Morgunblaðið - 05.09.2020, Síða 35
MINNINGAR 35
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. SEPTEMBER 2020
Blessuð sé minning Sigfúsar
Fannars Stefánssonar.
Fyrir hönd samstarfsmanna
hjá RARIK,
Tryggvi Þór Haraldsson.
Í gömlu myndaalbúmi heima á
Laufásnum er ljósmynd af ábúð-
armiklum vinum. Hún er tekin
árið 1973 og er í lit. Ljóshært
stelpuskott með topp situr með
fæturna ofan í tunnu og við hlið
hennar er enn ljóshærðari dreng-
ur sem horfir einbeittur á mynda-
vélina. Þetta erum við Fúsi, rétt
fjögurra ára gömul. Fúsi var
fyrsti vinur minn. Við vorum jafn-
aldrar, bjuggum steinsnar hvort
frá öðru og vorum óaðskiljanleg.
Allir dagar voru ævintýri sem
áttu sér sögusvið í garðinum hjá
ömmu hans og afa á Selásnum
eða heima í mínum garði á Lauf-
ásnum.
Við vorum heimagangar hvort
hjá öðru, mér þótti undurvænt
um Láru, ömmu hans, sem alltaf
var að víkja að okkur einhverju
góðgæti og setti ekki nema ör-
sjaldan í brýnnar. Afi Fúsa og
nafni sá frekar um það.
Á Laufásnum var Fúsi einn af
heimilisfólkinu. Þar var hann líka
alltaf nefndur Fúsi flakkari eftir
öðrum og þá þekktari Fúsa, slíkt
var flakkið á okkur á milli húsa og
um veröldina okkar smáu. Systir
mín telur að það hafi verið svolítill
„ráðskonurass“ á mér í þessu
vinasambandi. Ekki dettur mér í
hug að vefengja það en Fúsi lét
sér það vel líka, blíður sem hann
var.
Líklega er áhugi minn á ensku
knattspyrnunni ekki síst Fúsa að
þakka. Einlægari Manchester
United-aðdáanda en Fúsa er leit-
un að, það er okkar lið. Innst inni
hélt ég mögulega að þeir væru
skyldir, Fúsi og Gary Bailey, báð-
ir glókollar, hávaxnir og grannir.
Þegar við nálguðumst tánings-
árin fór að bera á því að strák-
arnir stríddu Fúsa á því að vera
með þessa stelpu í eftirdragi. Við
hættum að vera óaðskiljanleg en
vorum alltaf vinir. Hann var á
heimavelli þegar við hittumst,
unglingarnir í þorpinu, til að spila
kana í eldhúsinu heima, settist
iðulega í hornið og krafðist þess
að við spiluðum Loverboy yfir
spilamennskunni. Nú eða Foreig-
ner.
Síðar fékk ég að sitja úti í horni
í bílskúrnum hjá Steina þegar
Rustikus var að æfa. Fúsi lék þar
á gítar en síðar varð bassinn hans
hljóðfæri. Hann naut sín aldrei
betur en þegar hljómsveitin hans,
Ýmsir flytjendur, kom saman og
það sást vel fyrir tveimur árum
þegar slegið var í gigg í Vala-
skjálf, eftir endurfundi gamla
ólátabekkjarins okkar. Mikið er
ég þakklát fyrir þá stund núna.
Fúsi var eldklár, gekk vel í
námi og hafði lítið fyrir því. Hann
vann alla sína tíð við hugbúnaðar-
gerð og var vakinn og sofinn yfir
verkefnum sínum. Það var einna
helst þegar hann fór í golfferðir
með Lalla og Jonna sem Fúsa
tókst að gleyma vinnunni, en í
þeirri íþrótt, eins og reyndar
flestum íþróttum sem hann
reyndi sig við, var Fúsi feikiflink-
ur.
Taugin heim var römm hjá
Fúsa, hann mætti gjarnan á
þorrablótin á Egilsstöðum, ævin-
lega líkur sjálfum sér; með
glettnislegt blik í augum, svolítið
(jafnvel heilmikið) stríðinn, hress
og ljúfur.
Vinur vina sinna. Alltaf þegar
við hittumst voru það gleðifundir.
