Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.07.2021, Side 20
20 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.7. 2021
AKSTUR
Í verstu tilvikunum getur verið um eyðileggingu á lífi fólks að
ræða og fara þarf aðrar leiðir en að troða það niður í svaðið.
Fólk getur lagst í alvarlegt þunglyndi og jafnvel svipt sig
lífi vegna þessarar refsigleði þeirra sem stjórna. Það hlýtur að
vera hægt að leysa þennan vanda með mannúðlegri hætti. Þeir
sem taka ákvarðanirnar um að lengja refsinguna og hækka
sektirnar hafa ekki lent í þessu sjálfir og sjá ekki bjargleysið í
augum fólksins. Það er margt hvert niðurbrotið.“
Þetta segir Þórður Bogason ökukennari en hann er mjög
gagnrýninn á refsingar til handa fólki sem svipt hefur verið
ökuréttindum og vill skoða málið í víðara samhengi en að beita
bara fjársektum og sviptingu leyfis. Þórður hefur kennt á bíl og
vélhjól frá árinu 1998 og og kennt námskeið fyrir fólk sem svipt
hefur verið ökuréttindum og þarf að taka bílprófið upp á nýtt
frá árinu 2007. Hann kom einnig að undirbúningi og hönnun
námskeiðanna hjá Ökuskólanum í Mjódd.
Meirihlutinn karlar
Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem sækja námskeiðin er karl-
ar. Mest er þetta ungt fólk, um og yfir tvítugt, það er fólk sem
ekki var komið með fullnaðarskírteini þegar það missti prófið.
Fullnaðarskírteini fæst að einu ári liðnu hlekkist ökumanni
ekkert á, en að þremur árum liðnum hafi hann hlotið refsi-
punkta á fyrsta árinu undir stýri. Áramótin 2019/20 tóku ný lög
hins vegar gildi sem ná líka til fólks með fullnaðarskírteini. Eft-
ir það hefur meðalaldurinn á námskeiðunum hækkað aðeins.
Um er að ræða tvö námskeið á mánuði sem Þórður segir 15 til
25 manns að jafnaði sækja. Til að endurheimta bílprófið þarf
fólk að fara í ökukennslu að nýju og þreyta bóklegt og verklegt
próf. Hafi fólk verið með önnur réttindi en á bíl þá þarf að taka
þau próf líka, svo sem á vélhjól, vörubíl o.s.frv.
Að sögn Þórðar er bóklega prófið mjög erfitt, sérstaklega
fyrir þá sem tóku það upphaflega fyrir mörgum árum, og marg-
ir þurfa að þreyta prófið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
„Að mínu mati er of mikið um gildrur í þessu prófi og vísvitandi
reynt að bregða fæti fyrir fólk,“ segir Þórður.
Hann segir ökuleyfissviptingu koma misjafnlega við fólk.
„Fyrir þá sem eiga vel stæða foreldra skiptir þetta engu máli;
námskeiðið, sektin og prófið er bara borgað fyrir þá. Fyrir þá
sem hafa minna milli handanna getur þetta verið mikil refsing;
kostnaður getur hlaupið á hundruðum þúsunda króna í alvar-
legustu tilvikunum, jafnvel milljónum. Margir sitja uppi með
þessar skuldir árum saman,“ segir Þórður.
Misvísandi skilaboð
Leyfilegt vínandamagn í blóði á Íslandi er 0,2 prómill en ekki er
farið að refsa fólki fyrr en við 0,5 sem Þórði þykir misvísandi
skilaboð. Sumstaðar erlendis sé viðmiðið einfaldlega 0% í blóði.
Sé vínandamagn í blóði 0,5-0,6 prómill er sektin 90.000 kr. og
sviptingin tveir mánuðir sé um fyrsta brot að ræða. Sé vín-
andamagnið 2,51 prómill eða meira nemur sektin á hinn bóginn
270.000 kr. og sviptingin er þrjú ár og sex mánuðir.
Hafi ökumaður brotið af sér áður eykst refsingin. Sé vín-
andamagn í blóði 0,50–1,19 nemur sektin 240.000 kr. og svipt-
ingin er til þriggja ára. Sé vínandamagnið 3,01 prómill eða
meira nemur sektin 350.000 kr. og svipting er til fimm ára.
Þórður segir marga dauðsjá eftir gjörðum sínum enda ráði
ungæðisháttur oftar en ekki för; unga fólkið er ekki að hugsa
málið til enda eða vinirnir beita það ef til vill þrýstingi með þeim
afleiðingum að því verður á og missir bílprófið. Öllum geti orðið
á í messunni og mikilvægt sé að horfa til iðrunar og þess hvort
fólk sé líklegt til að læra af reynslunni.
