Morgunblaðið - 10.08.2020, Qupperneq 28
Kjaftasögur
Jónas Illugason og Jórunn Sveins-
dóttir taka vel á móti Steinunni. Þau
eru sjálf nýbúin að eignast dóttur,
Solveigu, sem er þremur vikum eldri
en Guðbjörg litla.
Þau eru orðin
rúmlega fertug en
þetta er þeirra
fyrsta barn. Þau
Jónas og Jórunn
komast vel af, eiga
tvær kýr, sextíu
og sex kindur og
sjö hross.
Steinunn stend-
ur sig vel í vistinni
og þess vegna er hún tvívegis lánuð í
Lýtingsstaði. Fyrst fer hún um miðj-
an ágúst þegar húsbóndinn þar, Jón
Þorkelsson grasalæknir, kvænist
barnsmóður sinni Arnbjörgu Eiríks-
dóttur. Þau eru bæði í góðum efnum
en engu að síður er veislan hófstillt.
Nokkrir bændur gerast þó háværir
þegar líður á kvöldið en brúðhjónin
draga sig snemma í hlé.
Í eldhúsinu er skrafað og Steinunn
heyrir alls konar kjaftasögur af fólk-
inu í sveitinni. Hún þekkir ekki alla
sem um er rætt en fréttir þarna að
brúðguminn, Jón Þorkelsson, er ekki
heilsuhraustur maður. Vinnukona á
bænum skýrir stöðuna.
- Hann á ekki langt eftir, karl-
skarnið, og hefur viljað sjá til þess að
Arnbjörg erfi eignir hans. Hún getur
þá búið áfram með Baldvin litla á
staðnum.
- Það er nú alveg óþarfi að drepa
brúðgumann strax, gall í konu utan
úr sveit.
- Við vitum öll að hann er dauð-
vona.
Vinnukonan er sannspá því Jón
deyr í desember. Þá er aftur mikið
um að vera á Lýtingsstöðum. Margir
fylgja Jóni síðasta spölinn og að lok-
inni athöfn er haldin vegleg erfi-
drykkja.
Steinunn fylgist með sparibúnu
fólkinu ganga á milli kirkju og bæjar.
Ung kona lítur í áttina til hennar og
hún spyr eina vinnustúlkuna hver
þetta sé. Hún kannast við svipinn en
kemur því ekki strax fyrir sig hver
þetta getur verið.
-Þetta er Margrét, prestdóttir úr
Húnavatnssýslu, sem giftist Eggerti
Henrikssyni á Reykjum í haust.
Hann er víst einum tuttugu árum
eldri en hún en hann á töluverðar
eignir svo hún er ekki á flæðiskeri
stödd.
Steinunn lætur lítið fyrir sér fara
og gætir þess að Margrét sjái hana
ekki. Þær eiga enga samleið lengur.
Í eldhúsinu fljúga sögurnar á milli
þess sem stúlkurnar bera fram
matartrogin.
- Það mætti segja mér að frúin
verði ekki lengi í ekkjustandinu.
Hallgrímur læknir hefur ekki sleppt
af henni hendinni síðan Jón dó. Og
fallegur er hann!
- Það eru nú ekki fallegar sögurnar
sem fara af þeim manni. Hann eign-
aðist tvíbura með Ólöfu Gísla frá
Róðhóli, giftur maðurinn, og nú held-
ur hann við Sigríði bústýru sína sem
gift er Jóni gamla smið. Konurnar
falla eins og flugur fyrir honum. Ætli
Arnbjörg geri það ekki líka.
Einhver reynir að verja Hallgrím.
- Hann hefur heldur ekki farið var-
hluta af sorginni, maðurinn sá. Hefur
misst sex af þessum tíu börnum sem
hann hefur eignast.
- Ætli hann hafi ekki bara verið
feginn því að tvíburarnir dóu
skömmu eftir fæðingu. Í höndunum á
sjálfum lækninum! Það er nú annars
merkilegt að lækninum tekst ekkert
frekar en okkur hinum að halda lífi í
börnunum, heyrist sagt úr dimmu
skoti í eldhúsinu þar sem tannlaus
niðursetningur hreinsar skófir úr
grautarpotti.
- Þú ert alltaf jafnelskuleg eða hitt
þó heldur, hreytir vinnukona út úr
sér og lítur illilega á hornkerlinguna.
Þann 2. júní eru Hallgrímur og
Arnbjörg gefin saman. Þá er Stein-
unn reyndar flutt að Hamri, orðin
húskona, sjálfs sín ráðandi og búin að
endurheimta Guðbjörgu dóttur sína.
Hún tekur engu að síður að sér þjón-
ustustarfið sem fyrr og hlustar á tal
kvennanna.
