Morgunblaðið - 08.04.2021, Page 56
56 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 8. APRÍL 2021
LAUGAVEGI 24 - REYKJAVÍK - S. 552 0800
SKIPAGÖTU 7 - AKUREYRI - S. 462 4646
þannig að þú getir heyrt hljóð í
gegnum myndheiminn. Ég reyndi
svo að móta hljóðheiminn þannig að
hann falli að verkunum sjálfum og
sýningarrýminu þannig að þetta
verði nánast samgróið.“ Hann segir
töfra vídeós og hljóðmiðilsins mæt-
ast í verkinu og það heilli sig.
Áður en gengið er inn í innsetn-
inguna mæta gestum ljósmyndaverk
unnin út frá sama myndheimi, „eins-
konar ljósrými þar sem við sjáum
leifar af efni og vírum þegar peran
hefur gefið upp öndina. Það er logn
þarna inni og og hljóðið er ein-
angrað. Þetta dulúðlega og eyðilega
rými heillar mig og hvernig efnið
hefur lent inni í rýminu,“ segir
Sigurður.
Verkið „Enigma“ í innri salnum
vann hann með öðrum hætti. „Ég
sett örlítið kolabrot í lofttæmt rými
og skannaði ýmsar hliðar þess inn
með rafeindasmásjá. Tók svo ein-
hver 12, 13 sjónarhorn, setti þau í
tölvu og bjó þar til hálftíma langt
ferðalagið með færslu fókuspunkta
og hreyfingu,“ segir hann. „Kolið
sjálft er ekki kveikjan af verkinu
heldur var ég að leita eftir ákveðinni
áferð og því hvernig ljósið sem raf-
eindasmásjáin sendir frá sér vinnur
með efnið.
Þessi efniviður verður eiginlega
kveikjan að ferli þar sem ég tek mér
skáldaleyfi og nota bæði hljóð, ljós
og hreyfingu til búa til heim sem ég
hef ekki komið inn í áður.“
Rafrænt drullumall
Í áhrifamiklum verkum sínum
leitar Sigurður iðulega að upp-
sprettu í heimi tækninnar. „Ég hef
smám saman farið að nota vídeóefni
sem uppsprettu fyrir innsetning-
arnar, eins og hér, og svo hefur rým-
ið mikil áhrif á hvaða efni ég vel inn
á sýningar,“ segir hann.
„Ég er stanslaust að gera tilraunir
á vinnustofunni. Er að gera eitthvert
rafrænt drullumall.“ Sigurður brosir
og bætir við: „Ég er alltaf að skoða
eitthvað, í upptökuferli, í tölvunni
eða í hljóði, og það liggja bankar af
efni hjá mér. En þegar það var
ákveðið að ég myndi sýna hér núna
þá fannst mér augljóst að þessi
flúorpera ætti að fara hér inn! Það
var alveg hreint og klárt. Verkin
velja sig svolítið sjálf.“
En vinnsla verkanna fyrir sýningu
tekur líka langan tíma.
„Það er mikil vinna, langt ferli og
ferðalag. Mómentið þegar maður
grípur eitthvað gerist hratt en
undanfarinn og það sem gerist á eft-
ir, við að undirbúa verkið fyrir sýn-
ingu, er langur prósess.“
Sigurður bætir við að tæknin sé
sífellt að þróast en það sé mikilvægt
að líta ekki á hana sem eitthvað kalt
og ópersónulegt. Þá sé mikilvægt að
finna fyrir lýrík í verkunum.
„Fyrst við erum farin að nota tölv-
ur og tækni jafn mikið og raun er á
þá hlýtur hún að þurfa að aðlagast
okkur og verða sífellt áhugaverðari.
Það eru töfrar tækninnar. Og já, lýr-
íkin er lykilatriði.“
Feneyjaverkið aftur af stað
–Nú er rúmt ár síðan tilkynnt var
að þú yrðir fulltrúi Íslands á næsta
Feneyjatvíæringi sem átti að opna
nú í vor en var frestað um ár vegna
heimsfaraldurs Covid-19. Hver er
staðan á því verkefni?
„Við vorum komin á fullt við
undirbúning sýningarinnar í fyrra-
vor en þá var öllu frestað. Ekki bara
tvíæringnum heldur öllum heim-
inum – og þar með mörgum öðrum
verkefnum sem ég var að vinna að.
Þá tók ég mér svolítið frí, fyrst Fen-
eyjaverkefninu var frestað, en er nú
lagður af stað aftur,“ svarar hann.
