Morgunblaðið - 13.12.2019, Síða 28
71 árs og ætlar að ganga
Jakobsveginn áður en hnén
gefast upp á henni
É
g kynntist Jóhönnu í gegnum vinnuna
hennar þar sem ég fer reglulega með föt til
hennar í breytingu. Það getur nefnilega
gert gæfumuninn að láta aðeins þrengja,
stytta eða víkka svo fötin líti út fyrir að vera
klæðskerasniðin. Á dögunum flutti hún
Listasaum af þriðju hæði í Kringlunni yfir á
bíóhæðina.
„Það voru Reitir sem óskuðu eftir því að færa mig niður á
bíóhæðina þar sem miklar framkvæmdir eru núna á þriðju
hæðinni. Ég er ótrúlega ánægð að vera komin hingað. Bæði
er verslunin bjartari og mun meira líf hér á ganginum. Ekki
skemmir svo fyrir að Te og kaffi er í þar næsta bili – auðvelt
að sækja sér kaffibolla,“ segir Jóhanna.
Það eru ekki margar 71 árs gamlar manneskjur sem
eru á útopnu á vinnumarkaði eins og Jóhanna. Einhvern
tímann þegar ég fór til hennar sagði hún mér að hún ætl-
aði að minnka við sig vinnuna en það hefur ekki alveg orð-
ið raunin.
„Það er svo gaman að vera til og ég á erfitt með að hætta.
Held það sé ansi langt í að ég hætti að vinna en skrokkurinn
er byrjaður að biðja mig að minnka aðeins vinnutímann. Ég
var að vinna að lágmarki átta tíma á dag þangað til í fyrra
en núna reyni ég að hætta aðeins fyrr á daginn. Langar líka
að geta skellt mér í ræktina á miðjum degi og sinnt barna-
börnunum. Þeim finnst nú ansi gott að vita af mér á mínum
stað í Kringlunni og líta inn þegar eitthvað vantar,“ segir
Jóhanna.
Jóhanna segir að umhverfisvitund hafi haft töluverð
áhrif á fyrirtækið og fólk sé duglegra að láta gera við
gömlu fötin.
„Fólk er orðið mun meðvitaðra um það að nýta fötin leng-
ur og betur. Það þarf ekki alltaf að henda og kaupa nýtt. Smá
yfirhalning eða viðgerð getur breytt ansi miklu,“ segir hún.
Í gamla daga kunnu allar húsmæður landsins að sauma og
gera við föt og svona. Er það alveg dottið upp fyrir?
„Nei, það er varla alveg dottið upp fyrir en nútímakonurnar
vinna mun lengri vinnudag úti núna en áður fyrr. Þær hafa ekki
tíma til að sauma og einnig er saumaskapur plássfrekur og
startkostnaðurinn kostar sitt. Mér finnst mjög sorgleg þróun
að sjá að flestar vefnaðarvöruverslanir eru að leggja upp laup-
ana. Það er svo mikið framboð í dag af tilbúnum fötum að það er
mun hagstæðara að kaupa þau tilbúin en gera þau sjálfur.“
Byrjaði í Kaupmannahöfn
Jóhanna hóf feril sinn á saumasviðinu í Kaupmannahöfn í
kringum 1970. Þar starfaði hún á saumastofu við að sauma föt
fyrir sölusýningar.
„Þegar ég flutti til Íslands eftir 18 ára búsetu í Kaupmanna-
höfn vann ég ýmis störf og síðan á kvöldin sérsaumaði ég heima
fyrir ýmsa þekkta einstaklinga. Síðan leiddi eitt af öðru og ég
opnaði mína fyrstu verslun og saumastofu um 1994, Textilline,
sem var til húsa í Faxafeni. Ég færði Textilline síðan niður á
Laugaveg og tók við rekstrinum í Listasaumi í Kringlunni 2007.
Ég lokaði Textilline á Laugaveginum fyrir fjórum árum,“ segir
Jóhanna.
Þegar Jóhanna er spurð hvað henni finnist skemmtilegast við
saumabransann segist hún elska að þjónusta fólk.
