Morgunblaðið - Sunnudagur

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.05.2021, Qupperneq 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.05.2021, Qupperneq 15
ingar, kvíða, áhyggjur, atvinnumissi og þar fram eftir götunum. Við þær aðstæður getur verið gott að leita inn á við. Það er svo margt í þessu lífi sem getur sett okkur í spennitreyju og fólk leitar ýmissa leiða til að komast af og halda geðheilsunni.“ Aftur í túrbógírinn? – Heldurðu að þetta fólk komi til með að halda áfram að leita inn á við þegar faraldurinn er um garð genginn og betur árar? „Ekki allir en vonandi einhverjir. Annars hefur reynslan kennt okkur að fólk er fljótt að fara aftur í túrbógírinn, þegar það er hægt. Það gerðist eftir hrunið og gerist án efa aftur nú. Það gæti styst í það, gríman er fallin og túristar byrjaðir að streyma til landsins. Við erum fljót að gleyma og þeim mun mikilvæg- ara að gæta meðalhófsins og stíga varlega til jarðar. Maður hefur aðferðafræði búddismans alltaf á valdi sínu, hvort sem það árar vel eða illa.“ Annars segir Beggi mikilvægt að huga að samhenginu. „Enda þótt við höfum búið við allskyns bönn, lokanir og takmarkanir hér á landi, grímunotkun og annað slíkt, þá höfum við farið betur út úr þessum faraldri en flestar aðrar þjóðir, þó við höfum ekki komist til Tenerife í einhverja mánuði. Sem er vissulega skellur.“ Hann hlær. „En þegar við pælum í því þá vantar okkur í raun ekkert. Við höfum allt.“ Eigum bara daginn í dag Sjálfur hefur Beggi þurft á allri sinni ró og æðruleysi að halda undanfarna mánuði en hann hefur verið að glíma við erfið veikindi. „Algjörlega og alla leið,“ segir hann, „og þegar á móti blæs er mikilvægt að muna og sætta sig við að hlutirnir eru eins og þeir eru en ekki eins og maður vill að þeir séu. Sumir segja líka að veikindi slái á hrokann í manni. Í öllu falli minnir það mann á þá búddísku speki að við eigum bara daginn í dag. Þegar maður veikist þarf maður að gera sér grein fyrir því hvar maður er staddur og anda síðan inn og anda út.“ Hann tekur myndlíkingu, lífshjólið. „Stund- um er maður í miðjunni, á fullu að gefa af sér, en stundum á jaðrinum og þarf bara að þiggja. Lærdómur minn af þessum veikindum er sá að stundum er bara allt í lagi að þiggja.“ Um nokkurt skeið hafði Beggi ekki verið eins og hann á að sér en tók Íslendinginn bara á það, eins og hann kemst að orði. „Ég hristi þetta bara af mér!“ Hann kveðst fyrir löngu hafa átt að vera búinn að leita læknis. „Undir það síðasta var ég farinn að sofa sitjandi; leið alltaf eins og ég væri að drukkna ef ég lá út af. Ef það er ekki til marks um að eitthvað sé að þá veit ég ekki hvað.“ Skýringin reyndist vera að lungun voru full af vatni sem aftur tengdist gáttaflökti. Ekki nóg með það, hann greindist líka með krabba- mein í nýra. „Því átti ég alls ekki von á en svona getur líkaminn blekkt mann sem sýnir hversu mikilvægt það er að láta líta á sig ef maður kennir sér meins.“ Þakklátur fyrir það sem ég hef – Hvernig hefurðu það í dag? „Miklu betra. Það er búið að hífa upp trollið. Flöktið er farið og ekkert vatn í lungunum lengur. Þá er búið að fjarlægja hluta af nýr- anu. Læknarnir eru bjartsýnir en ég er alls ekki kominn fyrir vind. Krabbamein er þeirrar náttúru að það hefur einstakt lag á að læðast aftan að manni. En ég er þakklátur fyrir það sem ég hef og það sem ég hef fengið til baka. Ég væri ekki til stórræðanna í þunna loftinu í Himlajafjöllunum núna; rétt dríf hringinn í kringum Hvaleyrarvatn með hundinn. Það gefur mér samt rosalega mikið. Það er ekki langt síðan við hjónin misstum góða vinkonu okkar úr krabbameini, svo kemur þetta í bók- haldið hjá manni. Og þá er uppnám í bókhald- inu. En svona er bara staðan. Ég bað ekki um þessi veikindi, frekar en aðrir, en verð að tak- ast á við þau. Þá er gott að búa að búddism- anum.