Fréttir - Eyjafréttir - jun. 2019, Síða 11
Goslok 2019 | Eyjafréttir | 11
„Ég man það eins og það hafi
gerst í gær þegar ég vaknaði
upp með andfælu nóttina 23.
Janúar 1973, það var lamið
duglega á gluggann á svefn-
herbergi hjá okkur hjónunum
við Gerðisbraut fjögur,“ sagði
Þórarinn sigurðsson sem alltaf
er kallaður Tóti í Geisla þegar
við fengum hann til að rifja
upp gosið með okkur. Tóti er
giftur Guðrúnu Jóhannsdóttur
og stóð hús þeirra hjóna við
Gerðisbrautina tveimur húsum
frá húsinu sem búið er að
grafa upp inní eldheimum.
„Ég man að ég rauk á fætur við
bankið á glugganum og hélt það
væri verið að ræsa mig til vinnu.
Fyrir utan gluggann stóð nágranni
minn sem þá var, Óskar heitinn
Björgvinsson. Ég sé hann ennþá
fyrir mér í dag þar sem hann stóð
fyrir utan gluggann allur eldrauður
vegna bjarmans frá gosinu, kallandi
“komið ykkur á fætur, það er farið
að gjósa.” Ég fór fram í dyr til að
tala við Óskar og þegar ég opnaði
dyrnar sá ég öll herlegheitin, eld-
rauður himininn fyrir austan mig
og óskaplegar drunur frá gosinu.
Ekki varð mikið úr okkar sam-
ræðum en ég man að Óskar sagði,
“Komdu þér í föt, ræstu konuna og
farið vestar í bæinn og þar með var
hann rokinn,“ rifjar Tóti upp.
alveg dolfallinn
Tóti ræsti eiginkonu sína hana
Gunnu eins og hún er alltaf kölluð,
náði í myndavélina og fór austast
á Gerðisbrautina. „Þegar ég kom
þangað sá ég hvað var að gerast,
jörðin opin og eyjan rétt austan við
mig logaði öll, frá sjó við Kirkju-
bæina og suður fyrir Helgafell eða
eins langt og ég gat séð. Ég var
alveg dolfallinn, gleymdi að taka
myndir, dreif mig heim og sagði
við konuna að við skyldum forða
okkur hið snarasta,“ sagði Tóti.
Vildi fara og reyna
bjarga einhverju
Tóti sagði að næstu skref hjá sér og
sínum þessa nótt hefði verið svipuð
eins og hjá öðrum. „Við fórum
með M/b Halkion til Þorlákshafnar,
ætli það hafi ekki verið svona 250
til 300 mans um borð í bátnum.
Leiðin lá svo til Reykjavíkur og
þar fengum við athvarf hjá ætt-
ingjum Gunnu, en þegar þangað
var komið var ég orðinn friðlaus og
vildi komast til baka til að reyna
bjarga einhverju úr húsinu okkar
sem stóð nánast við sprunguna.“
Tóti fór þá að athuga með ferðir til
Eyja en kom allsstaðar að lokuðum
dyrum. „Um kvöldið kíkti ég niður
á höfn, ég hafði heyrt að M/s Hekla
ætti að sigla um kvöldið til Eyja.
Þegar ég reyndi að komast um
borð þar að þá var mér vísað frá af
því að ég var Eyjamaður. En í öllu
svartmættinu þá mætti ég Ármanni
Eyjólfssyni skólastjóra stýrimanna-
skólans, sagði honum stöðuna og
hann tók þessu með stakri ró, sagði
mér að bíða aðeins rólegur, eftir tíu
mínútur var ég kominn um borð og
á leið til Vestmannaeyja.“
bjargaði búslóðinni
Tóti kemur til Vestmannaeyja að
morgni 24. janúar og fer strax í það
að tæma húsið sitt við Gerðisbraut.
„Ég fékk að geyma dótið okkar
í kennslustofu í Barnaskólanum
hjá Reyni Guðsteinssyni og var
búslóðin þar í fjóra daga áður en
henni var komið til Reykjavíkur.
Þetta varð samt til þess að ég fór
að vinna með Reyni en hann setti á
laggirnar björgunarsveit sem hafði
aðsetur í barnaskólanum,“ sagði
Tóti sem var í þessari sveit og
hjálpaði til við búslóðaflutningar.
tók vertíð í gosinu
Eftir að búslóðaflutningunum lauk
ætlaði Tóti að fara í borgina til
þess að vinna, en það átti eftir að
breytast. „Ég hitti þá Viktor Helga
á förnum vegi og hann spurði hvort
ég hefði áhuga á að koma og vinna
fyrir hann í gúanóinu sem var að
fara í gang því bræða átti loðnu. Ég
var meira en til í það og var þar að
vinna út vertíðina,“ sagði Tóti.
