Feykir


Feykir - 21.08.2019, Blaðsíða 8

Feykir - 21.08.2019, Blaðsíða 8
 Heilir og sælir lesendur góðir. Dettur nú fyrst í hug að rifja upp örlítið af snilld snillinganna sem voru að yrkja í útvarpið 1955 og ég hef áður rifjað upp örlítið í þessum þáttum. Veit því miður ekki hver þeirra átti þennan ágæta hringhendubotn: Enn eru á beit í Suðursveit sauða- og geitahjarðir. Holtum breyta í blómareit bændur eitilharðir. Enn meiri snilld finnst mér næsti hringhendubotn, án þess að geta nefnt höfund hans. Engan hróður auka þjóð atóm – ljóðin nýju. Veita fljóðin feit og rjóð fyrðum góða hlýju. Nokkur heilsubrestur mun hafa herjað á borgarbúa veturinn 1955 eftir næstu vísu að dæma. Heimakoma og hettusótt hefja göngu um bæinn. Líka tók hér léttasótt lausakona um daginn. Til er saga frá ferð sem Húnvetningafélag á Akureyri fór í kringum 1980 í Skagafjörð og Húnavatnssýslur. Þegar keyrt var um Sléttuhlíð, í mjög vondu veðri, orti Bjarni frá Gröf svo til bílstjóra rútunnar. Þó um bretti, glugga og gler gangi slettuhríðin. Keyrðu létt, nú leiðist mér ljót er Sléttuhlíðin. Þegar ferðafólkið átti leið um Hrútafjörð, varð þessi til hjá Bjarna, örugglega í gríni. Allir grútar okkar lands eru í Hrútafirði, svo er útlit ekki hans eldhúsklúta virði. Hin kunna vísa Bjarna, sem kemur hér næst, mun vera þannig tilkomin að hann var erlendis í innkaupaferð, er hann þá starfaði sem úrsmiður á Akureyri. Mun hann hafa verið staddur í Sviss, kannski koma bestu úrin þaðan eins og stundum er sagt í auglýsingum, og þá ákveðið að senda vini sínum, Rósberg G. Snædal, svofellda kveðju: Gleðinnar ég geng um dyr guð veit hvar ég lendi. En ég hef verið fullur fyr og farist það vel úr hendi. Þegar Bjarni varð sjötugur mun Rósberg hafa sent honum eftirfarandi kveðju: Léttar stökur láttu hvína langt í burtu elli fældu. Aldrei bastu bagga þína böndum þeim, sem aðrir mældu. Kannski hressum við okkur næst með þessari limru Guðmundar Arnfinnssonar: Hve Valdi er frár á fæti finnst mér að undrun sæti, er skýst hann sem ör og í engri spjör til Veru í Vonarstræti. Nú snemmsumars er norðan kuldakastið kom, orti Hólmfríður Bjartmarsdóttir svo: Kuldinn bítur kinn og nef af kulinu ég tárast. Víst er þetta vonlaust stef og vísan er að klárast. Nú er kalt um Norðurland nú er lífið hokið. Nú vildi ég eiga whisky bland. Vísunni er lokið. Þá kemur Pétur Stefáns næst á dagskrá. Gleðin um mig hríslast hrein hress er ég og dreyminn, líkt og fugl á grænni grein sem galar út í heiminn. Vonandi hefur fleirum en Ármanni Þorgrímssyni orðið umhugsunarefni, er hann orti næstu vísu, sú hugmynd að fara að flytja kvikindi af hvalaætt til Vestmannaeyja. Oft við höfum afrekað ýmislegt á flónsku sviði, en alltaf tekst að toppa það teljumst enn í sigurliði. Það mun hafa verið hið mikla nafn Hannes Hafstein sem orti þessa: Fegurð hrífur hugann meira ef hjúpuð er. Svo andann gruni ennþá fleira en augað sér. Sem betur fór sá gamli Káinn ástæðu til að glettast ögn við höfðingjann, og sendi honum smá mínu. Hver vill heimta af henni meira hún er ber. Og andann grunar ekkert fleira en augað sér. Hressum okkur þá næst með limru eftir Guðmund Arnfinnsson. Helgi bóndi á Bakka má Bótólfi gamla þakka greiðviknum granna góðverkið sanna að konan hans eignaðist krakka. Það er skáldið snjalla og rithöfundurinn, Jónas Árnason, sem er höfundur að lokalimru þessa þáttar. Eitthvað virðist sá samt hafa ruglast í rími ef hann heldur fengitíma sauðfjár í ágúst. Hrútur einn hörkuvænn gripur fór í ágúst um svonefndar svipur og lembdi þar ær tuttugu og tvær því syndin er lævís og lipur. Veriði þar með sæl að sinni. /Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 Vísnaþáttur 741 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is Nú er farið að líða á sumarið og sumarfríin hægt og rólega að klárast hjá fólki. Lífið fer að komast í fastar skorður aftur eftir leikskólafrí og betri helmingurinn mættur til vinnu aftur. En það var nú nóg um að vera meðan á fríinu stóð. Það ber fyrst að nefna óteljandi sundferðir í Varmahlíð, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá börnunum. Útilegur og sumarbústaðaferðir komu þar á eftir, margir sunnudagsbíltúrar og svo bara endalaust brall heima við. En við fórum í eina sérstaklega eftirminnilega útilegu á tjaldsvæðið á Hömrum við Kjarnaskóg, þangað förum við klárlega aftur! Þarna er sko allt sem hugurinn girnist, risastór skógur með fullt af leiktækjum og skemmtilegt tjaldsvæði með virkilega flottri aðstöðu í alla staði. Þetta er skátasvæði og þar af leiðandi er þarna alls konar skemmtileg afþreying sem maður sér ekki alls staðar. Vatnsrennibraut sem endar ofan í tjörn, þrautabraut í annarri tjörn og svo kajak og hjólabátar í þriðju tjörninni. Í skóginum er svo fullt af villtum kanínum sem vöktu mikla lukku hjá ungviðinu. Inni í Kjarnaskógi eru svo hvers kyns kastalar, hengibrýr og svona mætti lengi telja. Þarna dvöldum við tvo daga en hefðum gjarnan viljað vera lengur. Fyrri dagurinn var ekkert sérstaklega sólríkur og var hann nýttur í ferð í Sundlaug Akureyrar með tilheyrandi rennibrautafjöri og svo fer maður nú ekki á Akureyri nema að heimsækja Brynjuís. Við vorum einstaklega heppin með veður seinni daginn okkar, það sést enn á undirritaðri þar sem sólarvörnin gleymdist fram að hádegi. Hitinn sló í 23 gráður með glampandi sól og krakkarnir hlupu um á sundfötunum einum saman og busluðu í vatninu, hvers manns draumur! Ferðinni var svo slúttuð með sjoppufæði á Ak-Inn og ís í eftirmat, svona eins og maður gerir eftir góða útilegu. Já sumarfríið var heilt yfir mjög gott og skemmtilegt, bæði fyrir börn og fullorðna. En ég get nú ekki sagt annað en að ég taki fagnandi á móti rútínunni sem fylgir haustinu. Að lokum vil ég skora á Örnu Ingimundardóttur, mágkonu mína, að taka við af mér og þakka í leiðinni Þórdísi fyrir þessa áskorun. Sumarið er tíminn Sigrún Eva Helgadóttir ÁSKORANDINN bladamadur@feykir.is Sigrún Eva og Júlíus Helgi. MYND: AÐSEND 8 31/2019

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.