Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.02.2021, Side 9
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
28.2. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 9
Cristiano Ronaldo þakkar Kára fyrir leikinn á EM 2016. Portúgalska stórstjarnan komst hvorki lönd
né strönd í leiknum. Kári segir þó að ekki megi líta af honum, hann þurfi að vera í gjörgæslu.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
boð kom frá Malmö FF sumarið 2015 þurfti ég
ekki að hugsa mig tvisvar um.“
Hann sneri aftur til Bretlands tveimur árum
síðar sem eftir á að hyggja voru mistök. „Eins
og stundum voru þau félagaskipti gerð með
hagsmuni landsliðsins að leiðarljósi. Heimir
Hallgrímsson kom að máli við mig ári fyrir HM
í Rússlandi og lýsti þeirri skoðun sinni að betra
væri að hafa mig í sterkari deild en á Kýpur, þar
sem ég hafði samið við Omonia. Þess vegna fór
ég aftur til Aberdeen – orðinn tiltölulega gam-
all. Tók meira að segja á mig launalækkun. Eins
og mér þykir vænt um Aberdeen, bæði borgina
og klúbbinn, þá fann ég strax að ég var vaxinn
upp úr þessu. Þvílíkur hraði og djöfulgangur
þarna í skosku deildinni. Og það var eins og við
manninn mælt, ég byrjaði að meiðast aftur. En
markmiðinu var náð, við komumst á HM og ég
fékk að leika á stærsta sviðinu af þeim öllum.
En eftir það var ég fljótur að koma mér burtu
frá Skotlandi og lék síðasta árið í atvinnu-
mennsku í Tyrklandi, þar sem rólegra var yfir
öllu.“
Kári hefur leikið í Bandaríkjunum, Svíþjóð,
Danmörku, Englandi, Skotlandi, Kýpur og
Tyrklandi. Hvar ætli honum hafi liðið best?
„Á Englandi, engin spurning. Það voru frá-
bærir tímar. Breskt samfélag og menning á
mjög vel við mig og allir mínir vinir gegnum
knattspyrnuna, fyrir utan landsliðið, eru Eng-
lendingar. Viðhorf þeirra til lífsins er svo
skemmtilegt, bæði er húmorinn mjög líkur því
sem maður á venjast hér heima og svo þarf bara
svo mikið til að koma þeim úr jafnvægi. Eng-
lendingar taka engu persónulega; væla ekki yfir
nokkrum hlut og halda bara áfram með smjörið,
sama á hverju gengur. Þarna lærði ég að velta
mér ekki upp úr smáatriðum. Stjórarnir þarna
eru auðvitað snaróðir, sérstaklega í neðri deild-
unum, og margir myndu brotna undan því álagi
en leikmennirnir sáu bara húmorinn í þessu og
héldu áfram. „Life goes on, you know!“ Brjál-
æðið í stjórunum gerði okkur leikmennina bara
nánari.“
Kári flutti heim sumarið 2019 ásamt sam-
býliskonu sinni, Hjördísi Perlu Rafnsdóttur, og
syni þeirra, Mikael Atla, sem nú er þriggja ára.
Hann segir það hafa verið góða ákvörðun.
„Fyrstu tíu til tólf árin í atvinnumennskunni var
ég ekkert að hugsa um að flytja aftur heim. Það
var gaman að koma í frí á sumrin en síðan dreif
maður sig bara aftur út í vinnuna. Síðustu fjög-
ur ár ferilsins fórum við hins vegar að hugsa
meira og meira um þetta, sérstaklega eftir að
Mikael fæddist. Okkur langaði ekki að ala hann
upp í ferðatösku en ég skipti oft um lið seinustu
árin. Maður vill hafa stöðugleika og skipulag í
kringum börnin sín og eins að þau fái að vera
kringum stærri fjölskylduna. Það var mjög gott
að koma heim; við töldum niður dagana í Tyrk-
landi. Það var svo sem ekkert slæmt að vera
þarna og vinnan vel launuð en maður brennur
ekki beint fyrir einhverju tyrknesku liði sem
maður hafði ekki heyrt nefnt áður en maður
fékk tilboð þaðan.“
Hvað heitir það ágæta félag aftur? Jú, jú, þið
eruð með ’etta. Gençlerbirligi.
