Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.02.2021, Side 8
ÚTTEKT
8 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14.2. 2021
Á
heildina litið skynja ég mikinn
metnað í grunnskólum og kær-
leika og umhyggju kennara fyrir
nemendum. Ég tel að allir séu að
reyna að gera sitt besta og það á
líka við um skólastjórnendur, mennta- og menn-
ingarmálaráðuneytið, Menntamálastofnun og
þá sem koma að skólastarfi almennt. En það er
ekki þar með sagt að „besta“ fólkið sé endilega í
réttum stöðum því við vitum að það þarf sterka
leiðtoga til að breyta, þegar breytinga er þörf.“
Þetta segir Þorgrímur Þráinsson rithöfundur
en í fjórtán ár hefur hann markvisst boðið nem-
endum í 10. bekk upp á fyrirlesturinn, Verum
ástfangin af lífinu, skólum að kostnaðarlausu.
Mörg fyrirtæki sýna þó samfélagsábyrgð í
verki og undanfarin ár hafa N1 og Brim sýnt
Þorgrími traust og stutt við bakið á honum og
um leið skólum landsins. Árlega nær hann að
hitta um 4.600 nemendur og því hafa yfir 60.000
hlýtt á fyrirlesturinn sem tekur breytingum frá
ári til árs.
„Ég held líka að langflestir foreldrar séu að
gera sitt besta en það hefur eigi að síður verið
ákveðin lenska að varpa mestri ábyrgð yfir á
skólana. Þótt umræðan síðustu misseri hafi snú-
ist um vanda drengja í skólakerfinu, hvernig
megi bæta um betur og hvar ábyrgðin liggi, kýs
ég að horfa á heildarmyndina, orsök og afleið-
ingu, og marga litla hluti sem geta skipt sköp-
um, allt frá því að barnið tekur fyrsta andar-
dráttinn. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi!“
Að dómi Þorgríms erum við heppin að búa á
Íslandi og þótt víða í samfélaginu sé blússandi
metnaður, drifkraftur og frumkvæði leynist líka
agaleysi, leti, röng forgangsröðun, einkavina-
væðing, skortur á hugrekki og leiðtogum. Hann
kveðst sjálfur hafa verið hluti af þessu vanda-
máli og vissulega séum við ósátt við niðurstöður
kannana á stöðu sumra nemenda. Enn eimi af
þeirri hugsun að allt muni reddast af sjálfu sér.
Þegar spjótin beinast að okkur hætti okkur til
að fara í vörn og þrjóskan taki yfir. Hann segir
að fólk í valdastöðum ætti oftar að leita til
þeirra sem hafa verið í grasrótarvinnu áratug-
um saman. Sannur leiðtogi fagni gagnrýni og
virki þá í kringum sig sem vita betur.
Foreldrar leggi meira á sig
„Við foreldrar berum fyrst og fremst ábyrgð á
velferð barna okkar og verðum að bregðast við,
leggja meira á okkur ef við teljum skólann ekki
standa sig nógu vel. Skoðanir okkar mótast af
okkar eigin reynslu, hvernig komið er fram við
börnin okkar í skólanum og annars staðar og við
höfum, án efa, rétt fyrir okkur að einhverju
leyti. Við fullorðna fólkið vitum að mesta glíman
í lífinu er glíman við okkur sjálf. Stundum er
álagið, stressið og hraðinn svo mikill að við bug-
umst og treystum því að aðrir taki við keflinu.
Við verðum öll að vera á vaktinni og hjálpast
að.“
Þorgrímur segir þá staðreynd að í kringum
13.000 tilkynningar berist til barnaverndar-
nefnda árlega vera ákveðinn áfellisdóm yfir
samfélaginu. „Það eru 35 tilkynningar á dag!