Það hafa greinilega átt sér stað
miklir atburðir í sveitinni. Guðrún
vinnukona á Lýtingsstöðum veit að
sjálfsögðu allt um það hvað gerðist.
- Sigríður bústýra Hallgríms á
Nautabúi, kona Jóns gamla smiðs,
féll í öngvit þegar hún frétti af fyr-
irhugaðri sambúð þeirra Hallgríms
og Arnbjargar. Guðrún dæsir en
heldur svo áfram. - Þetta var á gaml-
ársdag, stuttu eftir dauða Jóns. Sig-
ríður var svo ástfangin af Hallgrími
að hún varð viti sínu fjær, fór að
heiman og var á prestsetrinu það sem
eftir var vetrar. Hún skilaði sér svo
heim til Jóns bónda síns með vorinu.
- Og tók Jón við henni aftur?
áræddi Steinunn að spyrja.
- Já, hann var guðslifandi feginn,
karlinn, enda allt komið í reiðileysi á
heimilinu, svarar Guðrún og hnussar.
Þú hélst
að framtíðin yrði björt
að þér gengi allt í haginn
en örðug er leiðin
til hamingjunnar
Brostnar vonir
Húskonan á Hömrum á nokkrar
kindur sem hún fékk frá föður sínum
fyrir störf sín á Giljum. Nú eldar hún
fyrir sig og hefur sitt eigið pláss í eld-
húsinu en hún þarf að vinna fyrir
húsnæðinu fyrir þær mæðgur og
skepnurnar. Dagarnir hafa öðlast lit
á ný og lífið tilgang eftir komu Guð-
bjargar litlu.
Jón má ekki vera í sömu sókninni
en hann er orðinn vinnumaður í
Sölvanesi sem er á mörkum sókn-
anna. Bæirnir standa raunar hlið við
hlið þótt þeir séu hvor í sinni sókn-
inni. Guðmundur bróðir Steinunnar
aðstoðaði Jón við ráðninguna. Nú
geta þau gengið á milli bæja á stuttri
stund en þau mætast oftast á miðri
leið yfir sumartímann þegar stund
gefst frá störfum. Nálægðin er
hættuleg ungum elskendum og nýtt
líf kviknar í kviði Steinunnar. Þau
Jón eru skelfingu lostin því enn eru
þau ekki orðin nógu stöndug til að
hefja búskap og þar að auki ekkert
kot laust til ábúðar í sveitinni. Þau
verða bara að vona að yfirvöld sýni
þeim miskunn.
Margrét Jónsdóttir fæðist þann
10. febrúar 1833. Steinunn getur ekki
haft báðar dætur sínar hjá sér og
þess vegna fer Jón með nýfædda
dóttur þeirra til húsbænda sinna.
Hann er enn vinnumaður í Sölvanesi
enda fáir vinnumenn á lausu í sveit-
inni og húsbændur hans taka afstöðu
með honum gegn yfirvaldinu.
Þótt Margrét litla sé í Sölvanesi að
nafninu til dvelur hún langdvölum
hjá móður sinni og systur á Hömrum.
Hún er tæplega ársgömul þegar Jón
og Steinunn eru kölluð fyrir Pál
hreppstjóra sem hefur komið sér fyr-
ir í þinghúsinu á Lýtingsstöðum. Páll
er dálítið vandræðalegur í fyrstu en
tekur svo á sig rögg.
- Ég er hér í umboði sýslumanns
sem hefur farið fram á það við mig að
tilkynna ykkur að öðru ykkar er skylt
að yfirgefa sýsluna. Það virðist ekki
vera nóg að leyfa ykkur að vera hvort
í sinni sókninni. Þið hafið skákað ykk-
ur niður svo nærri sóknarmörkum að
samgangur hefur reynst ykkur of
auðveldur. Sýslumaður hefur einnig
gengið frá ráðningu Jóns sem vinnu-
manns á Stafni í Svartárdal, það er að
segja Svartárdal í Húnavatnssýslu.
Þið eigið nú bæði mæður á lífi í Húna-
vatnssýslu. Hreppstjórinn ræskir
sig, tekur upp neftóbaksdósir og fær
sér í nefið. Jón og Steinunn stara á
hann.
- Og hvað kemur það málinu við
hvar mæður okkar búa?
- Það er ákveðið öryggi í því falið
að vita af ástvinum sínum í nágrenn-
inu.
- Væri ekki nær að finna handa
okkur jörð hér í Skagafirðinum til
ábúðar í stað þess að sundra fjöl-
skyldunni?
- Þið eruð ekki beinlínis fjölskylda.
Hreppstjórinn leggur áherslu á orð
sín og er ekkert að hlífa unga fólkinu.
- Ógift vinnufólk á ekkert með að
vera að hrúga niður börnum sem fara
svo á sveitina. Auk þess er engin jörð
laus til ábúðar.