“ Beggi ber heilbrigðiskerfinu vel söguna. „Allur minn hroki út í það góða kerfi er fokinn út í veður og vind. Heilbrigðiskerfið tók utan um mig og ég tek allt sem ég hef sagt um það gegnum tíðina til baka,“ segir hann kíminn. Hann byrjaði nýverið aftur að vinna og segir það stórt skref í rétta átt. „Ég er svo heppinn að eiga góða að sem stóðu vaktina hérna í búð- inni meðan ég var í burtu og fyrir það er ég þakklátur. Ég er þakklátur fyrir fjölskyldu mína. Ég á fjögur börn, tengdasyni og barna- börn og vini sem hafa stutt mig og beðið fyrir bata mínum.“ – Ertu farinn að vinna allan daginn? „Tja, búðin er bara opin frá 12 til 18, þannig að sumir segja að ég vinni bara hálfan daginn hvort eð er.“ Hann glottir. Beggi Morthens. Nr. 1 2010 Við skiptum yfir í léttari sálma en forláta gítar á gólfinu fyrir aftan Begga vekur áhuga minn. „Þessi? Ég smíðaði hann sjálfur fyrir nokkrum árum,“ upplýsir Beggi og tekur gripinn í fang- ið eins og kornabarn. Og viti menn: Beggi Morthens. Nr. 1 2010, er grafið á bakhliðina. – Hefurðu smíðað fleiri? „Nei, þetta er sá eini. Ég hef lengi haft áhuga á hljóðfærasmíði og lét loksins verða af því að skella mér á námskeið hjá Gunna gítar- smið [Gunnar Örn Sigurðsson]. Eftir það smíðaði ég þennan en því miður hafa þeir ekki orðið fleiri – ekki enn þá.“ – Ertu enn að sýsla í tónlist? „Já, aðeins. Á til dæmis heila óútgefna plötu sem ég tók upp með Friðriki Júlíussyni Geir- dal trommara og Þorleifi Guðjónssyni, bassa- leikara úr Egó og KK-bandinu. Við köllum okkur Samsara. Það eru komin nokkur ár síð- an við tókum þessa plötu upp. Þetta er rokk og ról af gamla skólanum.“ Eitthvað er farið að fenna yfir það verk því þegar Þorleifur heyrði lag í hljóðverinu fyrir skemmstu varð honum að orði: „Djöfull er þetta gott. Hverjir eru þetta?“ Ekki stóð á svari frá hljóðmanninum: „Þetta eruð þið!“ Beggi hlær þegar hann rifjar þetta upp. „Annars þurfum við að drífa í að gefa þessa plötu út. Maður hugsar út í slíka hluti þegar fer að molna úr berginu hjá manni.“ Harðræði á heimavist Beggi ólst upp við tónlist en var þó beðinn um að hafa sig ekki um of í frammi – öðrum bróður hefði verið úthlutað þeim kaleik að verða tón- listarmaðurinn í fjölskyldunni. Þið vitið hverjum! Þeir tróðu snemma upp saman, bræðurnir. Beggi rifjar upp gigg í heimavistarskóla í Dan- mörku þegar hann var ellefu ára og Bubbi fjór- tán. „Við sungum á íslensku og gerðum bara býsna mikla lukku.“ – Hvað voruð þið að gera í heimavistarskóla í Danmörku? „Tja, við vorum bara sendir þangað. Það tíðkaðist á þessum árum. Mamma Bubba og fóstra mín var dönsk og þess vegna sigldum við þangað með Gullfossi með glæstum brag. Skipperinn var bálskotinn í fóstru þannig að við bræðurnir fengum að leika lausum hala í brúnni.“ Minningarnar úr heimavistarskólanum eru ekki eins fallegar. „Við lentum í miklu ofbeldi í skólanum; andlegu og líkamlegu. Vorum barðir og krúnurakaðir, ég sem var með sítt hár. Þetta var bara eins og í sögu eftir Dickens. Það hjálpaði heldur ekki til að ég tal- aði ekki stakt orð í dönsku, Bubbi stóð aðeins betur að vígi. Sem betur fer áttaði fóstra mín sig á því að ekki var allt með felldu og tók okkur úr skólanum áður en veturinn var lið- inn.