Þegar pabbi lést árið 2012 fékk ég
orðsendingu frá Fúsa sem hitti
beint í hjartastað og við vorum
aftur, um stund, óaðskiljanleg.
Ég votta Önnu, Bóa og fjöl-
skyldu Fúsa allri innilega samúð
mína.
Þakka þér fyrir allt og allt,
Fúsi flakkari.
Þín
Björg.
Nokkur orð um eðalmanninn
og húmoristann Sigfús Fannar
Stefánsson.
Fúsi: „Heyrðu Rúnar.“ (Rúnar
var nánasti samstarfsmaður
Fúsa og þeir deildu saman skrif-
stofu hjá RARIK.) „Hvernig fór
aftur leikurinn Man United og
Liverpool um helgina? Var það
dómaraskandall?“ (Fúsi elskaði
að stríða Rúnari, sérstaklega
þegar Liverpool tapaði leik á móti
Man United.)
Fúsi: „Jæja, núna er Siggi að
koma.“ Þá var ég á leiðinni á
skrifstofuna hans og hann þekkti
göngulagið mitt.
Fúsi var frábær gestgjafi,
hann bauð okkur oft í upphitun-
arpartí fyrir KR-leikina. Bjór í
boði hússins og stutt á völlinn.
Mínar innilegustu samúðar-
kveðjur til fjölskyldu Fúsa og
nánustu aðstandenda.
Ég er ekki sáttur með þetta.
Sigurður Jónsson.
Í síðustu viku barst okkur sú
hörmulega frétt að góðvinur okk-
ar Fúsi væri látinn. Fúsi var
ávallt hress og kátur og með sinn
lúmska stríðnislega húmor. Ef
það stóð til að lyfta sér upp eða
gera eitthvað skemmtilegt var
alltaf gott að hafa Fúsa með því
hann lífgaði upp á allt og alla með
nærveru sinni. Hláturinn og léttu
grínskotin hans eru ógleymanleg.
Hæfileiki hans til að vera með
grín og glens var stundum á því
stigi að hann hefði getað orðið
býsna góður uppistandari! Ekki
skemmdi heldur að hann hafði
mjög góðan tónlistarsmekk þar
sem 80’s-tónlist kom mjög sterk
inn. Heimurinn verður mun fá-
tækari án hans Fúsa okkar, við
munum sakna hans sárt en gera
okkar besta til að hlýja okkur við
allar góðu minningarnar sem við
eigum um hann. Við sendum fjöl-
skyldu og vinum okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Árni Ingólfsson, Jón
Gunnar Guðjónsson,
Loftur Már Sigurðsson,
Már Karlsson og Ragnar
Páll Bjarnason.
Fúsi var að verða 13 ára þegar
ég, örverpið, kom í heiminn. Ein
af mínum fyrstu minningum er af
Fúsa í fermingarveislu Mána
bróður okkar sem er fjórum árum
yngri en Fúsi. Ég var um það bil
fimm ára og ég man hvað ég var
feiminn en hann var það líka og
eflaust alveg jafnskrítið fyrir
hann og fyrir mig að eiga bróður
og þekkja hann varla. Ég kynnt-
ist Fúsa frekar seint og í rauninni
vissi ég það innst inni þar sem
aldursmunurinn og það að Fúsi
bjó ekki hjá okkur gerði það að
verkum. Ég kynntist Fúsa ekki
að neinu viti fyrr en ég var farinn
að nálgast tvítugt.
Fúsi ólst upp hjá ömmu sinni
og afa á Egilsstöðum og fluttist í
borgina til móður sinnar þegar
hann var rétt rúmlega tvítugur.
Það breytti því samt ekki að hann
kom reglulega austur og var dug-
legur að koma í heimsókn.
Alltaf var þetta svolítið skrítið
en svo kom þetta allt eftir því sem
maður varð eldri og við fórum að
kynnast betur. Það kom á daginn
að við áttum sérlega gott skap
saman. Ég elskaði það þegar
hann fór að stríða mér því það var
gert á eitthvað svo fágaðan hátt
að það var ekki séns að verða fúll
eða reiður, heldur hló ég með
honum.
