Fréttablaðið


Fréttablaðið - 13.08.2021, Qupperneq 14

Fréttablaðið - 13.08.2021, Qupperneq 14
Oddur Freyr Þorsteinsson oddurfreyr@ frettabladid.is Útgefandi: Torg ehf Veffang: frettabladid.isÁbyrgðarmaður: Björn Víglundsson Sölumaður auglýsinga: Jón Ívar Vilhelmsson, jonivar@frettabladid.is, s. 550 5654, Langhlauparinn Hlynur Andrésson setti Íslandsmet í maraþoni í vor þegar hann keppti í maraþonhlaupi í fyrsta sinn á ferlinum, en markmið Hlyns var að ná lágmarkinu fyrir Ólympíu- leikana. Það tókst ekki í þetta sinn, en hann reynir aftur árið 2023. Vestmannaeyingurinn Hlynur Andrésson setti Íslandsmet í maraþonhlaupi í vor, en hann hefur alls náð tíu Íslandsmetum í langhlaupum. Honum tókst ekki að komast á Ólympíuleikana en ætlar að reyna aftur á þarnæsta ári og í millitíðinni keppir hann á Evrópu- meistaramótinu í Þýskalandi á næsta ári. Hann segir mikilvægt að geta einbeitt sér að hlaupum til að ná árangri í íþróttinni. Hlynur segir að það sé ekkert leyndarmál að baki velgengni hans, bara mikil og stöðug erfiðisvinna. „Og kannski líka einhverjir hæfi- leikar,“ segir hann og hlær. „En ég hef lagt hart að mér síðan árið 2012, svo ég er búinn að leggja mikla vinnu og tíma í þetta.“ Hlynur setti nýtt Íslandsmet í maraþonhlaupi í þýsku borginni Dresden í mars þegar hann kláraði hlaupið á 2 klukkustundum, 13 mínútum og 37 sekúndum, en hann lenti í fimmta sæti. Hlynur bætti gamla Íslandsmetið um rúmlega þrjár og hálfa mínútu, en náði samt ekki Ólympíulágmarkinu eins og til stóð, en það var 2 klukkustundir, 11 mínútur og 30 sekúndur. Það kom Hlyni ekki á óvart að ná nýju Íslandsmeti „Án þess að vilja hljóma hrokafull- ur, þá bjóst ég við því, vegna þess að ég hafði hlaupið hálft maraþon á 1 klukkustund og 2 mínútum, sem er töluvert hraðara en aðrir Íslend- ingar. Ég ætlaði náttúrlega líka að ná Ólympíulágmarkinu, sem er töluvert hærra en Íslandsmetið,“ segir hann. „Þannig að ég bjóst við því að slá metið, en var ekki viss hvort lágmarkið myndi nást og ég var aðeins frá því.“ Svekkjandi að ná ekki lágmarkinu Hlynur tók þátt í maraþoninu í Dresden sérstaklega til þess að komast á Ólympíuleikana í Tókýó og var að vonum svekktur að það hefði ekki tekist, enda er hann viss um að það hefði náðst ef hlutirnir hefðu farið betur. „Þetta var smá klúður. Ég ætlaði fyrst að hlaupa í Bern í Sviss en vegna slæmra veðuraðstæðna var því frestað. En í maraþoni ertu með smá tímabil rétt fyrir hlaup þar sem þú æfir minna til að fríska þig upp og til að ég gæti hlaupið eins hratt og ég get þurfti ég taka þátt í hlaupi vikuna eftir, í Dresden, en því miður voru veðuraðstæður ekki nógu góðar þar,“ segir Hlynur. „Ég er nokkuð viss um að það hefði gengið betur ef veðrið hefði verið betra. Ef þú ert að hlaupa á móti vindi fer hjartslátturinn upp og þá þarftu að hægja á þér, eins og gerðist.