senda þingið heim. Úrskurðurinn er mikið pólitískt áfall fyrir forsætisráð- herrann og kröfðust leiðtogar stjórnarandstöðuflokka þess að hann segði af sér. Ellefu dómarar réttarins komust að þeirri niðurstöðu að ráðlegging forsætisráðherrans væri „ólögleg“ og „ógild“ og tilskipun drottningar um að senda þingið heim væri því í raun ekki í gildi. Ákvörðun Johnsons væri eins og „óútfyllt ávísun“ og yrði til þess að þingið gæti ekki gegnt stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu. „Þingið hefur ekki verið sent heim,“ sagði Brenda Hale, forseti réttarins. Fréttaskýrandi breska ríkisút- varpsins í dómsmálum, Clive Cole- man, sagði að niðurstaða réttarins væri „lagaleg, stjórnskipuleg og pól- itísk sprengja“ og erfitt væri að of- meta þýðingu hennar. Úrskurðurinn hefur fordæmisgildi, þannig að laga- lega yrði erfitt fyrir Johnson að ráð- leggja drottningunni að senda þingið heim aftur við þessar aðstæður, að sögn fréttaskýranda AFP. Hann seg- ir að úrskurðurinn hafi mikla stjórn- skipulega þýðingu og feli í sér að vald hæstaréttar til að tryggja að þingið geti gegnt stjórnarskrárbundnu hlut- verki sínu hafi meira vægi en formleg tilskipun Elísabetar 2. Bretadrottn- ingar um að senda þingið heim. Ólíkt þinghléum og þingrofi Johnson tilkynnti 28. ágúst að hann hefði ákveðið að ráðleggja drottningunni að senda þingið heim og kalla það saman aftur fimm vikum síðar, eða 14. október. Andstæðingar brexit-stefnu Johnsons mótmæltu ákvörðuninni harðlega og sögðu að markmiðið með henni hefði verið að þagga niður í þinginu, sem vill koma í veg fyrir útgöngu Bretlands úr Evr- ópusambandinu án samnings. John- son hefur sagt að hann vilji ná nýju samkomulagi við ESB um útgönguna en takist það ekki gangi Bretland úr sambandinu án samnings 31. októ- ber. Meirihluti þingsins er hins vegar andvígur útgöngu án samnings, þar sem talið er að hún myndi skaða efna- hag landsins. Þegar þingið kom sam- an eftir sumarhlé í byrjun september samþykkti það frumvarp til laga um að útgöngunni yrði frestað um þrjá mánuði næðist ekki nýtt brexit-sam- komulag. Samkvæmt ákvörðun forsætisráð- herrans átti Bretadrottning að flytja stefnuræðu stjórnar Íhaldsflokksins þegar þingið kæmi aftur saman 14. október. Johnson hefur sagt að tíma- bundin lokun þingsins (e. proroga- tion) sé löglegt, alvanalegt og nauð- synlegt úrræði til að gera nýjum forsætisráðherra og ríkisstjórninni kleift að leggja fram stefnu sína og nýja áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa. Venja er að breska þingið sé sent heim í skamm- an tíma, yfirleitt í apríl eða maí, og benti hæstirétturinn á að þessu úr- ræði hefði oftast aðeins verið beitt í nokkra daga. Þingmenn halda þá sætum sínum og stjórnin situr áfram en engin umræða og engar atkvæða- greiðslur fara fram á þinginu. Flest lagafrumvörp sem ekki hafa verið af- greidd falla þá dauð niður. Þingið er þó ekki rofið eins og gert er þegar boðað er til kosninga og þetta úrræði er einnig ólíkt þinghléum sem þing- menn greiða atkvæði um, t.a.m. sumarhléum og hléum vegna lands- funda flokkanna á haustin. Áfrýjunarréttur Skotlands hafði komist að sömu niðurstöðu og hæsti- réttur Bretlands og úrskurðað að for- sætisráðherrann hefði brotið lög með því að senda þingið heim. Yfirréttur á Englandi úrskurðaði hins vegar vegna annarrar lögsóknar að ákvarð- anir um lokun þingsins væru „pólit- ískt málefni“ sem dómstólar ættu ekki að hafa afskipti af. Hæstiréttur Bretlands komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það hefði verið á vald- sviði dómstólanna öldum saman að hafa eftirlit með gerðum ríkis- stjórnarinnar. Rétturinn sagði einnig að forsætisráðherrann hefði tekið ákvörðunina um lokun þingsins við „einstakar“ aðstæður vegna væntan- legrar útgöngu Bretlands úr ESB sem hefði í för með sér „grundvallar- breytingu“ fyrir landið. Þingið hefði rétt til að hafa áhrif á þá breytingu. „Hryllileg stund“ fyrir drottninguna Niðurstaða hæstaréttarins felur í sér að hann telur að forsætisráð- herrann hafi villt um fyrir drottning- unni. AFP hefur eftir stjórnlagasér- fræðingum að drottningin hafi átt einskis annars úrkosti en að sam- þykkja ráðleggingu forsætisráð- herrans um að senda þingið heim. Samkvæmt stjórnskipun Bretlands hefur þjóðhöfðinginn framkvæmda- vald en getur í raun aðeins beitt því að ráði forsætisráðherrans, sem ber pólitísku ábyrgðina. „Þetta er elsta reglan í stjórnskipuninni,“ hefur AFP eftir Robert Craig, stjórnlaga- sérfræðingi við Durham-háskóla. „Þetta er hryllileg stund fyrir þjóð- höfðingjann,“ sagði Jonny Dymond, fréttaskýrandi breska ríkisútvarps- ins í málefnum konungsfjölskyld- unnar. „Áratugum og öldum saman hefur breska konungsríkinu verið stjórnað samkvæmt venjum, fordæm- um og þegjandi samkomulagi um að ganga ekki of langt. Boris Johnson hefur sprengt þetta í tætlur.