Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.04.2021, Page 15
4.4. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15
„Nei, alls ekki. Í dag er þetta bara æðislega
skemmtileg minning; eitt af mörgum ævintýr-
um sem maður hefur lent í. Annað eftirminni-
legt ævintýri var tónleikaferðin sem ég fór í
með hljómsveit minni til Sovétríkjanna 1982
og spilaði vítt og breitt. Það voru 28 tónleikar, í
Jerevan, þar sem hörmungarlandsleikur fór
fram á dögunum, og í Sotchi.“
Björgvin kom víðar við og ekki má gleyma
fyrstu sólóplötunni, Þó líði ár og öld, sem kom
út 1971. Né heldur Einu sinni var: Vísur úr
Vísnabókinni sem hann gerði ásamt Gunnari
Þórðarsyni og Tómasi M. Tómassyni 1976, en
hún seldist í bílförmum. „Við tókum þetta upp í
stúdíóinu fræga í London, þar sem The Who
gerði Tommy. Það var frábært að vinna með
þessum snillingum. Blessuð sé minnig Tomma
bassa! Enn og aftur. Ég hef séð á bak mörgum
eftirminnilegum samstarfsmönnum.“
Tóku viðtöl við endur á tjörninni
Björgvin lifði alfarið á tónlist þangað til börn
hans og eiginkonu hans, Ragnheiðar Bjarkar
Reynisdóttur, komu í heiminn. Svala fæddist
1977 og Krummi 1979. Fyrir átti Björgvin son-
inn Sigurð Þór sem fæddist 1971.
„Þegar börnin voru komin í spilið þurfti
maður að eignast íbúð og axla meiri ábyrgð.
Ég var áfram á fullu í tónlistinni en hef unnið
ýmis störf meðfram henni gegnum tíðina. Um
skeið vann ég á auglýsingastofu, var markaðs-
stjóri hjá Óla Laufdal á Broadway og kom með
ýmsa fræga tónlistarmenn til landsins. Ég var
líka framkvæmdastjóri stúdíó Sýrlands og
framkvæmdastjóri útvarpsstöðvarinnar
Stjörnunnar. Þar störfuðu Eiríkur Jónsson og
Jón Ársæll Þórðarson meðal annarra og tóku
viðtöl við endurnar á tjörninni.“
Hann hlær.
Björgvin var dagskrárstjóri Bylgjunnar í
tvö ár og hefur unnið óslitið fyrir Stöð 2 frá
árinu 1992. Meðal annars við markaðsstörf en
einnig sem þulur stöðvarinnar fram á þennan
dag. Þá kom hann Bíórásinni á fót, svo sem
fyrr var getið.
Tónlistin hefur þó alltaf ráðið för og ekki
hægt að segja að Björgvin hafi nokkru sinni yf-
irgefið sviðið þessi rúmlega fimmtíu ár.
Brimkló naut áfram vinsælda á níunda ára-
tugnum, auk þess sem hann lagði meiri rækt
við sólóferilinn. Þá var Björgvin fulltrúi Íslands
í Júróvisjón árið 1995, svo eitthvað sé nefnt. Í
seinni tíð hefur hann komið með jólin til okkar
allra á hinum feikivinsælu tónleikum Jólagestir
Björgvins, í bæði Laugardalshöll og Hörpu.
– Þú hefur aldrei farið úr hringiðunni?
Hverju þakkarðu það?
„Ég hef bara haldið mínu striki. Það er langt
síðan ég áttaði mig á því að tónlistin fer í enda-
lausa hringi og allt sem einhverju sinni hefur
verið vinsælt og gott kemur aftur. Þess vegna
hef ég aldrei viljað elta tískustrauma; er bara
sjálfum mér trúr og mínum rótum. Það hefur
gefist ágætlega. Ég hef hljóðritað vel yfir níu
hundruð lög en hef eigi að síður alltaf jafn gam-
an af því að gera tónlist og stefni á plötu með
nýju efni í haust. Þetta er líka spurning um
taktík; markaðurinn er lítill og maður vill ekki
ofgera fólki með nærveru sinni. Þess vegna
reyni ég frekar að koma annað slagið inn á völl-
inn og skora kannski eitt og eitt mark.“
– Þú ert auðvitað löngu orðinn vanur en var
aldrei erfitt að vera stöðugt með kastljósið á
sér?