Ég sá Fúsa aldrei skeyta skapi
út af nokkrum sköpuðum hlut,
frekar sagði hann bara: „Iss, það
þýðir ekki neitt að velta sér upp
úr svona.“ Ef ég var að segja hon-
um frá einhverjum leiðindum sem
ég hafði lent í sagði hann þetta.
Ein setning frá honum sem ég
man alltaf er: „Núna er þessi bók
bara búin og þá opnarðu þá
næstu og heldur áfram!“ Svona
var Fúsi, það var bara ekki hans
stíll að velta sér upp úr neikvæð-
um hlutum og svartsýni.
Alltaf þegar leið mín lá til
Reykjavíkur þá var slegið á þráð-
inn til Fúsa til að láta vita af því
að litli bróðir væri í bænum. Allt-
af var hann snöggur að bregðast
við og til í að hittast og klikkaði
ekki á því.
Eftir að ég eignaðist konu og
börn og við vorum í bænum eða
hann fyrir austan reyndum við
alltaf að hittast.
Fúsi var harður Manchester
United-aðdáandi og það fór ekki
á milli mála þegar bróðursynirn-
ir komu í heiminn. Þá komu gjaf-
ir eins og United-peli og Red de-
vil-samfella. Eftir að við fluttum í
húsið okkar kom Fúsi færandi
hendi með innflutningsgjafir
handa strákunum, sem voru Man
Utd-plaköt, en þeir höfðu sagt
honum að þeir héldu með Man
City. En upp á vegg fóru plakötin
að sjálfsögðu, því að „Fúsi
frændi“ gaf þeim þau og þá var
þetta eins og gull! Fúsi þóttist
auðvitað steinhissa á því að þeir
skyldu ekki halda með United og
hló sínum stríðnishlátri!
Fyrstu ár litlu frændanna
lagði Fúsi í vana sinn að leggja
upphæð inn á bankabækurnar
þeirra, í fæðingargjöf og síðan
jólagjafir. Honum fannst þetta
þægileg lausn sem myndi koma
sér vel seinna fyrir krakkana. En
svo fyrir ein jólin hringdi hann og
spurði hvað þeir vildu fá í jólagjöf
því það að senda þeim pening
skildi ekkert eftir sig, hann vildi
nefnilega að strákarnir myndu
tengja við Fúsa frænda. Ég held
að hann hafi viljað vera í uppá-
haldi hjá þeim. Þetta virkaði vel
hjá honum enda rauk hann upp
vinsældalistann hjá litlu frænd-
unum og öll jól síðan hefur verið
beðið með mikilli eftirvæntingu
eftir því að pakkarnir frá Fúsa
frænda kæmu í hús, en það stóð
stundum tæpt að það næðist áð-
ur en jólin gengju í garð! Alltaf
slógu pakkarnir í gegn og Fúsi
hefur eflaust hlegið þegar hann
var að kaupa leikfangahundinn
með háværa geltinu eða bílinn
með ærandi sírenunni. Þarna sló
hann tvær flugur í einu; gladdi
strákana og stríddi okkur for-
eldrunum.
Ég hefði gjarnan viljað kynn-
ast Fúsa almennilega fyrr á lífs-
leiðinni en það þýðir víst lítið lítið
að hugsa um það núna, heldur
þarf að muna allar skemmtilegu
stundirnar sem maður átti með
honum og faðma allar þessar
minningar sem koma upp. Við
munum alltaf halda minningu
Fúsa hátt á lofti í fjölskyldunni.
Söknuðurinn er mikill og sorg-
in nánast óbærileg en ég trúi því
að Fúsi minn sé á stað þar sem
hans er þörf, eða eins og konan
mín sagði við einn drengjanna
okkar að þá fór Fúsi að hjálpa
Guði að skreyta regnbogana.
Elsku hjartans bróðir minn,
ég treysti því að þú sért að stríða
hverjum þeim Liverpool-manni
sem þú hittir í Sumarlandinu.
Ég elska þig og sakna meira
en orð fá lýst!
Góða ferð.
Sigurður (Siggi), Tinna,
Smári, Logi og Rökkvi.
Meira: mbl.is/andlat
Harmi slegin las ég tilkynn-
ingu um að elsku vinur minn,
Sigfús Fannar, hefði látist.
