Feykir


Feykir - 20.12.2017, Blaðsíða 15

Feykir - 20.12.2017, Blaðsíða 15
48/2017 15 við og talaðu við mig drengur!“ Þá var ég búinn að selja honum mikið af fiski um sumarið og alltaf sagði ég honum að þetta væri úr heita vatninu [Áshildarholts-vatni]. En þetta haustið var hann alveg foxillur og húðskammaði mig og ásakaði mig um að veiða við skítaræsin í fjörunni. Ég sagði honum að það væri haugalygi, allt væri úr heita vatninu. „Ég er nú enginn bjáni Stefán en það var túrtappi inni í fisknum sem ég fékk frá þér. Hann kemur ekki úr heita vatninu!“ Ég gat ekki varið þetta svo ég viðurkenndi fyrir rest að hafa tekið fiskinn við ræsið fyrir neðan hjá Bjarna Har. Stungið af á sjóinn Stefán segir æskuárin bara hafa snúist um það að veiða og hugurinn stefndi lengra en á bryggjuna eða skítaræsið hjá B. Har. Hann segist ungur hafa munstrað sig á rækjubát án þess að láta vita heima fyrir svo mamma hans þurfti að hafa fyrir því að finna hann. „Ég stakk bara af. Ég sagðist hafa leyfi frá mömmu og var farinn á vikutúr. Mig minnir að ég hafi verið 9 ára. Áður hafði ég farið vikutúr með bróður hennar mömmu, þá átta ára. Einhvern tímann fór ég með Ragga Hvata og Gústa Kára á útilegu, handfæratúr, og ég veit að Gústi verður aldrei sammála því að ég hafi verið harður í þessu, enda held ég að ég hafi ælt í átján tíma. En það var mjög gaman og ég var ekki gamall. Stefán var rétt 16 ára þegar hann fór til Ólafsfjarðar og réði sig á skip þar og hefur ekkert stoppað síðan, 27 árum síðar. Síðustu níu árin hefur hann verið hjá Brim Seafood á togaranum Guðmundi í Nesi. Stefán segist líka vistin mjög vel á Guðmundi, stórt og gott skip og frábær áhöfn og nánast engar mannabreytingar. „Góður kjarni og hörku lið,“ segir hann. Aðspurður um þau löngu úthöld sem sjómenn þurfa að sætta sig við segir Stefán aðstæður í dag mun betri en áður. „Munurinn er sá að ef þú ert úti á sjó í 35 daga þá ertu líka í fríi næstu 35 dagana. Ég er mikið meira heima hjá mér nú en fyrir 15 árum þegar ég var að róa t.d. á Klakki. Þá var ég kannski að róa 300 daga á ári en alltaf að koma reglulega heim. Þetta er öðruvísi og mun betra. Það er mikill munur að vita þegar maður labbar um borð að næst þegar þú ferð í land ertu kominn í langt frí. Það er ofboðslegur munur en það getur náttúrulega tekið á á 48/2017 veturna að vera úti í 4-5 vikur í vondum veðrum og myrkri en þetta er bara vinna og venst eins og annað.“ Formaður á sjó Nú er Stefán á sínu fimmta ári sem formaður körfuboltadeildar Tindastóls og stefnan tekin á toppbaráttuna með úrvals- deildarliðið. Hann segist hafa langað til að gerast formaður lengi en fundist það glórulaust vegna sjómannsstarfans. Hann tók samt þá ákvörðun að bjóða sig fram og hefur fólk með sér sem hann treystir. „Staðreyndin er sú að það er ekkert mál að fixa þetta saman þegar maður hefur gott fólk með sér, og vinnur með manni í þessu. Ég hef verið svo heppinn að hafa það fólk með mér. Í upphafi ræddi ég, held ég, fyrst við Björn Hansen um hvað ég væri orðinn leiður á því að þurfa að keyra alla leið á Stykkishólm til að sjá alvöru körfuboltaleik því að við komust ekki í úrslita-keppnina. Þá var það næsti bær að keyra inn í Hólm og sjá alvöru leik. En fyrir mér gerði það útslagið þegar liðið féll árið 2012 í 1. deild, margt fólk að vinna í þessu og erfiður vetur og allt það. En það var hörkulið fallið þrátt fyrir að verða Eggjabikar-meistarar í undirbúningstíma-bilinu. Þá fannst mér vera rétti tíminn til að koma að þessu. Ég sá tækifæri með liðið og ég vissi hvaða strákar voru á leiðinni upp, strákar sem eru enn að spila í dag. Það var að koma risastór árgangur og af hverju ekki að hella sér út í þetta,“ segir Stefán og planið var að fá tvo góða leikmenn, annan íslenskan og hinn erlendan til að hlutirnir gengju upp. „Annar var Íslendingurinn, herra Flake, og svo Antonie Proctor. Með þessum tveimur mönnum töpum við einum leik og rústum deildinni og þráð- beint upp. Förum einnig í fjögurra liða úrslit í bikar en töpum fyrir ÍR hér á heimavelli. Þetta var fyrsta árið. Svona komum við inn með hvelli. Árið eftir var ekki ósvipað. Þá förum við sem nýliðar alla leið í úrslit, sem var alveg glórulaust því við vorum ekkert á leið þangað. Það var ekki stefnt á það fyrsta árið,“ segir Stefán. Hlutirnir eru ólíkir í dag því nú þykjast stuðningsmenn sjá glitta í titil og hafa í raun miklar væntingar um að nú sé kominn tími á hann. Stefán tekur undir og segir að það hafi