Feykir


Feykir - 21.08.2019, Blaðsíða 5

Feykir - 21.08.2019, Blaðsíða 5
Fótbolti 4. deild Kormákur/Hvöt skrefi nær úrslitakeppninni Lið Kormáks/Hvatar hefur heldur betur sýnt hvað í því býr í 4. deildinni að undanförnu en liðið hefur nú unnið átta leiki í röð og er í góðum séns með að skila sér í úrslitakeppni um sæti í 3. deild nú þegar ein umferð er eftir óleikin í B-riðli. Á laugardaginn fengu Húnvetningarnir lið ÍH í heimsókn á Blönduósvöll og unnu glæsilegan 6-0 sigur. Ingvi Rafn kom K/H yfir á 23. mínútu og Diego Moreno Minguez gerði sitt fyrsta mark í leiknum á 37. mínútu en hann átti eftir að fara heim með splunkunýtt hatt-trikk á ferilskránni þegar leik var lokið. Staðan var 2-0 í hálfleik en það var Ingvi Rafn sem bætti við öðru marki sínu á 58. mínútu. Diego bætti við marki úr víti á 79. mínútu, Bergsveinn Snær gerði fimmta mark K/H á 89. mínútu og loks kórónaði Diego dagsverkið með marki á fyrstu mínútu uppbótartíma. Kormákur/Hvöt er nú í öðru sæti B-riðils með 32 stig og mætir liði Úlfanna í lokaumferðinni en Úlfarnir eru í fjórða sæti riðilsins. Þá mætast einnig innbyrðis liðin tvö sem eru að berjast um sæti í úrslitunum; Hvíti riddarinn (31 stig) og topplið Snæfells (34 stig). Húnvetningar þurfa því að sigra í síðustu umferðinni til að gulltryggja sætið í úrslitakeppninni. Aðspurður um möguleika K/H að komast upp í 3. deild, ef liðið kemst í úrslitakeppnina, segir Bjarki Már Árnason, þjálfari: „Ég met það svo að við séum í góðum séns, en já, það eru erfiðir mótherjar framundan. Við erum í raun að fara i hálfgerða bikarkeppni eins og úrslitakeppnin er. Ef við spilum vel, og eins og við getum, þá eru allir vegir færir.“ /ÓAB ÍÞRÓTTAFRÉTTIR Fleiri íþróttafréttir á Feykir.isF MÍ í tugþraut Ísak Óli rauf 7000-stiga múrinn Meistaramót Íslands í fjölþrautum frjálsíþrótta, öllum aldursflokkum, fór fram á Þórsvelli á Akureyri helgina 17.-18. ágúst. Ísak Óli Traustason var eini keppandi UMSS að þessu sinni en hann gerði vel og landaði silfurverðlaunum eftir æsispennandi keppni. Úrslit í tugþraut karla voru eftirfarandi: 1. Benjamín Jóhann Johnsen ÍR 7012 stig, 2. Ísak Óli Traustason UMSS 7007 st., 3. Sindri Magnússon Bbliki 6576 st., 4. Andri Fannar Gíslason KFA 6490 st., 5. Gunnar Eyjólfsson UFA 6456 st., 6. Bjarki Rósantsson Bbliki 5862 stig. Á Tindastóll. is segir að keppnin um sigurinn hafi verið æsispennandi og skildu aðeins fimm stig þá að í lokin, Benjamín Jóhann og Ísak Óla, sem í fyrsta sinn rauf 7000-stiga múrinn, átti fyrir 6723 stig. „Þá er viðburðaríku, erilsömu en skemmtilegu utanhússtímabili lokið. Endaði tímabilið á því að brjóta 7000 stiga múrinn í tugþraut sem klárlega var stærsta markmið sumarsins. Takk allir fyrir frábært frjálsíþróttasumar og núna tekur við kærkomin hvíld í smá tíma og svo heldur vinnan áfram,“ skrifar Ísak Óli á Facbooksíðu sína. /PF Ísak Óli Traustason tugþrautakappi. MYND: FB Fótbolti - Inkasso deild kvenna Enn einn sigurinn í hús hjá Stólastúlkum Sunnudaginn síðasta mættust lið Tindastóls og Augnabliks úr Kópavogi á gervigrasinu á Króknum. Þetta var fyrsti leikurinn í 14. umferð Inkasso- deildarinnar og ljóst að með sigri héldu Stólastúlkur veikri von um sæti í efstu deild lifandi. Það fór svo að lið Tindastóls reyndist sterkari aðilinn og uppskar 3-1 sigur en Murielle Tiernan gerði tvö mörk í síðari hálfleik eftir að Laufey Harpa náði forystunni fyrir lið Tindastóls í fyrri hálfleik. Jafnræði var með liðunum framan af og fengu gestirnir fyrsta færi leiksins en Lauren varði vel í marki Tindastóls. Murr fékk nokkur ágæt hálffæri en hún náði ekki nógu miklum krafti í skotin til að trufla Telmu Ívars í marki gestanna. Stólastúlkur náðu að bjarga á marklínu eftir að Lauren hafði hálfvarið skot gestanna en það var loks á 37. mínútu sem ísinn var brotinn. Þá eltu Vigdís Edda