Bæjarins besta


Bæjarins besta - 21.10.1998, Qupperneq 2

Bæjarins besta - 21.10.1998, Qupperneq 2
2 MIÐVIKUDAGUR 21. OKTÓBER 1998 Útgefandi: H-prent ehf. Sólgötu 9, 400 Ísafjörður % 456 4560 o 456 4564 Netfang prentsmiðju: hprent@snerpa.is Stafræn útgáfa: http://www.snerpa.is/bb Ábyrgðarmenn: Sigurjón J. Sigurðsson Halldór Sveinbjörnsson Ritstjóri: Sigurjón J. Sigurðsson Blaðamaður: Hlynur Þór Magnússon Netfang ritstjórnar: bb@snerpa.is Bæjarins besta er í samtökum bæjar- og héraðs- fréttablaða. Eftirprentun, hljóðritun, notkun ljósmynda og annars efnis er óheimil nema heimilda sé getið. LEIÐARI ORÐ VIKUNNAR Andskoti ,,Hlýtt er þel alþjóðar” Í dag fer fram útför Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, forsetafrúar, sem lést 12. þ.m. á sjúkrahúsi í Banda- ríkjunum eftir langa og stranga baráttu við veikindi, sem að lokum reyndust henni ofviða. Þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fram til embættis forseta Íslands var strax ljóst að eiginkona hans, Guðrún Katrín, stóð einhuga við hlið hans enda fór aldrei á milli mála hversu þýðingarmikið Ólafur Ragnar taldi hlutverk hennar verða ef hann næði kjöri. Engum blandast heldur hugur um áhrif Guðrúnar Katrínar á val íslensku þjóðarinnar á eiginmanni hennar til embættis forseta Íslands. Í aðdraganda kosninganna ávann hún sér hylli alþjóðar ekki einungis fyrir fágaða og glæsilega framkomu heldur ekki síður fyrir þá hlýju er fólk fann fyrir í nærveru hennar. Þessum eiginleikum sínum kom Guðrún Katrín vel til skila á þeim stutta tíma sem hennar naut við sem forsetafrúar. Hvarvetna sem forsetahjónin komu í opinbera heimsókn, hérlendis sem erlendis, var haft á orði heillandi viðmót Guðrúnar Katrínar við háa sem lága. Hún gæddi stöðu maka þjóðhöfðingjans nýju lífi, nýrri vídd. ,,Haustsvalinn umlykur ykkur, kæra fjölskylda, en hlýtt er þel alþjóðar sem umvefur ykkur, almenn samúð, dýpsta virðing, kærleikur, fyrirbæn. Guðrún Katrín er nú komin heim. Líkami hennar hvílir hér. Lát okkur með sálar- sjónum sjá að sál hennar fagnar nú á blíðri strönd föðurlands vors sem er á himni.” Undir þessi blessunar- og bænarorð biskups Íslands við komu kistu Guðrúnar Katrínar til landsins tekur öll þjóðin. Mikilhæf kona er gengin. Íslenska þjóðin tregar í dag forsetafrú sína, Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur. Hennar er sárt saknað. Í því mikla trausti og þeirri staðföstu trú og vissu er í orðum biskups felast ,,að sál hennar fagnar nú á blíðri strönd föðurlands vors sem er á himni” eru forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, dætrum þeirra hjóna, dætrum Guðrúnar Katrínar af fyrra hjónabandi og öðrum ættmennum sendar innilegar samúðarkveðjur. Vestfirðingar minnast hinnar látnu forsetafrúar með virðingu og þökk. Blessuð sé minning Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur. s.h. Algengt er, að merkingar orða breytist með tímanum. Dæmi þess er orðið andskoti, sem upphaflega táknar andstæðing í skotbardaga, löngu fyrir daga byssunnar, t.d. þar sem menn skutust á með spjótum eða örvum. Síðar fer orðið að merkja hinn vonda sjálfan skv. kristinni trú. Loks verður það áhersluorð eða krydd í daglegu tali, oft sárameinlaust og án nokkurra tengsla við óvin, hvað þá sjálfan djöfulinn. Fyrst talda merkingin er nú dauð, sú næsta hangir á horriminni en hin síðasta lifir góðu lífi. Sigur heildarinnar hjá KFÍ Tíu-eitt á þremur dögum Liðsmenn KFÍ léku alls ellefu leiki á þremur dögum um síðustu helgi, unnu tíu og töpuðu einum. Reyndar var hér alls um þrjú lið í mis- munandi aldursflokkum að ræða. Meistaraflokkurinn skaust upp í efsta sætið í úrvalsdeildinni með sigrum á föstudagskvöld og sunnu- dagskvöld (sjá baksíðu). Átt- undi flokkur (12-13 ára) fór á mót suður á Flúðum, lék fjóra leiki og vann alla stórt, jafnvel þótt liðsmenn væru aðeins sex, en fullskipað lið er tíu manns. Lið 17-19 ára fór á mót í Grindavík, lék fimm leiki og