Ég hitti Fúsa fyrst 22. ágúst
2005. Þetta var fyrsti dagurinn
minn hjá Ax hugbúnaðarhúsi og
ég átti að starfa í orkudeildinni
þar sem hann var aðalforritar-
inn.
Fyrsta sem hann segir eftir að
bjóða mig velkomna var að það
hefði verið mikið stuð um helgina
og hann væri smá eftir sig og hló
dátt.
Mér þótt strax ákaflega vænt
um þennan hávaxna og bros-
milda mann með hlýju augun sín.
Þau fjögur ár sem við unnum
saman áttum við endalausar
samræður um allt milli himins og
jarðar og alltaf var stutt í grínið
og hláturinn hjá Fúsa. En hann
var líka hjartahlýr og skildi
meira en töluð orðin.
Síðast þegar við hittumst hafði
hann margar spurningar um
veikindi mín og bata og á þessu
tveggja tíma spjalli var eins og
við hefðum hist í gær. Mér þykir
ákaflega vænt um að það var tek-
in mynd af okkur saman þetta
kvöld. Ekki hvarflaði að mér að
fáeinum mánuðum síðar væri
hann allur.
Innilegar samúðarkveðjur til
fjölskyldu og vina. Þeirra missir
er mikill.
Þótt sólin nú skíni á grænni grundu
er hjarta mitt þungt sem blý.
Því burt varstu þú kallaður á ör-
skammri stundu,
í huganum hrannast upp sorgarský.
Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga
og góða,
svo gestrisinn, einlægur og hlýr.
En örlög þín ráðin - mig setur hljóða,
við hittumst ei framar á ný.
Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,
gæta að sorgmæddum, græða djúp
sár.
Þó kominn sért yfir í aðra heima
mun minning þín lifa um ókomin ár.
(Sigríður Hörn Lárusdóttir)
Þóra Briem.
Einn af mínum albestu æsku-
vinum, Sigfús Fannar Stefáns-
son, er fallinn frá í blóma lífsins,
allt of snemma.
Sorgin er yfirþyrmandi og erf-
itt að hugsa til þess að ég eigi
aldrei eftir að hitta þig aftur Fúsi
minn. Nú keyri ég um göturnar
og rifja upp góðar minningar um
góðan vin, og hlusta á lögin sem
við hlustuðum sem mest á, á rúnt-
inum á Egilsstöðum. Loverboy og
Foreigner voru í miklu uppáhaldi
hjá þér og þegar ég spila „Work-
ing for the weekend“ og „Hot
blooded“ get ég ekki haldið aftur
af tárunum.
Í huganum situr þú í farþega-
sætinu hjá mér.
Þessi dagur er tileinkaður
minni hinstu kveðju til þín, síðasti
rúnturinn. Á þessum rúnti hringi
ég í sameiginlega vini okkar, og
við rifjum upp frábærar minning-
ar um Fúsa Fannar, okkar kæra
vin. Minningar eins stórkostlegar
og roadtrip-tónleikaferðir til
Reykjavíkur á Kiss árið 1988 og
Whitesnake árið 1990. Þeim ferð-
um gleymi ég aldrei. Eða þegar
við sátum langt fram á nótt að
klippa vídeó af steggjun Jonna
Fjalars, og veinuðum af hlátri all-
an tímann. Svona eru allar mínar
minningar um þig, fullar af gleði
og hlátri.
Okkar fyrstu kynni voru þegar
ég var unglingur á Egilsstöðum.
Ég man það eins og það hefði
gerst í gær þegar ég labbaði upp
að bílnum þínum og spurði hvort
ég mætti koma með á rúntinn,
þrátt fyrir að ég þekkti þig ná-
kvæmlega ekki neitt á þeim tíma.
Þú leist á mig stórum augum,
frekar hissa, og eftir smá þögn
sagðirðu „já, ætli það ekki“ og
upp frá þessari stundu urðum við
miklir vinir og sú vinátta verður
mér ávallt dýrmæt. Rúntarnir
okkar áttu eftir að skipta hundr-
uðum, en nú er ljóst að þeir okkar
verða ekki fleiri.
Fúsi var mjög músíkalskur og
ég var alltaf stoltur af vini mínum
þegar hann stóð á sviðinu með
Rustikus og Ýmsum flytjendum
og plokkaði bassann af lífi og sál.
