Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.04.2021, Side 24
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 4.4. 2021
KNATTSPYRNA
Þegar ég er úti á vellinum nýtég þess bara. Ég vil verameð knöttinn og spila. Við
þær aðstæður hugsa ég skýrast og
finn ekki fyrir nokkurri pressu,“
segir nýstirnið Jamal Musiala við
heimasíðu félags síns, Bayern
München, en þessi átján ára gamli
piltur hefur slegið í gegn á sínu
fyrsta tímabili með Bæjurum og er
kominn í þýska landsliðið. Menn spá
því þegar að hann hafi burði til að
fara alla leið á toppinn.
Musiala fæddist í Fulda í Þýska-
landi 26. febrúar 2003. Móðir hans
er þýsk en faðirinn bresk/níger-
ískur. Honum stóð því til boða að
leika landsleiki fyrir þrjár ólíkar
þjóðir. Þegar Musiala var sjö ára
flutti fjölskyldan til Bretlands og
eftir stutta viðkomu hjá Southamp-
ton bauð Chelsea honum til sín þeg-
ar hann var aðeins átta ára.
Musiala dafnaði vel í Vestur-
Lundúnum og hæfileikarnir komu
snemma í ljós. Í viðtalinu á heima-
síðu Bayern er hann spurður hvort
hann hafi sparkhæfileikana frá föð-
ur sínum. „Það hlýtur að vera,“
svarar hann. „Hann var sjálfur góð-
ur í fótbolta enda þótt hann gerðist
ekki atvinnumaður. Ég byrjaði að
spila þriggja ára, fyrir framan húsið
með föður mínum. Við lékum bolt-
anum endalaust á milli okkar. Ég
þurfti að reyna að leika á hann eða
hann var í markinu. Fjögurra ára
fór ég á mína fyrstu æfingu hjá liði
og lék þar með krökkum sem voru
árinu eldri.“
Alla jafna yngstur
á vellinum
Það hefur verið leiðarstefið til þessa
dags; Musiala er alla jafna yngsti
maðurinn á vellinum. „Ég þurfti
alltaf að kljást við eldri og lík-
amlega sterkari andstæðinga. Til að
ná árangri þurfti ég fyrir vikið að
finna aðrar lausnir og nýta líkams-
burði mína á réttan hátt. Þegar ég
var í skóla á Englandi tefldi ég líka
og þar þarf maður að hugsa á fyrir-
byggjandi hátt; stöðugt að gera ráð
fyrir því hvað andstæðingurinn
kann að gera. Ég hafði gaman af
því,“ segir hann við heimasíðu Bay-
ern.
Okkar maður þurfti á allri þeirri
herkænsku að halda þegar hann var
fyrst valinn í lið Chelsea, skipað
leikmönnum 18 ára og yngri, aðeins
15 ára, tveggja mánaða og 13 daga.
Þeir kunna sína tölfræði, Bretarnir.
Enginn vill sjá stríð milli Eng-
lands og Þýskalands aftur en eins
konar ígildi þess skall þó á fyrir
nokkrum árum þegar kom að því að
velja Musiala í yngri landslið. Eng-
lendingar voru á undan; völdu hann
13 ára gamlan í 15 ára liðið sitt.
Fljótt var hann færður upp í 16 ára
liðið. Þá kom boð frá Þýskalandi og
ungi maðurinn hafði búningaskipti
til að leika með 16 ára liði Þjóð-
verja. Að því búnu færði hann sig
aftur yfir í enska liðið og hefur bæði
leikið með 17 og 21 árs liðinu, tvo
leiki með því síðarnefnda seint á
síðasta ári og skoraði í þeim eitt
mark. Á þeim tíma benti ekkert til
annars en að Musiala myndi velja
England enda lærði hann sínar fót-
menntir að mestu þar um slóðir og
átti góða vini bæði hjá Chelsea og í
yngri landsliðunum. Þjóðverjar
hentu handklæðinu meira að segja
inn í hringinn. „Hann hefur gefið
sterklega í skyn að hann sjái fram-
tíð sína með ensku landsliðunum.
Við virðum þá ákvörðun og óskum
honum alls hins besta á íþróttaferl-
inum,“ hefur miðillinn Sport 1 eftir
yfirmanni unglingalandsliða Þýska-
lands, Meikel Schonweitz.