og Telma markvörður Augnabliks boltann út úr teignum upp við endamörk, Telma náði að sparka frá en boltinn datt fyrir vinstri bakvörð Stólanna, Laufeyju Hörpu, sem lagði boltann fyrir sig og átti síðan glæsilega spyrnu í fjærhornið á marki gestanna. Staðan 1-0 í hálfleik. Eftir um tíu mínútna leik í síðari hálfleik komst Eva Rún inn fyrir vörn gestanna og komst í boltann á undan Telmu í markinu sem lenti harkalega á Evu og vítaspyrna staðreynd. Eva Rún varð að yfirgefa völlinn sökum meiðsla og var þá búin að vera inn á í tíu mínútur. Murr skoraði af öryggi úr vítinu og næstu mínúturnar var lið Tindastóls baráttuglatt og reyndi mikið að koma boltanum á Murr og Vigdísi. Á 65. mínútu gerði Murr þriðja mark Tindastóls. Hún fékk fasta sendingu fram þar sem hún var með bakið í markið, kassaði boltann inn fyrir vörn Augnabliks og hún reyndist síðan sterkari á sprettinum en varnarmenn- irnir og renndi boltanum framhjá Telmu í markinu. Ótrúleg knattspyrnukona og svona mörk gerir engin nema Murr. Hún mætti samt fagna mörkunum aðeins meir svona til að gleðja áhorfendur. Eftir þetta komust gestirnir meira inn í leikinn og þeir jöfnuðu á 80. mínútu eftir röð mistaka í vörn Tindastóls. Ekki tókst þeim að minnka muninn frekar og lokatölur því 3-1. Næst mæta stelpurnar liði Grindavíkur suður með sjó og um að gera fyrir stuðningsfólk Tindastóls að fjölmenna á Mustad-völlinn næstkomandi laugardag en leikurinn hefst kl. 16. /ÓAB Laufey og Kolbrún fagna marki þeirrar fyrrnefndu. MYND: ÓAB Fótbolti 2. deild Gaddfreðnir Garðbæingar lutu í gras Lið Kormáks/Hvatar hefur heldur betur sýnt hvað í því býr í 4. deildinni að undanförnu en liðið hefur nú unnið átta leiki í röð og er í góðum séns með að skila sér í úrslitakeppni um sæti í 3. deild nú þegar ein umferð er eftir óleikin í B-riðli. Á laugardaginn fengu Húnvetningarnir lið ÍH í heimsókn á Blönduósvöll og unnu glæsilegan 6-0 sigur. Tindastólsmenn tóku á móti Knattspyrnufélagi Garða- bæjar (KFG) á grasvellinum á Króknum sl. laugardag. Liðið hefur þó sýnt talsverð bata- merki upp á síðkastið og Garðbæingar, sem virkuðu gaddfreðnir í norðlenska norðanstrekkingnum, reyndust Stólunum frekar þægilegur andstæðingur. Lokatölur 3-0 en lið Tindastóls sem fyrr í botnsætinu en nú með níu stig. Heimamenn fengu óskabyrjun þegar Arnar Ólafs gerði ágætt mark úr teignum strax á 5. mínútu. Á 12. mínútu var boltanum stungið inn fyrir á Kyen Nicholas sem náði að hrista af sér varnarmenn KFG og skora af öryggi. Lið gestanna var talsvert með boltann en Tindastólsmenn voru feyki vinnusamir og vörðust og börðust eins og ljón. Garð- bæingar fengu fá færi í fyrri hálfleik, lítil ógn var úr hornspyrnum þeirra og þau fáu skot sem þeir áttu ógnuðu varla marki Faerbers sem átti óvenju náðugan dag í búrinu. Staðan 2-0 í hálfleik. Kyen Nicholas skorar þriðja og síðasta mark leiksins í gær með þrumuskoti. MYND: ÓAB Stemning í klefanum eftir sigurleik gegn toppliði Snæfells á dögunum. Frá vinstri: Bjarki Már Árnason, Ágúst Friðjónsson, Kristófer Már Tryggvason, Pétur Arnar Kárason og fyrir aftan er Róbert Guðmundsson. MYND: BMÁ Í síðari hálfleik voru gestirnir áfram meira með boltann og fengu 2-3 sæmileg skotfæri um og upp úr miðjum hálfleiknum en í raun var meiri hætta á ferðum þegar Stólarnir sóttu og náðu að halda boltanum niðri. Á 80. mínútu kom rothöggið. Kyen Nicholas náði boltanum úti á hægri kanti til móts við vítateig KFG, hann skaust inn á teig, lét vaða á markið og Stefán Björn í marki gestanna kom litlum vörnum við. Frábært mark. Sennilega væri staða Stólanna í deildinni betri ef Englendingurinn hefði skilað sér fyrr í skagfirsku sumarparadísina. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði og annar sigur Tindastóls kærkominn. /ÓAB 31/2019 5

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.