Morgunblaðið - 03.03.2021, Blaðsíða 4
4
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 3. MARS 2021
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Spurningar um jarðfræði og nátt-
úruvá eru hluti af yfirstandandi
verkefni sem snýst um að meta hvort
Hvassahraun á Reykjanesskaga
henti fyrir flugvöll. Veðurstofan
svarar spurningum um jarðfræði og
náttúruvá á svæðinu. Sigurður Ingi
Jóhannsson samgönguráðherra
sagði að ýmsir fleiri þættir verði
einnig metnir. „Veðurmælingar hafa
verið stundaðar frá áramótum við
tvö möstur. Undirbúningur flugpróf-
ana og prufuflugs hefur einnig verið í
gangi. Það hefur verið samið bæði
við Veðurstofu Íslands og Háskólann
í Reykjavík um þetta,“ sagði Sigurð-
ur Ingi. Hann kvaðst telja mikilvægt
að halda þessari vinnu áfram.
Þörf fyrir tvo flugvelli
„Þetta mat er hluti af fyrri hluta
rannsóknarverkefnisins og á að
ljúka ekki seinna en 2023. Gert er
ráð fyrir áfangaskýrslu Veðurstof-
unnar um náttúruvána jafnvel fyrir
lok þessa árs og lokaskýrslu strax á
næsta ári,“ sagði Sigurður Ingi.
Hann sagði að við gætum spurt okk-
ur hvers vegna verið sé að að leita
eftir flugvelli í Hvassahrauni.
„Það er unnið samkvæmt þeirri
staðhæfingu að það þurfi tvo flug-
velli á suðvesturhorninu til að
tryggja flugöryggi. Þess vegna hafa
menn verið að leita að valkosti við
Reykjavíkurflugvöll. Verkefnið mun
svara ákveðnum spurningum,“ sagði
Sigurður Ingi. Hann sagði að at-
burðarásin sem nú stendur yfir á
Reykjanesskaga hafi ef til vill hrist
ryk af einhverjum upplýsingum sem
höfðu rykfallið. Þar á meðal því að
hraun þekja Reykjanesskagann og
að þar og víðar á Íslandi hafi menn
byggt á hraunum. Þar hafi runnið
hraun og það geti gerst aftur. Verði
niðurstaðan sú að áhættan sé of mik-
il í Hvassahrauni þá höfum við
Reykjavíkurflugvöll.
„Það hefur komið fram í yfirlýs-
ingum og meðal annars í samstarfi
við Reykjavíkurborg að Reykjavík-
urflugvöllur verður þar í óbreyttri
mynd þar til annað jafn gott eða
betra flugvallarstæði finnst,“ sagði
Sigurður Ingi.
Isavia segir að við eldgos verði 220
km hring umhverfis eldstöðina strax
lokað fyrir flugumferð. Brjótist út
jarðeldar á Reykjanesskaga verður
því ekki flogið til eða frá Keflavík-
urflugvelli fyrr en Veðurstofa Ís-
lands og samstarfsaðilar hafa gefið
út spá um öskusvæði. Við útgáfu ös-
kuspárinnar er lokunarhringurinn
tekinn af. Eftir það ákveða flugrek-
endur hvort þeir vilja fljúga í gegn-
um öskuspársvæðið.
Sigurður Ingi sagði þetta undir-
strika mikilvægi þess að geta verið
með flugsamgöngur til og frá land-
inu víðar en á Suðvesturhorninu.
Hann benti á að nú séu millilanda-
flugvellir á fjórum stöðum á landinu,
þar af tveir utan suðvesturhornsins.
Sigurður Ingi rifjaði upp að bæði
flugvellirnir á Akureyri og Egils-
stöðum hafi verið notaðir þegar hér
voru eldgos fyrir um áratug.
Meta líkur á náttúruvá
Hvassahraun
skoðað sem flug-
vallarkostur
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hvassahraun Nú er verið að meta hvort svæðið hentar fyrir flugvöll.
Snorri Másson
snorrim@mbl.is
Kjartan Már Kjartansson, bæjar-
stjóri í Reykjanesbæ, sendi bæjarbú-
um bréf í gær þar sem hann ítrekaði
að bæjaryfirvöld væru að fylgjast vel
með framvindunni í jarðskjálftavirkni
við Fagradalsfjall. „Tónninn í þessu
hjá mér er bara: Öndum rólega, við
skulum ekki vera að búa til meira mál
úr þessu en efni og aðstæður gefa til-
efni til samkvæmt því sem sérfræð-
ingar segja,“ sagði Kjartan Már í
samtali við Morgunblaðið í gær. Ljóst
var af bréfi hans að kallað hefði verið
eftir upplýsingum frá yfirvöldum og
almannavörnum, enda hefur komið
fram að möguleiki sé á eldgosi og þar
með gasmengun á svæðinu.
Óánægju hefur gætt í Facebook-
hópum íbúa vegna þess sem einhverj-
ir hafa talið skort á upplýsingum.
„Mér finnst ósköp eðlilegt að fólk hafi
áhyggjur af þessu en það sem við er-
um að segja er að við höfum þær líka,
sem búum líka hér og erum að ves-
enast í þessu alla daga. Okkur er alveg
jafnmikið annt um eigin heilsu og öðr-
um og hér er enginn að fela neitt eða
segja ekki allan sannleikann. Svona er
bara staðan og svo getur hún verið
breytt eftir klukkustund, við vitum
ekkert um það,“ sagði Kjartan. Hann
tók einnig fram að bæjaryfirvöld vissu
ekki meira en fram kemur í fjölmiðl-
um hverju sinni. Í bréfinu, sem Kjart-
an birti í Facebook-hópi Reykjanes-
bæjar, sagði að ef til mögulegrar
gasmengunar kæmi, yrðu viðbrögðin
kynnt rækilega fyrir öllum á svæðinu.
