Feykir


Feykir - 11.10.2017, Blaðsíða 2

Feykir - 11.10.2017, Blaðsíða 2
„Hver dregur Svarta-Pétur hjá Sjálfstæðismönnum núna?“ heyrði ég einn kunningja minn spyrja annan. „Ha, Svarta-Pétur?“ hváði hinn, „Já, hver verður látinn í það verkefni að leggja fram áfengisfrumvarpið?“ Eins og allir vita hafa nýir þingmenn Sjálfstæðisflokksins fengið að spreyta sig á því að koma áfengisfrumvarpinu á dagskrá Alþingis með litlum árangri. Eða hvað? Árangurinn er kannski bara fínn fyrir þingmennina sjálfa því fjölmiðlar keppast um að segja frá þessum nýju köppum og fólkið í landinu er óþreytandi við að segja sína skoðun á því hvort áfengi skuli selt í vínbúðum eða „nýlenduvöruverslunum“ og nefna gjarna viðkomandi flutningsmann í leiðinni. Útkoman verður sú að allir vita hver þingmaðurinn er. Ég er einn af „þessu fólki í landinu“ sem hef skoðun á því hvar áfengið skuli selt. Vandinn er bara sá að ég hef svo oft skipt um skoðun og er kominn vel á fjórða hring í þeim efnum. Ef ég tek afstöðu með þeim sem vilja hafa vínið áfram í vínbúðunum er það vegna þess að mér finnst þjónustan góð og ekki hvað síst vöruúrvalið. Ég óttast að úrvalið muni minnka ef salan fari fram í almennum verslunum og svo skiptir þetta mig engu máli þar sem ríkið er í mínútu göngufæri frá heimili mínu. Ég þarf bara að muna eftir því að fara á opnunartíma. Þegar þessi pistill er ritaður er undirritaður staddur í helgarferð í Manchester í Bretaveldi ásamt fleira góðu fólki af Króknum. Mér, líkt og flestum í hópnum, finnst bjór góður og því tilvalið að kaupa þá neysluvöru til að eiga „uppi á herbergi“. Nýkominn í bæinn segir einn úr hópnum: „Hér er nýlenduvöruverslun. Þar hlýtur að fást bjór.“ Auðvitað var til bjór í þeirri ágætu verslun og við þurftum því ekki að leita að Ríkinu í Manchester. Og hvaða bjór skyldi hafa verið keyptur? Nú, bara sá sem var til! Og þá kom spurningin í kollinn á mér: Af hverju ætti ekki að selja áfengi í búðum á Íslandi, líkt og tíðkast erlendis, þar sem langflestir Íslendingar eru mjög hrifnir af því að geta kippt bjórnum með úr búðinni í útlandinu án vandræða? Margir hafa bent á að virkir og óvirkir alkóhólistar ættu þá á hættu að falla eða leggjast í volæði ef aðgengið verði gert greiðara en það nú er á Íslandi, svo ekki sé talað um blessaða unglingana. Það getur vel verið en mér sýnist ástandið á unglingunum mun betra í dag en á bjórbannsárunum og þegar áfengisverslanir voru mun færri. Svo má líka benda á það að þó áfengi geti verið böl fyrir marga þá hafa ansi mörg hamingjurík sambönd orðið til undir áhrifum þess. Og svo snýst skoðunarkringlan í hausnum á mér enn og aftur og ég hugsa að þetta sé bara fínt eins og það er „af því ég er ágætlega settur“. Ég samsamaði mig bóndanum í Hjaltadalnum sem var að spekulera í tillögum að jarðgöngum milli Hjaltadals og Hörgárdals fyrir nokkrum árum. Hann sá fyrir sér að þá myndi umferð bíla aukast til muna um sveitina, honum og kannski fleirum til skaprauna. Sagði hann eitthvað á þessa leið: „Þetta er án vafa langskynsamasta leiðin. En ég er bara algerlega á móti henni“. Páll Friðriksson, ritstjóri. LEIÐARI Svarti-Pétur Útgefandi: Nýprent ehf., Borgarflöt 1, Sauðárkróki Póstfang Feykis: Borgarflöt 1, 550 Sauðárkrókur Ritstjóri & ábyrgðarmaður: Páll Friðriksson, palli@feykir.is & 861 9842 Blaðamenn: Fríða Eyjólfsdóttir, frida@feykir.is & 867 9744, Óli Arnar Brynjarsson, oli@feykir.is Áskriftarverð: 530 kr. hvert tölublað með vsk. Lausasöluverð: 650 kr. með vsk. Áskrift og dreifing: Nýprent ehf. Sími 455 