–Verður verkið óbreytt frá því
sem hefði verið fyrir frestun?
„Ég held ég geti svarað því neit-
andi; eitthvað verður eftir af hinu en
það mun þróast yfir í eitthvað allt
annað.“
Kynningarmiðstöð íslenskrar
myndlistar, sem annast framkvæmd
þátttökunnar í Feneyjum, hefur til-
kynnt að eftir að hafa á mörgum
undanförnum tvíæringum leigt sýn-
ingarrými fyrir íslenska skálann úti í
bæ, fjarri aðalsýningarsvæðinu og
þar með hinni umfangsmiklu fjöl-
sóttu sýningarstýrðu samtímasýn-
ingu í Arsenale-byggingunni, hafi
verið leigður skáli alveg við Arsenale
en þar eru líka nokkrir þjóðar-
skálanna, á mjög góðum stað, og
skoða þeir sem koma í Arsenale þá
venjulega líka. Sigurður fagnar
þeirri ákvörðun.
„Það er ánægjulegt að það sé búið
að fastsetja það rými, nú get ég
byrjað að hugsa strúktúr verksins
inn í það,“ segir hann. „Að ganga að
rýminu gefnu gerir verkefnið auð-
veldara í skipulagningu.
Það fer gríðarlegur fjöldi þarna
um – að því gefnu að fólk verði aftur
farið að ferðast eftir Covid – sem er
auðvitað skemmtilegt.“
–Þú munt kynna Feneyjaverkið
síðar en verður það í einhverjum
tengslum við þessi verk hér nú í
BERG Contemporary?
„Það er alltaf framhald hjá mér,
frá einu verki til annars, en það
verður líka eitthvað allt annað. Þessi
verk hér hefðu ekki farið til Feneyja,
þau eru á einhverju öðru ferðalagi,
en þetta er allt eitt og eitt hænu-
skref áfram. En það eru teng-
ingar … og þetta verður að sjálf-
sögðu vídeóhljóðinnsetning.
Sýningin sem ég er að setja upp hér
núna mun innspírera mig á einhvern
hátt.
Það hefur verið mjög gott að
vinna að undirbúningnum með
Kynningarmiðstöðinni, þar er mjög
traust teymi sem heldur utan um
alla framkvæmdina við verkið og við
Mónica getum einbeitt okkur að
samtalinu um inntak verksins.“
Sigurður talar þarna um
sýningarstjóra sýningar hans á Fen-
eyjatvíæringnum, Mónicu Bello.
Hún er spænsk, hefur starfað sem
sýningarstjóri í um tvo áratugi en
hefur frá 2015 verið stjórnandi og
sýningarstjóri Arts at Cern, list-
stofnunar sem starfrækt er í
tengslum við umfangsmiklar vís-
indarannsóknirnar kringum línu-
hraðalinn við Cern í Sviss. Sigurður
segist hafa kynnst Bello fyrir rúmu
ári en hann dvaldi um tíma við stofn-
un hennar í Sviss. „Þar er rekið
þverfaglegt prógramm þar sem
listamenn, vísindamenn og verk-
fræðingar blandast. Gestum úr þeim
greinum er boðið að dvelja þarna í
mislangan tíma og eiga í samtali við
fólkið sem starfar þar en það er hátt
í 15 þúsund manns. Þarna er ekki
bara línuhraðallinn heldur er verið
að gera endalaust áhugaverðar til-
raunir og rannsóknir og það er gríð-
arlega spennandi fyrir listamenn.
Við Mónica vinnum mjög vel saman
– síðasta árið bara á zoom en ég held
aftur til Sviss um leið og hægt er.
Mónica er sérfræðingur í tækni og
tímatengdum miðlum og það er mik-
ill fengur að fá að vinna með mann-
eskju sem er alveg á sömu bylgju-
lengd og ég við gerð verkanna; þótt
við séum oft að tala um afstrakt og
flókna hluti þá er þekking hennar
svo mikil að hún reynist mér mjög
vel.“
Spenntur og auðmjúkur
–Hvernig tilfinning er það að vera
valinn sem fulltrúi landsins, vera
einskonar eins manns landslið í
myndlist, eins og þátttakan í Fen-
eyjum er?
„Það er mikill heiður og mjög
spennandi,“ svarar Sigurður og
brosir. „Ég upplifi mig ekki endilega
einan því það er stór hópur sem
kemur að þessu verkefni þótt ég
leggi hugmyndina fram. Þetta er allt
gert í gjöfulu samtali.“
–En finnurðu fyrir öðruvísi pressu
en í öðrum sýningarverkefnum?
