Bændablaðið - 17.01.2019, Qupperneq 43

Bændablaðið - 17.01.2019, Qupperneq 43
Bændablaðið | Fimmtudagur 17. janúar 2019 43 breytist verulega eftir því hve mikið loft er í dekkjunum. Þannig geta þau gefið afar gott grip sé lítið loft í dekkjunum en henta vel við akstur á föstu undirlagi sé mikið loft í þeim! CNH Industrial Danmark – fyrir þreskivélina „New Holland CR10.90“ sem er talin sú öflugasta á markaðnum í dag. Þessi þreskivél notast við sérstakt sjálfvirkt kerfi sem kallast IntelliSense, sem sér sjálfvirkt um að stilla þreskivélina á 20 sekúndna fresti og á tækið þannig að geta tryggt að bóndinn fái alltaf hámarks uppskeru þó svo að akurinn kunni að vera breytilegur. Agro Intelligence – fyrir tækið „CloverCam“, sem er sérstök tölvumyndavél sem er tengd við snjallsímaforrit og sér myndavélin um að kortleggja tún með sjálfvirkum hætti sé hún tengd við þar til gerðan þjarka. Kæld vatnsdýna! Eins og fram kemur hér að framan þá fékk kælda vatnsdýnan „Aquaclim“ frá fyrirtækinu Staldmæglerne gullverðlaun í sínum flokki. Þessi nýjung er sérstaklega hönnuð til þess að létta kúm lífið á sumrin þegar hitastigið fer yfir 20 gráður. Hitastreita hjá kúm er vaxandi vandamál en samhliða auknum afurðum eykst það álag sem kýrnar verða fyrir þegar hitinn á sumrin fer yfir 20 gráður. Hér áður fyrr var þetta ekkert vandamál, enda kýrnar ekki sérlega nytháar en í dag er staðan önnur. Samhliða auknu áti eykst framleiðsla kúnna á umframorku sem þær þurfa að losna við og því sækja þær í kulda frekar en hita. Þar sem við viljum gjarnan að kýr liggi sem mest og framleiði mjólk fara ekki alltaf saman hagsmunir bóndans og kúnna þegar sumarhitinn fer yfir 20 gráður og Staldmæglerne hafa því komið með nýjungina Aquaclim sem er sérstaklega hönnuð til þess að kæla kýr! Þessi vatnskælda dýna fyrir kýr er bæði talin afar þægileg fyrir kýrnar að liggja á, þar sem hún lagast vel að líkama þeirra þegar þær liggja, auk þess sem dýnurnar eru samtengdar við sérstakt vatnskælikerfi. Kælikerfið er þannig byggt upp að hitaorkan frá kúnum leiðist út í kælivökvann sem er leiddur út í varmaskipti sem dregur hitann úr vökvanum. Verkleg sýning í viðgerðum Í ár var einkar áhugaverð nýjung á sýningunni, en í einni höllinni var hópur nemenda í iðnnámi að sinna viðhaldi á hefðbundnum landbúnaðartækjum. Áhorfendur gátu fylgst með vinnu þeirra og fræðst samhliða um námið þ.e. að vinna við viðgerðir og viðhald, en þessi verklega sýning var sérstaklega hugsuð til þess að efla áhuga ungs fólks á verklegu námi. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til en á hverjum degi sýningarinnar voru bekkirnir þétt setnir af ungu og áhugasömu fólki um fagnám í viðgerðum og viðhaldi. Glæsilegir gripir Líkt og á undanförnum Agromek- sýningum var haldin vegleg sýning á kynbótagripum og veitt verðlaun fyrir bestu gripina í hverjum flokki, en flokkað var eftir aldri, kyni og tegund. Þessi hluti sýningarinnar vekur alltaf mikla athygli og nota margir danskir ræktendur tækifærið til að sýna gripi sína fyrir mögulegum kaupendum. Útflutningur kynbótadýra frá Danmörku hefur verið mikilvæg búbót fyrir marga bændur og hefur áhugi erlendra kaupenda verið stöðugt vaxandi undanfarin ár og þá bæði á holdagripum og mjólkurkúm. Þá hefur kynbótafyrirtækinu VikingDanmark vaxið ásmegin á liðnum árum eftir sérlega gott gengi danskra mjólkurkúa, en afurðasemi þeirra er í sérflokki í Evrópu og sú næstmesta í heiminum í dag. Fræðsluhornið Á Agromek sýningunni í ár voru haldnar sérstakar fræðslukynningar þar sem gestir gátu hvílt lúin bein og hlustað á mismunandi fyrirlesara halda erindi um ýmis málefni tengd landbúnaði. Þessi erindi snéru að bæði búfjárrækt, jarðrækt og tækninýjungum og nýttu margir sér tækifærið til að hlusta