Fræðaþing landbúnaðarins - feb. 2010, Síða 18
| FRæðAÞING LANdBúNAðARINS 7, 201018
Svanhildur Ósk Ketilsdóttir og Þóroddur Sveinsson
Metanframleiðsla íslenskrar kúamykju var mæld og mat lagt á það hvað hægt sé að
framleiða mikið metan (CH4) í einni miðlægri stöð í Eyjafirði. Metanframleiðslan var
breytileg á milli 8 kúabúa og flokka nautgripa (mjólkandi kýr, geldkýr eða geldneyti)
á þremur kúabúum. Mældist framleiðslan frá 226 til 303 ml CH4 g1 lífrænt þurrefni
(LÞE) á milli búa og frá 176 til 284 ml CH4 g1 LÞE eftir flokkum nautgripa, mest hjá
kúm í byrjun mjaltaskeiðs og minnst hjá geldkúm. Þessar niðurstöður benda til þess
að gæði íslenskrar kúamykju til metanframleiðslu séu mikil ef tekið er mið af
erlendum niðurstöðum.
Framleiðslugeta miðlægrar metanstöðvar í Eyjafirði er jafnmikil eða meiri en margra
miðlægra stöðva, sem eru í rekstri í Evrópu í dag. Til þess að ná þessari
framleiðslugetu þyrftu þó nánast allir mjólkurframleiðendur í Eyjafirði að leggja til
mykju til stöðvarinnar.
Metan verður til við loftfirrt niðurbrot sem á sér stað víða í náttúrunni þar sem súrefni
(O2) er ekki til staðar eins og á sjávarbotni, botni ferskvatns, í mýrum, hverum og í
vömbum jórturdýra. Við niðurbrotið sundra bakteríur lífrænu efni til að framleiða
orku sem er nauðsynleg fyrir efnaskipti þeirra og metan og koltvíoxíð (CO2) eða
lífgas, eru lokaafurðir þess ferils. Loftfirrtu niðurbroti má lýsa í fjórum skrefum og
einkennist hvert þeirra af lífsstarfssemi ákveðinna bakteríuhópa (Seadi, 2000b). Þessi
skref eru vatnsrof, sýrumyndun, ediksýrumyndun og gasmyndun. Í fyrsta skrefinu eru
fjölliður eins og prótein, kolvetni og fita brotin niður með hjálp ensíma í sykrur,
amínósýrur og fitusýrur. Í öðru skrefinu sjá bakteríur um að brjóta efnin í fyrsta
skrefinu frekar niður í lífrænar sýrur (própíónsýru, smjörsýru og ediksýru), vetni (H),
koltvíoxíð og alkóhól. Í þriðja skrefinu brjóta ediksýrubakteríur lengri lífrænar sýrur
og alkóhól niður í ediksýru, H og CO2. Að lokum mynda metanbakteríur CH4 og CO2
úr H, CO2 og ediksýru (Birna S. Hallsdóttir & Björn H. Halldórsson, 1998). Eru þar á
ferð tveir mismunandi hópar metanbaktería, annar nýtir ediksýruna og hinn H2 og CO2
(Jørgensen, 2009).
Möguleg gasframleiðsla úr lífrænum úrgangi fer eftir eiginleikum og magni massans
sem nýta á í vinnsluna. Gæði búfjáráburðar til metanframleiðslu eru breytileg, bæði
innan og milli búfjártegunda, þau fara eftir magni og samsetningu lífrænna efna í
áburðinum. Til að auka afrakstur og þar með bæta hagkvæmni gasvinnslu er ýmsum
öðrum hentugum lífrænum úrgangi frá landbúnaði og eða iðnaði oft blandað saman
við búfjáráburðinn. Með þeim hætti er auk þess verið að bæta í ferlið næringarefnum
sem að annars færu til spillis (Mitterleitner, 2000). Oftast er þó nauðsynlegt að
lífmassinn sé í grunninn byggður á búfjáráburði því hann hefur jákvæð áhrif á
stöðugleika ferilsins vegna þess að hann inniheldur mikið af snefilefnum, myndar
rétta seigju og kjöraðstæður fyrir metanbakteríur (Gunnlaugur Friðbjarnarson, 2001).