Fræðaþing landbúnaðarins - Feb 2010, Page 310
| FRæðAÞING LANdBúNAðARINS 7, 2010310
Árið 2009 voru alls gerðar 32.698 mælingar á tankmjólk en vegna breytinga á grunni
efnagreininga, reyndust mælingar á FFS síðustu tvær vikur ársins ekki vera
samanburðarhæfar. Alls reyndust því 31.347 tanksýni nothæf til samanburðar. Á
mynd 1 má sjá með hvaða hætti meðaltal FFS þróaðist á vikugrunni tankmeðaltala
árið 2009 og samhliða hvernig innvegið mjólkurmagn til samlaganna þróaðist.
Athygli vekur hátt meðaltal í fyrstu viku júní og seinnipart sumars. Líklegasta skýring
er sú að margir bændur hleyptu kúnum sínum út í byrjun júní 2009 sem hefur að
líkindum haft þessi áhrif á magn FFS í mjólkinni. Mikið magn FFS seinni part sumars
og fram á haustið annars vegar og minna magn FFS í febrúar hins vegar var ekki hægt
að skýra með þessum gögnum og því var ákveðið að óska eftir viðbótargögnum úr
skýrsluhaldsgagnagrunni Bændasamtaka Íslands (sjá síðar).
Eins og sjá má á mynd 1 er munurinn á FFS afar mikill innan ársins og hámarktækur á
milli efstu og neðstu mælinga (P<0,001). Meðaltal FFS í tankmjólk fyrir árið var 0,69
mmól/l sem er heldur hærra en fram kom í hérlendri rannsókn árið 2005 (Torfi
Jóhannesson ofl., 2006). 38,5% sýnanna reyndust vera með meira magn FFS en 0,7
mmól/l, en miðað er við að ef sýni mælist yfir 0,7 mmól/l þá sé það hærra en það þarf
að vera og því ráðlegt að skoða slík tilfelli hverju sinni og leita skýringa. Vegna þess
hve hátt meðaltal FFS í tankmjólk reyndist vera árið 2009 var horft sérstaklega til
sýnanna sem voru með hærra gildi en 0,7 mmól FFS/l. Á mynd 2 má sjá dreifingu
þeirra tanksýna þar sem fram kemur að allt árið er samlögunum að berast tanksýni
sem eru langt ofan við viðmiðunarmörkin.
2. mynd. Dreifing vikulegra tanksýna með fleiri FFS en 0,7 mmól/l.
Til þess að geta betur greint sýnin voru þau flokkuð eftir hinum nýju gæðamörkum og
kom þá í ljós að stór hluti tankmjólkursýna hérlendis er yfir bæði 0,7 mmól/l, 1,1
mmól/l og 1,8 mmól/l. Ennfremur urðu miklar gæðasveiflur á mjólkinni innan ársins,
allt frá því að einungis 19% tanksýna (lok febrúar) hafi verið yfir 0,7 mmól/l og upp í
það að 63% tanksýna voru yfir 0,7 mmól/l (seinnihluti júlí), sjá mynd 3.