Fræðaþing landbúnaðarins - Feb 2010, Page 179
MÁLSTOFA d – MAðUR – VATN – NÁTTúRA | 179
lækjum sem renna í skjóli skóga, nema helst hjá einum af birkiskógalækjunum sem greinilega
sýnir minni árssveiflu í hita. Hinsvegar þegar niðurstöður reglulegra mælinga á vatnshita voru
bornar saman (3. mynd), kom í ljós að skógarlækirnir höfðu um einni gráðu lægri
ársmeðalhita (5,9 í mólendinu á móti 4,7-5,0 °C í skógarlækjunum). Skógarlækirnir höfðu
einnig minni hitasveiflu en lækir sem runnu um skóglaust land (hér sýnt sem staðalfrávik
meðalhita; 3. mynd). Það er þekkt að skógaþekja dregur úr hitasveiflum í lækjum og skuggi
laufþaksins lækki vatnshita, einkum að sumri (FAO 2008).
2. mynd. Meðaltal og staðalfrávik allra punktmælinga á vatnshita (t.v) og sýrustigi (t.h.) lækja
sem renna um misgróin vatnasvið á Fljótsdalshéraði.
Áhrif skóganna á sýrustig lækjanna var lítið, og enginn munur var á sýrustigi vatns sem rann
um barrskóga og birkiskóga (2. mynd). Þessar niðurstöður eru í samræmi við mælingar á
sýrustigi jarðvegs í mólendi, birkiskógum og lerkiskógum á Fljótsdalshéraði (Bjarni d.
Sigurðsson o.fl. 2005). Þetta styður því fyrri niðurstöður um að íslenskur skógajarðvegur, með
sína háu jónarýmd (Hörður V. Haraldsson o.fl. 2008), sýni lítil merki súrnunar í gróðursettum
barrskógum. Varast skal að blanda umræðu um mikla súrnun jarðvegs í kjölfar gróður-
setningar barrtrjáa í löndum þar sem loftmengun er mikil við hvað líklega gerist á Íslandi. Í
þessum löndum er jarðvegur yfirleitt myndaður á súrari berggrunni (graníti) og þar er mestur
hluti súrnunarinnar af völdum smásærra loftmengunaragna sem barrtrén fanga meira af úr
andrúmslofti en önnur gróðurlendi. Jarðvegurinn súrnar þegar þau skolast niður í jarðveginn
með regnvatni. Á Íslandi er ekki sambærileg loftmengun, né jarðvegsgerð, því er ólíklegt að
sambærileg vandamál skapist hér.
Á 3. mynd má sjá hvernig rafleiðni lækjanna var mismunandi eftir vatnasviðsgerð þeirra. Hún
var að meðaltali hæst í lækjum sem runnu um skóglaust land, en lægst í lækjum sem runnu
um land klætt barrskógum (um 20% lægri). Þessar niðurstöður komu á óvart, þar sem bent
hefur verið á að nota megi rafleiðni sem ódýran og einfaldan metil á magn uppleystra lífrænna
efna og næringarefna í íslensku straumvatni (Hákon Aðalsteinsson og Gísli Már Gíslason
1998). Fyrirfram var búist við því að rafleiðni væri mun meiri í grónari vistkerfum. Rafleiðni
var einnig mun hærri í lækjum sem runnu um nær alveg gróðursnautt land í nágrenni Heklu en
í lækjum sem runnu um land klætt birkiskógum (gögn ekki sýnd). Hugsanlega eru þarna á
ferðinni einhver rafleiðandi rofefni úr jarðvegi minna grónu vatnasviðanna, en það krefst
frekari rannsókna að svara því með óyggjandi hætti.