Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.04.2021, Page 14
VIÐTAL
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.4. 2021
um“ með því að innleiða og viðhalda ákveðinni
orðræðu sem sáði eitri meðal þýsku þjóð-
arinnar.“
Hann gerir stutt hlé á máli sínu.
„Við erum öll sköpuð jöfn og af sama guð-
inum. Enginn er öðrum æðri, allir hafa sama
rétt í þessum heimi. Hinn frægi rabbíni
Maimonides, sem var uppi á tólftu öld, sagði að
hver og einn væri heill heimur, ekki bara ein-
staklingur, og þeir sem bjarga annarri mann-
eskju bjarga um leið öllum heiminum og niðj-
um þeirra í framtíðinni. Þetta er góð speki að
tileinka sér og fara eftir.“
Stefnt að árlegum viðburði
Svo merkilega vill til að við hittumst einmitt á
sérstökum minningardegi um helförina á Ís-
landi en hann var fyrst haldinn á síðasta ári.
Að deginum standa gyðingasamfélagið á Ís-
landi, pólska, þýska og bandaríska sendiráðið.
„Við höfum öll unnið að þessu saman en því
miður verðum við að láta okkur nægja að
streyma frá athöfninni vegna kórónuveiru-
faraldursins. Við munum bæta okkur það upp
á næsta ári en stefnt er að því að gera þennan
dag að árlegum viðburði. Tilgangurinn er að
deila upplýsingum og fræða.“
Sjálfur hefur Feldman ekki fundið fyrir and-
úð í garð gyðinga frá því hann flutti hingað fyr-
ir þremur árum. „Íslendingar hafa tekið mér
og fjölskyldu minni opnum örmum og við erum
lánsöm að búa í svona opnu og fordómalausu
samfélagi. Það verða alltaf til einhverjir bjánar
og auðvitað hefur maður orðið var við fáein
veggspjöld eða -krot þar sem örlar á gyð-
ingahatri en aðalatriðið er hvernig brugðist er
við slíku og lögreglan lítur þannig lagað greini-
lega alvarlegum augum, eins og samfélagið
allt.“
Hann gleðst einnig yfir frumvarpi um bann
við afneitun helfararinnar sem lagt var fram á
Alþingi í byrjun þessa árs. „Hver sá sem op-
inberlega afneitar, gróflega gerir lítið úr, eða
reynir að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð
sem framin voru á vegum þýska nasistaflokks-
ins í síðari heimsstyrjöldinni skal sæta sektum
eða fangelsi allt að tveimur árum,“ segir meðal
annars í frumvarpinu.
„Ég fagna þessari viðleitni enda mikilvægt
að kæfa tilraunir til að gera lítið úr helförinni
strax í fæðingu; það á ekki að líðast að ein-
staklingar eða hópar nuddi sér utan í nas-
ismann. Við verðum að læra af reynslunni,“
segir Feldman.
Afi hans var í Auschwitz
Sjálfur hefur hann beina tengingu við helför-
ina en bæði afi hans og afabróðir lifðu af
vistina í Auschwitz. Þeir voru frá litlum bæ í
nágrenni Kraká. „Afi minn dó um miðjan sjö-
unda áratuginn, þannig að ég kynntist honum
aldrei, en afabróður minn þekkti ég vel. Hann
lést fyrir um áratug. Þeir tilheyrðu stórri fjöl-
skyldu frá Póllandi og voru þeir einu úr henni
sem lifðu helförina af. Afabróðir minn sagði
okkur sögu sína og ég deildi henni einmitt á
minningardeginum um helförina í fyrra. Hún
er mögnuð en hann var í nokkrum útrýming-
arbúðum og endaði í Auschwitz. Þetta er saga
um grimm örlög en um leið þrautseigju og auð-
vitað upp að vissu marki heppni. Oftar en ekki
réð kylfa kasti, hverjir fengu að lifa og hverjir
voru myrtir. Það hefur heilmikla þýðingu fyrir
mig að afi minn og afabróðir hafi verið í Ausch-
witz og gerir þessa atburði bara enn þá raun-
verulegri.“
Fyrir um áratug fór Feldman í heimsókn til
Póllands og kom meðal annars í Auschwitz og
fleiri útrýmingarbúðir – sem hafði að vonum
djúpstæð áhrif á hann. „Litlu sem engu hefur
verið breytt í Auschwitz sem gerir heimsókn-
ina þangað gríðarlega erfiða. Það er í senn
raunverulegt og óraunverulegt að koma
þangað. Það skipti öllu máli fyrir mig að
heimsækja búðirnar enda eru þær hluti af
minni sögu. Núna er þetta ekki lengur kvik-
mynd eða bók fyrir mér – heldur blákaldur
veruleiki. Ég hvet alla sem hafa tök á því til að
heimsækja Auschwitz þegar heimsfarald-
urinn er afstaðinn! Það dýpkar skilninginn á
helförinni til muna.“
Sjálfur hef ég ekki komið til Auschwitz en
tvö af börnunum mínum hafa gert það; fóru
þangað þegar þau voru við nám í Verzl-
unarskóla Íslands á sínum tíma en liður í nám-
skeiði um helförina var einmitt vettvangsleið-
angur til Póllands – og er sjálfsagt enn.
