Fréttablaðið - 13.08.2021, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 13.08.2021, Blaðsíða 12
„Ég fæ hvolp í afmælisgjöf! Það er draumagjöfin,“ segir Guðrún Tinna Thorlacius, markþjálfi og hómópati, ávallt kölluð Tinna. Tinna stendur á fimmtugu í dag og fékk einnig hvolp þegar hún varð fertug. „Þá fékk ég Jack, enskan cocker spaniel, sem er ömmubróðir hvolpsins sem fæddist í síðustu viku hjá Leirdalsræktun. Þetta eru yndislegir fjölskylduhundar og miklir félagar manns. Við finnum að Jack er farinn að eldast svo það er gott að hann geti hjálpað okkur við uppeldið á ungviðinu. Með því tryggjum við að hvolpurinn alist upp við sömu venjur og reglur sem við settum Jack,“ segir Tinna. Ól barn á brúðkaupsafmælinu Tinna er uppalin á Seltjarnar­ nesinu en lítur þó fyrst og fremst á sig sem Akureyring. Þar bjó hún frá unglingsaldri og þar býr stórfjöl­ skyldan enn, en nú er hún aftur komin á Nesið með eiginmann, þrjú börn, hund og kött. „Maðurinn minn, Paul Allen, er Breti og flugstjóri hjá Atlanta. Sonur okkar Oliver fæddist fyrst, orðinn 22 ára, svo fæddist Emma sem verður 16 ára nú í ágúst og Lilja er yngst, 11 ára. Emma fæddist á brúðkaupsafmælinu okkar árið 2005, tæpum mánuði fyrir tímann. Það var óvænt og skemmtileg gjöf. Paul var nýfarinn í Ameríkuflug þegar ég fór út til að hafa ofan af fyrir Oliver og hugsaði með mér hvort ég væri búin að pissa í bux­ urnar. Þá hafði ég misst vatnið og hluta þess tveimur dögum áður í hláturskasti yfir símtölum vin­ kvenna sem voru á skralli heima á Íslandi,“ segir Tinna, sællar minn­ ingar. Fimmtíu afmælismarkmið Í tilefni fimmtugasta afmælis­ ársins setti Tinna sér fimmtíu markmið og mörg sem fela í sér töluna 50. „Ég er afskaplega markmiða­ sækin og fæ mikið út úr því að skora sjálfa mig á hólm og prófa nýja hluti. Ég held auðvitað bók­ hald yfir afmælismarkmiðin og tikka við þegar þau nást, eins og í fyrradag þegar ég gekk í fyrsta sinn á Úlfarsfell. Markmiðin tengjast heilsu og útiveru, nýjum upplif­ unum og reynslu. Þannig keypti ég kajak í sumar og gaf manninum mínum í afmælisgjöf, því mér fannst spennandi að fara á kajak­ námskeið og hef nú þegar tékkað við það. Þá hef ég einsett mér að ganga 50 kílómetra með Jack í hverjum mánuði, synda Fossvogs­ og Sæunnarsundið, fara til Ítalíu á árinu, standa á höndum, ég tók sumarfrí frá sjónvarpi og Netflix allan júlí og fleira og fleira,“ segir Tinna kát og kappsfull. Tinna á sér marga hatta og það kveikir í henni að upplifa nýja hluti, ekki síst óþægilega. Hún hefur þá trú að ástæða sé fyrir öllu og að allt hafi tilgang. FRÉTTABLAÐIÐ/ VALLI Þórdís Lilja Gunnarsdóttir thordisg @frettabladid.is Eitt markmiða afmælisársins var að prófa að búa í bæjarfélagi á landsbyggðinni í heilan mánuð. „Því fluttum við fjölskyldan til Seyðisfjarðar í sumar, þar sem ég reddaði mér aukavinnu og fékk húsnæði á móti. Mér fannst nauð­ synlegt að stunda vinnu til að kynnast bæjarbúum og hvunn­ dagslífinu eystra, elda fiskbollur á nýjum stað og vera með í samfélag­ inu. Okkur fannst öllum æðislegt á Seyðisfirði og ekki spillti góða veðrið fyrir,“ segir Tinna og ætlar aftur að ári. „Yfirmarkmið fimmtugasta ársins er að upplifa og rannsaka lífið utan þægindarammans sem ég hef búið til í daglegu lífi. Að horfa í kringum mig í stað þess að vera með blöðkur fyrir augum og föst