á erindin sem flutt voru af helsta fagfólki í Danmörku. Næsta Agromek sýning verður haldin seinnipartinn í nóvember 2020. Limosine kynbótagripir voru m.a. sýndir á Agrómek. Vatnskæld dýna fyrir mjólkurkýr. LESENDABÁS Nýir tímar – ný ráð? Fulltrúar bænda búa sig nú undir endurskoðun búvörusamninga, sem skilgreina rekstrarskilyrði þeirra til næstu ára. Það er hagur allra atvinnugreina að búa við stöðugleika og fyrirsjáanleika í rekstri. Það er jafnframt mikilvægt í hverri grein að geta nýtt möguleika til hagkvæmni og framleiðniaukningar í starfseminni. Í tilviki okkar kúabænda að geta framleitt hvern lítra af mjólk með lægri tilkostnaði. Þessi síðari þáttur skiptir mestu þegar við stöndum frammi fyrir aukinni samkeppni við innfluttar vörur sem eru framleiddar við hagstæðari skilyrði og með lægri tilkostnaði en hér er kostur á. Í umræðum í aðdraganda búvörusamninganna hefur áherslan verið meiri á fyrri þáttinn, það sem getur stuðlað að stöðugleika og fyrirsjáanleika í rekstrinum. Fram undan er atkvæðagreiðsla um hvort hafa eigi hér kvótakerfi í mjólkurframleiðslu eins og verið hefur. Nokkuð skiptar skoðanir eru um málið en þó held ég að þeir séu fleiri sem vilja halda í einhvers konar framleiðslustýringu. Það er ekki einkennilegt því þeir telja að þannig sé best tryggð afkoma kúabúa vegna þess að kvótakerfið haldi framleiðslunni í skefjum og komi þannig í veg fyrir lækkun á meðalverði hráefnis til bænda. Eftir fjögurra áratuga sögu kvótakerfisins er þetta líka það eina rekstrarumhverfi sem núverandi kynslóð kúabænda þekkir. Þetta hefur verið nokkuð stífur rammi utan um reksturinn og hefur skapað ákveðna öryggistilfinningu. Kvótakerfið hefur vissulega ákveðna kosti. Það er mikilvægt að hafa í huga að það virkar fyrst og fremst í samhengi við aðra þætti, einkum og sér í lagi á það við á lokuðum markaði. Hin hliðin á þeim peningi er að ef slíkur markaður opnast skyndilega kemur í ljós sá galli kvótakerfa að þau hægja á hagræðingu í greininni. Uppkaup á kvóta til að skapa stærri og hagkvæmari rekstrareiningar eru dýr og hafa leitt til aukinnar skuldsetningar kúabúa. Þetta gerir greininni erfiðara um vik en ella að lækka framleiðslukostnað á mjólk vegna þess að til viðbótar fjármagnskostnaði af kvótakaupum kemur fjármagnskostnaður vegna nýrrar framleiðslutækni, sem óhjákvæmilegt er að innleiða í greininni. Við búum nú í allt öðru samfélagi en þegar framleiðslustýringunni var fyrst komið á og aðstæður breytast nú hraðar en nokkru sinni fyrr í íslenskum landbúnaði. Það eru þrjú atriði sem ég geri að umtalsefni hér að neðan. Mun framgangur þeirra hafa mikil áhrif á þróun greinarinnar á næstu árum. Spurningin er hvort við sé betur stakk búin með eða án kvótakerfis á þeirri vegferð. Meiri erlend samkeppni – minni markaðshlutdeild Nýir milliríkjasamningar, og þar ber hæst tollasamninginn við ESB, munu kosta nautgripabændur 2 milljarða króna á ári í töpuðum markaðstekjum. Það eru um 5% af ársveltu í kúabúskap og mjólkurvinnslu. Áætlað er að hann kosti mjólkuriðnaðinn um 1.5 milljarð á ári og varlega er áætlað að hann muni kosta nautgripabændur um 500 milljónir í tekjutap. Við erum strax farin að sjá áhrifin bæði í verðþrýstingi og eftirspurn eftir innlendum vörum. Við töpum markaðshlutdeild þó að við stöndum í stað í magni. Innflutningur er að taka til sín alla stækkun markaðarins. Þetta hefur vitaskuld áhrif á verð. Nautgripakjöt hefur þegar lækkað um 15% í verði og það er bara byrjunin. Hvaða möguleika höfum við sem kúabændur til að bregðast við? Mun kvótakerfið verða gagnlegt tæki í baráttunni? Ætlum við að sætta okkur við minnkandi markaðshlutdeild og nýta kvótakerfið til að draga úr framleiðslu. Til þess er kvótakerfi vissulega smíðað og til þess virkar það vel. Við