Börn og menning - 01.04.2001, Blaðsíða 4
BÖRN OC MENN|N6
Langvarandi áhrif
Kæru lesendur
A æskuárum mínum hafði ein mynd alveg sérstök
áhrif á mig. Hún hékk uppi á vegg hjá afa og ömmu og
þegar ég kom þangað sat ég löngum stundum og starði
á hana. Ég komst að því seinna að þetta var eftirprentun
af verki eftir Van Gogh sem ég veit ekki enn hvað heitir.
Myndin sýnir mann á slegnum akri og beygir hann sig
yfir kornknippi sem hylur hluta af fótleggjunum þannig
að efri hluti líkamans og fætumir eru aðskildir. Ég held
það hafi liðið nokkur ár áður en ég tengdi þessa
aðskildu líkamshluta mannsins á myndinni og því fór
drjúgur tími í að velta vöngum yfir hvað í ósköpunum
þetta væri sem ég nú veit að eru fætur. En um leið
greyptist þessi mynd svo í huga minn að ég get kallað
hana fram hvenær sem er og hlegið yfir heimsku minni
eða séð fyrir mér afa og ömmu sitjandi í sófanum undir
henni.
Oft hef ég heyrt fólk lýsa því að það hafi orðið fyrir
svipuðum áhrifum af myndum í bókum sem það átti í
æsku. Sagan er kannski löngu gleymd en stöku mynd er
ljóslifandi og álíka kær og t.d. uppáhaldsbrúða eða
bangsi.
í nútímaþjóðfélagi verðum við stöðugt fyrir
myndáreitum í umhverfinu. Við horfum á kvikmyndir,
sjónvarp og myndbönd, sjáum auglýsingaskilti hvert
sem litið er, myndskreyttir bæklingar og blöð detta í
stríðum straumum inn um póstlúguna og þannig mætti
lengi telja. Mörgum þessara áreita rétt bregður fyrir svo
þau festast ekki í sjónminninu og hafa því ekki sterk og
langvarandi áhrif eins og ég lýsti hér á undan. Um
myndskreytingar í bókum, sem margar eru ætlaðar
börnum sérstaklega, gegnir öðru máli. Barnið skoðar og
les sömu bækurnar aftur og aftur og því er ekki ólíklegt
að enn sé það svo að myndimar sem eiga eftir að verða
kærir fylginautar þess í lífinu séu einmitt að finna í
barnabókum.
Börn og menning er að þessu sinni að miklu leyti
helgað myndskreytingum í barnabókum. Áslaug
Jónsdóttir myndskreytir og rithöfundur segir
umbúðalaust skoðun sína á ástandi myndskreytinga
hér á landi í grein sem hún var svo höfðingleg að
myndskreyta sjálf. í blaðinu er einnig að finna viðtal
sem Kristín Birgisdóttir átti við Ragnheiði Gestsdóttur
mynd- og rithöfúnd þar sem hún tjáir sig að mestu um
myndskreytingar í barnabókum. Eins og fram kemur
hjá þeim stöllum er engin ástæða til að hrópa húrra fyrir
framlagi okkar Islendinga til þessarar listgeinar en
vonandi eigum við eftir að sjá fleiri listamenn snúa sér
að því að myndskreyta bækur í framtíðinni. Að minnsta
kosti gefur uppsveiflan í myndskreytingum sem nú á
sér stað á Norðurlöndum okkur tilefni til bjartsýni. Hér
í blaðinu er einmitt fjallað lítillega um þessa nýbylgju
sem einkum ríkir í Danmörku og Noregi. Guðmundur
Oddur Magnússon veitir okkur innsýn í hvernig
myndsmíðakennslu er háttað í Listaháskóla íslands en
ekki síður hvernig sú kynslóð sem hefur alist upp við
tölvuskjáinn er í stakk búin til að takast á við
myndskreytingar. Loks römmum við þessa
myndlýsingaumfjöllun inn með því að kynna tvo
íslenska myndskreyta í samtímanum auk þess sem við
birtum nokkur verk horfinna snillinga á miðopnunni.
Aðrar listgreinar fá einnig sitt rými í þessu blaði auk
fastra pistla og ritdóma. Úlfhildur Dagsdóttir fjallar um
íslenskar kvikmyndir fyrir börn þar sem hún gefur
sérstakan gaum að Ikíngut, nýrri og velheppnaðri
barnamynd. Síðast en ekki síst skrifar Soffia Auður
Birgisdóttir forvitnilega grein um leikhúslíf fyrir börn
hér á landi sem er að sönnu ótrúlega fjölskrúðugt en
eins og kemur fram hjá Soffíu Auði er tæpast hægt að
segja að um mikla nýsköpun sé að ræða á þessu sviði.
Það fer sjálfsagt ekki framhjá glöggum lesendum að
nýtt nafn birtist nú undir þessum pistli. Kristín
Birgisdóttir sem verið hefur ritstjóri blaðsins um árabil
eða allt frá því að það birtist undir nýju nafni og með
nýju sniði hefur nú tekið við ritstjórastarfi á öðrum
vettvangi. Ég vil nota tækifærið og óska henni
velfarnaðar í nýju starfi og þakka henni um leið fyrir
samstarfið og alla þá óeigingjörnu vinnu sem hún hefur
innt af hendi í þágu Barna og menningar.
Guðlaug Richter
2