Víkurfréttir - 07.10.2020, Page 13
„Ég er bara í toppmálum og er hrikalega sáttur með borgina og liðið sem ég er í. Við erum
búnir að bæta við okkur mörgum leikmönnum síðan í fyrra og ætlum okkur stóra hluti,“ segir
Jón Axel Guðmundsson, körfuboltakappi úr Grindavík, en hann gekk til liðs við þýska úr-
valsdeildarliðið Fraport Skyliner í Frankfurt í sumar og mun leika með liðinu í Bundesligunni.
– Hvað geturðu sagt okkur um
borgina og hvenær fórstu?
„Ég flaug út í lok ágúst til Frankfurt.
Ég fíla þetta alveg í botn, hef búið
í smábæ allt mitt líf þannig að það
er gott að geta keyrt niður í miðbæ,
farið á kaffihús, rölt aðeins um og
verslað sér einhverjar flíkur. Borgin
er risastór þannig séð, ég bý í
einhverju „molli“ hérna sem er svona
tíu mínútur frá miðbænum. Svo er á
hérna þar sem margir koma og liggja
á handklæði í góðu veðri. Þar sem
hér er engin sjór er áin notuð eins og
baðströnd, meiriháttar skemmtilegt.“
– Hvernig líst þér á liðið, aðstæður
og keppni framundan?
„Mér líst mjög vel á allt hérna, flottar
aðstæður sama hvert litið er. Við
erum með mikið af vopnum í liðinu
og fullt af gæjum sem geta skorað
þannig það verður spennandi að sjá
hvernig okkur mun ganga. Mér gekk
mjög vel í æfingaleik um síðustu
helgi sem við unnum (skoraði 27
stig, átti fjórar stoðsendingar og hirti
fjögur fráköst).“
– Hvernig kom það til að þú settir
NBA-drauminn aðeins í pásu og
endaðir í Þýskalandi?
„Ég setti eiginlega ekki NBA-
drauminn á pásu. Það var meira
svona Covid-19 sem sá um það. Það
vita allir hversu slæmt Covid er í
heiminum og hvað þá í Ameríkunni,
þannig að þeir í NBA vita ekkert
hvernig næsta tímabil verður. Til
dæmis var leikmannavalið (draftið)
í júní fært yfir í október en núna er
búið að færa það ennþá aftar og á
að vera í lok nóvember. Ég er hins
vegar ennþá að tala við lið sem eru
í NBA-deildinni, er til dæmis að tala
við Golden State Warriors núna í
næstu viku. Er bara reyna selja þetta
svona sem „draft og stash“ eins og
það kallast. Eitthvað lið „draftar“
mig og mun þá eiga réttinn á mér og
svo getur það notað mig eftir þetta
ár. Það eru mörg lið að skoða það
og finnst gott að maður fái eitt ár í
Evrópu þar sem ég fæ að spila mikið
og læra allt það helsta. Koma svo
sterkur inn á næsta ári. Þetta mun
koma frekar í ljós á næstunni. Nú er
bara að bíða og vona það besta og
að einhver muni kalla nafnið mitt.“
– Svo er yngri bróðir þinn, Ingvi
Þór, líka kominn til Þýskalands. Þú
hlýtur að hafa fagnað því.
„Já, ég er hrikalega stoltur af honum
að hafa ákveðið þetta. Maður
þarf bara stíga upp listann og
vinna sig á hæsta stall eins og við
sjáum með Martin Hermannsson.
Hann byrjaði í næstefstu deild í
Frakklandi og er núna kominn í
eitt besta lið í heimi. Maður verður
að byrja einhvers staðar og keyra
atvinnumannaferilinn í gang. Það
skemmir ekki að það eru ekki nema
fjórir tímar í lest á milli okkar þannig
ættum að geta hist eitthvað.“
– Hvernig er staðan á Covid-19
þarna úti?
„Heyrðu, ég veit ekki mikið um
hvernig staðan er, þannig lagað. Held
hún sé bara fín í borginni minni en
veit að allir þurfa vera með grímur
inni við á almenningsstöðum en
mega taka hana af úti við. Við
leikmenn megum ekki ferðast
með lestum og strætisvögnum og
eigum eingöngu að ferðast í bíl til
að minnka áhættuna á að smitast.
Svo erum við settir í Covid-próf alla
mánudaga.“
– Hvernig fór sumarið með þig á Ís-
landi, varstu kannski bara að æfa
á fullu?
„Sumarið fór mjög vel með mig.
Þetta var fyrsta sumarið þar sem
ég var heima í meira en tvær vikur
síðustu fjögur árin og eyddi miklum
tíma með fjölskyldu og vinum. Ég
spilaði mikið golf með fjölskyldunni
og félögum mínum og naut þess að
vera á Íslandi. Svo var ég að æfa á
hverjum einasti degi heima til að
vera alltaf tilbúinn að fara út.“
– Tókstu golfsettið með. Þú ættir
að geta leikið eitthvað golf þarna
er það ekki?
„Að sjálfsögðu greip ég kylfurnar
með mér. Planið er að taka upp
golfhanskann þegar atvinnu-
mennskan er búin. Er búinn að
spila fjóra, fimm hringi hérna. Maður
vælir alltaf yfir kuldanum heima en
hérna er maður farinn að væla yfir
hitanum en það hefur
verið mjög heitt. Það eru
margir gríðarlega flottir
vellir hérna í Frankfurt
og maður nýtir veðrið
og frídagana mikið
til að fara í golf.“
JÓN AXEL
í toppmálum í Frankfurt
Jón Axel Guðmundsson hefur
undanfarin fjögur ár leikið fyrir
Davidson Wildcats í bandaríska
háskólaboltanum. Árið 2019 var
Jón Axel valinn leikmaður ársins
í Atlantic 10. Jón Axel átti frá-
bæran feril með Davidson-liðinu
og til stóð að hann færi í nýliðaval
NBA í haust en ekkert varð af því,
mestmegnið út af Covid-19.
Samningur Jóns Axels við
Skyliners gildir út komandi leik-
tímabil, 2020–2021. Lið Fraport
Skyliners endaði í sjöunda til átt-
unda sæti í þýsku Bundesligunni
síðasta ár en liðið varð þýskur
meistari árið 2004 og vann þar
að auki FIBA Europe Cup árið
2016. Jón Axel er 23 ára gam all
bakvörður og lék með Grindavík
þar til að hann hélt til náms vest-
an hafs. Hann hef ur leikið ellefu
A-lands leiki fyr ir Íslands
hönd.
Jón Axel var stiga-
hæstur í æfingaleik
með liði sínu nýlega
þar sem hann skoraði
27 stig og var besti
maður liðsins í leiknum.
Keppnistíðin hefst síðar
í október.
Grindvíski körfuboltakappinn
Guðmundur Bragason, faðir Jóns Axels,
var einn af bestu körfuboltamönnum
landsins, hann var m.a. í liði Grindavíkur
þegar liðið varð Íslandsmeistari 2003
og á einnig marga landsleiki að baki.
Páll Ketilsson
pket@vf.is
vÍkUrFrÉTTir Á SUðUrNESJUM Í 40 Ár // 13