Fréttablaðið - 30.12.2019, Síða 9
Árið 2019 er senn á enda og nýtt
tekur við. Ef litið er yfir þær erlendu
fréttir sem settu svip sinn á árinu
voru Donald Trump, viðskiptastríð
hans og Brexit fyrirferðarmikið.
Ýmsar kosningar, ofbeldi og fjölda-
mótmæli settu sterkan svip á fréttir
ársins. Þá voru loftslagsmál voru í
brennidepli auk norðurslóða.
Sterk mótmælaalda í
Hong Kong á árinu
Mikil mótmæli hafa verið í Hong
Kong síðastliðið hálft ár. Upphaf
þeirra lá í tilraunum stjórnvalda til
að auðvelda framsal á íbúum Hong
Kong til meginlands Kína. Borgin
nýtur sjálfstjórnar innan Kína og
eru íbúar þar mun frjálsari. Óttuð-
ust menn að andófsmönnum sem
eru frjálsir í Hong Kong yrði vísað
til meginlandsins. Milljónir mót-
mæltu á götum úti og til átaka kom
á milli lögreglu og mótmælenda.
Síðar hafa mótmælin þróast í að
verja frelsi og lýðræði borgarinnar.
Ríkisstjórnin í Peking, sem efndi
til mikilla hátíðarhalda í október í
tilefni 70 ára stjórnar kommúnista,
hefur ítrekað varað mótmælendur
í Hong Kong við að ganga of langt.
Mótmæli víðar um heim
Mótmæli voru gegn einræði víðar.
Þannig leiddu mótmæli til þess
að Omar al-Bashir var komið frá
völdum í Súdan og til afsagnar
Evo Morales í Bólivíu eftir mjög
umdeildar kosningar þar í landi.
Fjölmenn mótmæli neyddu stjórn-
völd í Ekvador til áframhaldandi
niðurgreiðslna á eldsneyti og for-
seti Chile varð að lofa nýrri stjórnar-
skrá. Abdelaziz Bouteflika, leiðtogi
Alsírs, sagði af sér í kjölfar mótmæla
og Adel Abdul-Mahdi, forsætisráð-
herra Íraks, einnig. Hundruð féllu í
sterkri mótmælaöldu í Íran.
Mótmæli vegna loftslagsmála
Loftslagsmótmæli og skólaverkföll
voru í mörgum borgum veraldar.
Fyrirmynd yngra fólksins í baráttu
í loftslagsmálum var hin sextán
ára sænska stúlka, Greta Thun-
berg, sem hóf skólaverkfall á síðasta
ári til að þrýsta á aðgerðir gegn
útblæstri koltvísýrings. Á árinu fór
hún víða til að vekja athygli á lofts-
lagsbreytingum. Sigldi á seglbáti til
New York þar sem hún hélt þrumu-
ræðu yfir þjóðarleiðtogum á lofts-
lagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna
og sagði þá hafa stolið draumum
hennar og æsku með innantómum
orðum á meðan fólk þjáist og deyi.
Þaðan sigldi hún til Spánar þar
sem loftslagsráðstefna Sameinuðu
þjóðanna var haldin í Madríd og
sagði allsherjarverkföll nemenda
að hennar fordæmi ekki hafa borið
árangur. Ungi loftslagsaðgerðasinn-
inn afþakkaði umhverfisverðlaun
Norðurlandaráðs en varð mann-
eskja ársins hjá tímaritinu Time.
Dómkirkja brennur
Heimurinn horfði á með skelfingu
í apríl þegar eldur eyðilagði þak
og innviði Notre Dame-dómkirkj-
unnar í París, eins helsta kennileitis
borgarinnar. Mikil umræða varð um
endurbætur hinnar gotnesku kirkju
sem reist var á árunum 1163 til 1345.
Forsetinn Emmanuel Macron hefur
lofað að endurbótum verði lokið
innan fimm ára. Undir lok árs komu
þó fram efasemdir um að hægt væri
að bjarga kirkjunni með góðu móti.
Viðskiptastríð Kína og
Bandaríkjanna
Viðskiptastríð milli Bandaríkjanna
og Kína hélt áfram og var fyrirferð-
armikið í heimsfréttum. Báðir aðilar
skelltu reglubundið á nýjum tollum.
En í desember var aðeins dregið í
land. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
segir að viðskiptadeilurnar kunni
að hafa kostað hagkerfi heimsins
700 milljarða dala. Bandaríkin settu
meðal annars þvinganir á sölu tækni
til Huawei, kínversks framleiðanda
fjarskiptabúnaðar.