Feldman rekur upp stór augu þegar ég greini
honum frá þessu. „Jahérna, það er lofsvert
framtak hjá þessum skóla. Þarna fær fólk
tækifæri til að kynnast þessu í návígi strax á
unglingsaldri. Það er gríðarlega mikilvægt og
hlýtur að móta sýn þeirra á þessa atburði um
alla ævi.“
Mikill innblástur
Á ferðalagi sínu um Pólland hitti Feldman að
máli fólk sem lifað hafði helförina af og segir
ómetanlegt að hlusta á sögur frá fyrstu hendi.
Hann hélt dagbók yfir heimsókn sína og minn-
ist sérstaklega eins roskins manns, Samuels
Willenbergs, sem tók þátt í uppreisninni
frægu í Treblinka, sem voru aðrar stærstu út-
rýmingarbúðir nasista á eftir Auschwitz.
„Fangarnir áttu ekki mikla möguleika og að-
eins 67 þeirra lifðu af. Það var ótrúleg upplifun
að hitta einn þeirra að máli, fá þetta beint í æð,
ef svo má segja, og Samuel var mér mikill inn-
blástur. Aðeins ári síðar barst mér sú sorgar-
fregn að hann væri allur.“
Feldman kveðst nota hvert tækifæri sem
gefst til að bjóða fram þjónustu sína, ekki síst
á fundum með íslenskum ráðamönnum og
áhrifafólki í samfélaginu. „Ég ligg aldrei á
mínu liði; er reiðubúinn að fræða og upplýsa,
sé þess óskað. Ekki bara um söguna og helför-
ina, heldur bara gyðingdóminn almennt, enda
er ég fyrsti rabbíninn sem hér starfar. Þessu
hefur verið vel tekið og ég hef til dæmis heim-
sótt háskóla landsins og haldið fyrirlestra. Til
þess er ég hingað kominn, til að fræða og eiga
samtal við íslensku þjóðina. Alla sem hafa
áhuga, gyðinga og aðra.“
Gyðingar á Íslandi eru ekki margir en fer
fjölgandi. Feldman segir heimildir fyrir því að
gyðingar hafi fyrst sest hér að á sautjándu öld
en lítið gyðingasamfélag hafi tekið að byggjast
upp um aldamótin 1900. Við það hafi svo smám
saman bæst, ekki síst á síðustu árum, með
auknum straumi innflytjenda frá Austur-
Evrópu til landsins. „Viðmót íslenskra stjórn-
valda skipti miklu máli þegar við hjónin kom-
um hingað en þau eru boðin og búin að greiða
götu gyðingdómsins og fyrr í þessum mánuði
barst formleg viðurkenning á gyðinga-
samfélaginu hér. Það var sögulegt skref og nú
þurfum við bara að fá okkur kennitölu.“
Allir eru velkomnir
– Veistu hversu margir gyðingar búa á Ís-
landi?
„Nei, ekki nákvæmlega, en ég er alltaf að
hitta fleiri og fleiri. Ég myndi halda að þeir
væru ekki færri en 500 og mögulega fleiri, allt
að 700 til 800. Allir eru þeir velkomnir í gyð-
ingasamfélagið, óháð því hvaðan þeir koma eða
hversu vel þeir eru að sér um trúarbrögðin.
Það er ekkert skilyrði að vera vel lesinn og
trúrækinn. Við tökum vel á móti öllum.“
Hann segir þetta fólk koma víða að; sumir
séu fæddir og uppaldir á Íslandi en aðrir hafi
flust hingað frá Evrópu, Suður-Ameríku,
Bandaríkjunum, Ísrael og víðar. „Sum eigum
við kannski ekki mikið sameiginlegt og erum
ekki sammála um allt en við sameinumst í trú
okkar. Í því er fegurðin fólgin.“
– En hvers vegna komuð þið til Íslands, af
öllum löndum?
„Það er nú það,“ segir Feldman og brosir.
„Hefðirðu sagt mér fyrir átta árum að ég ætti
eftir að setjast að á Íslandi hefði ég líklega
hlegið að þér; á þeim tíma vissi ég minna en
ekkert um landið. Þegar ég kynntist konunni
minni árið 2014 jókst hins vegar áhugi minn
mikið á Norðurlöndunum en hún er sænsk;
fædd og uppalin í Gautaborg. Við höfum farið
víða; bjuggum til dæmis um skeið í Berlín, þar
sem við tókum þátt í háskólaprógrammi sem
sett var á laggirnar til að skapa stúdentum ný
og spennandi tækifæri. Við fundum að þetta
átti vel við okkur og þess vegna vildum við
koma á stað, þar sem við gætum skipt máli. Ís-
land svaraði því kalli en hér er ekkert sam-
komuhús og hér hafði aldrei starfað rabbíni.
Við komum hingað fyrst í heimsókn í desem-
ber 2017 og féllum kylliflöt fyrir landi og þjóð.