Kári var þó hvergi nærri hættur í fótbolta og
við komuna heim kom aldrei nema eitt félag til
greina – uppeldisfélagið Víkingur. „Ég opnaði
aldrei á viðræður við aðra. Maður ætti örugg-
lega meiri möguleika á titlum í Val eða KR en
ég lét hjartað ráða för. Það er líka tífalt
skemmtilegra að vinna titla með sínu félagi og
það gekk eftir strax fyrsta sumarið, þegar við
urðum bikarmeistarar. Það var algjört æv-
intýri. Mér líður mjög vel í Víkingi og þykir
vænt um strákana í liðinu en, eins og ég gat um
áðan, þá gæti ég verið pabbi þeirra flestra. Þeir
hlusta auðvitað misvel á mann, það er bara nátt-
úran í þeim, en efniviðurinn er góður. Ég sé
ekki eftir því að hafa komið heim í Víking.“
Talið berst að stöðu knattspyrnunnar hér
heima og Kári segir dapran árangur liðanna á
Evrópumótunum í fyrra áhyggjuefni. „Eina lið-
ið sem átti möguleika var við en við töpuðum
einum færri eftir framlengingu gegn Olimpija
Ljublijana ytra. Mann langaði mest að gráta
eftir þann leik. Þetta þarf að skoða mjög vel,
ekki síst með hliðsjón af taktísku veikleikunum
sem ég talaði um áðan. Fótboltinn hefur breyst
mjög mikið síðan ég fór út, ekki bara hvað varð-
ar tækni og taktík. Harkan var meiri hér áður
en inn á milli voru menn með gæði sem gerðu út
um leiki. Ætli það hafi ekki verið bein afleiðing
enska boltans eins og hann var í gamla daga.
Leikurinn milli Skagans og Vals, þegar dóm-
arinn var með hljóðnemann, kemur upp í hug-
ann, þar sem kappar á borð við Sigurð Jónsson
og Sævar Jónsson tókust á og gáfu ekki þuml-
ung eftir. Það er með ólíkindum að menn hafi
staðið uppréttir eftir þessa leiki. Íslenski bolt-
inn er áferðarfallegri í dag, teknískari og
skemmtilegri fyrir áhorfendur en ætli við þurf-
um ekki að finna eitthvert jafnvægi, milli hörku
og mýktar.“
Hann segir alltaf gott að drengir og stúlkur
fari utan í atvinnumennsku en veltir fyrir sér
hvort betra geti verið að bíða aðeins með það
skref. „Það er auðvitað einstaklingsbundið en í
sumum tilvikum er of snemmt fyrir krakka að
fara út fimmtán eða sextán ára. Til að koma til
móts við þá þurfum við að bjóða upp á öflugt
umhverfi hérna, þar sem þeir fá toppþjálfun en
geta um leið haldið áfram og klárað stúdentinn
og verið lengur með fjölskyldu og vinum áður
en þeir halda út í hinn harða heim atvinnu-
mennskunnar. Þetta er umræða sem ég myndi
gjarnan vilja eiga við félögin og foreldrana sem
þekkja börnin sín auðvitað best.“
Vivaldi, golf og MBA-nám
Við vendum kvæði okkar í kross. Vínylplata í
hillunni á bak við Kára vekur athygli mína en
hún hefur að geyma hljóðritun á því merka
verki Árstíðunum eftir Vivaldi. „Þessi er ómiss-
andi fyrir leiki,“ segir Kári grafalvarlegur og
teygir sig í gripinn. Síðan skellir hann upp úr.
„Nei, nei. Konan mín á þetta; hún er að safna
vínylplötum. Ég er ekki alveg þarna.“
– Hvað baukar þú helst utan knattspyrn-
unnar?
