Víðförli - 15.03.1995, Blaðsíða 4

Víðförli - 15.03.1995, Blaðsíða 4
Þankar um trú Pétur Þórarinsson í Laufási Hvar var Guð þegar ... ? Því verður sannarlega ekki á móti mælt að ísland er fal- legt land, hreint og friðsælt, og vafalaust finnst okkur langflestum gott að búa hér. En engu að síður gerast hér sem annars staðar í vorum heimi atburðir í lífi okkar sem valda sorg og tilfinninga- legum sársauka. íslenska þjóðin upplifði slíkan sársauka í janúar sl. þeg- ar hin hörmulegu slys urðu vegna snjóflóða. Um allt land laust niður sorg í hjarta, jafnvel þótt engin persónuleg kynni hafi staðið til þeirra sem fórust. En þau tilfinningalegu sárindi, sem þjóðarsálin skynj- aði, dofnuðu þegar hversdagurinn með önnum sínum og ati tók við. En í brjóstum þeirra sem næst stóðu hinum látnu og lifðu slysið af er sviðinn sár og sorgin með djúp- ar rætur sem nánast leggja undir sig líkamann allan, hugs- un og hegðun. Og vafalaust hefur þú, lesandi minn, á einhvern hátt mætt á lífsleið þinni þessari tilfinningu að verða fyrir sorg - verða fyrir ástvinamissi eða líf þitt á ýmsan annan máta farið út af braut hamingjunnar og skapað þér verulegt til- finningalegt áfall. Þannig er lífsvegur okkar flestra í smáu eða stóru lagður um slóðir sorgarinnar og í hvert sinn sem við förum um þann veg er mikilvægt að sjá ætíð til sólar - leita eftir þeim vegvísum sem leiða okkur þrátt fyrir allt að nýju á veg kær- leikans og hamingjunnar. En hvaða vegvísa greinum við þegar sorgin heltekur líkama og sál og augu okkar fyllast af tárum? Hvert leitum við eftir hjálp og huggun í áföllum lífsins, missi og nístandi sorg? Er okkar kristna trú einhvers virði þegar farið er um þungfæra vegi sorgarinnar? Er þá einhvers virði að eiga sterka og lifandi vitund um Guð? Já, vel á minnst. Guð - hvar er Hann sem er almáttugur þegar áfall verður í lífi mínu? Hvers vegna stöðvar Guð ekki alla þessa heimsins óáran, óhöpp og veikindi? Slíkra spurninga er spurt þegar sorgin knýr á dyr. Guð! Hvers vegna léstu þetta gerast? Þannig spyr jafnt hinn trúaði sem hinn sem lítið rækir sína trú því í sorginni verður okkur ljósust smæð okkar og vanmáttur. Hugsun okkar leitar ofar jarðneskum veruleika - leitar í bæn eftir svörum við stórum trúarlegum spurningum. „Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni, þegar vindur blæs á hann er hann horf- inn, og staður hans þekkir hann ekki framar.“ (Davíðs- sálmur 103: 15-16.) í því frelsi sem Guð gefur okkur mönnunum að lifa á þessari jörð þá mætum við ýmsum veraldlegum og mann- legum hindrunum sem okkur gengur misjafnlega vel að vinna úr og á okkur eru lagðar byrðar sem eru okkar mannlegu getu um megn að bera. Og í bæn örvæntingar- innar biðjum við Guð um hjálp. Og Guð heyrir hverja bæn okkar, en svar hans fellur ekki alltaf að okkar vilja. Það 5r. Pétur Þórarinsson. eina sem við getum gert er að beygja okkur í þeirri trú að Guð muni vel fyrir sjá - segja orð bænarinnar af sannfær- ingu trúarinnar: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ Síðustu missiri hef ég persónulega þurft að glíma við erfiðleika sem hafa valdið mér sársauka og vissri sorg. Það væri hræsni af mér að segja við þig, lesandi góður, að ég hafi ætíð og alltaf getað sagt með sannfæringu trúar minnar bænarorðin sem Kristur sjálfur kenndi. Eg hef bæði orðið sár og reiður í trú minni og reynt að draga Guð til ábyrgðar fyrir því hvernig komið er fyrir mér. En alltaf hef ég fundið aftur þá ljúfu trúartilfinningu að Guð er mér hæli og styrkur og stendur með mér í þeirri baráttu sem ég á nú í. Þegar mér finnst byrði sú sem ég er að reyna að axla mér nánast um megn þá eru uppörvandi orð Jesú mér styrkur: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt. 11:28.) Að rækja trú sína er hverjum kristnum manni nauðsyn- legt svo trúin sé lifandi veruleiki hvern dag og hverja nótt. Og það veit ég af nær tuttugu ára prestsþjónustu að oft reynist fólki í sorg erfitt að finna styrk trúar- innar vegna þess að trúariðkun þess hafði ekki verið rækt sem skyldi. Svo þegar erfið- leikunum er mætt og leitað eftir hjálp í trúnni er eins og gripið sé um hálmstrá. I hjartanu er eins og trúarlegt tóm sem skort- ir alla fyllingu og kraft. En það veit ég af eigin reynslu og eftir margra sögn að dagleg trúarleg iðkun, með bæn og lestri í Guðsorði, er hverjum manni huggun og styrkur. Sá sem á um sárt að binda eða ber þungar byrðar sálarlega og gefur sig af opnum huga í tilbeiðsluna á e.t.v. í fyrstu erfitt með að heyra og finna styrkinn frá orðum Krists er hann segir: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.“ (Jóh. 14:1.) En hljómur Orðsins og styrking bænarinnar verða þeim er ótrauðir leita, þrátt fyrir trúarlega þröskulda í fyrstu, smátt og smátt ljósari tilfinningalega. Sorgin er hinsvegar ekki þess eðlis að henni verði kippt burt úr brjósti þess er syrgir. Sorgarferlið verður að hafa sinn gang og tíma, en til þess að gera gönguna um veg sorgarinnar bærilegri og sjá sólargeislana í gegnum dökk skýin þá er trúarleg iðkun ósegjanlega mikilvæg. Megir þú, lesandi góður, í sárindum þínum og sorg finna styrk og huggun í trú þinni. Og ég kveð þig með bænarorðum úr gamalli íslenskri bæn. „Drottinn minn og Guð minn, kenndu mér að lifa eftir þínum vilja, því að þú ert minn Guð. Láttu þinn góða anda leiða mig um réttan veg til eilífs lífs. Amen.“ 4 VÍÐFÖRU

x

Víðförli

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víðförli
https://timarit.is/publication/1508

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.