„Í raun og veru ekki enda lærði ég fljótt að
skipta mér upp; annars vegar er það sjó-
mannssonurinn og fjölskyldumaðurinn Björg-
vin Helgi Halldórsson úr Hafnarfirði og hins
vegar söngvarinn Björgvin Halldórsson sem
ég sæki bara í skápinn þegar ég þarf á honum
að halda. En auðvitað hefur gengið á ýmsu. Ég
lét ýmislegt flakka þegar ég var yngri, eins og
ungir og áhyggjulausir menn gera, og lenti
fyrir vikið í hakkavél fjölmiðlanna um stund,
þar sem allt sem ég sagði var teygt og togað og
ég stimplaður einfaldur og kjaftfor strákur.
Það er ekki mitt hlutverk að skrifa söguna en
það var samt kærkomið tækifæri til að leið-
rétta rangfærslur þegar Gísli Rúnar skrifaði
bókina um mig fyrir tuttugu árum. Bara svo
mitt sjónarhorn liggi fyrir. Blessuð sé minning
Gísla Rúnars, við vorum miklir vinir. Annars
hef ég litlar áhyggjur af umfjöllun um mig,
hvort sem er í fjölmiðlum eða á samfélags-
miðlum. Ég hef ekkert að fela.“
Gæti unnið á bókasafni
Eins slitgóður og hann hefur verið í tónlistinni
þarf Björgvin varla að búa sig undir feril á öðr-
um vettvangi í þessu lífi. En hvað ef hann hefði
aldrei orðið söngvari?
„Ætli ég hefði ekki fundið mér starf í sam-
bandi við tækni og tölvur. Eins og ég gat um
áðan þá er ég á heimavelli þar. Ég er líka mik-
ill fagurkeri og grúskari og gæti til dæmis vel
hugsað mér að vinna á bókasafni. Það er
ábyggilega skemmtilegt. Ég hef alltaf dáðst að
fallegum hlutum, eins og gíturunum sem ég
safna. Það er fimmtíu ára árátta, ætli ég eigi
ekki einhver 45 stykki. Ég er líka mjög forvit-
inn um gítara og er í sérvitringaklúbbi á netinu
til að afla mér meiri upplýsinga. Svo er þetta
líka fjárfesting; að safna merkilegum gíturum
er eins og að safna málverkum. Þeir halda
verðgildi sínu.“
– Safnarðu einhverju fleiru?
„Já, ég safna alls konar dóti, mest tengt tón-
list. Ég safna til dæmis vínilplötum, vegg-
spjöldum og úrklippum sem tengjast ferli mín-
um. Mamma byrjaði á því, var stolt af
drengnum sínum, og ég hef haldið því áfram.
Það efni snýr ekki bara að mér, heldur safna
ég líka ýmsu tengdu samferðamönnum mínum
í tónlistinni og vil gjarnan hafa það í samhengi
við tíðarandann hverju sinni. Þetta er einhver
sagnfræðiáhugi. Ég skildi samt aldrei al-
mennilega hvers vegna ég var að safna þessu
öllu – þar til fyrir fimm árum að sett var upp
sýning mér til heiðurs hérna í Rokksafninu. Þá
áttaði ég mig. Já, þess vegna var ég að þessu.
Rokksafnið er frábært og lofsvert framtak hjá
Reykjanesbæ, en hugmyndin kemur upphaf-
lega frá Rúna Júl., enda skiptir menningin
okkur svo miklu máli. Það er hún sem mótar
okkur mest.“
– Þetta er í blóðinu, er ekki bróðir þinn líka
forfallinn safnari?
„Jú, þessi árátta kemur frá Baldvini, eldri
bróður mínum, en hann er einn mesti safnari
landsins, gefur út Safnarablaðið og er fimm
stjörnu maður á eBay.“
„Ekki hafa svona hátt, strákar!“
Talið berst að því hvað hafi breyst mest í ís-
lensku tónlistarlífi á þessum rúmu fimmtíu ár-
um. „Hvað tónlistarlífið hefur blómstrað,“ er
Björgvin fljótur að segja. „Þegar maður var að
byrja voru ekki margir tónlistarmenn þess um-
komnir að spila inn á plötur og aðstaðan ekki
upp á marga fiska. Þegar ég tók upp mína
fyrstu sólóplötu 1971 notaði ég erlenda hljóð-
færaleikara og við urðum að gera þetta í húsa-
kynnum Ríkisútvarpsins á Skúlagötunni. Jón
Múli kom reglulega inn í stúdíóið og sussaði á
okkur. „Ekki hafa svona hátt, strákar! Ég er í
miðjum fréttum!“ Veggirnir hljóta að hafa ver-
ið þunnir. Annars var Jón Múli mikill höfðingi
en hundrað ár eru nú liðin frá fæðingu hans.