Ég held að Fúsa hafi hvergi liðið
betur en með bassann í hendi að
spila á balli með vinum sínum
Elvari, Steina, Bjögga og Dóra.
Fúsi var mikill stríðnispúki og
kom því vel frá sér. Máttu þá Liv-
erpool-aðdáendur sérstaklega
eiga von á hressilegri skothríð
þegar þeir hittu Fúsa. Fyrst kom
skotið, og svo langt „haaaaa“ og
svo var skellt upp úr. Allir sem
þekktu Fúsa vita nákvæmlega
hvað ég er að tala um. Og aldrei
hló Fúsi meira en þegar hann
fékk gott svar á móti.
Fúsi var sannkallað gæðablóð,
og það var mjög einkennandi fyr-
ir hann að hann talaði aldrei illa
um aðra, og gerði aldrei neinum
mein á einn eða neinn hátt. Að
sama skapi hef ég aldrei nokkurn
tímann heyrt neinn tala illa um
Fúsa, sem segir eiginlega allt
sem segja þarf um hvers konar
manneskja hann var. Umfram
allt meinlaus og góður maður.
Mikill vinur vina sinna og hans
vinátta var traust. Einstaklega
hjálpsamur og vildi allt fyrir alla
gera. Fúsi hafði alltaf mótandi og
góð áhrif á mig í uppvextinum á
Egilsstöðum.
Ég verð alltaf þakklátur fyrir
að hafa kynnst Fúsa, þakklátur
fyrir allan þann tíma sem við
eyddum saman um ævina, og
þakklátur fyrir allar okkar gleði-
stundir.
Fjölskyldu og vinum sendi ég
mínar innilegustu samúðarkveðj-
ur.
Elsku Fúsi, þú varst sannkall-
að gull af manni og þín verður
sárt saknað.
Megi minning þín skína skært.
Þinn vinur,
Jón Hauksson.
Meira: mbl.is/andlat
Minningarkort á
hjartaheill.is
eða í síma 552 5744
Okkar ástkæra dóttir, systir og frænka,
HILDUR JÓNSDÓTTIR,
lést á krabbameinsdeild Landspítalans
15. apríl. Minningarathöfn fer fram í
Lindakirkju 8. september klukkan 11.
Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu verða
fjöldatakmarkanir í kirkjunni.
Jón Jónsson
Valdimar Jónsson
Sverrir Helgi Jónsson
Ásta Hjördís, Jón Ágúst, Sölvi Mar
Jón Þröstur, Elísa, Emil
og fjölskyldur
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir,
amma, langamma, langalangamma,
systir og mágkona,
SIGRÚN JAKOBSDÓTTIR,
Hrafnistu, Hafnarfirði,
andaðist á Landspítalanum Fossvogi að
morgni 1. september.
Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju þriðjudaginn
8. september klukkan 13. Vegna fjöldatakmarkana verða aðeins
nánustu ættingjar viðstaddir athöfnina.
Elín Benediktsdóttir Gylfi Ragnarsson
Björn Benediktsson Þórdís Guðmundsdóttir
Guðbjörg Benediktsdóttir
barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn
Þóra Jakobsdóttir Bjarni Ellert Bjarnason
Þórdís Jakobsdóttir Stefán Gylfi Valdimarsson
Gunnlaug Jakobsdóttir Gunnlaugur Sigurðsson
Faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi,
STEFÁN SIGURÐSSON,
Austurbyggð 17, Akureyri,
Lést á Dvalarheimilinu Hlíð (Víðihlíð)
sunnudaginn 16. ágúst.
Útförin fór fram 4. september í
Akureyrarkirkju í kyrrþey að ósk hins látna.
Þeim sem vilja minnast hans er bent á líknarfélögin.
Lilja Stefánsdóttir Karl J. Guðmundsson
Sóldís Stefánsdóttir
Svana Karlsdóttir
Stefán Karlsson
Katla Aðalsteinsdóttir Michael A. Boudreau
Sigurður Ormur Aðalsteinsson
Atli Sigfús Aðalsteinsson
Sóley Lilja Stefánsdóttir
Einar Logi Stefánsson
Dagur Karl Stefánsson