Morgunblaðið - 08.04.2021, Page 22
22 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 8. APRÍL 2021
Ágúst Ingi Jónsson
Sigurður Bogi Sævarsson
Eldgosið í grennd við Fagradalsfjall
er í landi Hrauns við Grindavík, en
mikla sögu er að finna á þessum slóð-
um. Á árum síðari heimsstyrjald-
arinnar fórust nokkrar flugvélar
bandamanna í fjöllum Reykjanes-
skagans, ekki langt frá þar sem nú
gýs. Við ströndina hafa orðið mörg
sorgleg sjóslys, en mikil björgunar-
afrek líka verið unnin. Þá má nefna að
Magnús Hafliðason, útvegsbóndi á
Hrauni, fann þar bjarghring úr
danska Grænlandsfarinu Hans Hed-
toft í október 1959, rúmum átta mán-
uðum eftir að skipið fórst með allri
áhöfn undan Hvarfi, suðurodda
Grænlands.
Varð frægur á einum degi
Mynd Ólafs K. Magnússonar ljós-
myndara af Magnúsi bónda með
bjarghringinn var á forsíðu Morg-
unblaðsins 9. október 1959 og önnur
mynd á baksíðunni ásamt frétt Elínar
Pálmadóttur blaðamanns um fund-
inn. Hringurinn er hið eina úr skipinu
sem hefur fundist svo óyggjandi sé og
vakti fréttin mikla athygli, bæði hér
heima en einkum þó í Danmörku. Þar
birtist myndin á forsíðum helstu
blaða, svo sem yfir þvera forsíðu
Berlingske Tidende.
Aðrir fjölmiðlar, víða um lönd
fylgdu í kjölfarið og Magnús „varð
frægur á öllum Norðurlöndum á ein-
um degi,“ eins og sagði í Morgun-
blaðinu nokkrum árum síðar. Bjarg-
hringurinn er varðveittur í kirkjunni í
Qaqortoq eða Julianehåb, en þar var
síðasti viðkomustaður skipsins.
Glampaði á eitthvað hvítt
Í frétt Morgunblaðsins segir svo
meðal annars: „Er Magnús Hafliða-
son bóndi á Hrauni, sem er austasti
bær í Þórkötlustaðahverfi í Grinda-
vík, kom út á miðvikudagsmorgun og
niður á tún, sá hann hvar glampaði á
eitthvað hvítt úti í fjörunni. Um nótt-
ina hafði verið mikið rok á suðaustan
og brim, en um morguninn var komið
logn. Gekk hann út með fjörunni og
fann óskemmdan bjarghring uppi í
malarkambinum. Tók hann hringinn
heim með sér og um kvöldið hafði
hann orð á því við Árna Eiríksson,
bílstjóra á áætlunarbíl Grindvíkinga,
að hann hefði fundið hring merktan
Köbenhavn. Árni athugaði hringinn
nánar og sá að hann var af Hans Hed-
toft.
Er hann kom til Reykjavíkur í gær
gerði hann Henry Hálfdánarsyni,
framkvæmdastjóra Slysavarna-
félagsins, aðvart. Hringdi Henry til
Magnúsar bónda og bað hann um að
halda á hringnum með sér er hann
kæmi næst í bæinn.“
Konunglega grænlenska versl-
unarfélagið hafði látið smíða Hans
Hedtoft og var skipið í jómfrúarferð
sinni. Um borð í Hans Hedtoft voru
95 manns; 55 farþegar auk áhafnar,
fiskafurðir og póstur. Einnig mikið af
skjölum úr grænlenska þjóðskjala-
safninu, gögn og heimildir um sögu
lands og þjóðar.
Ljót aðkoma
Magnús Hafliðason var fæddur á
Hrauni 21. nóvember 1891 og lést 17.
desember 1983, 92 ára að aldri. Sjó-
inn sótti hann allt fram á efri ár, en
Magnús var meðal annars þekktur
fyrir sjómennsku og björgunarstörf.
Magnús var vel kunnugur svæðinu í
nágrenni við Hraun. Í Morgunblað-
inu í desember 1963 er að finna sam-
tal Matthíasar Johannessen ritstjóra
og Magnúsar sem þeir áttu er þeir
fóru saman til rjúpna. Fyrirsögn
greinarinnar er: „Í stríði á Fagra-
dalsfjalli“ og þar segir meðal annars:
„Ég var hættur að spyrja um rjúp-
una, hún skipti ekki lengur máli.
„Þessi fjöll eru banaþúfa margra
vaskra drengja,“ sagði hann þegar
upp var komið.
„Nú hvers vegna?“ spurði ég.