Það sem birtist á samfélagsmiðlum endur-
speglar ekki þetta ástand en á þeim virðist allt
vera í lukkunnar velstandi. Vanlíðan er falin og
vandamál blasa ekki við en við verðum að tala
um hvorutveggja, hvort sem þau lúta að okkur
sjálfum eða börnunum.“
Hann segir brýnt að setja börnum mörk, þau
þurfi reglur og aga, ekki síst að temja sér sjálfs-
aga en við fullorðna fólkið höfum oftar en ekki
verið of upptekin og því haft minni tíma fyrir
börnin. Fjölmargar fjölskyldur séu reglulega í
vanda en þá ætti að vera tími til að forgangs-
raða upp á nýtt. Sumir séu guðslifandi fegnir
þegar þeir fái andrými á meðan barnið hangir í
símanum eða tölvunni. „En það sorglega er að
þegar þau festast í þessum græjum klukkutím-
um saman er verið að ræna þau lífinu.“
Raunverulegt líf er alls ekki það sem blasir
almennt við á samfélagsmiðlum unga fólksins,
að dómi Þorgríms. Hann skorar á foreldra að
horfa á heimildarmyndina „Social dilemma“ á
Netflix. „Þegar Instagram og Snapchat, og
hvað þetta allt heitir, fór á flug í kringum 2009
jókst sjálfsskaði 10-14 ára stúlkna í Bandaríkj-
unum um 189% og sjálfsmorðstíðni sama ald-
urshóps um 151% fram til ársins 2017.“
Þorgrímur segir vegferð hvers einstaklings
stjórnast af sjálfsmyndinni. Við foreldrar gæt-
um spurt okkur hvað við gerum daglega til að
þess að hjálpa börnum okkar að styrkja sjálfs-
myndina, efla sjálfstraustið, skapa traust til
þess að barnið treysti okkur fyrir því sem hrjáir
það. Skólasamfélagið ætti að spyrja sömu
spurninga en sumir nemendur verða utangátta í
skólanum, af ýmsum ástæðum. Kannski skorti
áskoranir og kveikjur við hæfi sem tengjast
áhugamálum þeirra.
Fimm lykilþættir
„Reynslan segir mér að fimm lykilþættir skipta
mestu máli hjá börnum: Dagleg kröftug hreyf-
ing, hollur matur, nægur svefn, félagsleg virkni
og læsi. Læsi er eitt mikilvægasta lýðheilsumál
þjóðarinnar. Er ekki líklegt að þar liggi einmitt
hundurinn grafinn, vandi drengja? Vísinda-
greinar hafa sýnt fram á að nemandi þurfi að
skilja 98% orða í texta til að ná samhenginu,
skilja efnið. Ef rúmlega 34% drengja geta ekki
lesið sér til gagns, segir það sig ekki sjálft að
orðaforðinn er dapur? Hvað ætlum við foreldrar
að gera í því? Bíða eftir að skólinn bjargi börn-
unum? Kennarar eru að leggja sig fram en þeir
eru flestir með yfir tuttugu ólíka nemendur í
bekk í skóla án aðgreiningar,“ segir Þorgrímur.
„Er nýtt orð límt á ísskápinn (á vegg eða
skrifað í stílabók) á degi hverjum og rætt við
börnin um þýðingu orðsins? Er orðaveggur í
skólastofunni sem nemendur fylla út ef þeir
skilja ekki nýtt orð í kennslustund? Það að læra
fimm ný orð á dag, utan skólastofunnar, þýðir
1.825 ný orð á ári. Liggur það ekki í augum uppi
að lesskilningur myndi batna verulega ef þessu
væri sinnt af kostgæfni?“
En hvaða bækur, texta, eiga börnin að lesa?
„Í bókinni Bókahvíslarinn eftir kennarann
Donalyn Miller, sem kennd hefur verið í 6. bekk
(12 ára krakkar) í Bandaríkjunum í áratugi,
segir að það skipti öllu máli að börn lesi bækur
sem tengjast áhugamálum þeirra. Hennar nem-
endur lásu flestir 40 bækur á ári. Af hverju
þurfa allir nemendur að lesa Gísla sögu Súrs-
sonar eða Engla alheimsins eða Tár, bros og
takkaskór? Jú, hugsanlega til að ræða um sam-
félagsmál, geðheilbrigðismál eða þau gildi sem
verkin endurspegla. Myndi það frekar kveikja
neista ef nemendur fengju að lesa bækur sem
þá langaði virkilega að lesa, eins og Donalyn
Miller bauð sínum nemendum upp á? Í kjölfar
þess hækkuðu einkunnir hennar nemenda veru-
lega, í samanburði við aðra bekki, af því orða-
forði nemendanna varð miklu betri. Þar af leið-
andi jókst lesskilningur og sjálfstraustið.“
Þorgrímur spyr um samfélagslega ábyrgð
ríkisfjölmiðla hvað læsi varðar, og annarra fjöl-
miðla. Ef vá sé fyrir dyrum, eins og augljóst er
með vanda drengja, hvers vegna verja ríkisfjöl-
miðlar ekki örfáum mínútum af auglýsingatím-
anum á hverjum degi í að halda okkur for-
eldrum við efnið með hvatningu og áskorunum?