“ John Major, fyrrverandi forsætis- ráðherra Bretlands, kvaðst vona að Johnson léti sér þetta að kenningu verða. „Enginn forsætisráðherra má koma svona fram við þjóðhöfðingjann eða þingið aftur,“ sagði hann. Krefjast afsagnar Jeremy Corbyn, leiðtogi Verka- mannaflokksins, og Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, kröfðust þess að forsætisráðherrann segði af sér vegna lögbrotsins. Jo Swinson, leiðtogi Frjálslyndra demó- krata, tók í sama streng og sagði Johnson hafa sannað endanlega að hann væri ekki hæfur til að gegna embætti forsætisráðherra. Nokkrir þingmenn hvöttu til þess að lögð yrði fram vantrauststillaga gegn forsætisráðherranum. Forseti neðri deildar þingsins kvaðst ætla að setja slíka tillögu á dagskrá yrði hún lögð fram formlega. Talið er líklegt að Johnson hafni kröfunni um afsögn þótt stjórn hans njóti ekki lengur stuðnings meirihluta í neðri deildinni. Hann ítrekaði í gær tillögu sína um að þingkosningum yrði flýtt og benda kannanir til þess að deilur hans við þingið um brexit hafi aukið fylgi Íhaldsflokksins. Hann ýjaði að því að hann kynni að biðja drottningu um að senda þingið heim síðar til að stjórnin gæti lagt fram stefnu sína og nýja áætlun um fram- lagningu frumvarpa. Líklega yrði þá þingið aðeins lokað í nokkra daga, en ekki í fimm vikur eins og Johnson vildi. Í ár Mikilvægir dagar í brexit-málinu Heimild: AFP Ljósmynd: AFP/Jessica Taylor 17.-18 október Leiðtogafundur ESB 24. júlí Boris Johnson varð forsætisráðherra 31. október Þriðji útgöngu- dagurinn 15. jan., 12. mars, 29. mars Breska þingið hafnaði samningi Theresu May við ESB þrisvar 29. mars Upphaflegur útgöngu- dagur (honum var frestað) 12. apríl Annar útgöngudagurinn (brexit frestað aftur) 23. maí Bretar tóku þátt í kosningum til þings ESB 7. júní May sagði af sér sem leið- togi Íhalds- flokksins 26. júlí Sumarhlé þingsins hófst 4. september Þingið samþykkti frumvarp um að fresta brexit um þrjá mánuði 28. ágúst Mótmæli eftir að Johnson tilkynnti að þingið yrði sent heim og það myndi ekki starfa í fimm vikur 10. september Breska þingið sent heim 11. september Áfrýjunarréttur í Skotlandi úrskurðaði að lokun þingsins væri ólögleg. Hæstiréttur Bretlands komst að sömu niðurstöðu í gær Mikið áfall fyrir Boris Johnson  Hæstiréttur Bretlands úrskurðar að forsætisráðherrann hafi brotið lög með ákvörðun sinni um að senda þingið heim  Úrskurðinum lýst sem „lagalegri, stjórnskipulegri og pólitískri sprengju“ Ósammála en virðir úrskurðinn » Boris Johnson forsætisráð- herra kvaðst vera „mjög ósammála“ dómurum hæsta- réttar Bretlands en ætla að virða þá niðurstöðu þeirra að ákvörðun hans um að senda þingið heim væri ólögleg. » John Bercow, forseti neðri deildar þingsins, sagði eftir að niðurstaða réttarins var birt að þingið kæmi aftur saman í dag. Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild bandaríska þingsins, tilkynnti í gær að demókratar í full- trúadeildinni myndu hefja formlegt ákæruferli á hendur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, til embættis- missis. Tilefnið er að Trump er sagð- ur hafa tafið greiðslu hernaðar- aðstoðar til Úkraínu og hafa þrýst á Úkraínumenn að rannsaka Joe Bid- en, fyrrverandi varaforseta og fram- bjóðanda í forvali demókrata, og son hans. Trump segist ætla að opinbera að fullu efni samtal sitt við Volodímír Selenskí, forseta Úkraínu. „Þið munuð sjá að þetta var vingjarnlegt og algjörlega viðeigandi samtal,“ tísti Trump síðdegis í gær. Málið hefur valdið miklum usla vestanhafs, enda kom í ljós að Trump fyrirskipaði embættis- mönnum sínum að setja greiðslu nærri 400 milljóna dala hernaðar- aðstoðar til Úkraínumanna á ís skömmu fyrir símtalið. Forsetinn hefur svo viðurkennt að hafa hvatt Selenskí til að rannsaka mál tengd Joe Biden og syni hans Hunter Bid- en, sem stýrði gasfyrirtæki í Úkra- ínu í forsetatíð Obama. arnarth@mbl.is Kæruferli gegn Trump  Trump ætlar að opinbera samtal sitt við Úkraínuforseta AP Bandaríkjaþing Nancy Pelosi er forseti fulltrúadeildarinnar. Bíldshöfða 16, 110 Reykjavík 414 84 00 www.martex.is Góð þjónusta byrjar með flottum fatnaði. Fatnaður fyrir fagfólk

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.