Það kom því bæði Þjóðverjum og
Englendingum í opna skjöldu þegar
Musiala tilkynnti undir lok febrúar
síðastliðins að hann ætlaði sér að
leika fyrir þýska landsliðið í fram-
tíðinni. Joachim Löw lét ekki segja
sér það tvisvar og valdi drenginn
strax í hóp sinn fyrir þríhöfðann í
undankeppni HM í lok mars og setti
hann inn á í fyrsta leiknum, gegn
Íslendingum í Duisburg. Af virð-
ingu við ykkur, kæru landar, læt ég
vera að rifja þann leik upp að öðru
leyti.
„Hjartað í mér slær bæði fyrir
Þýskaland og England og svo verð-
ur áfram,“ sagði Musiala við mið-
ilinn Sportschau þegar ákvörðunin
lá fyrir. „Ég hef velt þessu vel og
vandlega fyrir mér og á endanum
lét ég tilfinninguna ráða og rétta
ákvörðunin er að leika fyrir Þýska-
land. Eigi að síður var þetta þegar
upp er staðið alls ekki svo auðvelt
val en ég fæddist í Þýskalandi og
þar byrjaði ég að leika knatt-
spyrnu.“
Finnur fyrir miklu trausti
Musiala hafnar því ekki í téðu við-
tali að sú staðreynd að hann flutti
sig frá Chelsea yfir til Bayern
München árið 2019 hafi haft áhrif á
valið. Eftir þau vistaskipti hafi hann
fengið sitt fyrsta tækifæri í meist-
araflokki og endurnýjað kynnin við
móðurlandið. Hann finni fyrir miklu
trausti frá hendi Hansi Flick, knatt-
spyrnustjóra Bayern, og samherj-
anna í liðinu.
Skyldi engan undra, Musiala hef-
ur hingað til staðið undir öllum
væntingum. Hann var fluttur með
hraði úr unglingaliði Bayern upp í
varaliðið og í júní á síðasta ári
þreytti hann frumraun sína með að-
alliðinu. Í viðtalinu á heimasíðu fé-
lagsins lýsir hann fyrstu æfingunni
með Lewandowski, Gnabry, Müller,
Kimmich og þeim köppum öllum
með mjög skemmtilegum hætti.
Hann svaf nær ekkert nóttina áður
enda stöðugt að líta á klukkuna.
Þegar á svæðið var komið þorði
hann heldur ekki að yrða á nokkurn
mann, hvað þá setjast niður í bún-
ingsklefanum af ótta við að taka
snagann af einhverju stórstirninu.
Á endanum kom starfsmaður fé-
lagsins honum til bjargar.
Þess hógværð var þó ástæðulaus
enda féll Musiala að Bayern-liðinu
eins og flís við rass og hófst þegar í
stað handa við að endurskrifa
sparksöguna. Hann er yngsti leik-
maðurinn í sögunni til að verja heið-
ur Bayern í Búndeslígunni, 17 ára
og 115 daga. Þjóðverjar eru síst
verri í tölfræði en Bretar enda þótt
það hjálpi þeim ekki eins mikið í
slagnum um bóluefni gegn kór-
ónuveirunni. Musiala lét ekki þar
við sitja. Í september varð hann
yngsti markaskorari Bæjara í Bún-
deslígunni, 17 ára og 205 daga; sló
met Roque Santa Cruz, sem var 18
ára og 12 daga. Þaðan lá leiðin í
Meistaradeild Evrópu, þar sem Mu-
siala gerði sitt fyrsta mark í febrúar
síðastliðnum og varð þar með yngsti
Þjóðverjinn og Englendingurinn til
að setj’ann í þeirri virðulegu keppni.
Ef þessi drengur á ekki framtíð-
ina fyrir sér þá heiti ég Páll Rós-
inkranz!
Á grænu taflborði
Hinn átján ára Jamal
Musiala hefur komið
eins og stormsveipur
inn í Evrópuboltann
með Bayern München
og nú þýska landslið-
inu. En hver er þessi
sókndjarfi strákur sem
einnig hefði getað
leikið fyrir England
og Nígeríu?
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
AFP
Jamal Musiala í sínum fyrsta
landsleik fyrir Þjóðverja;
gegn Íslendingum í Duisburg.
AFP
Musiala varð yngsti Þjóðverjinn
og Englendingurinn til að skora í
Meistaradeild Evrópu í febrúar
síðastliðnum, þegar hann skoraði
fyrir Bayern gegn Lazio.