„Við foreldrar þurfum að láta minna okkur á
hvað skiptir mestu máli – uppeldi barna okkar,
ást og kærleikur. Covid-19 hefur tröllriðið sam-
félaginu og það bitnar mest á börnum og ungu
fólki, eins og dæmin sanna. Og fjölmiðlar upp-
lýsa okkur reglulega um stöðu mála til að hjálpa
okkur. Ef brotabrot af auglýsingatíma fjölmiðla
færi í hvatningu til foreldra, væri um samfélags-
lega ábyrgð að ræða. En flestir eru stikkfrí.
Hverjir eiga að lesa fjölmiðla framtíðarinnar?“
Lært mikið af Hermundi
Þorgrímur segir ekkert launungarmál að hann
hann hafi lært heilmikið af Hermundi Sig-
mundssyni, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við
Háskólann í Þrándheimi og Háskólann í
Reykjavík. Hann vitni sífellt í vísindagreinar og
fræðimenn sem eiga fleiri hundruð birtar
vísindagreinar að baki. Með dugnaði og þraut-
seigju hafi honum tekist, ásamt Tryggva
Hjaltasyni, að fá Vestmannaeyjabæ til liðs við
sig og stofna rannsóknarsetur í Vestmanna-
eyjum undir yfirskriftinni Kveikjum neistann –
áhugahvöt og árangur. „Þetta hefði aldrei orðið
að veruleika nema vegna þess að Hermundur
og Tryggvi sýndu dugnað og þrautseigju og
ekki síst Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri sem sá
tækifæri til þess að Vestmannaeyjar yrðu í
fararbroddi og fyrirmyndarsamfélag. Þetta eru
leiðtogar sem fengu Samtök atvinnulífsins, Há-
skóla Íslands og mennta- og menningar-
málaráðuneytið með sér í lið. En frumkvæðið
kom frá einstaklingum sem höfðu ástríðu fyrir
því að það þurfti að taka á vandanum. Þeir sem
sinna grasrótinni, eru á gólfinu, vita hvað þarf
að bæta. Harry Truman, 33. forseti Bandaríkj-
anna, sagði eitt sinn: „Það er með ólíkindum
hverju þú færð áorkað í lífinu ef þér stendur á
sama um hver fær heiðurinn af því!““
Þorgrímur bendir á, að vísindin segi að fyrstu
1.000 dagarnir í lífi barnsins skipti mestu máli.
„Hvað gerum við fyrstu þrjú árin í lífi barnsins
til að búa það undir það sem koma skal? Rann-
sóknir sýna að við ættum að nefna um 1.200 orð
við barnið á hverjum einasta degi frá fæðingu,
við eigum sífellt að tala við barnið. Ég hafði ekki
hugmynd um þetta þegar mitt föðurhlutverk
hófst.“
Og hvernig hreyfum við börnin þessa fyrstu
1.000 daga til að þau ánetjist því að hreyfa sig
kröftuglega, daglega þegar fram líða stundir?
Hvaða þekkingu höfum við foreldrar á því hvers
konar hreyfing örvar þær heilastöðvar sem
skipta mestu á þessum árum? Að sögn Þor-
gríms skora leikskólar á Íslandi hátt í saman-
burði við aðra leikskóla í Evrópu hvað varðar
faglegt starf samkvæmt nýlegri úttekt. Það sé
mikil viðurkenning en í úttektinni var hvergi
minnst á mikilvægi skipulagðrar hreyfingar.
Strákar oft stikkfrí
Hann segir að það skólafólk, sem hann hafi rætt
við undanfarin ár, virðist vera sammála um að
það vanti dugnað og þrautseigju í fjölmarga
drengi og vitanlega líka stúlkur; að nemendur
gefist of fljótt upp þegar á móti blæs. Eflaust séu
ástæðurnar margvíslegar en hann hafi leitað
svara í skólum landsins og svörin séu fjölþætt.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Heil kynslóð er í húfi!
„Ef við ætlum að standa okkur vel í því að ala upp heilbrigðar og bjartar kynslóðir, kostar það skýra sýn, framkvæmdavilja og
fjármagn. Og foringja!“ segir Þorgrímur Þráinsson rithöfundur um vanda drengja og skólakerfisins yfirhöfuð. Honum virðist að
drengi vanti hlutverk, hugsanlega heima við og í skólanum. Þá velti áhugi barna oft meira á kennaranum en námsefninu.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
’Við foreldrar berum fyrst ogfremst ábyrgð á velferð barnaokkar og verðum að bregðast við,leggja meira á okkur ef við teljum
skólann ekki standa sig nógu vel.
„Ég held að langflestir foreldrar séu
að gera sitt besta en það hefur eigi
að síður verið ákveðin lenska að
varpa mestri ábyrgð yfir á skólana,“
segir Þorgrímur Þráinsson.