„Kannski væri bara best að fólk færi
hvergi en héldi sig innan dyra heima
með lokaða glugga,“ skrifaði Kjartan.
Ef rýma þyrfti staði myndi þá líklega
gefast til þess góður tími. Eins og
bæjarstjórinn víkur að í bréfi sínu, eru
meiri líkur en minni á að mögulegt gos
verði í flokki lítilla eða meðalstórra
gosa. Hraunflæðið yrði að hans sögn
varla svo mikið að það ylli skemmdum
á innviðum, þó að vissulega sé erfitt
að spá fyrir um það. Jarðfræðingar
hjá Veðurstofunni sögðu við Morgun-
blaðið í gærkvöldi að gert væri ráð
fyrir að kvikuinnskot hefði orðið á
svæðinu, en það þýddi ekki að það
leiddi til goss á endanum. Algengara
er að kvikan storkni áður en til þess
komi.
Björgunaraðgerðir í hrauninu
Tveir jarðvísindamenn frá Veður-
stofunni lentu í ógöngum á jarð-
skjálftasvæðinu í gær þegar þeir fóru
þangað til mælinga á gasi. Blaðamað-
ur og ljósmyndari Morgunblaðsins
höfðu beðið þeirra í von um viðtal um
niðurstöður mælinganna en það
næsta sem þeir vissu var að björg-
unarsveitin hafði verið ræst út til að
leita vísindamannanna. Þeir fundust
að lokum, enda með GPS-tæki. Annar
þeirra var fluttur með þyrlu til
Reykjavíkur.
„Öndum rólega“
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar biðlaði til íbúa að halda ró sinni
Ef til goss kæmi yrðu aðgerðir kynntar rækilega í tæka tíð
Morgunblaðið/Eggert
Við Keili Frá aðgerðum björgunarsveitamanna við Keili í gær, eftir að tveir jarðvísindamenn lentu í ógöngum.
Skjálftahrina á Reykjanesskaga
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Mikil jarðskjálftavirkni er þar sem
mesta þenslan er í jarðskorpunni á
Reykjanesskaga, að sögn Halldórs
Geirssonar, jarðeðlisfræðings og
dósents við Háskóla Íslands. Þar
undir treðst kvika í lóðréttum gangi.
Halldór sat fund vísindaráðs al-
mannavarna í gær. Þá voru tvö jarð-
skjálftasvæði virk en mesta virknin
var á milli Keilis og Fagradalsfjalls.
Einnig var töluverð skjálftavirkni
hjá Trölldadyngju.
„Þessi gangur er í raun að losa um
gamla spennu í jarðskorpunni og
það verður hellingur af jarðskjálft-
um við það. Svo þegar búið er að losa
um spennuna getur kvikan runnið
eitthvað áfram. Það er spurning
hvað verður ef kvikan fer nær yfir-
borðinu,“ sagði Halldór.
Bergið í efsta hluta jarðskorp-
unnar er venjulega svo mikið brotið
að það heldur illa spennu. Þess
vegna getur verið lítil jarðskjálfta-
virkni þótt kvika sé á ferðinni í
grynnsta hluta jarðskorpunnar.
Ný gögn vantar til að gera sér
betur grein fyrir lögun og staðsetn-
ingu gangsins. Nýrrar gervitungla-
myndar sem von er á í dag er því
beðið með eftirvæntingu. Halldór
sagði líkön benda til þess að gang-
urinn geti mögulega verið á 2-5 km
dýpi, þótt töluverð óvissa sé um
neðri mörkin. „Þetta er ekki alveg í
yfirborðinu því þá færum við að sjá
yfirborðssprungur en þær eru ekki
komnar fram,“ sagði Halldór.
Gliðnun hélt áfram í gær milli
Fagradalsfjalls og Keilis og virðist
hún halda áfram á tiltölulega jöfnum
hraða. Hún virðist hafa byrjað á
mjög svipuðum tíma og jarðskjálfta-
virknin, að sögn Halldórs. Gliðnunin
er mæld með GPS-tækjum og gervi-
tunglamyndum.
GPS-tækin skrá og senda upp-
lýsingar um hreyfingar jarðskorp-
unnar þar sem þau eru staðsett.
Uppsetning fleiri GPS-tækja á
svæðinu hefst í dag. Ef kvikugang-
urinn færist til þá er ekki víst að af-
lögunin sem það veldur verði einmitt
þar sem GPS-stöðvarnar eru. Þess
vegna eru ratsjármyndir úr gervi-
tunglum svo mikilvægar en þær og
GPS-gögnin hafa rímað vel saman.
Einnig á að taka drónamyndir af
yfirborðinu til þess athuga hvort
merki sjáist um færslur eða
sprungumyndanir.
Vísindaráðið fundar aftur síðdegis
í dag.
Morgunblaðið/Eggert
Á Reykjanesskaga Gliðnun milli Fagradalsfjalls og Keilis hélt áfram í gær.
Grannt er fylgst
með ganginum
Kvikugangur ef til vill á 2-5 km dýpi