„Í vesturslakka Kastsins fórst flug-
vél Andrews, yfirhershöfðingja
Bandaríkjanna í Evrópu, í stríðinu.
Ég kom ekki að flakinu fyrr en
nokkru síðar.
Í norðausturhorni Fagradalsfjalls,
þar sem heitir Langhóll, fórst enskur
flugbátur í stríðinu. Þangað hef ég
síðar komið og skotið rjúpur í flakinu.
Ekki hef ég orðið var við annað kvikt
á þessum slysastöðum.
Og hérna suðuraf heitir Langi-
hryggur og gengur út úr Borgarfjalli,
þar fórst enn ein flugvélin í stríðinu.
Ég var með þeim fyrstu sem komu á
staðinn. Það var ljót aðkoma. Það var
eins og fjöllin hefðu gengið í lið með
Þjóðverjunum og líkast því að þau
hafi gert gyllingar til að ná sem flest-
um flugvélum bandamanna. En nú er
farið að fyrnast yfir þessa atburði.“
Katlar á hverju strái
Fleiri örnefni bar á góma í samtali
þeirra Magnúsar og Matthíasar;
Borgarhraun, Húsafell, Fiskidals-
fjall, Tryppalágar, Þorbjörn, Fagra-
dalsfjall og eldsumbrot fyrri tíma
voru ekki langt undan:
„Leiðin yfir hraunið er sæmilega
greiðfær — og þó.
Magnús stanzar, litast um og segir:
„Þetta er nú heldur tuðrótt leið, hér
hafa goðin einhvern tíma reiðzt.“
Pikkaði svo með prikinu í grænan
mosann og leitaði að sprungu. „Þær
liggja allar frá útsuðri í landnorður,“
sagði hann, „það eru meiri katlarnir,
sem hér eru á hverju strái. Allt hefur
þetta land logað á sinni tíð.
Sagnir eru meira að segja til um
eldsumbrot á þessum slóðum eftir
landnámsöld. Þegar snjór liggur yfir
hrauninu, er víðast hvar autt yfir hol-
unum af trekki og hlýju sem kemur
neðan frá. Undir Reykjanesinu er
ekkert nema holrúm og eldur, og þar
hafa kyndararnir líklega nóg að gera.
Þið ættuð að sjá eldgígina við Tófu-
brunna og Latshóla, ef þar er ekki
eitthvað óhreint undir veit ég ekki
hvar það ætti að vera. Og ég hef oft
séð hvernig húðar yfir holurnar hér í
hrauninu af þunnum vatnsklaka. Fyr-
ir norðan Þorbjörn rýkur úr jörð, þar
eru hverir. Hér rýkur þó ekki. Bezt
gæti ég trúað því, að Surtur kæmi
ekki að sunnan, heldur héðan að ofan.
Hann hefur bara haft sig upp þarna
suður frá í þetta sinn,“ segir m.a. í
samtali Magnúsar og Matthíasar.
„Banaþúfa margra vaskra drengja“
- Mikil saga í landi Hrauns við Grindavík - Flugvél Andrews yfirhershöfðingja fórst í Kastinu
- Björgunarhringur af Hans Hedtoft - Eldsumbrot og „þar hafa kyndararnir líklega nóg að gera“
Morgunblaðið/Ól. K. M.
Það eina sem fannst Magnús Hafliðason með bjarghringinn af Hans Hedtoft, sem rak á Hrauni 7. október 1959.
Rúmum átta mánuðum áður sigldi skipið á ísjaka í jómfrúarferðinni og sökk undan Hvarfi, 95 manns fórust.
Húsafell
GRINDAVÍK
Þorbjörn
Fiskidalsfjall
Fagradalsfjall
Eldgos í Geldingadölum
og ofan Meradala
Langhóll
Borgarfjall
Langihryggur
Hraun
Kastið
Latshólar
Tófubruni
Þórkötlu-
staðahverfi
Fagradalsfjall og nágrenni
Keilir
Borgarhraun
Ljósmynd/Svavar Hjaltested
Á slysstað Bandaríska sprengjuflugvélin „Hot Stuff“ fórst 3. maí 1943 á
Kasti við Fagradalsfjalli. 14 menn fórust, en stélskytta vélarinnar komst ein
lífs af. Meðal þeirra sem týndu lífi var hershöfðinginn Frank M. Andrews,
sem á þeim tíma var yfirmaður alls herafla Bandaríkjanna í Evrópu.
Tónlist
fyrir sálina
Matur
fyrir líkamann
Aðalstræti 2 | s. 558 0000
Kíktu til okkar
í góðan mat og
notalegt andrúmsloft
Borðapantanir á
www.matarkjallarinn.is