Viðvaranir um að hagkerfi heims-
ins væru að hægja á sér urðu til
þess að Seðlabanki Bandaríkjanna
lækkaði vexti í fyrsta sinn síðan
2008. Tvær vaxtalækkanir fylgdu
í kjölfarið. Trump deildi opinber-
lega á bankann fyrir að lækka ekki
vextina frekar og sagði seðlabanka-
stjórann eins og „þrjóskt barn“.
Mannabreytingar í Evrópu
Seðlabanki Evrópu reyndi að örva
stöðnuð hagkerfi álfunnar. Eitt síð-
ustu verka Mario Draghi sem forseta
Seðlabankans áður Christine La-
garde tók við völdum, var að hefja
endurskoðun peningastefnunnar.
Jean-Claude Juncker lét af störf-
um forseta framkvæmdastjórnar
Evrópusambandsins og við tók
Ursula von der Leyen, náin sam-
starfskona Angelu Merkel, kanslara
Þýskalands.
Tyrkir ráðast á sýrlenska Kúrda
Eftir að Trump Bandaríkjaforseti
dró herlið sitt burt, réðust Tyrkir
inn í héröð Kúrda í norðurhluta Sýr-
lands en Kúrdar hafa verið banda-
menn Bandaríkjanna og Atlants-
hafsbandalagsins gegn Íslamska
ríkinu. Forseti Tyrklands, Recep
Erdogan, vildi koma upp öryggis-
svæði á landamærum ríkjanna og
koma Sýrlenskum flóttamönnum
í Tyrklandi fyrir á svæðinu. Tyrkir
segja sýrlensku Kúrdana vera
hryðjuverkamenn sem styðji Verka-
mannaflokk Kúrda sem hefur staðið
í átökum gegn Tyrkjum í áratugi.
Í aðdraganda innrásarinnar hörf-
uðu Bandaríkjamenn úr héraðinu,
að skipan Trump forseta. Kom
ákvörðun hans forsvarsmönnum
herafla Bandaríkjanna verulega á
óvart. Var ákvörðunin um brott-
flutninginn fordæmd víða um heim.
Þá batt Bandaríkjaforseti einhliða
enda á friðarviðræður við talíbana
í Afganistan. Afganskir samninga-
menn eiga í erfiðleikum með að
koma þeim aftur að borðinu.
Trump staðfesti í október að
morðinginn Abu Bakr al-Baghdadi,
leiðtogi hryðjuverkasamtakanna
sem kenna sig við Íslamskt ríki,
hefði sprengt sig í loft upp þegar
bandarískir sérsveitarmenn réðust
inn á heimili hans í Sýrlandi.
Enn kosið í Ísrael
Ísraelar héldu kosningar í apríl
og aftur í september. Þar tókust á
stærstu f lokkar landsins, hið Blá-
hvíta bandalag hershöfðingjans
Benny Gantz og Likud-bandalag
Benjamins Netanyahu forsætisráð-
herra.
Netanyahu, sem hefur gegnt
embætti forsætisráðherra síðan
2009, tókst ekki að mynda starf-
hæfa stjórn eftir þingkosningar.
Gantz ekki heldur og því verða
þriðju kosningarnar á innan við ári
haldnar í mars á næsta ári.
Net anyahu naut stuðnings
Bandaríkjanna þegar fullveldi Ísra-
elsríkis yfir Gólanhæðum var viður-
kennt og landnemabyggðir á Vestur-
bakkanum lýstar lögmætar.
Í nóvember var forsætisráðherr-
ann svo ákærður fyrir mútugreiðsl-
ur og svik.
Heimurinn í ár
Donald Trump Bandaríkjaforseti, Brexit, við-
skiptastríð, hamfarir, ofbeldi og órói settu einna
helst svip sinn á árið sem er að líða. Líkt og áður
voru kosningar víða sem sumar komu á óvart.
ERLENDUR FRÉTTAANNÁLL
Ungi loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg var mikið í fréttum á árinu. Hún sagði þjóðarleiðtoga hafa stolið
draumum hennar og æsku með innantómum orðum á meðan fólk þjáist og deyi. NORDICPHOTOS/GETTY
Trump Bandaríkjaforseti dró herlið sitt burt frá héruðum Kúrda í norður-
hluta Sýrlands. Tyrkir réðust á Kúrda í kjölfarið. NORDICPHOTOS/AFP
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína
kunni að hafa kostað hagkerfi heims 700 milljarða dala. NORDICPHOTOS/GETTY
Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, tókst ekki að mynda starfhæfa stjórn
eftir tvennar þingkosningar. Kosið verður á nýju ári. NORDICPHOTOS/GETTY
Heimurinn horfði á þegar eldur eyðilagði þak og innviði Notre Dame-dóm-
kirkjunnar í París, eins helsta kennileitis borgarinnar. NORDICPHOTOS/GETTY
3 0 . D E S E M B E R 2 0 1 9 M Á N U D A G U R8 F R É T T I R ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð