Morgunblaðið - 14.05.2021, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 14.05.2021, Blaðsíða 19
Veikindi hafa lengi hrjáð vin okkar og meiri en hann nefndi gjarnan. Í hvert skipti stóð hann glaður og hress upp úr veikindum og kvartaði aldrei og gerði sann- arlega ekki meira úr en efni stóðu til. Við vorum orðnir vanir að Gulli hristi hvern krankleika af sér og ætluðumst til að sama gilti um þann síðasta, sem því miður ekki varð. Nóbelsskáldið Gabriel García Marquez segir: „Í dag kannt þú að sjá í síðasta skipti þá sem þú elskar. Því skaltu ekki bíða lengur. Breyttu í dag eins og morgundagurinn renni aldrei upp. Þú munt örugg- lega harma daginn þann þegar þú gafst þér ekki tíma fyrir bros, faðmlag eða koss.“ Þegar vinir hverfa koma okkur þessi orð í huga og eftirsjá, en við treystum samt að Gulli hafi vitað hvað okkur hinum bjó í brjósti og víst er að í hvert skipti sem við hittumst var bros á hverju and- liti. Við munum sakna hans við að leysa vandamál heims og þjóðar yfir skákborðunum, en minning um góðan dreng og félaga lifir. Okkar samúð til dætranna og afkomenda. Brynjólfur Bjarnason, Halldór Vilhjámsson, Jón Helgi Guðmundsson, Snorri Pétursson, Stefán Friðfinnsson. Stundum hittir maður sam- ferðamenn sem marka spor í okk- ar eigin líf. Það gerist ekki oft, en það gerist stundum. Þegar ég hitti tengdapabba í fyrsta skipti minnti hann mig á franskan hefð- armann. Hann var glæsilegur á velli. Hávaxinn og svipfagur með falleg brún augu. Hann var róleg- ur í fasi, með þægilega og áreynslulausa nærveru, hann þurfti ekki að vera sítalandi til að láta vita af sér. Hann gat verið kröfuharður enda sjálfur með mikla framkvæmdaorku. Hlutina átti að gera strax. Eins og margir af hans kynslóð sem eru fæddir eftir seinna stríð hafði hann alist upp á umrótssömu tímabili í Ís- landssögunni. Hann hafði marga fjöruna sopið þótt hann hefði aldrei verið til sjós. Það var gam- an að sitja yfir kaffibolla og spjalla við hann um allt milli him- ins og jarðar. Hann var ótæm- andi brunnur af sögum og frá- sagnargáfu hafði hann af Guðs náð. Hann var árrisull, yfirleitt búinn að lesa Moggann og Dag- blaðið fyrir sólarupprás, ég er ekki viss um að hann hafi keypt Þjóðviljann. Gulli var ótrúlega greiðvikinn, ef maður bað hann um aðstoð var hann yfirleitt bú- inn að ganga í málið áður en ég kláraði setninguna. Hann var úr- ræðagóður. Þegar tengda- mamma kvaddi fyrir aldur fram þurfti hann að læra viss heima- tök. Ég er ekki viss um að hann hafi verið iðinn við eldamennsku svona áður fyrr. Hann reyndist ótrúlega lunkinn í eldhúsinu og lagaði bragðgóðan mat. Jólakalk- úninn var hans krúnudjásn og lambahryggurinn ekki síðri. Síð- ustu ár voru heimsóknir hans til okkar hjóna í Svíþjóð margar. Strákarnir okkar Ernu voru mjög hændir að afa sínum sem var einkar natinn og barngóður. Einu sinni vorum við stödd á Ís- landi, tilefnið var meðal annars fjölskyldusamkoma úti á landi. Fólk var að tínast í hús, ekki margir komnir. Gulli var mættur fyrstur manna, ég var að koma dótinu okkar fyrir og fann ekki eldri strákinn okkar. Lít ég þá út um gluggann og sé drenginn tveggja ára koma keyrandi á stórum jeppa, smáar hendur haldandi um stýri sitjandi í fang- inu á afa sínum. Ljómanum í aug- unum og breiðu brosinu gleymi ég seint. Við fjölskyldan nutum þess einnig að ferðast með Gulla, um Suður-Evrópu og suður í Ind- landshaf. Ferðirnar voru nokkrar og eftirminnilegar. Hann var ein- staklega þægilegur en umfram allt skemmtilegur ferðafélagi. Síðustu misseri þegar heilsan fór versandi var eins og hann vissi að senn færu öll vötn að renna til Dýrafjarðar. En hann bar harm sinn í hljóði og kvartaði aldrei. Gulla er sárt saknað. Megi hann hvíla í friði. Guðmundur Gunnarsson. Það var glaðvær og kátur hóp- ur sem útskrifaðist sem stúdent- ar frá Verslunarskóla Íslands vorið 1967. Langur upplestrar- tími og ströng próf voru að baki og framundan var ekki einungis langt útskriftarferðalag til Eng- lands, Frakklands, Spánar og Sviss, heldur einnig m.a. brúð- kaup þeirra Guðlaugs Björgvins- sonar og Þórunnar Hafstein, samstúdenta okkar. Gleðin og bjartsýnin var við völd. Framtíð- in var björt og framundan frek- ara nám hjá flestum okkar, nýjar áskoranir. Við Guðlaugur Björgvinsson kynntumst á fyrsta ári í Versl- unarskólanum og fylgdumst svo að í gegnum Verslunarskólann og seinna Háskóla Íslands. Við vorum báðir virkir í fé- lagsstarfi Versló, sátum í stjórn Málfundafélagsins og Nemenda- mótsins, með þeirri samveru og félagsskap sem mikil vinna hafði í för með sér. Á sumrin unnum við margvísleg störf og ég eyddi flestum sumrum úti á sjó. Oft voru túrarnir þannig að maður átti daga lausa áður en skólinn hófst og þá oftar en einu sinni fór- um við Gulli í söluferðir fyrir heildsölu föður hans umhverfis landið. Þessar ferðir urðu okkur báðum minnisstæðar fyrir margra hluta sakir. Oft fyrir mikla sölu og mikla þénustu og ævintýri sem við lentum í á leið- inni. Fararskjóti okkar var oftast 1955 árgerð af Plymouth (Plimm- inn) sem Gulli hafði útbúið með einum af fyrstu plötuspilurum sem settir voru í bíla á þeim tíma. Ég hef aldrei hlustað á „The House of the Rising Sun“ eða séð flösku af Appleton-rommi án þess að minnast ævintýra okkar félaga á þessum árum. Á kveðju- stund hugsum við um gleðina og hið skemmtilega sem við upplifð- um saman. Þegar við eignuðumst fjöl- skyldur fórum við í tjaldútilegur með vinum okkar, sem enn er minnst í minni fjölskyldu. Við Gunnhildur og Gulli og Þórunn áttum sameiginlegan vinahóp og skemmtum okkur saman. Sam- kvæmin á Skálholtsstíg 7 verða lengi í minnum höfð. Þegar skólanum lauk feng- umst við við ýmislegt eins og gengur. Gulli var um tíma fram- kvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda og fékk m.a. okk- ur Steingrím Gröndal, gamla skólafélaga, til að gefa út mál- gagn FÍB. Lífið hélt áfram og við héldum hvor í sína átt. Við störfuðum aft- ur náið saman þegar Gulli var forstjóri Mjólkursamsölunnar og ég vann fyrir VSÍ. Á þessum árum mynduðust vinabönd sem aldrei slitnuðu og þó að samveran og samskiptin hafi ekki verið eins mikil síðustu árin eins og við hefðum viljað, rofnuðu