Þrátt fyrir myrkrið og kuldann sáum við strax
hversu fallegt landið er; það er til dæmis ekk-
ert mál að njóta náttúrunnar hérna í borginni.
Síðan er fólkið bara svo elskulegt, gestrisið og
afslappað. Við vorum ekki í vafa um að þetta
væri rétti staðurinn fyrir okkur og fluttum
hingað í maí 2018.“
Miðinn gilti aðra leiðina
Hafi hann ekki verið handviss fyrir um dýrð Ís-
lands þá gerði eldgosið á Reykjanesi alltént út-
slagið en hann fór og skoðaði það á dögunum.
„Þvílíkt og annað eins náttúruundur og það bara
steinsnar frá höfuðborginni. Að koma þarna sló
mig enn frekar; Ísland er afar sérstakur staður
og við óskaplega lánsöm að búa hér.“
– Þannig að þið eruð sest hér að?
„Já, þetta er ekki tímabundið verkefni í okk-
ar huga. Miðinn gilti bara aðra leiðina. Ísland
er heimili okkar og verður áfram eins lengi og
hér verður gyðingasamfélag og við höfum eitt-
hvað fram að færa. Tvær yngri dætur okkar
eru fæddar á Íslandi og þær sem eru farnar að
tala hafa mun betra vald á íslenskunni en ég.
Konan mín líka en hún hafði ákveðið forskot,
þar sem móðurmál hennar er skylt íslensku.
Þess utan er hún mikil tungumálamanneskja
og talar mörg tungumál.“
Sjálfur talar hann hebresku og biblíulega
hebresku, auk jiddísku, sem algeng er meðal
gyðinga í Austur-Evrópu.
Meðan hann var að læra til rabbína var
Feldman svo lánsamur að ferðast víða, svo
sem til Suður-Ameríku, Evrópu og Ástralíu,
og segir það eiga þátt í að móta lífssýn sína.
„Því víðar sem ég kom sannfærðist ég betur
um að ég ætlaði að helga líf mitt gyð-
ingdómnum og þjónustu við hann.“
Ekki hitt fjölskylduna lengi
Feldman er borinn og barnfæddur í New
York, Brooklyn nánar tiltekið, fyrir þá sem eru
kunnugir staðháttum. Föðurafi hans var, sem
fyrr segir, pólskur og föðuramman rússnesk.
Hún er enn á lífi og býr í Ísrael. Móðurfólkið
hans er „mjög bandarískt“, eins og hann orðar
það, en kom upphaflega frá Rússlandi. „Það er
langt síðan en bæði amma og afi fæddust í
Bandaríkjunum.“
Faðir hans er rithöfundur sem fjallar mikið
um gyðingdóminn í sínum skrifum og vann um
tíma fyrir einn kunnasta rabbína og trúar-
leiðtoga gyðinga á tuttugustu öldinni, Menac-
hem M. Schneerson.
Foreldrar hans hafa í þrígang heimsótt
Feldman til Íslands, sem er vel af sér vikið í
ljósi þess að hann hefur aðeins búið hér í þrjú
ár og þar af hefur landið verið svo gott sem
lokað í meira en heilt ár vegna heimsfaraldurs-
ins. „Það segir sig sjálft að þau eru mjög hrifin
af Íslandi,“ segir Feldman brosandi.
Nú hefur hann þó ekki hitt þau í rúmt ár;
skrapp í tvo daga til New York í febrúar í fyrra
vegna fráfalls móðurömmu sinnar. „Örfáum
dögum síðar lögðust öll ferðalög af. Það hefur
verið ótrúlega gott að vera á Íslandi meðan á
þessum ósköpum hefur staðið enda höfum við
þrátt fyrir allt farið betur út úr faraldrinum en
flestar aðrar þjóðir. Fyrir það skulum við vera
þakklát. Nokkrir úr minni fjölskyldu hafa
fengið kórónuveirusjúkdóminn, þeirra á meðal
móðir mín, en sem betur fer hafa allir náð sér.
Ég þekki samt fólk sem hefur látist og fólk
sem hefur misst ástvini sína. En sem betur fer
erum við farin að greina ljósið við enda gang-
anna með almennari bólusetningu og vonandi
verður þess ekki langt að bíða að við getum
notið lífsins til fulls á ný. Og mér segir svo hug-
ur að hversdagslegustu hlutir, eins og við skil-
greindum þá áður, eigi eftir að gleðja okkur
sem aldrei fyrr.“
Mæltu manna heilastur, Feldman rabbíni.
Mæltu manna heilastur.
Avraham Feldman ásamt Samuel Willen-
berg sem lifði af uppreisnina í Treblinka í
seinna stríði. Til vinstri er félagi Feld-
mans sem var á ferðalagi með honum.’
Við tengjum við fólkið sem
hermt er af og grimmileg ör-
lög þess. Gisella Perl var mann-
eskja, eins og aðrir sem voru
þarna í haldi, og það hefur djúp-
stæð áhrif á mann að kynnast
persónulegri reynslu hennar af
vistinni og þessari martröð.