Morgunblaðið - 08.04.2021, Page 28
28 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 8. APRÍL 2021
Ágúst Ásgeirsson
agas@mbl.is
Grænlenski vinstriflokkurinn Inuit
Ataqatigiit (IA) fór með sigur af
hólmi í þingkosningunum á Græn-
landi, hlaut 36,6% atkvæða, en kosið
var í fyrradag, þriðjudag. Umhverf-
ismál voru helstu kosningamál hans,
þar á meðal var IA andvígur um-
deildri og umfangsmikilli náma-
vinnslu syðst í landinu þar sem verð-
mæt sjaldgæf jarðefni er að finna.
Var IA vel á undan Sioumut í talning-
unni, krataflokki sem verið hefur ráð-
andi og ríkjandi í grænlenskum
stjórnmálum allar götur frá því
Grænlendingar fengu heimastjórn
frá Dönum árið 1979.
Kosningarnar voru í raun þjóðar-
atkvæði um námavinnsluverkefnið í
Kuannersuit-jarðlögunum sem sagt
var að myndi leiða til fjölbreyttara at-
hafnalífs í landinu og dreifðari tekju-
stofna. Talsmenn vinnslunnar báru
fyrir sig nauðsyn verkefnisins er
landsmenn byggju sig undir breytta
tíma samfara hlýnun andrúmslofts-
ins. Skipti sköpum að treysta undir-
stöður ríkissjóðsins í Nuuk ef Græn-
lendingar ætluðu að öðlast fullt
sjálfstæði frá Dönum.
IA var í stjórnarandstöðu á nýliðnu
kjörtímabili en atkvæðatölur benda
til að flokkurinn fái 12 þingmenn af 31
á heimaþinginu (Inatsisartut). Eru
það helmingi fleiri sæti en á fráfar-
andi þingi er þeir voru átta. En án
hreins meirihluta þykir líklegast að
IA taki höndum saman við minni
flokka um myndun samsteypu-
stjórnar.
„Þjóðin hefur sagt sitt,“ sagði hinn
34 ára gamli leiðtogi IA, Mute Egede,
á fésbókarsíðu snemma í gærmorg-
un. „Traustið sem þið berið til okkar
skyldar okkur til að sýna mikla
ábyrgð og munum við gera allt til að
standa undir henni,“ bætti hann við.
Egede hafði verið liðsmaður græn-
flokksins Inatsisartut frá 2015 og tók
við forystu hans fyrir röskum tveim-
ur árum. „Kannski er ég ungur, en
það er líka styrkur minn,“ sagði hann
við grænlenska útvarpið KNR í gær.
Þetta er í aðeins annað sinn sem
flokkur hans hefur betur en Siumut í
kosningum. Fyrra skiptið var árið
2009.
Egede sagði útvarpinu að þegar í
stað myndi hann hefja viðræður við
flokkana og kanna „mismunandi sam-
starfsform“ áður en gengið yrði til
formlegra stjórnarmyndunar-
viðræðna.
Siumut fór fyrir stjórninni sem nú
varð undir en flokkurinn hefur að
hluta til skaðast af innanflokkserjum
og átökum undanfarin ár. Hann fékk
29,4% atkvæða og 10 menn kjörna.
Var það engu að síður stærri skerfur
(2%) en í síðustu kosningum, árið
2018. Á kjörskrá nú voru 41.000
manns og greiddu 27.000 atkvæði,
eða 65,8%.
Það sem skildi stóru flokkana tvo
fyrst og fremst af var hvort heimila
bæri umdeilda risavinnslu fágætra
jarðefna og úrans í hinu 56.000
manna landi. Eru áform þau í um-
hverfismati sem stendur. Talið er að
Kuannersuit-jarðlögin geymi einhver
efnismestu steinefnalög sem vitað
hefur verið um á jörðinni. Fágætu
jarðlögin geyma 17 málma sem brúk-
aðir eru í allt frá snjallsímum til raf-
bíla og vopna. Hefur IA krafist þess
að úranvinnslan verði stöðvuð með
lögum en slíkt mundi í raun binda
enda á verkefnið.
Umhverfið framar hagkerfinu
„Skilaboð kjósenda voru skýr; þeir
vilja ekki fórna umhverfinu í þágu
hagkerfisins,“ sagði Mikaa Mered,
prófessor í fræðigrein sem snýst um
samspil stjórnmálafræði og landa-
fræði við Sciences Po-háskólann í
París.
IA hefur að auki heitið því að skrifa
undir Parísarsamkomulagið frá 2015
en Grænland er eitt örfárra landa
sem ekki hafa staðfest það.
Skoðanakönnun sem birt var í
blaðinu Sermitsiaq annan í páskum
sýndi að 63% þjóðarinnar eru andvíg
námavinnslunni fyrirhuguðu en að-
eins 29% sögðust vera andvíg náma-
greftri yfirhöfuð. Hefur vinnslan ver-
ið hitamál. „Ég kýs flokk sem lýsir
andstöðu við úraníum,“ sagði hinn
fertugi Henrik Jensen við AFP er
hann kom út úr kjörklefanum í Nuuk.
„Heilbrigðismálin eru mikilvæg-
ust. Það er vitað mál að námaverk-
efnin munu hafa áhrif í umhverfinu,“
sagði Egede sl. mánudagskvöld, í síð-
ustu kappræðum flokkanna vegna
kosninganna í sjónvarpinu.