tengslin aldrei. Við þessi tímamót gerir maður sér grein fyrir hversu mikils virði þau voru. Um leið og ég þakka Guðlaugi Björgvinssyni samstarf, fé- lagsskap og vináttu í gegnum æv- ina viljum við Gunnhildur votta fjölskyldu Guðlaugs og Þórunnar okkar innilegustu samúð vegna fráfalls hans og biðjum góðan Guð um að styrkja þau í sinni sorg. Magnús Gunnarsson. Valur sér á bak góðum félaga þegar félagið kveður Guðlaug Björgvinsson sem allt frá barn- æsku var ekki aðeins gallharður stuðningsmaður heldur lagði fé- laginu til margt í gegnum tíðina. Gulli ólst upp í næsta nágrenni við Hlíðarenda og tók virkan þátt í starfinu, æfði og lék upp í annan aldursflokk og lék einkum sem markvörður. Síðar þjálfaði hann hjá félaginu við góðan orðstír og tók síðan sæti í aðalstjórn félags- ins og starfaði þar farsællega. Gulli eignaðist marga góða vini innan félagsins og naut alla tíð mikils trausts. Styrkur félagsins í gegnum tíðina hefur einmitt einkum legið í félagsmönnum á borð við Gulla; ekki endilega mik- il fyrirferð en traust framganga og viljinn til að sækja fram, hærra og hærra. Hjá Gulla var spurningin: Hvað get ég gert fyr- ir Val? Um leið og félagið þakkar mik- ið framlag sendir það innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina. Minningin um góðan dreng lifir. F.h. Knattspyrnufélagsins Vals, Halldór Einarsson. Takk fyrir að tala við mig um gamla tíma, nenna að rifja upp sögur af fólki og stöðum. Takk fyrir allar blaðaúrklipp- urnar sem þú sendir mér um sameiginlegt áhugamál okkar, Vesturbæinn. Takk fyrir að vera svona stolt- ur af Thelmu Rún og mömmu hennar. Takk fyrir að vera alltaf bón- góður og ráðagóður. Takk fyrir að vera yfirmáta stundvís. Takk fyrir að vera áhugasam- ur. Takk fyrir að vera vinur minn. Ég hefði viljað kynnast þér svo miklu fyrr og eiga fleiri samveru- stundir með þér. Þinn vinur, Hjörtur Grétarsson. Látinn er samstarfsfélagi og vinur. Við Guðlaugur höfum þekkst frá því að við vorum gutt- ar og spiluðum fótbolta á Hlíð- arenda. En síðar urðum við nánir samstarfsfélagar í áratugi. Á það samstarf bar aldrei skugga, og vil ég sérstaklega þakka fyrir það mikla traust sem hann sýndi mér alla tíð. Guðlaugur var vandaður mað- ur til orðs og æðis og hafði enga þörf til að láta á sér bera. Minn- ismerkið um hann er stórt. Hann stóð fyrir því af mikilli einurð, vel studdur af stjórn Mjólkursamsöl- unnar, að byggja einhverja stærstu og vönduðustu aðstöðu sem íslenskt matvælafyrirtæki hefur byggt. Og ekki nóg með það, þar innandyra var á þeim tíma einhver tæknivæddasta mjólkuráfyllingarstöð í Evrópu. Þetta var mikið afrek. Síðustu árin voru honum erfið eftir að heilsu hans fór hrakandi. En alltaf glitti í hans fína húmor, alveg fram á síðasta dag. Það fann ég vel í okkar langa samtali daginn áður en hann lést. Ég kveð þennan vin minn með mikilli virðingu og þökk. Dætrum hans og þeirra fjölskyldum sendi ég mínar innilegustu samúðar- kveðjur. Blessuð sé minning hans. Magnús Ólafsson. Minn nánasti og besti vinur Guðlaugur Björgvinsson er fall- inn frá. Okkar leiðir