“ Missti móður sína tveggja ára Móðir Begga, Ásbjörg Haraldsdóttir, lést árið 1961, þegar hann var aðeins tveggja ára, og fyrir vikið fór hann í fóstur á heimili föður- bróður síns, Kristins Morthens, og eiginkonu hans, Grethe Skotte Morthens. Tvö eldri al- systkini hans, Hinrik (Bóbó) og Vala, ólust upp annars staðar. Faðir hans, Húbert Morthens, eignaðist síðan tvö börn með seinni konu sinni. Föður sinn hitti Beggi aðallega á jólum og páskum. Fyrir á heimilinu voru fjórir drengir, Arthur, sem nú er látinn, Sveinn Allan, Tolli og Bubbi. „Fóstra mín glímdi við veikindi seinustu ár- in og ég varð fljótt sjálfala. Maður gerir sér ekki grein fyrir því meðan maður stendur í stafni og frussið gengur yfir mann en auðvitað var þetta slagur. Tíðarandinn var líka allur annar á sjöunda áratugnum. Ekki fylgst eins vel með börnum. Hvað þá í gettóinu í Gnoðar- voginum, þar sem við ólumst upp. Stórkostleg- ir karakterar og aldrei lognmolla. Það er efni í aðra bók!“ Síðan tók tónlistin við en Beggi er þekkt- astur fyrir að hafa verið í tveimur goðsagna- kenndum rokkböndum sem aðeins bjuggu að þremur bókstöfum, Egó og GCD. Sú fyrrnefnda starfaði í blábyrjun níunda áratugarins og naut mikillar lýðhylli. Beggi og fyrnefndur Þorleifur lögðu grunninn að henni í húsnæði gömlu Sagarinnar í Reykjavík en Bubbi bættist fljótlega við, eftir að hann hætti í Utangarðsmönnum. Upphaflega trommaði Jói nokkur Motörhead en síðar Maggi Stef. Þorleifur vék svo fyrir Rúnari Erlingssyni úr Utangarðsmönnum. Um það sem ég man – Hugsarðu með hlýju til þessara tíma? „Já, um það sem ég man,“ svarar Beggi hlæjandi. „Það var býsna lágskýjað hjá okkur á þessum árum. En auðvitað var þetta mikið ævintýri og frábært að hafa fengið að taka þátt í að upplifa þetta. Við túruðum um allt land og stjörnudýrkunin var mikil. Það var eiginleg al- veg absúrd. Verst hvað við sáum lítið af land- inu á þessum ferðum; drógum bara fyrir gluggana á rútunni og horfðum á vídeó. Sú tækni var nýkomin til sögunnar á þessum tíma.“ Honum er minnisstætt gigg með Sumar- gleðinni á Laugum í Reykjadal. „Þeir voru auðvitað eldri en við og úr allt annarri átt en ofboðslega vinsælir á þessum tíma. Stór- skemmtilegir og ljúfir karlar, með Ragga Bjarna í broddi fylkingar. Dásamlegur mað- ur, Raggi. Græddu líka á tá og fingri enda seldu þeir tvisvar inn; á skemmtun um dag- inn og ball um kvöldið. Þeir höfðu gaman af því að deila með okkur sögum og ekki síður frösum.“ Kertið brann hratt í annan endann hjá Egóinu og skyndilega var allt búið. „Við vor- um ekki á góðum stað á þessum tíma.“ Bubbi reri á önnur mið en Beggi gerðist „fúli karl- inn“ og hætti í tónlist. Spilaði ekki í mörg ár. Það var eiginlega ekki fyrr en 1991 að hann fékk símtal frá Bubba og Rúnari Júlíussyni, sem höfðu sett gleðirokksveitina GCD á lagg- irnar. Eðalmennið Rúni Júl. „GCD var aðallega sumarband, túraði þá stíft um landið, og við gerðum merkilega góða plötu. Þarna kynntist ég Rúna Júl. sem var algjört gull af manni. Ég hef unnið með mörgum og kynnst mörgum á lífsleiðinni en engum eins og Rúna. Ég heyrði hann aldrei tala illa um nokkurn mann. Rúni Júl. hafði alveg ofboðslega góða nærveru og ég er mjög þakklátur fyrir að hafa verið hluti af GCD. Tónlistin hefur verið stór partur af lífi mínu, þó ég hafi ekki alltaf verið í framlín- unni. Eða eins og sagt er: Music is medita- tion!“ segir Beggi sem fór raunar alla leið með það konsept og sendi frá sér plötuna Hugarró um árið. Þannig liggja þeir saman, þræðirnir í þessu ferðalagi sem við köllum líf. Við Árni Sæberg höfum það í huga meðan við kveðj- um Begga og Kailash. Höldum svo niðri í okkur andanum og hendum okkur aftur út á stétt – þar sem lífið þýtur hjá. Á hraða ljóss- ins. Beggi lifir samkvæmt að- ferðafræði búddismans og gefur sér góðan tíma til að hugleiða. 30.5. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.