Fræðaþing landbúnaðarins - Feb 2010, Page 348
| FRæðAÞING LANdBúNAðARINS 7, 2010348
Tryggvi Eiríksson1, Hólmgeir Björnsson1, Þorkell Jóhannesson2,
Kristín Björg Guðmundsdóttir3 og Jakob Kristinsson2 .
12
Mörg snefilefni gegna veigamiklu hlutverki í heildarfóðri búfjár, enda tengjast þau
ensímun og próteinum líkamans. Ofgnótt eða hörgull þessara snefilefna geta valdið
sjúklegum breytingum á starfsemi í frumum og valdið sjúkdómum. Tilgáta hafði verið
sett fram um að misvægi snefilefna gæti haft áhrif á uppkomu riðu. Fyrir um áratug
hófst verkefni sem fjallaði m.a. um rannsóknir á snefilefnum í fóðri sauðfjár, einkum
með tilliti til áhrifa á riðu. Birtust nokkrar greinar um þetta efni, en staðnæmst var við
að einkum gætu járn og mangan verið snefilefni sem tengdust uppkomu riðu með
einhverjum hætti (Þorkell Jóhannesson o.fl. 2004 og 2007, Kristín Björg
Guðmundsdóttir o.fl. 2006).
Annað stórt verkefni á liðnum áratug, sem tengist snefilefnum í fóðri, var að kanna
hugsanlegar ástæður fyrir þrálátum kálfadauða í íslenskri nautgriparækt. Þar var reynt
að skoða samsetningu og hlutföll snefilefna í heyfóðri sem hugsanlega ástæðu fyrir
kálfadauða (Grétar Hrafn Harðarson o.fl. 2006, Magnús Jónsson ritstj. 2009).
Tilvitnanir í eldri rannsóknir er að finna í ofangreindum greinum.
Tilgangurinn með því verkefni sem hér er lýst var meðal annars að skoða hvort
innihald snefilefna, einkum járns og mangan, í heyi væru frábrugðið milli riðusvæða
eða riðulausra svæða, sem svo væru skilgreind.
Í rannsóknina voru notuð heysýni frá bændum af uppskeru 2007 sem voru send til
efnagreininga á LbhÍ. Alls bárust 1691 þetta ár og voru snefilefnin járn (Fe), mangan
(Mn), kopar (Cu) og sink (Zn) mæld í þeim flestum. Af grænfóðri voru 42 sýni og 4 af
korni og var þeim sleppt við samanburð á magni snefilefna eftir landshlutum. Hin
sýnin 1557 voru 53 úr þurrheyi, 63 úr votheyi, 1426 úr rúlluböggum og 15 úr
stórböggum. Áður en til endanlegs uppgjörs kom var ákveðið að fella úr 5 sýni af
rúlluböggum vegna gilda sem voru dæmd afbrigðileg, 2 sýni með Fe > 2000 mg/kg, 2
sýni með Cu > 40 mg/kg og 1 sýni með Mn > 500 mg/kg. Voru þá eftir 1421 sýni úr
rúlluböggum og alls í útreikninga. Voru þau tekin á 344 bæjum í 118
hreppum (gamla hreppaskiptingin). Í þessari grein eru einnig sýndar mælingar á
grænfóðri og korni þótt þær séu ekki með í samanburði svæða.
Mælingarnar voru gerðar í lausnum sem jafnframt voru notaðar fyrir meginsteinefnin.
Vigtuð voru tæplega 0,2 g af sýninu á nákvæmnisvog. Sýnin eru soðin yfir nótt (20
klst.) í 5 ml af fullsterkri saltpéturssýru (HNO3). Magn efna í lausninni var mælt með
tæki sem mælir atómútgeislun frá plasma ICP OES (optical emission spectometry),
tæki frá Spectra Þýskalandi (Tryggvi Eiríksson o.fl. 2010). Mælingar voru eðlilegar
og gildi viðmiðunarstaðla voru innan marka fyrir járn og mangan í öllum tilvikum.
Fyrir kopar og sink bar aðeins á tilfallandi mengun, sérstaklega fyrir sink. Var hluti
sýnanna endursoðinn, en þó kann að vera að einhver gildi hafi farið með sem gætu
orkað tvímælis. Ekki er líklegt að það skekki heildarmyndina þar sem oftast eru
nokkur sýni frá sama bæ og mælingarnar eru margar.