Bændablaðið - 17.01.2019, Síða 10

Bændablaðið - 17.01.2019, Síða 10
Bændablaðið | Fimmtudagur 17. janúar 201910 FRÉTTIR Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, flutti fyrirlestur á dögunum um fæðuöryggi Íslendinga og áhrif framleiðsluhátta og uppruna matvæla á bakteríur. Þar kom fram að sýklalyfjaónæmi væri mesta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag. Var fyrirlesturinn fluttur á Líf- og heilbrigðisráðstefnunni sem haldin var í Háskóla Íslands 3. og 4. janúar. Karl hóf lesturinn á því að ræða öryggi fæðunnar; áhættuna sem fylgir framleiðslu og meðhöndlun matvæla. Áhætta hafi venjulega verið tengd sýklum eins og salmonella, kampýlóbakter, listería og noroveirum, en nú sé helsta ógnin tengd bakteríum sem valda að jafnaði ekki sjúkdómum en geta borið sýklalyfjaónæmi. Karl sagði að fæðuöryggi fælist einnig í því að landsmenn hafi aðgang að nægum matvælum – þess vegna sé það mikilvægt að Íslendingar stefni að sjálfbærni í sinni fæðuframleiðslu. Verksmiðjubúskapur gróðrarstía ónæmra baktería Mannfólki hefur fjölgað hratt á síðustu áratugum í heiminum og sagði Karl að sú þróun hafi leitt til samsvarandi aukinnar kjötframleiðslu. Afsprengi þessa hafi verið svokölluð „búfjárbylting“ þar sem kjötframleiðsla og -sala þjappast saman nálægt stórum borgum. Að sögn Karls hefur tilhneigingin verið sú að verksmiðjubúgarðar verði í kjölfarið til – sem sé eins konar aftenging milli búfjárræktunar og fóðuruppskeru – og þar sem áhersla verður á ræktun svína og kjúklinga. Slíkur verksmiðjubúskapur hafi mikil áhrif á umhverfi – einkum hvað varðar skít, skólp og vatnsgæði – og setji of mikið álag á skepnurnar. Það hafi svo í för með sér að þær eru viðkvæmari fyrir smitsjúkdómum og komi þeir upp berist þeir mjög hratt út á slíkum býlum. Þar sem mikið er í húfi fyrir bændurna fjárhagslega, að sýkingar komi ekki upp, eru þeir gjarnir á að nota sýklalyf í forvarnarskyni. Sýklalyfin séu auk þess gefin til vaxtarörvunar. Allt þetta sé eins og uppskrift að framleiðslu á ónæmum bakteríum. Afleiðingin er að jarðvegur og grunnvatn mengast af sýklalyfjum og ónæmum bakteríum, mest með búfjárskítnum, og eru sum sýklalyfjanna lengi að brotna niður. Þar sem mannfólk deilir vistkerfi með búfénu og úrgangi þess, eiga sýklalyfin og ónæmar bakteríur greiða leið í okkur. Karl vitnaði til yfirlýsinga WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, frá árinu 2015 þar sem fram kom að ef ekki verði gripið til samræmdra aðgerða um allan heim, sé stefnt inn í tímabil án virkra sýklalyfja þar sem algengar sýkingar munu á ný valda dauðsföllum. Skurðaðgerðir og krabbameinslækningar verði mun hættulegri. Því sé sýklalyfjaónæmi ógn sem brýnt sé að bregðast við sem allra fyrst. Karl segir að á Íslandi sé lítið talað um þessa ógn vegna þess að hún sé ekki enn hér á landi, þó hún sé rétt handan við hornið. Að sögn Karls eru mögulegir sýkingarvaldar oft eðlilegir hlutir þarmaflórunnar eins og til dæmis E coli-bakterían, sem er ein þeirra mikilvægasta. E. coli-bakterían er algengasta orsök bæði þvagfæra- og blóðsýkinga. Hann segir að hún valdi um 40 þúsund dauðsföllum á ári í Bandaríkjunum og sýklalyfjaónæmi hjá henni sé hratt vaxandi. Stór hluti sýkinga á rætur að rekja til kjötmarkaða Karl segir að í nýlegri rannsókn í Bandaríkjunum hafi verið sýnt fram á að um 14 prósent þvagfærasýkinga af völdum E coli-bakteríunnar, í borginni Flagstaff í Arizona í Bandaríkjunum, hafi