7171. Umbrot og prentun: Nýprent ehf. Óháð fréttablað á Norðurlandi vestra - alltaf á miðvikudögum Hjartaaðgerðin gekk vel Jökull Máni Hinn ungi Skagfirðingur, Jökull Máni Nökkvason, fór í hjartaaðgerðina sína á Barn- och Ungdomssjukhuset í Lundi í Svíþjóð þann 4. október sl. Að sögn Önnu Baldvinu Vagnsdóttur, móður Jökuls Mána, tókst aðgerðin vel, en hefur það eftir skurðlækninum að hjartað hefði verið mjög þreytt og hefði verið það eina sem kom honum á „óvart“. Öllum götum á milli hjartahólfa var lokað og hans eigin lokur notaðar til þess að búa til nýjar, og minnka lekann. Á Facebookfærslu Önnu Baldvinu segir að það sé aðeins leki á milli hólfa ennþá en læknarnir séu mjög bjartsýnir á það að hann sé ekki mikill og komi ekki til með að hrjá hann. Aðgerðin tók lengri tíma en áætlað var vegna þess hversu hjartað var þreytt og þar af leiðandi erfiðara að koma því aftur af stað eftir aðgerðina. „Annars er allt jákvætt og gott að frétta af okkur hér í Svíþjóð og erum við öll farin að anda mun léttar! Loksins er allt farið að ganga í réttu áttina og erum við svo glöð og stolt af litla gullmolanum okkar,“ segir Anna Baldvina á FB. Þegar Feykir hafði samband við Önnu Baldvinu, skömmu eftir aðgerð, sagðist hún hafa gleymt að setja það á Facebook að Jökull Máni var nánast strax farinn að fá mjólk eftir aðgerðina og þá í gegnum sondu og gekk það mjög vel. Einnig vildi hún koma kæru þakklæti til allra fyrir þann stuðning sem fjölskyldan hefur fengið og allar fallegu kveðjurnar. /PF Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps komst áfram Fornleifar í Fljótum Kórar Íslands Evrópskir menningarminjadagar Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps komst áfram í skemmtiþættinum Kórar Íslands sem sýndur var sl. sunnudagskvöld á Stöð 2. Flutti hann lagið „Í fjarlægð“ undir stjórn Skarphéðins Einarssonar. „Við vonum það besta og skorum á Norðlendinga alla að „splæsa“ á okkur atkvæði ef að þeim líkar við atriðið okkar og koma okkur áfram í næstu umferð,“ sagði Höskuldur B. Erlingsson í síðasta Feyki. Engu er líkara en að þjóðin hafi tekið kórstjórann á orðinu því kórinn var kosinn áfram og keppir um hylli dómaranna. Í lok þáttaraðarinnar mun svo einn kór standa uppi sem sigurvegari og hljóta titilinn Kór Íslands 2017 ásamt því að hljóta vegleg verðlaun./PF Jökull Máni sefur vært eftir eftir hjartaaðgerðina sem tókst vel. MYND: ANNA BALDVINA. Í tilefni af evrópsku menningarminjadögunum mun Minjastofnun Íslands standa fyrir dagskrá laugardaginn 14. október nk. á Gimbur gistiheimili í Fljótum. Þema menningarminjadaganna að þessu sinni er minjar og náttúra og munu af því tilefni verða flutt þrjú stutt erindi sem endurspegla áhrif náttúru á staðsetningu minja og mótun menningarlandslags og varðveislu þess. Guðmundur St. Sigurðarson minjavörður Norðurlands vestra mun fjalla um menningarminjar og loftlagsbreytingar. Guðný Zoëga fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga gerir grein fyrir fornleifa- rannsóknum sumarsins í Fljótum og Hjalti Pálsson ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar veltir fyrir sér landnámi í Fljótum. Í framhaldinu verður heimsóttur einn af þeim fjölmörgu minjastöðum sem nýlega hefur fundist eða nýjar upplýsingar fengist um. Dagskrá hefst kl. 13:00, að erindum loknum verður farið á einkabílum á minjastað í nágrenninu, áætlað er að dagskrá ljúki eigi síðar en kl. 16. Viðburðurinn er ókeypis og allir velkomnir! /Fréttatilkynnig 2 38/2017

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.