vann fjóra þeirra en tapaði einum. Það er alveg greinilegt, að efnið er til staðar og bjart framundan í körfunni á Ísafirði. Það vakti athygli í leiknum við Tindastól á föstudags- kvöldið, að þrír stigahæstu menn KFÍ voru allir íslenskir og heimamaðurinn Baldur Jónasson stigahæstur. „Þetta sýnir að við erum ekki að ætlast til að erlendu leikmenn- irnir okkar séu að skora 40 stig í leik“, segir Guðjón Þorsteinsson framkvæmda- stjóri KFÍ. „Við erum ekki að byggja liðið á einhverjum einum rosalegum súpermanni frá útlöndum sem á að skora allt, heldur erum við að finna menn sem falla vel inni í liðið og eru góðir félagar ekki síður utan vallar en innan. Þegar fimm manns eru að skora tólf stig og meira, þá hlýtur liðs- heildin að vera góð. Tveir síðustu leikir hjá hafa verið mjög góðir, jafnvel þótt Ós- valdur Knudsen hafi verið frá vegna meiðsla. Þetta hafa verið sigrar liðsheildarinnar. Við vorum slegnir út úr Eggja- bikarnum um daginn en erum greinilega búnir að jafna okkur á því. Það er pressa á liðinu og fólk ætlast til mikils af okkur og við ætlumst líka til þess sjálfir. Við erum að sýna það hægt og rólega, að við erum með mjög gott lið. Þó að einn leikur tapist, þá er það ein orusta en ekki allt stríðið“, segir Guðjón. Barnfóstrunámskeið á Suðureyri Fjórtán krakkar tóku þátt í barnfóstrunámskeiði, sem Rauða kross deild Súgandafjarðar hélt á Suðureyri, þrettán stelpur og einn strákur. Leiðbeinendur voru Helga B. Jóhannsdóttir og Margrét Hreinsdóttir. Meðal kennslugreina voru réttindi og skyldur, ábyrgð, framkoma við börn, umönnun, næring, sjúkdómar og slysavarnir. Í lokin fengu allir í skóinn og Rauða kross bakpoka með startpakka af sjúkragögnum, plástri, grisju og þess háttar. Bangsadagur á bókasafninu Alþjóðlegur bangsadagur er næsta þriðjudag, 27. októ- ber, en þá hefði Theodore Roosvelt Bandaríkjaforseti orðið 140 ára hefði hann lifað (f. 1858, forseti 1901-1909). Hann gekk undir gælunafninu Teddy og þá nafngift bera nú bangsar um víða veröld. Starfsfólkið á Bókasafni Ísafjarðar hvetur börn til að koma í heimsókn á afmælis- daginn milli kl. 14 og 20. Þar verður hægt að skoða og fá lánaðar heim bangsabækur og myndbönd (fullorðnir geta væntanlega fengið ævisögu Teddys Roosevelts í átta bindum). Auk þess verður börnum boðið upp á bangsa- myndir og bangsadúkkulísur til að klippa út og lita. Krakkar sem koma með bangsana sína með sér og leyfa þeim að hitta hina bangsana fá gefins bangsalímmiða. Veturnætur hefjast Lista- og menningarvikan Veturnætur hefst á Ísafirði á föstudag og stendur út mánuð- inn. Þar er fjölmargt í boði og of langt mál að telja upp alla dagskrárliði hér, enda eru þeir vel auglýstir um allan bæ. Nánari upplýsingar um þessa menningarviku veita Finnur Magnússon í síma 456 3123 og Sigríður Kristjánsdóttir í síma 456 4111. Veturnætur á Ísafirði Minningartón- leikum frestað Af óviðráðanlegum ástæðum verður minningartónleikum um hjónin Sigríði og Ragnar H. Ragnar, sem vera áttu nk. laugardag, frestað um óákveðinn tíma. Nokkrir nemenda Ragnars ætluðu að leika hér fjölbreytta dagskrá, en veikindi valda því að það er ekki hægt að sinni. Væntanlega verða þessir tónleikar síðar í vetur. Tónleikarnir áttu að vera liður í ísfirsku menningarhátíðinni Veturnáttum, sem hefur þegar verið auglýst. Afmælisveisla Tónlistarskólans Fjölskylduskemmtun verður í Íþróttahúsinu á Torfnesi nk. sunnudag kl. 16 í tilefni af 50 ára afmæli Tónlistarskóla Ísafjarðar í þessum mánuði. Á dagskránni verða fjölbreytt tónlistaratriði og fleiri uppákomur og í lokin verður gestum boðið upp á veitingar, afmælistertu og fleira. Aðgangur að skemmtuninni er ókeypis og öllum heimill. Tónlistarskólinn vill nota þetta tækifæri til að þakka Ísfirðingum ómældan stuðning og velvild um áratuga skeið og óskar þess, að sem flestir komi í veisluna og fagni þessum tímamótum.

x

Bæjarins besta

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.