Aðventfréttir - mar. 2014, Blaðsíða 27
27
Óvænt bænasvar
M
A
R
S 2014
Það var í lok október 2011 sem
ég stóð ein eftir í sveitinni.
Yngsta barnið var farið út
í heim í framhaldsskóla og
eiginmaðurinn kvaddi til að
ferðast yfir hálfan hnöttinn til
síns heimalands og reyna sig
í vinnu þar. Hann hafði ekki
fundið vinnu við sitt hæfi á
Íslandi.
Það var undarlegt að vera
orðin ein eftir svo annasamt líf
og oftast fjölmennt á heimilinu.
Hvernig skyldi mér nú vegna
svona einni út í sveit á dimmum
vetri og stundum í ofsa veðri
og snjókomu og kannski
rafmagnsleysi af og til, hugsaði
ég. Skyldi mér ekki leiðast eða
verða myrkfælin?
En það var ekki bara einveran
heldur einnig fjárhagurinn sem
ég hugsaði um. Ég var ekki í fastri
vinnu en vann við afleysingar á
tveim stöðum bara ef það urðu
forföll hjá þeim og minn maður
yrði ekki á launum fyrr en eftir
einhverja mánuði. Hvernig
skyldum við fara að því að borga
húsaleiguna og aðra reikninga?
Allar þessar hugsanir herjuðu á
mig og færðu mig niður á hnén
í herberginu mínu og þær þar
færðar yfir til Hans, sem veit allt
og getur allt.
Þessi sveit í Vopnafirði hafði
verið mikil blessun fyrir okkur
og gjöf frá Guði rúmlega einu
ári áður. Eigendur býlisins
áttu nautgripi og kindur í
útihúsunum og það kom alltaf
einhver á hverjum degi til að
huga að skepnunum og þá var
stundum spjallað. Hundurinn
minn var tryggur vinur og
hænunum þurfti að sinna á
hverjum degi og kisi litli alltaf
svo kelinn og vinalegur. Já, dýrin
fá mann oft til að brosa og gaman
er að tala við þau og knúsa. Brátt
fór ég að sjá að mér mundi ekki
leiðast, enda var alltaf eitthvað
sem þurfti að laga, smíða og
betrumbæta í sveitinni og góður
tími fannst til Biblíulesturs og
bæna. Þessi reynsla varð mér
mjög dýrmæt
En svo fór síminn fljótlega
að hringja og var það útkall í
vinnu. Dag eftir dag vantaði fólk
í vinnu. Ég fór glöð í vinnuna og
vissi að Guð var að bænheyra
mig. En þótt vinnan hefði verið
töluvert mikil þennan mánuð
vissi ég að kaupið mundi rétt
duga upp í einhverja reikninga.
Jólin voru að nálgast og ég sá
ekki fram á að geta átt krónu til
jólagjafakaupa. Hvað átti ég nú
að gera? Sparsemin var orðin
svo mikil að rabarbarasultan
var notuð með brauði á
morgnana og rúgmjölsgraut á
kvöldin, rabarbaragrautur og
rabarbarasaft nær alla daga.
Eggin úr hænunum voru einnig
dýrmæt, kartöfluuppskeran og
teið af jurtum hæðanna í kring.
Það var margt hægt að þakka
fyrir.
En þetta með jólagjafirnar
bankaði nú fast á hjarta mitt.
Hvað átti ég að gefa minni kæru
fjölskyldu um jólin? Ég átti ekki
einu sinni garn til að prjóna
sokka handa þeim. Það versta
við fátækt er að eiga ekki fyrir
gjöfum. Guð minn, hvernig fer
ég að þessu?
Þá einn daginn fékk ég
hringingu. Það var maður frá
Egilsstöðum, og var hann að
spurja um húsið okkar, sem var
til sölu. Við spjölluðum í góðan
tíma um húsið og svo spyr hann
mig allt í einu hvort ég prjóni
ekki lopapeysur. Hann hafði
keypt svo mikið af lopagarni á
útsölu en vantaði einhvern til að
prjóna peysu á sig. Ég sagðist nú
ekki vera vön því en gæti reynt.
Við sömdum um að hann mundi
borga mér í garni og sagðist svo
ætla að senda garnið sem fyrst til
mín.
Þennan sama dag fannst maður
sem var að fara frá Egilsstöðum
á Vopnafjörð og kom hann
um kvöldið og færði mér þetta
garn sem var mér til mikillar
undrunar nokkrir kassar af
lopagarni í mörgum fallegum
litum! Ég stóð um stund og
horfði á þetta undur. Þarna voru
jólagjafirnar komnar! Ég þyrfti
bara að hefjast handa. Prjónað
var morgun og prjónað var
kvöld og öllum stundum sem
ekki var verið að vinna og náðist
að klára 5 lopapeysur fyrir jólin
og jólavestið á mig og einnig
nokkra sokka. Maðurinn sagði
að ekkert mál væri fyrir hann að
bíða með sína peysu þar til eftir
áramót og kom það sér nú vel.
Já, þetta var óvænt og
skemmtilegt bænasvar sem kom
í tæka tíð til að bjarga þessum
jólum.
Anna Kjartansdóttir