Ágreiningur um Kuannersuit-
vinnsluna leiddi til skyndikosninga á
Grænlandi eftir að einn af smærri
samstarfsflokkunum yfirgaf sam-
steypustjórn Siumut.
Flokksformaður Siumut, Erik Jen-
sen, segir að náman skipti „gríðar-
lega miklu máli fyrir efnahagslíf
Grænlands og með henni myndu
tekjustofnar ríkisins verða fjölbreytt-
ari. Það væri lykilatriði ætluðu Græn-
lendingar að heimta fullt sjálfstæði af
Dönum.
Andstæðingar vinnslunnar í Kuan-
nersuit segja að hún feli í sér of
margar umhverfislegar hættur, muni
meðal annars skilja eftir sig geisla-
virkan úrgang. Að námuvinnslunni á
Grænlandi stendur ástralska málm-
leitarfélagið Greenland Minerals sem
er í eigu Kínverja.
Frá 2009 hafa Grænlendingar farið
alfarið sjálfir með yfirráð yfir auð-
lindum sínum. Þurfa þeir engu að síð-
ur að treysta á um 526 milljóna fjár-
hagsaðstoð frá Kaupmannahöfn á ári
til að fjármagna sem svarar þriðjungi
útgjalda ríkissjóðs. Danir eru ekki
andvígir sjálfstæði Grænlendinga en í
þeirra höndum eru áfram utanríkis-
og varnarmál landsins víðfeðma. Því
leitar heimastjórnin í Nuuk leiða til
að finna fjölbreyttari tekjustofna svo
sem með auknum sjálfbærum fisk-
veiðum, ferðaþjónustu og landbúnaði.
Hefðbundnar fiskveiðar skila um 90%
útflutningstekna Grænlands. Hern-
aðarlega mikilvæg lega landsins og
víðtækar og miklar auðlindir í jörðu
hafa vakið alþjóðlega athygli.
Í snjókomunni í Nuuk í fyrradag
myndaðist biðröð við kjörstað. Deilt
var út andlitsgrímum í sóttvarna-
skyni en kórónuveiran hefur lítillega
stungið sér niður á Grænlandi. Þeir
hafa sloppið við manntjón af hennar
völdum en staðfest hefur verið sýking
í 31 manni. En það er ekki bara
námavinnsla sem var undir í kosning-
unum. Yngra fólk hefur ræktað ræt-
ur sínar í auknum mæli og snúið um-
ræðunni um arfinn af nýlendustefnu
Dana, félagsmál og menningar-
einkenni.
Tekist á um fágæt jarðefni
- Talið er að Kuannersuit-jarðlögin geymi einhver efnismestu steinefnalög sem vitað hefur
verið um á jörðinni - Fágætu jarðefnin eru notuð í allt frá snjallsímum til rafbíla og vopna
AFP
Sigri fagnað Stuðningsmenn Inuit Ataqatigiit fagna fyrstu kosningatölum.
AFP
Talning Atkvæði talin í höfuðstaðnum Nuuk. Kjörsókn var tæplega 66%.
X SKECHERS
Uno - Loving love
Verð: 14.995.-
Stærðir: 36 - 41 / 2 Litir
Uno - Spread the love
Verð: 14.995.-
Stærðir: 36 - 41
Poppy - Dripping love
Verð: 7.995.-
Stærðir: 36 - 41
Bobs - Down with love
Verð: 14.995.-
Stærðir: 36 - 41 / 2 Litir
SMÁRALIND - KRINGLAN - SKÓR.IS
SKECHERS
Ráðamenn í Brussel kunnu ekki að
meta diplómatíska lítilsvirðingu í
garð Ursulu von der Leyen, forseta
framkvæmdastjórnar Evrópusam-
bandsins, er hún hugðist setjast nið-
ur til viðræðna við Erdogan Tyrk-
landsforseta í Ankara.
Erdogan bauð von der Leyen ekki
til sætis í forsetahöllinni, aðeins
voru þar stólar fyrir hann og Char-
les Michel, formann ráðherraráðs
ESB. Von der Leyen ræskti sig til
að gera vart við sig og myndskeið
frá móttökunni sýndi að hún var
slegin út af laginu. Á endanum sett-
ist hún í sófa lengra frá fyrirmenn-
unum og gegnt tyrkneska utanríkis-
ráðherranum sem er lægra settur í
goggunarröð hins diplómatíska met-
orðastiga.
Gagnrýna Tyrki
Axarskaft Tyrkja, sem áður en
varði var nefnt „sófagate“ í netheim-
um, átti sér stað þegar fulltrúar
Brusselstjórnarinnar voru mættir til
Ankara til að reyna að lappa upp á
sambúðina við Tyrki, þrátt fyrir
áhyggjur af réttindabrotum í Tyrk-
landi, ekki síst gagnvart konum.
ESB mislíkaði er Erdogan dró
Tyrkja út úr alþjóðasáttmála um
varnir gegn ofbeldi gagnvart konum
og börnum. Eftir fundinn sagði von
der Leyen að mannréttindi væru
ekki samningsatriði.
„Ég hef þungar áhyggjur af úr-
sögn Tyrkja úr Istanbúlsáttmál-
anum. Hann snýst um að vernda
konur og vernda börn gegn ofbeldi.
Því var þessi ákvörðun kolröng.“
agas@mbl.is
AFP
Beðið eftir sæti Ursula von der Leyen bíður eftir því að vera boðið til sætis,
sem aldrei gerðist. Þeir Erdogan (t.h.) og Charles Michel eru sestir.
Reiði vegna „sófagate“