Nú er hér frábær aðstaða til að taka upp tónlist
og hver snillingurinn upp af öðrum til að spila.“
– Og gróskan mikil?
„Heldur betur. Framboðið er miklu betra en
það var í gamla daga og þar sem flestir eru
með stúdíó heima hjá sér kemur mikið út. Það
efni er auðvitað misjafnt en margt mjög gott.
Ég er feginn því að rappararnir séu farnir að
syngja melódíur og láta menn spila undir hjá
sér, Herra Hnetusmjör, Emmsjé Gauti og
þeir. Ég hef efni á að segja þetta vegna þess að
ég veit um hvað ég er að tala; legg mig eftir því
að setjast niður með heyrnartól og hlusta á
þessa tónlist í rólegheitunum. Það er segin
saga – við förum alltaf aftur í ræturnar. Eyrað
vill láta kitla sig. Þess vegna kemur melódían
alltaf aftur. Hvers vegna heldurðu að kántrí
njóti alltaf svona mikillar hylli? Það er bara
þrír hljómar og sannleikurinn.“
Hann segir textana líka skipta höfuðmáli.
„Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á texta; gerði
það til dæmis að stefnu hjá Brimkló. Og við
verðum að passa upp á söguna og íslenskuna;
það er hún sem gerir okkur að þjóð. Unga fólk-
ið verður að gæta sín á enskuslettunum, „beis-
iklí“ er til dæmis ekki íslenska. Vöndum text-
ana og höfum þá skiljanlega!“
Uppistandari inni í skáp
Björgvin er þekktur fyrir hnyttin tilsvör og
ekki er hægt að sleppa honum án þess að
spyrja út í þann góða sið. „Ætli ég sé ekki bara
uppistandari inni í skáp,“ svarar hann kíminn.
„Ég er húmoristi og svolítið kaldhæðinn að
upplagi og ef það opnast gluggi sem getur
skýrt margt læt ég það mér helst ekki úr
greipum ganga. Gísli Rúnar kallaði þetta ein-
línunga og ætli maður hafi ekki séð þetta fyrst
hjá grínistunum í Kanasjónvarpinu, George
Carlin og þeim gaurum. Svo þarf maður auð-
vitað að vera með svör á reiðum höndum á tón-
leikum ef einhver úti í sal byrjar að hekla
mann. Auðvitað getur lífið verið erfitt en það
hlýtur samt að vera auðveldara að glíma við
það ef húmorinn er með í för.“
Við endum þar sem við byrjuðum, á tíma-
mótunum fram undan. Björgvin er þakklæti
efst í huga. „Ég er þakklátur fyrir allt þetta
frábæra hæfileikafólk sem ég hef verið svo lán-
samur að vinna með. Ég hef staðið á öxlunum á
risum. Ég hef lært af ótalmörgum og vonandi
einhverjir af mér á móti. Þess utan hef ég ver-
ið heppinn með það mikilvægasta í lífinu – fjöl-
skylduna, heilsuna og tímann. Ég er líka stolt-
ur af því að vera Hafnfirðingur og Íslendingur.
Er hægt að hugsa sér fallegra land? Því hef ég
kynnst vel gegnum eitt af mínum helstu
áhugamálum, stangveiðina, sem ég kolféll fyrir
upp úr 1990. Þá fór ég að sjá dýrðina hinum
megin við fjallið. Það eina sem ég á eftir er að
fara í golfið en eins og það er nú heilsusamlegt
sport þá fer ég ekki að gera konunni það líka!“
Svo mörg voru þau orð. Ljósið er kveikt í
bíósalnum og við Björgvin göngum saman
fram í anddyrið. Þar verða á vegi okkar tveir
drengir innan við fermingu. Þeim verður star-
sýnt á söngvarann og óska eftir því að fá mynd
af sér með honum. Það er auðsótt. Þegar við
kveðjum drengina segir sá yngri hýreygur:
„Lögin þín eru mjög flott!“
Þar er mælt fyrir munn margra.
Morgunblaðið/Eggert
Björgvin leikur á flygil vinar síns,
Ragnars Bjarnasonar, sem nú er
til sýnis í Rokksafni Íslands.