Fræðaþing landbúnaðarins - feb. 2010, Síða 176
| FRæðAÞING LANdBúNAðARINS 7, 2010176
Áhrif gróðurs á vatnasviðum á efnasamsetningu straumvatns og aðra
eðlisþætti: fyrstu niðurstöður SkógVatns
Bjarni diðrik Sigurðsson
Landbúnaðarháskóli Íslands, Keldnaholti,112 Reykjavík; netfang:bjarni@lbhi.is
Útdráttur
Í þessari rannsókn voru áhrif gróðurfars á efnasamsetningu straumvatns rannsökuð. Leitað var
svara við því hvaða áhrif endurheimt birkiskóga og skógrækt með barrtrjám hefur á rafleiðni,
nítratútskolun, sýrustig og vatnshita. Valin voru níu vatnasvið með dragalækjum á
Fljótsdalshéraði til rannsóknanna; þrjú skóglaus svæði, þrjú vaxin birkiskógum og þrjú vaxin
miðaldra barrskógum. Fyrstu niðurstöður benda til að efnaútskolun sé meiri frá minna grónum
vatnasviðum, ef til vill vegna meira jarðvegsrofs á þeim í leysingum og rigningatíð.
Inngangur
Hvaða máli skiptir gróðurfar landsins fyrir efnasamsetningu straumvatns sem um það rennur?
Hafa breytingar á landnýtingu sem leiða til breytts gróðurfars á stórum samfelldum svæðum,
svo sem landgræðsla og skógrækt, áhrif á straumvatn og þær lífverur sem það byggja? Þessar
spurningar voru megin tilgátur rannsóknaverkefnisins SkógVatns, sem er samstarfsverkefni
Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Veiðimálastofnunar, Landgræðslu ríkisins,
Skógræktar ríkisins og MATÍS, auk erlendra samstarfsaðila. Á Fræðaþingi landbúnaðarins
2010 verða haldin þrjú erindi um hluta þeirra niðurstaðna sem nú liggja fyrir í verkefninu, og
skal hér vísað í greinar Gintare Medelyte o.fl. (2010) og Helenu Mörtu Stefánsdóttur (2010) í
því sambandi. Einnig skal bent á almenna umfjöllun um verkefnið í Helena Marta
Stefánsdóttir (2008).
Erlendar rannsóknir benda til að gróðurfar landssvæða, eða skortur á því, geti haft veruleg
áhrif á efnafræði straumvatna sem um þau renna (t.d. Petersen o.fl.1995; Ostwald o.fl. 2007).
Einnig hafa breytingar á landnýtingu verið tengdar ýmsum breytingum á efnafræði og lífríki
straumvatns (Gundersen o.fl. 2006; FAO 2008). Mikill áhugi hefur verið á rannsóknum á
áhrifum ýmiskonar landnýtingar á efnafræði vatns og vatnalíf undanfarin ár, ekki síst eftir að
Evrópusambandið gaf út vatnatilskipun sína (e. Water Framework directive). Þar er sú skylda
lögð á herðar aðildarlöndum ESB að þau tryggi vatnsgæði straumvatna sinna og hafi á reiðum
höndum upplýsingar um hvernig mismunandi landnýting hefur áhrif á þau. Þar sem skilningur
á tengslum landnýtingar og vatnsgæða var og er enn mjög brotakenndur, þá hefur þetta leitt til
þess að miklir fjármundir hafa verið settir í slíkar rannsóknir erlendis. Einnig eru umtalsverðar
breytingar að verða í landnýtingu í nágrannalöndunum vegna þessa. Til dæmis er að verða æ
algengara að komið sé upp skógivöxnum svæðum meðfram lækjum, ám og vötnum (e. buffer
strips) sem ekki eru nytjuð, til að tryggja að áhrif landnýtingar á vatnasviðunum séu sem
jákvæðust fyrir bæði lífríki og efnafræði vatnsins (Gundersen o.fl. 2010).
Erfitt er að heimfæra niðurstöður erlendra rannsókna á íslenskar aðstæður sem eru að mörgu
leyti ólíkar því sem gerist erlendis. Markvissar rannsóknir eru af skornum skammti fyrir
íslensk straumvötn til að svara því hver eru áhrif gróðurfars á efnafræði þeirra eða vatnalíf
(Hákon Aðalsteinsson og Gísli M. Gíslason 1998; Gísli Már Gíslason 2006). Þó hafa hér farið
fram nokkur rannsóknaverkefni sem hafa tengt gróðurfar vatnasviða við efnafræði
straumvatns. Má þar nefna umhverfisvöktunarverkefnið í Litla-Skarði í Borgarfirði, þar sem