lágu fyrst saman þegar ég settist í þriðja bekk Verslunarskóla Íslands haustið 1963. Þar sem ég kom frá Siglu- firði þekkti ég ekki nokkurn nem- anda í skólanum, en fljótlega tók- ust með okkur Gulla góð kynni og traustur og náinn vinskapur sem entist ævina á enda. Vinátta okkar styrktist enn frekar þegar við eignuðumst lífs- förunauta okkar, bekkjarsyst- urnar og æskuvinkonurnar Bryn- dísi og Þórunni, sem varð til þess að fjölskyldur okkar tengdust enn frekar. Samverustundirnar urðu margar og skemmtilegar. Eftir stúdentspróf vorum við félagarnir samferða í gegnum viðskiptadeild HÍ. Á háskólaárunum vann Gulli ýmis störf. Að námi loknu hóf hann störf hjá Útflutningsmið- stöð iðnaðarins, en meirihluti starfsævi hans var hjá Mjólkur- samsölunni. Hann var í upphafi ráðinn fulltrúi forstjóra, síðar framkvæmdastjóri en árið 1979 tók hann við starfi forstjóra MS og gegndi því í áratugi, eða þar til hann fór á eftirlaun. Starfsferill Gulla var farsæll, hann var góður stjórnandi og sýndi frumkvæði og útsjónarsemi í starfi sínu. Í hans tíð voru höfuðstöðvar MS byggðar á Bitruhálsi og hann átti stóran þátt í að auka vöruval mjólkurafurða meðan hann gegndi forstjórastarfinu. Gulli var „strax-maður“; hann hafði enga þolinmæði í að láta ógert það sem hægt var að gera strax. Hann var einnig mikill hrakfallabálkur og gæti ég skrif- að margar skemmtilegar hrak- fallasögur af honum sem við rifj- uðum oft upp og hlógum að, en ég læt það ógert að sinni. Gulli var mikill keppnismaður og harður stuðningsmaður Vals og spilaði með þeim á yngri árum. Mér eru í fersku minni þau skipti þegar við fórum á völlinn ásamt Björgvini föður hans og bróður, hve þeim feðgum varð oft heitt í hamsi og sérstaklega ef Fram, mitt lið, var að vinna. Er það lík- lega eina ósætti okkar því eins og stundum gerðist í þá daga, að Fram var með yfirhöndina, þá var betra fyrir mig að sitja á öðr- um bekk. Blessunarlega vorum við báðir Man.United-menn og fórum ávallt vel yfir gang og úr- slit þeirra leikja, allt fram á síð- asta dag. Skákin hefur einnig verið fyr- irferðarmikil hjá okkur félögum og á reglulegum skákkvöldum gömlu skólafélaganna úr HÍ bar Gulli oftast sigur úr býtum. Menn fóru sáttir heim að afloknu skák- kvöldi ef þeir unnu Gulla en það gerðist ekki oft. Enda hafði Gulli alist upp við skák í föðurhúsum og þeir feðgar tefldu mikið á meðan Björgvin faðir hans lifði. Við kveðjum nú góðan dreng og náinn vin sem síðustu ár hefur tekist á við áföll og veikindi af æðruleysi með keppnisskapið, húmorinn og viljastyrkinn að vopni. Eftir standa dýrmætar og góðar minningar af margra ára- tuga vinskap, fjölskyldukvöldum, jólaboðum, veiði- og skemmti- ferðum, hrakföllum, skákkvöld- um og öðrum dásamlegum sam- verustundum. Við Bryndís og börnin okkar vottum dætrum, tengdasonum, barnabörnum, systur og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Hvíl í friði minn kæri vinur. Halldór Vilhjálmsson. Nú hefur Guðlaugur Björg- vinsson, pabbi æskuvinkvenna minna, kvatt þessa jarðvist. Fyr- ir 9 árum lést Þórunn Hafstein eiginkona hans og langar mig að minnast þeirra hjóna. Fyrir nær 45 árum fluttumst við fjölskyldan í Vesturberg 131 en Gulli, Þórunn og dætur bjuggu þá í Vesturbergi 121. Eignuðumst við þar góða vini sem fylgt hafa okkur alla ævi. Vorum við Ingunn systir fasta- gestir á heimilinu og var þar ým- islegt brallað. Minningar þar sem Gulli, Þórunn og dæturnar buðu okkur með í fallega bústaðinn þeirra í Grímsnesinu, jólaböllin, skíðaferðirnar í Bláfjöll og ísbílt- úrarnir í Emmessís á Laugavegi eru ógleymanlegar og einnig all- ar skemmtilegu veislurnar í Vest- urbergi þar sem við kynntumst fjölskyldu þeirra og vinum. Gulli og Þórunn voru með stórt hjarta og styrktu stóra sem smáa og voru ófáir happdrættismiðarnir á ísskápnum í eldhúsinu. Gulli og Þórunn voru einstaklega falleg og glæsileg hjón og geymi ég mynd af þeim hjónum úr brúð- kaupi okkar Sigga þar sem sem þau dönsuðu svo fallega og sam- stíga svo eftir var tekið. En nú er Gulli floginn inn í eilífðina og ég veit að Þórunn hefur tekið á móti honum með útbreiddan faðminn. Ég þakka Gulla og Þórunni fyrir minningarnar og góðvildina. Elsku Ásta, Hildigunnur, Þór- unn, Erna, fjölskylda Gulla og vinir megi góður guð styrkja ykk- ur í sorginni. Hvíl í friði. Linda Ásgeirsdóttir. Í dag er kvaddur hinstu kveðju Guðlaugur Björgvinsson, fyrr- verandi forstjóri Mjólkursamsöl- unnar. Guðlaugur hóf störf hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík 1. desember 1973 sem aðstoðar- maður forstjóra. Guðlaugur varð framkvæmdastjóri í byrjun árs 1975 og var ráðinn forstjóri Mjólkursamsölunnar frá 1. jan- úar 1979. Því starfi gegndi hann til árs- ins 2005 þegar Mjólkursamsalan og Mjólkurbú Flóamanna voru sameinuð. Frá þeim tíma starfaði Guðlaugur sem framkvæmda- stjóri og í framhaldinu annaðist hann ýmis verkefni sem tengdust framkvæmd sameiningar fyrir- tækjanna. Þeim viðfangsefnum sinnti hann allt þar til hann lét af störfum. Guðlaugur átti langan og glæsilegan starfsferil hjá Mjólkursamsölunni, þar af sem forstjóri í 26 ár. Frá því Guðlaug- ur kom til starfa hjá fyrirtækinu sem ungur maður og allt til þess tíma er hann lét af störfum leiddi hann fyrirtækið í gegnum mikið breytingaferli. Þar má nefna uppbyggingu nýrrar starfsstöðv- ar fyrirtækisins á Bitruhálsi. Hann lagði mikla áherslu á ímynd fyrirtækisins og nauðsyn þess að efla vöruþróunar- og markaðshugsun innan þess. Í því verkefni var Guðlaugur bæði hvatamaður og þátttakandi, en þessir þættir voru afgerandi í þeim árangri sem Mjólkursam- salan náði á þessu sviði. Auk forstjórastarfs Mjólkur- samsölunnar gegndi Guðlaugur ýmsum trúnaðarstörfum í mjólk- uriðnaði. Hann var varaformaður stjórnar Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði frá stofnun þar til hann lét af störfum sem forstjóri, jafnframt var hann um skeið fulltrúi mjólkuriðnaðarins í verð- lagsnefnd búvara. Í öllum þeim skipulagsbreyt- ingum í mjólkuriðnaðinum sem fram fóru á síðari hluta starfsfer- ils Guðlaugs kom einnig vel í ljós hversu heilsteyptur maður Guð- laugur var. Hann breytti ávallt á þann veg að heildarhagsmunir bænda