„Mér finnst mjög gaman þegar viðskiptavinirnir koma með
ýmis flókin verkefni sem við verðum að finna hagkvæmar og
jafnframt fallegar lausnir á. Auðvitað er alltaf skemmtilegast
að hanna eitthvað en því miður hef ég sagt skilið við sérsauminn
í dag og við einbeitum okkur aðallega að fatabreyt-
ingum og viðgerðum í Listasaumi þó svo að einstaka
kúnni nái að plata mig.
Hausinn á mér er alltaf á fullu og ég fæ endalausar
hugmyndir að einhverri flottri hönnun sem mig lang-
ar að framleiða. Óska þess stundum að ég hefði fæðst
30 árum seinnna því framþróunin hefur verið svo
mikil og margt hægt að gera. Því miður er skrokk-
urinn ekki alveg jafnvirkur og hugurinn í dag,“ segir
hún.
Fatabreytingar eru algengastar ásamt viðgerðum.
Jóhanna og hennar fólk gerir mikið af því að síkka,
stytta, þrengja, víkka og allt þar á milli. Þær gera
líka mikið af því að yfirdekkja tölur.
„Við gerum við mikið af fatnaði og er gaman að sjá
hvað fólk er orðið duglegt að endurnýta gamlar flík-
ur. Hægt er að gefa þeim nýtt líf með smá yfir-
halningu. Með aukningu verslunar á netinu er fólk að
panta alls konar fatnað sem stenst ekki væntingar
þess. Komum við þá sterkar inn og lögum fatnaðinn
þannig að hann passi betur og fara kúnnarnir með
bros á vör út.“
– Fer fólk illa með fötin sín?
„Nei, ég myndi ekki segja það en það koma alls
konar flíkur inn á borð til okkar. Fólk lendir oft í
óvæntum atvikum; tekur of tryllt spor á dansgólfinu
og buxurnar koma inn á borð til okkar rifnar á mánu-
deginum. Síðan slitna föt, fólk erfir föt og vill gera
smá lagfæringar og þar fram eftir götunum.“
Lífsgleðin og krafturinn drýpur af Jóhönnu. Þegar
ég spyr hana hvort hún eigi eitthvert gott ráð fyrir
yngri konur sem vilja ná langt stendur ekki á svör-
unum:
„Það er að hafa óbilandi trú á sjálfum sér og aldrei
gefast upp. Lífið hendir í okkur alls konar verkefnum, en ekki
láta það stoppa sig þótt stundum þurfi að hægja á.“
Eitt sinn hitti ég Jóhönnu í flugvél. Þá var hún á leið í göngu
hinum megin á hnettinum. Í frístundum gengur hún mikið og
vill helst ekki fara í frí nema það innihaldi gönguferðir.
„Ég hef alltaf verið mjög virk og geng mikið. Ég á hund og
það er ótrúlega hvetjandi að standa upp úr sófanum og drífa
sig út með hana í langa göngutúra, sama hvernig viðrar.
Útivera og langir göngutúrar næra mig andlega. Ég elska
Ítalíu og hef farið í skipulagðar gönguferðir þangað. Einnig
hef ég gengið part úr Jakobsveginum þar sem við gistum til
skiptis á gistiheimilunum og klaustrum. Það er markmiðið
hjá mér að klára Jakobsveginn áður en hnén gefast upp á
mér,“ segir hún.
Morgunblaðið/Eggert
Jóhanna Harðardóttir er 71 árs kjarnakona sem rekur Lista-
saum í Kringlunni. Það er brjálað að gera í fyrirtækinu enda
fólk orðið sér meðvitaðra um að láta frekar gera við fötin sín
en kaupa ný. Á sama tíma hefur netverslun aukist og það
hefur verið atvinnuskapandi fyrir fyrirtækið því fötin sem
keypt eru á netinu passa stundum ekki alveg á fólk. Þegar
Jóhanna er ekki að vinna gengur hún á fjöll og stefnir á að
ganga Jakobsveginn áður en hnén gefast upp á henni.
Marta María | mm@mbl.is
Jóhanna Harðardóttir
er 71 árs og er að
reyna að minnka við
sig vinnuna.
Jóhanna er hætt að
sérsauma föt á fólk og
er nú mest í fatabreyt-
ingum og viðgerðum.
28 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. DESEMBER 2019