verið á fimm ára planinu og fimmta árið sé hafið. „Fimm ára planið er að verða Íslandsmeistari. En hvort við þurfum að taka önnur fimm ár í það hef ég ekki hugmynd um. Það verður bara að koma í ljós,“ segir formaðurinn ábúðarfullur. Í Skagafirði fer það ekki framhjá nokkrum manni að væntingar til liðsins eru mjög miklar og jafnvel meiri en á síðustu leiktíð sem þó voru þær að ná í titil og formaðurinn er á þeirri línu. Fólk hefur kannski ekki eins hátt um þessar vænt- ingar sínar og á síðustu leiktíð en stuðningsmenn missa and- ann ef liðið tapar leik og spyrja hvað þurfi til bragðs að taka. „Liðið tapaði leik eftir ellefu sigurleiki í röð. Við erum í þannig bæjarfélagi að það á bara helst að reka mann og annan ef að leikur tapast. Fólk verður bara að anda með nefinu. Einn góður vinur minn sagði við mig með væntingarnar: „Það er svo mikið væntingaský yfir Skagafirði að þó að mígrigndi þá næði það ekki í gegn“. Ég held að það sé svolítið punkturinn. Vænting- arnar í sveitarfélaginu smitast út í allt, leikmenn og þjálfara og við stefnum bara eins og alltaf á „topp 4“ og komast í heima- leikjarétt í úrslitakeppninni. Allt annað er bara bónus. En auðvitað langar okkur að enda sem deildarmeistarar eins og önnur lið. Ef það tekst ekki verður bara að vinna út frá því. En þetta er þannig að þegar lið er búið að vera svona lengi í toppbaráttu þá vilja allir taka næsta skref. Ég er í fyrsta skiptið sem formaður körfuboltadeildar Tindastóls að fara í Laugardals- höllina. Það er hellings bæting. Í tvígang erum við búnir að fara mjög langt í úrslitakeppninni en það hefur því miður ekki tekist að klára verkefnið. Það er þarna eitt lið sem er alltaf fyrir okkur,“ segir Stefán og glottir en þar á hann við hið sigursæla Vestur- bæjarlið KR sem reynst hefur Stólunum erfiðir mótherjar. „En það er stefnan að vinna titil. Ég fór í þetta, og sagði það strax, ekki til að vera með, heldur til að vinna titil.“ Hann segir að vinnan á bak við það að búa til lið sem á að vinna titil hafi snúist mest um það að auka fjármagn inn í félagið. Þá er ónefnd sú vinna sem liggur í þjálfun og utanumhald yngriflokkastarfs- ins og gefur hún raunsanna mynd af því hve vel er staðið að málum í körfuboltanum á Sauðárkróki. Það hefur jafnan vakið athygli sá fjöldi heima- manna sem skipar meistara- flokksliðið. Jólabarnið Stefán Aðspurður um jólahald segist Stefán vera mikið jólabarn og hafi núna reynt að skreyta af kappi og gera fínt þrátt fyrir að vera hálf handlama. „Staðreynd- in er samt sú að annað hvert ár skreyti ég vel hressilega. Það er árin sem ég fer út á sjó fljótlega eftir jól. Þá nota ég allan desember til að skreyta og slepp svo við að taka dótið saman svo frúin þarf að taka það allt niður. En ef ég er á sjó í desember og kem heim rétt fyrir jól þá skreyti ég alveg sára lítið því þá þarf ég að taka niður,“ segir Stefán og stórt bros færist yfir andlitið á honum. En hann ítrekar það að hann sé mikið jólabarn í sér. „Ég hef gaman af jólunum og upplifi þau vel í gegnum krakkana mína. Sá yngsti fékk t.d. langt bréf frá jólasveininum í gær en þeir standa í einhverri deilu. Sveinarnir eru ekki að gefa honum rétt þó hann sé mjög þægur. Það er búið að ganga þó nokkuð á í bréfaskiptum þeirra í milli og verður líklega þangað til hann fær það rétta.“ Stefán segist hafa einhverjar jólahefðir til að fara eftir. Til dæmis er á Þorláksmessu nóg að gera. Jólatréð er skreytt, kortunum keyrt út og steikin undirbúin. Hamborgarhryggur er alltaf á borðum á aðfangadag og hangikjötið á jóladag. En hann segist passa sig á því að elda nóg af svíninu til að geta kjamsað á því í einhverja daga. „Ég hef mjög gaman af jólunum svo ég tali nú ekki um besta daginn, annan í jólum, þegar Jólamót Molduxa fer fram. Hann hefur verið stór partur jólanna í mörg ár. Þar er maður í íþróttahúsinu allan daginn og hittir marga brottflutta Skagfirð- inga og stemningin er frábær, ekki síst þegar afmælissöngurinn til Geira er fluttur en nú verður hann sextugur. Það verður eitt- hvað,“ segir Stefán og fjörið geislar úr augum hans og greinilegt að hann hlakkar til mótsins. Allt spilar þetta saman, segir hann, og gangi það upp er hann glaður. Stefán ásamt móður sinni og systkinum. Hér er Stefán ásamt „hinni fjölskyldunni“ eins og hann orðar það sjálfur. MYND: HJALTI ÁRNA Baltasar Bogi klár í jólin fyrir tveimur árum. Allt í toppstandi eftir aðgerð í haust

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.