„Mér finnst mjög gaman að spila golf; ætli
það sé ekki helsta áhugamálið. Mér þykir líka
mjög dýrmætt að verja tíma með fjölskyldunni
og finn vel hvað forgangsröðin breytist þegar
barn kemur til sögunnar. Mér fannst á sínum
tíma mikilvægt að mennta mig og þess vegna
lærði ég viðskiptafræði á Bifröst meðfram
knattspyrnunni; kláraði hana fyrir rúmum ára-
tug. Tók mér gott frí frá námi eftir það en þegar
við fluttum aftur til Aberdeen skráði ég mig í
MBA-nám við Robert Gordon-háskólann og
stefni á að ljúka því í sumar. Meðfram þessu hef
ég svo verið í fjárfestingum ásamt Tryggva
Björnssyni vini mínum og mun halda því áfram.
Þannig að það er í mörg horn að líta.“
Fjölskyldan kann vel við sig í Garðabæ en
þýðir það að sonurinn muni ganga í Stjörnuna?
„Auðvitað myndi ég helst vilja að Mikael færi í
Víking en það er ekki aðalatriðið, best er að
hann fylgi félögum sínum. Sjálfur kem ég úr
mikilli Valsfjölskyldu, Sigurður Egill og Dóra
María Lárusbörn eru til dæmis náskyld mér, en
samt kaus ég að fylgja æskuvinum mínum úr
Fossvoginum í Víking og myndi ekki breyta því
fyrir neitt.“
Kári hefur glímt við marga af bestu knatt-
spyrnumönnum heims undanfarinn hálfan ann-
að áratug eða svo og ekki er hægt að sleppa
honum án þess að spyrja um þá erfiðustu.
„Zlatan,“ segir hann strax, „Það er eiginlega
ekki hægt að verjast honum. Hann er ekki bara
stór og sterkur, heldur líka ótrúlega teknískur.
Það má heldur ekki taka augun af Cristiano Ro-
naldo. Hann þarf að vera í gjörgæslu allan tím-
ann, annars vinnur hann metra og er kominn í
færi. Messi komst ekkert áleiðis gegn okkur á
HM en hann er, eins og við þekkjum, yfirleitt
betri með Barcelona en landsliðinu. Xavi og
Iniesta voru líka ótrúlegir; ég spilaði einu sinni á
móti þeim á miðjunni hérna á Laugardalsvell-
inum og var eins og krabbi allan leikinn, komst
ekki nálægt þeim og dansaði bara hliðar saman
hliðar. Snerpa þeirra og leikskilningur voru á
allt öðru plani. En úrslitin voru frábær, 1:1. Em-
il Hallfreðsson skoraði með flugskalla. Loks má
ég til með að nefna Olivier Giroud. Hann er van-
metnasti framherji í heimi; rosalega sterkur lík-
amlega og með frábæra fyrstu snertingu. Það
hlýtur að vera draumur að spila með honum og
ótrúlegt að hann byrji ekki hvern einasta leik
hjá sínu félagsliði.“
Heyrirðu það, Thomas Tuchel? Ertu ekki
örugglega að lesa?
Kári og félagi hans í miðri íslensku vörninni, Ragnar Sigurðsson, fagna sigrinum á Englendingum á
EM í Frakklandi 2016. Þeir hafa oftar en ekki leikið sem einn maður fyrir íslenska landsliðið.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Kári fór og faðmaði vini sína í áhorfendastúkunni eftir sig-
urinn á Englandi á EM 2016. Unnusta hans, Hjördís Perla
Rafnsdóttir, kom svo aðvifandi og kyssti sinn mann.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Kári í leik gegn Nígeríu á HM í Rússlandi 2018.
Morgunblaðið/Eggert
’Ég opnaði aldrei á við-ræður við aðra. Maðurætti örugglega meiri mögu-leika á titlum í Val eða KR
en ég lét hjartað ráða för.
Það er líka tífalt skemmti-
legra að vinna titla með
sínu félagi og það gekk eftir
strax fyrsta sumarið, þegar
við urðum bikarmeistarar.
Það var algjört ævintýri.
Kári gekk til liðs við uppeldisfélag sitt, Víking, 2019.
Morgunblaðið/Eggert