„Já, þetta er allt stærra í sniðum
og er eitthvað sem gerist bara einu
sinni á ferlinum svo það fylgir þessu
mikil tilhlökkun. Ætli ég mæti ekki
bara spenntur og auðmjúkur til leiks
í þjóðarskála myndlistarinnar og
leggi mig fram um að njóta þess að
fá þetta einstaka tækifæri.“
–Vinnan við Feneyjasýninguna
mun eflaust taka drjúgan tíma
næsta ár en eru fleiri verkefni í píp-
unum hjá þér?
„Já, nokkrum sýningum og verk-
efnum var frestað í fyrra. Ein sýning
mun verða opnuð í Danmörku í jan-
úar, henni hefði átt að vera að ljúka
núna en var frestað um ár. Það er
spennandi verkefni en í gömlum
bönker frá seinni heimsstyrjöldinni
set ég upp átta verk sem ég hef
skapað á síðustu árum; það verður
stór sýning, sett upp í litlum rýmum.
Svo eru önnur verkefni að detta von-
andi í gang aftur. Það verður nóg að
gera á næstunni,“ segir Sigurður.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Töfrar tækninnar „Það er mikil vinna, langt ferli og ferðalag,“ segir Sigurður Guðjónsson um gerð verka sinna. Hann er hér við eitt þeirra á sýningunni.
Hinir lýrísku töfrar tækninnar
- Sýning á nýjum verkum Sigurðar Guðjónssonar verður opin í BERG Contemporary frá og með
morgundeginum - Verður fulltrúi Íslands á næsta Feneyjatvíæringi og segir það mikinn heiður
VIÐTAL
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Með því að beina í verkum sínum
sjónum að áður yfirskyggðum stöð-
um, þá afhjúpar hann þá en heldur
um leið framandi einkennum þeirra,
segir spænski sýningarstjórinn Mó-
nica Bello um verkin á sýningunni
með verkum Sigurðar Guðjónssonar
myndlistarmanns sem verður opin í
BERG Contemporary galleríinu á
Klapparstíg 16 frá og með morgun-
deginum, föstudeginum 9. apríl.
Sýningin ber einmitt heitið Yfir-
skyggðir staðir og eins og Sigurður
útskýrir fyrir blaðamanni, sem hittir
hann þar við undirbúninginn, þá eru
á sýningunni tvö vídeó- og hljóðverk;
í fremri salnum er hið tveggja rása
„Fluorescent“ – með speglaðri
vídeóvörpun sitt á hvorn endavegg-
inn, og í innri salnum er vídeóverkið
„Enigma“. Titilinn á sýningunni seg-
ir hann vera vísun í staði, rými eða
hluti sem hann sækir mynd- og
hljóðuppsprettuna í, hvort sem það
eru hlutir eða efnisheimurinn sem
hann er að skoða í hvert skipti.
„Þetta eru ekki ósýnilegir staðir
heldur staðir sem við erum kannski
ekki í daglegu lífi að velta fyrir okk-
ur en eru þarna á bak við,“ segir
hann.
Sigurður er þekktur fyrir áhrifa-
miklar vídeó- og hljóðinnsetningar
sínar en hann hreppti fyrir eina
þeirra Íslensku myndlistarverðlaun-
in árið 2018. Hann segist í verkunum
vilja búa til heim fyrir áhorfandann
að ferðast um, frekar en að búa til
einhvern einn ákveðinn hlut eða
minnisvarða. Þá hafi hann á undan-
förnum árum farið að hugsa sífellt
meira um vídeó sem uppsprettu eða
efnivið fyrir innsetningar sínar,
frekar en línulega upplifun innan
myndarinnar.
Sjónrænt hljóðverk
Verkið „Fluorescent“ hverfist um
flúorljósaperu sem Sigurður hefur
opnað upp og myndað með makró-
linsu. Hljóðheiminn sækir hann í
strauminn sem heldur perunni
gangandi – en mynd og hljóð hefur
hann síðan mótað til að skapa áhrifa-
mikið verk sem áhorfandinn gengur
inn í og upplifir með sjón, heyrn og í
raun líkamanum öllum sem djúp
hljóðrásin hríslast um.
„Mér fannst verkið falla afskap-
lega vel að þessu rými og það má
segja að lengd rýmisins vísi í peruna
sjálfa,“ segir Sigurður og bætir við
að hann hafi talað um þessa innsetn-
ingu „sem sjónrænt hljóðverk því til-
finningin í verkinu er á vissan hátt