Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.04.2020, Qupperneq 15
Leikhússtjórinn Vigdís sést hér við fyrstu skóflustunguna að Borgarleikhúsinu árið 1976 ásamt
Steindóri Hjörleifssyni og fleirum. Þrettán ár liðu áður en húsið var formlega opnað.
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
ar. Og maður skilur alveg að innstu hjartarót-
um hvernig fólkinu líður. Þeir sem þurfa hugg-
un skynja samkenndina.“
Fundu sig á Bessastöðum
Hlutverk forsetans sem andi og sál þjóð-
arinnar gat birst í mörgum mismunandi mynd-
um. „Ég safnaði ljóðum í skápinn hans Gríms
Thomsen,“ segir Vigdís, en í stofu Gríms á
Bessastöðum er stór skápur, sem Vigdís kall-
aði ljóðaskápinn.
„Og einn daginn komu tveir piltar eða ungir
menn sem sögðu mér að þeir væru skáld og
spurðu hvort það væri rétt að ég safnaði ljóð-
um. „Jú, lengi gert það.“ „Heldurðu að þú eigir
eitthvað eftir okkur?“ spurðu þeir, en ég
keypti þá allar ljóðabækur sem gefnar voru út
á Íslandi. Ég sagði þeim að fara og gá, og þeir
röltu inn í Grímsstofu. Svo þegar þeir komu
aftur, sá ég þá í dyrunum að stóra salnum og
spurði hvernig leitin hefði gengið, hvort þeir
hefðu fundið eitthvað,“ segir Vigdís. „Og þá
var eins og hefði verið kveikt á kerti yfir höfð-
inu á þeim, „Já, við erum þarna,“ sögðu þeir og
geisluðu af ánægju.“
„Það eru svona minningar sem ég geymi alla
daga, þeir voru svo glaðir að hafa fundið sig á
Bessastöðum!“ segir Vigdís.
Blaðamaður veltir fyrir sér hvar annars
staðar í víðri veröld gætu tveir ungir menn
fengið að skoða sig um bústað þjóðhöfðingjans
í svipuðum erindagjörðum. „Upplifun mín var
alltaf sú að þjóðin væri vinur minn. Auðvitað
var ég gagnrýnd stöku sinnum í pólitískum
málum, eins og EES-málinu, en ég skynjaði
aldrei annað en að þjóðin væri vinur minn.“
„Að sjálfsögðu gat ég farið í taugarnar á ein-
hverjum, maður getur aldrei verið eins og allir
óska og mér dettur ekki í hug að ég hafi verið
það. Og kannski voru einhverjir fúlir yfir að ég
skyldi hafa verið svona lengi þarna, því menn
vilja alltaf breytingar, eitthvað nýtt.“
– En hvað varð þá til að þú lést gott heita?
„Hamingjan góða, sextán ár eru langur tími!“
segir Vigdís, og bætir við að frá upphafi hafi
hún alltaf verið hvött til að láta slag standa
þegar kom að ákvörðunum sem skiptu máli.
Rétt er að geta þess að embættistími Vigdís-
ar var jafnlangur tíma Ásgeirs Ásgeirssonar
sem einnig gegndi embættinu í fjögur kjör-
tímabil. „Þetta var langur tími og ég er þakk-
lát fyrir að hann skyldi vera farsæll.“
Embættið mótað af hefðum
Spurð um áhrif fyrirrennara síns á embættið
segir Vigdís að Kristján Eldjárn hafi verið sér
mikil fyrirmynd. „Ég breytti engu frá því sem
Kristján gerði, nema ég breytti því að segja
„við Íslendingar“ en ekki „vér“. Einhverjum
þótti það afleit breyting, en tungumálið hafði
einfaldlega gengið til móts við nútíðina. En ég
hugsaði mjög oft til þess þegar eitthvað kom
upp á, hvað hefði nú Kristján gert, hvernig
hefði hann hugsað þetta? Ég hafði hann alltaf
sem fyrirmynd í huganum því hann var farsæll
forseti og mikill öndvegismaður og þau bæði,
hann og Halldóra kona hans.“
Talið berst að eðli forsetaembættisins, en
það virðist oft draga dám af þeim sem situr á
Bessastöðum hverju sinni, á sama tíma og
ýmsar hefðir og venjur gilda um embættið.
„Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir hefð-
um og hélt mjög fast í þær og geri enn. En ég
áttaði mig snemma á því að hver verður að
móta embættið eftir sinni persónu og áhuga-
málum.“
Segja má að áhugi Vigdísar á tungumálum,
og þá sér í lagi móðurmálinu, hafi mótað for-
setatíð hennar en þegar í fyrstu innsetning-
arræðu sinni vék hún sérstaklega að íslenskri
tungu: „Tungan geymir sjóð minninganna, hún
ljær okkur orðin um vonir okkar og drauma.
Hún er hið raunverulega sameiningartákn
okkar og sameiningarafl.“
Vigdís segir að sér hafi ávallt verið mjög
annt um íslenska tungu og þyki mikilvægt að
farið sé vel með hana. Það gildir enda enn það
sem Vigdís sagði þá að orðin eru kastalar okk-
ar Íslendinga. „Það skiptir mig miklu máli að
farið sé vel með íslenska tungu. Hún er unaðs-
lega falleg, þegar vel er með hana farið.“
Vigdís segist einnig hafa dálæti á íslenskri
ljóðagerð, nánast frá Agli Skallagrímssyni og
fram til vorra daga. „Íslensk tunga er eins og
hún sé sköpuð fyrir ljóðagerð, hún hefur kom-
ist af í gegnum alla tískustrauma áranna og
finnur sér nýjan farveg til ljóðagerðar og gefur
henni endalaust endurnýjaðan kraft.“
Ekki setið auðum höndum
Í ár eru liðin fjörutíu ár frá því að Vigdís náði
kjöri, og 24 frá því að hún lét af embætti. En
því fer fjarri að hún hafi sest í helgan stein þó
að aðrir tækju upp búskap á Bessastöðum.