í rútínu við að gera bara það sem maður kann og veit og er alltaf að gera. Ég veit að það er eitthvað meira og mig langar að sjá hvað ég get gert annað í lífinu. Það kveikir í mér að framkvæma og upplifa nýja hluti og ekki síst þetta óþægi­ lega; eins og á Seyðisfirði, að vera í öðru húsi þar sem ég er ekki með kaffibollann minn og kaffivélina í vanabundna þægindarammanum mínum. Það er virkilega frískandi að stíga út úr þeim ramma og storka daglega lífinu. Svo þegar við dettum aftur inn í rammann sem við þekkjum svo vel, þá nærir hann okkur betur og okkur hættir að finnast hann sjálfsagður.“ Synti sjósund 100 daga í röð Þúsundþjalasmiðurinn Tinna er líka sjósundskennari og heldur úti vinsælum námskeiðum í sjó­ böðum. Eitt markmiðanna var að synda sjósund fimmtíu daga í röð. „Ég er búin að ná því. Við Maja, æskuvinkona mín, byrjuðum að synda 2. apríl og fórum í öllum veðrum, en vorum þá ekki búnar að fá nóg og syntum aðra fimmtíu daga í röð en hundraðasta daginn synti ég í sjónum á Seyðisfirði,“ segir Tinna, sem fer oftast í sjóinn við Gróttu og í Nauthólsvík. „Stundum dýfi ég mér í öldu­ gang og læt mig bara dúa með, aðra daga syndi ég úr Nauthólsvík út á flugbrautarenda og til baka, allt frá 700 metrum upp í tvo kílómetra á sumrin.“ Lærði hómópatíu eftir draum Tinna er með sjötta skilningarvitið opið, en segist þó ekki sjá fram­ liðna. „Ég er næm og með sterkt inn­ sæi, fæ iðulega fyrirboða og skynja vel líðan og tilfinningar,“ útskýrir hún. „Mín fyrsta sterka minning um slíkt tengist því sem ég fæst við í lífinu í dag. Ég er nefnilega hómó­ pati vegna þess að mig dreymdi það og var eins og vakin. Það var í fyrsta sinn sem ég hlustaði á það sem kom til mín í draumi, en þá vissi ég nákvæmlega ekkert um hómópatíu.“ Tinna segir sérkennilegt að taka ákvörðun um að fara í nám byggða á draumi, en hún fór strax að kynna sér nám um hómópatíu og komst að raun um mjög góðan skóla í næsta bæjarfélagi þar sem hún bjó á Bretlandi. „Ég dreif mig í heimsókn og áður en ég vissi af var ég búin að skrá mig í nám. Ég varð yfir mig hissa á því að þessi fræði væru til. Þau töluðu beint inn í hjarta mitt, um hvernig ég vildi hugsa um líf mitt, heilsu og fjölskyldu,“ segir Tinna, sem er menntaður þroskaþjálfi en lauk B.Sc­námi í hómópatíu við Purton House/The University of West London árið 2010. Hún segir Íslendinga opna fyrir hómópatíu, ekki síst eftir að heimsfaraldurinn skall á. „Almenningur hugsar nú meira um hvað hægt er að gera til af efla heilsuna og ýmislegt er að opnast í sambandi við náttúrulækningar og óhefðbundnar aðferðir. Hómó­ patía er ekki töfralausn. Hún er hönnuð á þann hátt að gefa gott tækifæri til að vinna að forvörnum og kenna fólki að hugsa betur um eigin heilsu. Svo notum við remedíur til að styðja við líkama og líðan, sem er frábær valkostur samhliða vestrænum lækningum.“ Í dálæti hjá Tinnu eru remedíur unnar úr fuglum. „Mér þykja fuglaremedíur heillandi því fuglar eru spenn­ andi dýr og táknmynd þeirra talar til mín. Ein af þeim er remedían Cygnus Cygnus, búin til úr fjöður og blóði svans sem var fangaður. Þessi tiltekni svanur hafði misst maka sinn, en í fjöður hans og blóði eru leifar af líkamlegri og tilfinningalegri orku fuglsins. Remedían er því til dæmis talin vinna vel með sorg og veitir frelsi frá sorginni, en kjarnaþema í fuglaremedíum er frelsi, hvort sem það er gagnvart veikindum, hugarfari eða hvers kyns þján­ ingu. Þær mæta þörf fyrir aukið frelsi þegar fólk upplifir að það sé fangið, hvað sem það er sem bindur það niður.