Fræðaþing landbúnaðarins - feb. 2010, Blaðsíða 266
| FRæðAÞING LANdBúNAðARINS 7, 2010266
Anna María Ágústsdóttir
Gögn um fornveðurfar í setlögum og ískjörnum sýna að sterkt samband er á milli
loftslags og vindborinna agna (ryk). Á köldum jökulskeiðum var heimurinn mun
rykugri en núna, með rykflæði tvisvar til fimm sinnum meira en á hlýskeiðum. Aftur á
móti hafa áhrif rykagna á loftslag ekki verið skilgreind vel.
Rykagnir í andrúmslofti geta haft bein áhrif á loftslag, með því að dreifa og taka upp
geislun frá sólu og jörðu. Agnir1 geta einnig haft óbein áhrif á loftslag með því að
breyta eiginleikum skýja. Rykagnir sem innihalda járn geta haft áhrif á upptöku
kolefnis í vistkerfi hafsins og þar með haft áhrif á styrk koltvísýrings í andrúmslofti.
Agnir geta haft bæði neikvæð og jákvæð áhrif á geislunarbúskap jarðar en heildaráhrif
eru almennt talin vera neikvæð, þ.e.a.s. til kólnunar á loftslagi.
Hér verður farið yfir helstu uppsprettur agna í andrúmslofti og gerð stuttlega grein
fyrir tengslum foks jarðvegsefna og loftslags.
Loftslag jarðar er myndað af flóknum víxlvirkandi kerfum sem samanstanda af
andrúmslofti, landi, snjó og ís, höfum og öðrum vötnum og lífheiminum. Breytingar
sem varða þessi kerfi valda gagnverkandi áhrifum sem ýmist styrkja eða veikja áhrif
breytinga á geislunarbúskap jarðar. Það eru þrjár meginbreytur sem hafa áhrif á
geislunarbúskap jarðar: 1) breytt innkomandi sólargeislun (breyting á brautu jarðar
eða sólu), 2) breytt hlutfall geislunar sem endurkastast frá jörðu (albedo) með
breytingum á skýjahulu, ögnum í andrúmslofti eða gróðri, 3) breytt geislun frá jörðu
út í geim, t.d. með breytingum á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti (Le Treut
et al., 2007).
Um 30% af sólarljósi sem berst að efri mörkum lofthjúps jarðar endurkastast út í
geim. Um 2/3 af þessu endurkasti er vegna skýja og smárra agna í andrúmslofti (ar,
agnúða eða „aerosol“ á ensku), en ljós svæði á yfirborði jarðar (ís eða eyðimerkur)
endurkasta hinum 1/3 hluta sem eftir er (Le Treut et al., 2007).
1 „Í lofthjúpnum má, auk loftsameinda af ýmsu tagi og vatnsdropa, finna mikið magn
örsmárra rykagna og dropa sem auk vatns innihalda efnasambönd af ýmsu tagi, t.d.
saltlausnir og brennisteinssýru. Sameiginlega nefnast agnir og dropar, AR eða agnúði
(aerosol). Síðara orðið er oftast notað þegar arið samanstendur af dropum, fremur en
ögnum, oft er einnig talað um svifryk. Eindregin hefð hefur ekki skapast um þessa
orðanotkun.“ (Trausti Jónsson, 2007) Hér er ýmist notað agnir eða rykagnir fyrir
aerosol.