og fyrirtækis þeirra, sem honum var treyst fyrir, væru í fyrirrúmi. Þó svo erfitt væri að taka ákvarðanir um breytingar og einnig erfitt að fylgja þeim eft- ir, þá lagði Guðlaugur alltaf gott til á þeirri vegferð og hugsaði um hagsmuni annarra. Það ber að þakka og er virðingarvert. Nú þegar komið er að kveðju- stund kallast fram margar minn- ingar okkar samferðafólks Guð- laugs frá langri ferð – minningar um þann drenglynda og háttvísa mann sem hann var. Við vottum fjölskyldu Guðlaugs samúð okk- ar. Fyrir hönd stjórnar og starfs- fólks Mjólkursamsölunnar, Pálmi Vilhjálmsson MINNINGAR 19 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 14. MAÍ 2021 Elsku vinkona, Ólafía Kristín, eða Lúlla eins og hún var alltaf kölluð, nú er komið að kveðju- stund eftir mikla baráttu við krabbamein í mörg ár, sem þú ætlaðir ekki að láta sigra þig, en svona fór það. Baráttuviljinn þinn og æðruleysið í þessari bar- áttu var mikið. Mikið er ég þakk- lát fyrir að geta kvatt þig á sjúkrahúsinu með faðmlagi og blómum, elsku Lúlla. Nú ertu komið til englanna þinna eins og þú talaði oft um litlu börnin ykkar sem þið misst- uð svo ung. Lífið hjá þér, elsku Lúlla, var ekki auðvelt, sorgin og veikindin bönkuðu oft á dyrnar hjá þér. Þú stóðst þig eins og hetja í öllum þeim verkefnum sem þér var úthlutað, sem okkur finnst ekki alltaf sanngjarnt. Lúlla var glaðvær, hlý, barn- góð, traust og duglega kona og gestrisin með eindæmum. Lúlla Ólafía Kristín Sigurðardóttir ✝ Ólafía Kristín Sigurðardóttir fæddist 11. mars 1957. Hún lést 16. apríl 2021. Útför Ólafíu Kristínar fór fram 29. apríl 2021. var mikill fagurkeri, heimilið þeirra fal- legt með blómum, ljósum og fallegum hlutum. Við Lúlla kynntumst hér á Sauðárkróki upp úr 1975 þegar Lúlli og Steini, eiginmenn okkar, unnu saman sem trésmiðir á Hlyn og þeir vinna hjá sama fyrirtæki í dag. Vinskapur myndaðist strax á milli okkar og hefur ekki borið skugga á. Margar góðar minn- ingar eru frá þeim tímum, vina- hópurinn hittist reglulega yfir kaffibolla eða með glens og gam- an um helgar. Þá var heimsins tími til að hittast hjá unga fólkinu og lífið framundan. Lúlla, ég hef ekki orð yfir það að geta ekki kíkt í kaffi til þín, elsku vinkona, við gátum spjallað um allt og við átt- um margt sameiginlegt, t.d. þennan vágest, krabbann. Elsku Lúlla, við kveðjum þig með miklum söknuði og trega, en með þakklæti í huga að eiga þig sem vinkonu. Hvíl í friði og takk fyrir allt. Lúlli, Friðgeir og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur. Hrefna og Þorsteinn. Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, SVAFA GÍSLADÓTTIR, Dvalarheimilinu Hlíð, Akureyri, lést á Hlíð mánudaginn 26. apríl. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Þökkum auðsýnda samúð og sérstakar þakkir fær starfsfólk Víðihlíðar fyrir frábæra umönnun. Anna H. Skarphéðinsdóttir Ingimundur Kjartansson Vigdís Skarphéðinsdóttir Vilhjálmur Baldvinsson Brynja Skarphéðinsdóttir Elín Skarphéðinsdóttir A. Páll Eiríksson ömmu- og langömmubörn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.