“ Spil segja ekki alltaf satt Tinna er mikill tarotspekúlant og heldur úti vinsælum námskeiðum í lestri tarotspila. „Ég er lítið í því að spá fyrir um ástir og ævintýri, en sem mark­ þjálfi vil ég hjálpa fólki að setja sér markmið og rannsaka líf sitt, hvar það er statt og hvað það vill upplifa og gera. Ég kenni fólki að hlusta betur á sjálft sig og hvað það getur gert með hjálp tarotspila og talna­ speki,“ greinir Tinna frá. Spurð hvort spilin segi satt, svarar Tinna: „Nei, það er ekki alltaf þann­ ig. Spilin endurspegla á hvaða stað þú ert nú. Ertu í sannleika og heiðarlegur við sjálfan þig og sérðu hlutina í réttu ljósi? Spilin geta gefið okkur vísbendingar um þetta og einnig tækifæri til að rannsaka hvað býr að baki þess sem við teljum okkur trú um. Ég hef þá trú að það sé ástæða fyrir öllu og að allt hafi tilgang; líka hvaða spil við drögum. Það er mín lífssýn, það er hluti þess að lifa í f læði lífsins og treysta því að svona á þetta að vera. Ég vil lifa í meðvitund og í samtali við alheiminn.“ Spágáfuna erfði Tinna trúlega frá langalangömmu sinni, Ástrós Sumarliðadóttur, sem bjó á Vestur­ götu 40 og var þekkt í hverfinu fyrir að taka fólk í spjall með spil og bolla. „Ég er líka í nornahóp sem hittist árvisst í janúar og gerir spá fyrir árið, en við hittumst líka á norna­ kvöldum og grúskum í alls konar. Allt er það leikur og hluti af því að rannsaka lífið og tilveruna. Við erum góðar nornir.“ Pikknikk í skottinu Á stórafmælinu stendur Tinna á tímamótum. „Það er óneitanlega fullorðins að verða fimmtug þótt mér líði enn eins og stelpu,“ segir Tinna og þótt hún viti lengra en nefið nær er enginn beygur í henni að eiga afmæli á föstudaginn þrettánda, sem oft fylgir hjátrú um óhöpp. „Nei, mér finnst alltaf jafn spennandi þegar afmælisdaginn ber upp á föstudaginn þrettánda. Ég fæddist föstudaginn 13. ágúst 1971 og þrettán er uppáhalds­ talan mín. Í tarotspilum er 13 tala dauðans. Hún gefur skýra vísbendingu um umbreytingu og þroska; maður kveður eitthvað en heilsar líka nýju og það tek ég til mín á afmælisdaginn. Í vestrænum heimi er dauðinn túlkaður á annan veg. Hann er erfiður því hann er afgerandi en í dauðanum felst líka nýtt ástand og ný orka, og þar geta verið tækifæri.“ Fimmtugasti afmælisdagurinn verður viðburðaríkur. „Ég byrja daginn á að fara í afmælisræktina með Siggu æsku­ vinkonu minni, því ég æfi kraft­ lyftingar og ætla að taka 50 kíló í bekkpressu. Svo fer ég í sjóinn og snæði því næst hádegismat með fólkinu mínu. Seinni partinn ætla ég í Sky Lagoon og svo út að borða með fjölskyldunni. Í næstu viku býð ég svo vinkonum á útihátíð og í fargufu úti á Nesi, fer með þeim í sjóinn og verð með æðis­ legt pikknikk í skottinu. Ég fæ líka shaman til að vera með hugleiðslu og náttúrugaldur til að setja okkur ásetning. Næsta hálfa öldin verður svo áfram í flæði þar sem ég verð opin fyrir því hvert lífið ætlar með mig og ég hlakka geggjað til fram­ haldsins.“ ■ Ég vil lifa í meðvitund og í sam- tali við alheiminn. Tinna Thorlacius 2 kynningarblað A L LT 13. ágúst 2021 FÖSTUDAGUR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.