“ Auðveldara að komast á ÓL í maraþoni Hlynur hefur aðallega keppt í 5 og 10 km hlaupi og þetta var hans fyrsta maraþon á ferlinum. Hann segir að maraþonhlaup séu nokkuð ólík öðrum hlaupum. „Þetta er svolítið öðruvísi. Í mara- þoni ertu ekki að hlaupa á nógu miklum hraða til að springa ekki og þetta snýst um að halda nægri orku í líkamanum til að endast alla leiðina,“ segir hann. „Þannig að þú ert að taka inn kolvetnadrykki á leiðinni til að eiga næga orku.“ Ástæðan fyrir því að Hlynur reyndi að ná Ólympíulágmarkinu í grein sem hann hafði ekki keppt í áður er einföld. „Það komast fleiri að í maraþoni en á brautinni. Það eru bara sirka 30 manns sem komast í 5 og 10 km hlaupin en hingað til hafa um 150 komist að í maraþoninu, en í ár var það reyndar skorið niður í 80, því Ólympíuleikarnir eiga bara að vera fyrir þá bestu af þeim bestu,“ segir Hlynur. „Tíminn minn hefði því verið nógu góður fyrir alla Ólympíuleika til þessa.“ Þrjú markmið eftir Hlynur ætlar nú að reyna við lág- markið fyrir næstu leika eftir eitt og hálft ár. „Það er markmiðið. Það eru miklu meiri líkur á að ég nái þessu núna því ég hef fleiri sénsa, en fyrir leikana í ár hafði ég bara eitt tækifæri,“ segir Hlynur, sem stefnir ekki á að keppa í maraþoni fyrr en á þarnæsta ári. „Á næsta ári er Evrópumeistaramótið í frjálsum íþróttum í München og ég ætla að keppa í 5 og 10 km hlaupi. Svo árið 2023 reyni ég aftur við maraþonið til að koma mér á leikana í París.“ Hlynur segist hafa þrjú mark- mið sem hann langar enn að ná á hlaupaferlinum. „Mig langar að hlaupa 10 km á undir 28 mínútum, hlaupa mara- þon á undir 2 klukkustundum og 10 mínútum og keppa á Ólympíu- leikunum. Og mig langar ekki bara til að mæta á Ólympíuleikana til að vera með, ég vil vera í topp 15 eða 20,“ segir hann. Flytur aftur heim Hlynur býr í hollensku borginni Leiden og var að vinna þar en hefur minnkað við sig til að geta einbeitt sér að hlaupum. „Í sumar hef ég bara verið að æfa og keppa. Það er svo mikil fag- mennska í þessari íþrótt að það er ekki hægt að ná árangri ef þú ert ekki íþróttamaður í fullu starfi,“ segir hann. „Þegar ég var að undir- búa mig fyrir maraþonið var ég til dæmis að vinna 30-40 tíma í viku, sem var of mikið. En núna get ég einbeitt mér 100%.“ Næsta skref hjá Hlyni er svo að flytja heim til Íslands. „Ég átti kærustu hér úti en við erum hætt saman og mig langar að fara til Íslands til að vera með fjölskyldunni, ég held að ég verði ánægðari þar,“ segir hann. „Ég er búinn að búa úti í 10 ár síðan ég var 17 ára, fyrst í Bandaríkjunum og svo í Hollandi, og núna langar mig bara að fara heim.“ n Íslandsmetið í maraþoni var það tíunda Hlynur Andrésson er einn fremsti hlaupari Íslands og hefur sett tíu Íslandsmet í langhlaupum. Hlynur var svekktur yfir því að tryggja sér ekki þátttöku- rétt á Ólympíu- leikunum þegar hann tók þátt í maraþoninu í Dresden í vor en hann náði samt frábærum árangri í sínu fyrsta maraþon- hlaupi. MYND/AÐSEND 2 kynningarblað 13. ágúst 2021 FÖSTUDAGURMAR AÞON

x

Fréttablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.