hljótum að spyrja hvort við getum unnið úr þessari stöðu með öðrum hætti og tekið slaginn? Tekjur á markaði standa ekki undir greiðslum til bænda Staðan á markaðnum er nú með þeim hætti að við erum ekki að ná þeim markaðstekjum sem þarf til að standa undir núverandi afurðastöðvaverði til bænda. Þar munaði 500 milljónum á síðasta ári og má gera ráð fyrir en meiri halla á þessu ári. Það er sem sagt verið að yfirborga hráefni miðað við verð og eftirspurn á innanlandsmarkaði upp á 500 milljónir króna á ári. Það er um ein milljón króna að meðaltali á hvern kúabónda. Það er bændum lífsnauðsynlegt að eiga og reka afurðastöðvarnar en með þessu fyrirkomulagi er verið að svelta þessi fyrirtæki. Afurðastöðvaverð sem endurspeglar ekki stöðuna á markaði dregur greinina til dauða. Um þetta var tekist á í forystu Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar á síðasta ári. Niðurstaðan þar var að horfast ekki í augu við þennan vanda og halda áfram að að svelta afurðafyrirtækið í nauðsynlegri endurnýjun tækja og búnaðar og vonast eftir betri tíð. Þrautalendingin var að nýta afkomu af skyrsölu erlendis til að styðja við innlenda markaðinn. Það er öllum ljóst að undirritaður varð undir í þessum átökum og hætti sem stjórnarformaður Auðhumlu. Ég tel augljóst að sú stefna sem er verið að fylgja er röng og stórhættuleg greininni. Það er ekki skynsamlegt að nýta tekjur af erlendum markaði til verðmyndunar á lokuðum innanlandsmarkaði sem lýtur opinberri verðlagningu. Niðurstaðan er augljós. Í samningum við hið opinbera verður að tryggja mjólkuriðnaðinum meira frelsi til að verðleggja vörur út á markaði og skila bændum eins háu verði og unnt er bæði fyrir mjólk innanlands og utan. Jafnframt verða bændur að horfast í augu við að afurðastöðvaverð hlýtur á hverjum tíma að endurspegla það sem markaðurinn skilar greininni. Breytum hugsun í birgða- og verðstýringarkerfi Að mínu mati er nauðsynlegt að kúabændur sameinist í einu innvigtunarfélagi, sem gæti gerst með þeim hætti að mjólkurframleiðendur í Skagafirði gengju í Auðhumlu. Þá væri öll mjólk vigtuð inn af einum aðila sem greiddi sama verð til bænda óháð því í hvaða vörur mjólkin færi. Auðhumla myndi svo selja til vinnsla í fjórum verðflokkum eftir í hvað mjólkin væri ætluð, þarna væri verðmiðlunin komin á hráefnisgrunn og ástæðan er að framlegð af mismunandi vöruflokkum er mjög ólík. Afurðastöð sem kysi að framleiða einungis framlegðarháar vörur greiddi hærra verð fyrir hráefni en sú sem væri í framlegðarlægri vörum. Þessi verð væru ákveðin af opinberi verðlagsnefnd eins og afurðastöðvaverð sem bændum væri greitt. Önnur verðmyndun úti á markaði væri með öllu frjálsu og yrði stýrt af marðaðsaðstæðum. Undanþáguákvæði frá samkeppnis- lögum væri óþarft við þessar aðstæður. Setja þyrfti skýran lagaramma utan um rekstur og verðlagningu Auðhumlu sem og eftirlit með starfseminni. Með svona fyrirkomulagi væri staða bænda best tryggð þeir hefðu allir sama aðgang að heildsölumarkaði hvar sem þeir væru á landinu og fengju sama verð. Þetta fyrirkomulag er þekkt frá fjölda annarra landa í mismunandi útfærslum, t.d Bandaríkjunum og Noregi. Að lokum Ég hef í þessari stuttu grein gert skil þremur megin viðfangsefnum sem ég tel að mjólkurframleiðendur standi frammi fyrir. Tímarnir og aðstæður allar eru gjörbreyttar frá því kvótakerfið var upphaflega sett á. Nýjar aðstæður kalla á nýja nálgun. Við þurfum að móta stefnu okkar með hliðsjón af framtíðinni, sama hversu glæst fortíðin var. Hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða og við megum ekki festast í hlekkjum hugarfars við lausn á þeim. Ég óska öllum bændum gjöfuls og farsæls árs. Egill Sigurðsson Egill Sigurðsson.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.