Við fórum að ráðum
garðars veitustjóra
Um vorið þegar bræðslunni var
að ljúka ákvað Tóti að freista
gæfunnar og reyna fá gröfu hjá
Áhaldahúsinu til þess að grafa
upp húsið sitt. „Húsið okkar fór
undir á fyrstu viku gossins en
mig langaði að freista gæfunnar
og reyna grafa það upp. Ég hafði
einhverja vitneskju um hvar húsið
átti að vera og menn reiknuðu
að það væru einhverjir tíu til tólf
metrar í það. Ég var í töluverðum
vandræðum með að staðsetja húsið
og eftir miklar vangaveltur ákvað
ég að fara til Garðars veitustjóra og
athuga hvort hann gæti hjálpað mér
þar sem ég hafði á tveimur stöðum
þó nokkuð vestar séð ljósastaura
þar sem kolurinn stóð rétt upp úr
öskunni. Ég man að Garðar fór í
kort hjá sér af þessu svæði, gerði
nokkrar mælingar og sagði svo,
“ef þú mælir 106 metra frá þessum
staur hér beint í austur og 68 metra
frá þessum í suður og þar sem
mælingarnar krossast þá ertu um
sex metra fyrir framan gaflinn á
húsinu. Þú skalt byrja að grafa þar
og til suður.“ Við fórum að ráðum
Garðars og það passaði nákvæm-
lega, við hittum á miðjan gaflinn,“
rifjar Tóti upp.
aðstoð frá slökkviliðinu
„Við komum að svefnherbergis-
glugganum sem Óskar hafði barið
hressilega á og var brotinn og því
slangur af vikri inn í húsinu. Ég
hreinsaði glerbrotinn úr glugganum
og vippaði mér inn. En um leið
og ég kom inn missti ég andann
og varð snapheitur á löppum og
lærum, húsið var sem sagt fullt af
gasi, þannig það var ekkert annað
að gera en að forða sér út,“ sagði
Tóti sem ekki var tilbúin a gefast
upp og var því næst á dagskrá að
kíkja niður á slökkviliðsstöð og
fá aðstoð. „Þar fengum við hjálp,
ég fékk súrefnistæki og með mér
komu tveir menn úr slökkviliðinu,
Addi Bald tók það ekki í mál að
ég færi einn þarna inn. Við komum
okkur aftur upp eftir, settum tækin
á okkur og ég ásamt einum öðrum
fórum inn í húsið og einn beið úti
til að fylgjast með.“
allt ónýtt á einni nóttu
Það sem gerðist næst lýsir Tóti
sem eitt af mögnuðustu stundum í
hans lífi. „Þetta var alveg rosalega
skrýtin tilfining að labba svefnher-
bergisganginn og fara inn í stofu.
Það er erfitt að setja svona til-
finingar í orð og þegar ég staldraði
við í stofunni og virti fyrir mér
það sem ég sá er erfitt að útskýra.
Loftið var sigið enda þurftum við
að grafa tólf metra niður til þess að
komast að húsinu. Ég stóð þarna og
virti fyrir mér það sem ég sá með
ljósgeilsanum frá vasaljósinu. Í
raun var allt eins og ég hafði skilið
við það þegar ég fór og hreinsaði
úr því í byrjun á gosinu. Dagblöð
á gólfinu sem ég hafði notað til
þess að pakka glerinu, í glugganu
var blómið hennar Gunnu, blöðin
á blóminu löfðu aðeins niður,
svona eins og það hefði gleymst
að vökva þau í smá tíma. Þarna var
líka heimasíminn og á eldhúsborð-
inu var sultukrukka og jólakaka
sem ég hafði tekið út og ætlaði
að taka með mér daginn eftir, hjá
jólakökunni stóð hitakanna, hálffull
af kaffi.
En málið var að það varð aldrei
daginn eftir, því þessa nótt hvarf
húsið í vikur. En þarna stóð ég
í myrkrinu og þögninni, með
undirspil af hvæsinu úr súrefnis-
tækjunum. Ég man að það færðist
yfir mig ró og hugurinn fór að reika
til tímans er við byggðum húsið,
þarna þekkti maður hverja skrúfu
og hvern blett, en á móti kemur
læddust að manni hugsanir hver
tilgangurinn með öllu þessu brölti
hefði eigilega verið, þegar allt
verður ónýtt á einni nóttu,“ rifjar
Tóti upp.
aftur inn að bjarga
verðmætum
Þeir sneru því næst við út í dags-
ljósið til þess að skipta um súrefn-
iskúta. „Ekki vorum við búnir að
vera lengi úti þegar efnishyggjan
tók völdin og við ákváðum að drífa
okkur aftur inn og reyna bjarga
verðmætum. Ég man við byrjuðum
á að taka skápa inni á baði og
síðan var ráðist á hreinlætistækin.
Þegar við vorum að bora klósettið
þá kom allt í einu þessi dómdags
hávaði þannig að ég missti næstum
legvatnið af hræðslu og hugsaði að
nú væri kofinn að leggjast saman,
sem betur fer reyndist það ekki
vera svo, en mælirinn á tækjunum
sem við vorum með sem mældi
stöðuna á loftinu sprakk af og mátti
ég henda öllu frá mér og forða mér
út. Við kláruðum samt að taka það
sem okkur þótti slátur í úr húsinu
og meiri hlutinn af því sem við
björguðum var inni á heimilinu
okkar sem við byggðum við Ill-
ugagötu 15a.
Eftir standa ennþá sterkar minn-
ingar af sofandi blómi í glugganu
og svo ég tali nú ekki um jólakök-
una sem aldrei var borðuð,“ sagði
Tóti að endingu.
SARA SjöfN GREttiSdóttiR
sarasjofn@eyjafrett ir. is
Gunna og Tóti í fermingarveisu
í Þykkvabænum árið 1973.