„Flestir eru staðráðnir í að bæta ráð sitt en einn og einn er
bitur út í lögregluna og barmar sér yfir því að hafa verið staðinn
að verki. Þeir einstaklingar eru líklegri en hinir til að brjóta af
sér aftur,“ segir Þórður.
Þekkingarskorti á umferðarlögunum sé einnig til að dreifa;
þannig kom fullorðin kona á námskeið hjá Þórði nýlega sem
hafði ekki hugmynd um að hún þyrfti að bíða í tólf klukkustund-
ir eftir að hafa neytt áfengis til að geta ekið bíl. Auðvitað veltur
það á magninu sem fólk innbyrðir en viðmiðunarreglan er tólf
tímar.
Ekki er óalgengt að unga fólkið sem lendir í þessum að-
stæðum sé með ADHD-greiningu. „Sálfræðingarnir hjá okkur í
ökuskólanum hafa bent á þetta og auðvitað ætti skólakerfið
löngu að vera búið að grípa þessa krakka,“ segir Þórður.
Öðru máli gegnir um annað brot
Öðru máli gegnir, að mati Þórðar, um annað brot, hvað þá þriðja
eða fjórða. Þá blasi við að fólk sé ekki að læra af reynslunni og
refsingin ekki að duga. Fyrir vikið þurfi að grípa til annarra úr-
ræða. „Ef við erum að tala um ítrekaðan akstur undir áhrifum
vímuefna þá veltir maður fyrir sér hvort viðbrögðin þurfi ekki
að koma úr annarri átt. Líkurnar á því að viðkomandi ein-
staklingur eigi við vímuefnavanda að etja hljóta að teljast býsna
miklar og þarf þá ekki að freista þess að útvega þessu fólki fag-
lega hjálp? Sumt af því er illa statt í lífinu,“ segir Þórður.
– Hvað leggur þú til?
„Að útvega þessu fólki öfluga ráðgjöf og fá það til að líta í eig-
in barm. Samfélagið er orðið gegnsýrt af neyslu áfengis og mað-
ur heyrir að unglingar séu jafnvel útskúfaðir í skóla vilji þeir
ekki drekka með félögunum. Við búum að góðum áfengis-
ráðgjöfum sem geta miðlað af þekkingu sinni og reynslu og
grípa þarf inn í áður en allt er komið í klessu. Í mörgum til-
vikum má hugsa sér samfélagsþjónustu að fullu til handa þessu
fólki í stað sekta og sviptingar.“
Það er gömul saga og ný að refsingar skili ekki alltaf tilætl-
uðum árangri og bendir Þórður á dauðarefsingar í því sam-
bandi, rannsóknir sýni að glæpum fækki ekki í þeim sam-
félögum sem aðhyllast slík örþrifaráð.
Margir keyra próflausir
Þórður segir ekkert launungarmál að margir keyri próflausir á
Íslandi sem sé öðrum þræði afleiðing af umferðarmenningu
þjóðarinnar. Fólk hafi vanið sig á einkabílinn og almennings-
samgöngur séu ekki nógu skilvirkar. „Mörgum finnst það of
mikið vesen að vera ekki á einkabíl á Íslandi,“ segir hann.
Að sögn Þórðar er mun algengara í dag að fólk sé undir áhrif-
um ólöglegra fíkniefna en áfengis þegar það er gripið undir
stýri. Því sé haldið að unga fólkinu að það sé mun rólegra undir
áhrifum kannabis en áfengis og minni hætta á að valda skaða,
auk þess sem engin lykt finnist af því. „Þetta er auðvitað tóm
vitleysa; enginn ætti að keyra undir áhrifum kannabisefna,
frekar en annarra vímuefna. Annars er algengast að fólk sé
með kokkteil efna í blóðinu sem þýðir að það hefur verið lengi
að og fyrir vikið stórhættulegt í umferðinni.“
Sjá ekki bjargleysið
í augum fólksins
Þórður Bogason ökukennari vill sjá fjölbreyttari úrræði þegar
fólk missir ökuréttindin, sér í lagi gerist það í annað skipti.
Það getur verið heilmikið
vesen að missa ökuréttindin.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þórður Bogason ökukennari vill draga úr refsigleði til handa þeim
sem sviptir eru ökuréttindum enda þurfi margir þeirra á víðtækara inngripi
að halda, svo sem vegna vímuefnavanda.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is