Aðventfréttir - mar. 2014, Blaðsíða 16
16
Ungmennamót í
Hlíðardalsskóla
Helgina 24.-26. janúar var haldið ungmennamót í
Hlíðardalsskóla. Að þessu sinni fengum við gesti frá
Bandaríkjunum, þau Mark og Stephanie Howard og
börnin þeirra tvö. Þema mótsins var “For such a time as
this”. Við byrjuðum mótið á föstudagskvöldi með því að
borða kvöldmat saman en við höfðum beðið Stephanie
að sjá um matreiðsluna fyrir okkur alla helgina því hún
hefur gefið út svo góðar matreiðslubækur. Því næst var
fyrsta samkoman þar sem Mark talaði við okkur úr
Esterarbók um mikilvægi þess að standa fyrir því sem
við trúum, fyrir því sem er rétt þrátt fyrir fortíð okkar
og þrátt fyrir það sem allir aðrir eru að gera í kringum
okkur.
Á hvíldardeginum vöknuðu allir snemma til þess að borða
morgunmat og fara svo á samkomu. Á hvíldardeginum
voru 3 samkomur með góðum göngutúr þar á milli. Þrátt
fyrir að það hafi verið mikið á dagskrá þann dag fékkst
samt nægur frítími inn á milli fyrir spjall og flestir voru
sammála um að það væri þess virði að hafa aðeins fleiri
samkomur en vanalega því að það er ekki á hverjum
degi sem við fáum gesti að utan. Um kvöldið var svo
kvöldvaka þar sem við fórum í ratleik innanhúss og fleiri
leiki með kvöldkaffi þar á milli.
Á sunnudeginum fengu allir að sofa aðeins út og svo
voru tvær samkomur fyrir hádegi. Eftir hádegismatinn
var pakkað niður og haldið heim.
Þetta var mjög vel heppnað mót sem var bæði lærdómsríkt
og skemmtilegt. Félagsskapurinn var góður enda komu
ungmenni á öllum aldri frá Reykjavíkur-, Hafnarfjarðar-,
Árnes-, Suðurnesja- og Akureyrarsöfnuði, dreifðum,
Boðunarkirkjunni og Suðurhlíðarskóla! Það er alltaf svo
gaman að hitta hvort annað þar sem við hittumst svo
sjaldan.
Takk kærlega fyrir frábæra helgi!
Æskulýðsráð
„Mér fannst ungmennamótið á Hlíðó mjög skemmtilegt og það var mjög áhugavert það sem var
talað um á samkomunum. Maturinn var mjög góður, það var skemmtilegt að smakka eitthvað öðruvísi.
Stemningin var góð og það var mjög gaman á kvöldvökunni.” Helga Stefánsdóttir
„Fyrir mér er skemmtilegast að fara á Hlíðó útaf fólkinu. Það tekur svo vel á móti öllum, allir eru alltaf
í góðu skapi og maður er aldrei einn. Það er líka svo róandi að vera með fólki sem manni líður vel í
kringum.” Tómas Kristinn
„Það var mjög gaman. Maturinn var mjög góður og ræðurnar voru mjög lærdómsríkar.”
Róbert Alejandro