Það fýkur í Steinunni. Hana langar
mest til að ráðast á hreppstjórann,
bíta og klóra, en auðvitað gerir hún
það ekki. Það gæti orðið henni dýr-
keypt.
- Ég og mín börn hafa ekki kostað
sveitina neitt. Við erum hraust og
getum alveg unnið fyrir okkur.
- Það er nú samt svo að hætt er við
að börnunum fjölgi og þið gerið ekki
meira en að skrimta við þessar að-
stæður. En þetta er sem sagt skipun
frá sýslumanni og henni verðið þið að
hlýða. Annars dæmir hann ykkur til
hýðingar eða fjársektar. Og það er
best að þú farir einhvern næstu daga,
Jón minn. Ég er búinn að semja við
Einar, húsbónda þinn.
- Á hann að fara með barn um há-
vetur yfir heiðina? Hvurslags óráðsía
er þetta eiginlega? Steinunn nötrar
af reiði.
- Það verður að skilja ykkur að
strax. Hreppstjórinn lítur hvasst á
þau.
- Þá er best þú farir einn, Jón.
Steinunn hefur aftur náð valdi á
röddinni. Ég verð með Margréti fram
á vor, mér hlýtur að takast það en þá
verður þú að sækja hana. Ég get ekki
verið með smábarn í húsmennsku og
í vinnumennsku, ég vinn aðeins fyrir
einu barni. Steinunn stendur upp og
flýtir sér út á hlað. Þar hinkrar hún
eftir Jóni sem kemur að vörmu spori.
- Ekki hafa áhyggjur af þessu,
elskan mín. Ég skal reyna að finna
einhverja lausn fyrir okkur. Kannski
hefur Húnavatnssýsla upp á eitthvað
betra að bjóða, segir Jón uppörvandi.
Foreldrarnir ungu verða samferða
fyrsta spölinn en síðan skilur leiðir.
Á krossmessunni kemur Jón og
sækir Margréti. Þegar barnið er far-
ið grípur eirðarleysi Steinunni en hún
hefur nóg að gera því hún er að
skipta um bústað, færir sig um set.
Hún fer yfir að Brúnastöðum í hús-
mennsku þar sem hún lifir áfram á
sínu. Brúnastaðir eru í Tungusveit,
austan megin við Svartána gegnt
Hömrum. Það er ekki langt á milli
bæjanna en Svartáin er erfiður far-
artálmi.
Á Brúnastöðum er meira votlendi
en á Hömrum og ekki eins víðsýnt.
Þetta er tvíbýli og því fjölmennt á
staðnum, tíu einstaklingar fyrir utan
þær mæðgur, Guðbjörgu og Stein-
unni.
Hún er rétt búin að koma sér fyrir
þegar hún ákveður að heimsækja
systur sína, Ragnhildi, í Litladalskot.
Það er sólskin og blíða og hún hlakk-
ar til fararinnar. Hún útbýr örlítið
nesti og með því að fara yfir skarðið
kemst hún yfir í Dalsplássið án telj-
andi erfiðleika. Hún þarf þó að bera
dóttur sína af og til því litlir fætur
komast ekki hratt yfir stórgrýtt
skarðið.
Ragnhildur tekur fagnandi á móti
systur sinni og þær setjast niður í
hlíðinni fyrir ofan bæinn. Ragnhildur
er með Valgerði Rafnsdóttur, sex
mánaða á handleggnum. Dóttur
Rafns og vinnukonunnar Sigurrósar
Vigfúsdóttur.
- Þú hefur þá tekið að þér stelpuna
en hvað varð um Sigurrós?
- Hún er óttalegur vesalingur,
konuræfillinn. Þetta er fjórða lausa-
leiksbarnið hennar. Búin að eiga tvö
börn með vinnumanni í hreppnum og
dóttur eignaðist hún með manni að
norðan. Þessi börn eru öll niðursetn-
ingar en fyrst Rafn fór að álpast upp í
til hennar finnst mér rétt að halda
barninu.
Kjaftasögur og brostnar vonir
Bókarkafli | Aldrei nema kona heitir heimildar-
skáldsaga eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur
sem fylgir þremur ættliðum kvenna í Skagafirði á
átjándu og nítjándu öld. Þetta eru fátækar konur
og lífsbaráttan er hörð en með þrautseigju og
æðruleysi tekst þeim að komast af þrátt fyrir hart
árferði og harðneskjulegt samfélag.
Höfundur Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, höfundur bókarinnar.
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 10. ÁGÚST 2020
Bíldshöfða 16 - 110 Reykjavík - 414-8400 - www.batik.is - www.martex.is
VINNUFATNAÐUR
MERKINGAR