átt uppruna frá kjöti á markaði. Hann segir að það kunni að virðast lágt hlutfall, en þegar horft sé til þess hversu algengar sýkingar þetta séu, þá sé ljóst að um gríðarlegan fjölda tilfella sé að ræða. Alþjóðaverslun með matvæli hafi færst í vöxt og því skiptir máli hvaðan maturinn kemur sem við flytjum inn til Íslands. Sýklalyfjanotkun er nefnilega afar mismikil eftir löndum og samkvæmt nýjustu tölum frá 2016, um notkunina í Evrópu, er langmest notkun á Kýpur, svo Spáni, þá Ítalíu og svo koma Portúgal og Holland. Karl segir að eftir því sem meira er notað af sýklalyfjum, því meira verður sýklalyfjaónæmi – og þess vegna skiptir þessi tölfræði máli. En það er ekki bara í kjöt- framleiðslu sem sýklalyfjaónæmi breiðist út. Karl benti á að vandamálið í fiskeldi í Austur-Asíu og Kyrrahafsríkjum væri orðið alvarlegt og ónæmar bakteríur hefðu fundist í fiskeldisafurðum þaðan, auk þess sem eldið hafi víða leitt til mengunar jarðvegs og grunnvatns. Ónæmar bakteríur í innfluttu grænmeti Þá vék Karl talinu að grænmetinu, sem almennt er minna bakteríumengað. Hins vegar sé það iðulega borðað hrátt, sem svo aftur auki líkurnar á að bakteríur á því berist í þarmana og taki sér bólfestu þar. Ekki er til nægt grunnvatn til notkunar fyrir ræktun í heiminum og því þarf að nota um 61 prósent af því vatni sem þarf til hennar, frá yfirborðsvatni og endurunnu vatni – sem eykur líkur á smiti. Karl segir að það sé að koma í ljós núna í æ meira mæli að fjölónæmar bakteríur greinist í grænmeti. Í rannsókn á síðasta vetri, þar sem skoðuð voru sýni úr innlendu og innfluttu grænmeti á markaði og ónæmi baktería kannað, kom í ljós að ekkert áunnið ónæmi fannst í sýnum úr innlendri framleiðslu en í ellefu sýnum úr því innflutta – og langflest frá Suður-Evrópu. Engin ný sýklalyf á markaði Karl ályktar af sinni reynslu að lítið sýklalyfjaónæmi sé í íslenskum matvælum. Áhættan á smiti frá matvælum almennt er talin mest í innflutningi á salati og öðru fersku grænmeti, kjúklingum og öðrum alifuglum, svínakjöti og nautahakki – auk sjávarafurða úr fiskeldi sem þó er ekki enn mikil hætta af vegna þess að lítið af þeim er flutt til landsins. Í samantekt sinni um fyrirlesturinn sagði Karl að raunveruleg og vaxandi ógn sé fyrir hendi vegna baktería sem eru ónæmar fyrir öllum eða nánast öllum sýklalyfjum. Hann benti á að engin ný sýklalyf væru á markaði sem gætu komið í staðinn. Hvert ár sem gæti tafið þróunina væri því mikilvægt. Vekja þurfi almenning til umhugsunar um áhættuna af smiti yfir í einstaka íslenska búfjárstofna; hvort og hvernig eigi að varðveita sérstöðuna. Æskilegt sé að Ísland verði sjálfbært í framleiðslu á því kjöti og grænmeti, sem það getur framleitt. /smh Sýklalyfjanotkun í matvælaframleiðslu og sýklalyfjaónæmi: Talin mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag – segir prófessor í sýklafræði og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans Karl G. Kristinsson ytur fyrirlesturinn sinn í Háskóla Íslands. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi: Ef úthaginn er rýr nýta mófuglar sér frekar landbúnaðarlöndin Í lok síðasta árs var birt grein í alþjóðlega vísindaritinu Agri- culture, Ecosystems & Environ- ment sem Lilja Jóhannes dóttir, starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, er höfundur að ásamt starfsfélögum sínum á Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi. Í greininni kemur fram að áhrif aukinnar landnýtingar á fjölda mófugla geti bæði verið jákvæð og neikvæð, slíkt fari eftir aðliggjandi búsvæðum. Greinin á rætur í doktorsverkefni Lilju sem hún lauk árið 2017 og var hluti af stærri rannsókn á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi sem ber heitið Tengsl landnotkunar og verndar farfugla á láglendi Íslands. Bændur ætla að auka flatarmál ræktað lands Lilja segir að í fyrri rannsóknum hennar hafi hún kannað viðhorf bænda á Íslandi til samspils landnýtingar og fuglaverndar, þar sem fram hafi komið að meirihluti íslenskra bænda ætli að auka flatarmál ræktað lands í sínum búrekstri á næstu árum. „Breytt landnýting hefur óhjákvæmilega áhrif á þær fuglategundir sem nýta landið og við sem stöndum að rannsókninni vildum skoða hver þau áhrif yrðu. Í dag er um helmingur alls ræktaðs lands á Íslandi á framræstu votlendi og ekki ólíklegt að áætla að fyrirhuguð aukning muni leiða til taps á votlendi. Votlendi er gríðar mikilvægt fyrir mófugla og því var ákveðið að skoða hver áhrifin af breyttu framboði þessara tveggja búsvæða, ræktað lands og votlendis, yrðu á fjölda algengustu fuglategunda sem finnast í mósaík úthaga og landbúnaðarlands. Sex algengustu vaðfuglategundirnar í úthaga á Íslandi voru skoðaðar í þessari rannsókn; hrossagaukur, jaðrakan, lóuþræll, stelkur, spói og lóa. Allar þessar tegundir hafa hnignandi stofna á heimsvísu og berum við samkvæmt alþjóðasamningum ábyrgð á að þeim fækki ekki.“ Ræktað land getur komið mófuglum til góða Að sögn Lilju benda niðurstöður greinarinnar til að áhrif af aukinni ræktun séu mismunandi eftir landslagi og frjósemi búsvæða. „Þar sem úthaginn er frjósamur kjósa fuglarnir heldur að nýta náttúruleg búsvæði fremur en ræktað land en þar sem úthaginn er rýrari virðist sem að í ræktuðu landi skapist aðstæður sem nýtast fuglunum. Einnig kom í ljós, sem ekki er óvænt, að betra er fyrir mófugla að hafa meira votlendi í umhverfinu, jafnvel þar sem þeir kjósa að verpa í þurrlendi,“ segir Lilja Jóhannesdóttir. /smh Lilja Jóhannesdóttir, starfsmaður áttúrustofu Suðausturlands. Ánægðir neytendur með vörur sínar á Akranesi. Samráðsfundur REKO í Bændahöllinni – Framtíðarsýn mótuð fyrir félagsskapinn Samráðsfundur REKO Reykjavík og Vesturlands verður haldinn fimmtudaginn 24. janúar og er hugsaður fyrir bændur, heima- vinnsluaðila og smá framleiðendur sem hafa tekið þátt í eða hafa áhuga á að taka þátt í þessum félagsskap. REKO-hóparnir eru reknir í gegnum Facebook-síður og tengja matvælaframleiðendur beint við neytendur, með milliliðalausum viðskiptum. REKO-hópar hafa verið starfræktir fyrir Vesturland og Reykjavík frá síðasta hausti og nýverið bættust við sunnanverðir Vestfirðir, Norðurland og Suðurland. Samráðsfundurinn er á vegum REKO Reykjavík og REKO Vestur- land fyrir bændur, en félagar í öðrum REKO-hópum eru velkomnir og hvattir til að mæta. Tilgangurinn með fundinum er að þjappa hópnum betur saman, ræða hvernig hafi gengið hingað til, hvað hafi gengið vel og hvað megi betur fara, fá nýjar hugmyndir, svara spurningum og ræða hvernig meðlimir vilji sjá REKO þróast til framtíðar. Að auki er markmiðið að taka ákvörðun um það hvenær og hvar næstu REKO-afhendingar verða og síðast en ekki síst ræða leiðir til að ná til fleiri neytenda. Samráðsfundurinn verður haldinn klukkan 17.30–19.00 í fundarsal Hótel Sögu á 2. hæð í Bændahöllinni, Hagatorgi 1, 107 Reykjavík. /smh

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.