„Ég hef verið og er enn mjög heppin að hafa
heilsu til þess að sinna vinnu minni, en það hef-
ur margt drifið á daga mína síðan.“
Vigdís segir að sér hafi þótt sérstaklega
vænt um það þegar UNESCO, mennta-, vís-
inda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóð-
anna, gerði hana að velgjörðarsendiherra fyrir
öll tungumál heimsins árið 1998. „Ég hafði oft
hitt forstjóra UNESCO, Federico Mayor, á
menningarsamkomum og ég spurði hann
hvers vegna ég hefði verið valin til að gegna
þessu starfi. Þá sagði hann að hann hefði svo
oft heyrt mig tengja saman tungumál og þjóð-
ararf. Þá hef ég eflaust verið að notfæra mér
Snorra-Eddu,“ segir Vigdís með glettni í rödd-
inni og bætir við því heilræði, að þurfi menn að
flytja ræður á erlendri grund sé ágætt að
sækja sér efni í Edduna. „Menn eru oft að
sofna ofan í súpuna í opinberum kvöldverðum,
en allir fara að hlusta ef sögð er góð saga, og
sögurnar hans Snorra eru kjörnar fyrir slík
ræðuhöld.“
Árið 2001 var svo Stofnun Vigdísar Finn-
bogadóttur í erlendum tungumálum stofnsett
við Háskóla Íslands. „Páll Skúlason rektor
hringdi í mig um aldamótin og spurði hvort ég
myndi fallast á að stofnun erlendra tungumála
við Háskóla Íslands yrði sett á fót og nefnd eft-
ir mér. Ég sagði auðvitað já takk og síðan þá
blómstraði stofnunin undir stjórn Auðar
Hauksdóttur, og gerir raunar enn. Þar kom
svo að okkur tókst að byggja þetta hús yfir
stofnunina, sem heitir því lýsandi nafni Ver-
öld.“
Vigdís bætir við að sér þyki staðsetning
hússins á Suðurgötu mjög viðeigandi þar sem
Veröld er við hlið loftskeytastöðvarinnar
gömlu sem byggð var til að tryggja samband
við útlönd. „Og það er nú ekki hægt að hafa
mikið samband við útlönd nema kunna eitt-
hvað fyrir sér í erlendum tungumálum, en þar
norður af kemur Hús íslenskra fræða, síðan
Landsbókasafnið og Þjóðminjasafnið handan
götunnar. Það má kalla þessa veglegu bygg-
ingaröð við Suðurgötuna verndarvegg Há-
skóla Íslands.“
Aðspurð segir Vigdís tungumálakennslu
skipta miklu máli en þróunin hér hafi orðið sú
að enskan sé ráðandi sem sé skiljanlegt.
Enskukunnátta ein og sér geti hins vegar ekki
komið í stað þess að læra önnur tungumál.
„Fortíð og sál þjóða birtist í bókmenntum
þeirra og við verðum að tileinka okkur tungu-
mál og hvernig þjóðin hugsar á því máli ef við
viljum kynnast þeim. Maður nær best til ein-
staklinga með því að læra eitthvað í tungu
þeirra,“ segir Vigdís og bætir við að hún beri
þess vegna mikla virðingu fyrir þeim sem flytj-
ist hingað til lands til að búa hér og leggi það á
sig að læra íslensku til að aðlagast samfélag-
inu.
Tökum því sem að höndum ber
Núverandi ástand hefur vart látið neitt manns-
barn ósnortið. Áhrifa þess hefur meðal annars
gætt á þetta viðtal, sem að öllu jöfnu hefði ver-
ið tekið upp augliti til auglitis. Það hefur farið
fram yfir síma og nýjar ljósmyndir af viðtals-
efninu eru ekki í boði því ekki þykir áhættan
þess virði á tímum heimsfaraldurs.
„Þessi ógn sem að okkur steðjar snertir all-
ar þjóðir, kórónuveiran er orðin að heimsfar-
aldri. Getum við vænst þess að okkur verði
hlíft? Ef okkur verður ekki hlíft verðum við að
takast á við þetta heimsmein af æðruleysi og
virðingu fyrir samborgurum okkar,“ segir Vig-
dís um ástandið.
„Við erum einnig farin að átta okkur á að af-
leiðingarnar geti orðið langvinnar og þá einnig
á efnahaginn. Við eigum enn engin ráð önnur
en að taka því sem höndum ber, eins og reynd-
ar Íslendingar hafa gert um aldir.“ Vigdís er
sannfærð um að þjóðin muni leysa þennan
vanda. „Öll él birtir upp um síðir.“
Vigdís Finnbogadóttir, fjórði forseti lýðveldisins ásamt þeim sjötta, Guðna Th. Jóhannessyni, núver-
andi forseta, við opnun sýningar um fullveldi Íslands á hundrað ára afmæli þess árið 2018.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Vigdís studdi vel við skógrækt á Íslandi. Hér gróðursetur hún þrjú tré í Barmahlíð með aðstoð
tveggja drengja. Eitt tréð var fyrir drengi, eitt fyrir stúlkur og hið þriðja fyrir komandi kynslóðir.
Vigdís tók á móti mörgum tignum gestum á forsetatíð sinni. Hér er hún ásamt Elísabetu II. Breta-
drottningu á Fríkirkjuvegi árið 1990 og heilsuðu þeim sem komu til þess að sjá drottninguna.
Morgunblaðið/RAX
12.4. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15